top of page
Search

Chelsea - Newcastle

Keppni:  Premier League

Tími, dagsetning:     Mánudagur 11. mars kl: 20.00

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: John Brooks

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason




Stemmningin hjá stuðningsmönnum Chelsea hefur bersýnilega versnað. Í leiknum gegn Brentford var bæði lofsöngur sunginn um Roman Abramovich og níðsöngur sunginn um Todd Boehly. Pochettino fékk einnig að heyra það í lok leiks. Ekki nóg með að Boehly og Egbhali eigi ekki sjö dagana sæla í Lundúnum, þá eru stuðningsmenn Strasbourg að fara efna til mótmæla í Frakklandi yfir eignarhaldi BlueCo á klúbbnum þeirra. Stefnan við að losa út leikreynda menn fyrir U23 leikmenn virðist ganga illa. Strasbourg eru einu stigi fyrir ofan fallsvæði í Ligue 1 og framundan er sex stiga leikur gegn Nantes sem sitja í fallsæti. Hvet ykkur til að hafa auga með því, og Strasbourg twitternum. Fjölklúbbastefna Egbhali og Boehly fer því heldur brösulega af stað. Ef það verður ekki breyting á næstu vikum, þá má búast við því að andrúmsloftið í kringum bæði Chelsea og Strasbourg verði mjög eitrað þar sem stuðningsmenn beggja liða hafa fengið nóg.



Brentford hefði auðveldlega geta unnið leikinn um síðustu helgi, enda fékk liðið urmul af færum. Að sama skapi fengu Chelsea þokkaleg færi og ágætar stöður, en leikurinn endaði í jafntefli 2-2. Axel Disasi var hetjan og skúrkurinn. Skúrkur fyrir alveg hreint út sagt barnalegan varnarleik í fyrsta markinu, en hetja fyrir að ná að skalla boltann í netið til að jafna stöðuna og bjarga andlitinu hjá sér og liðinu. Frammistaðan heilt yfir allt í lagi, enda mikið meira með boltann og heilar 17 skottilraunir með 6 á markið. Hinsvegar er liðið ofboðslega veikt varnarlega og það er verulegt áhyggjuefni. Ekki bætti úr skák þegar tilkynnt var að Levi Colwill hlaut támeiðsli og Chilwell í hné. Colwill verður líklega frá út mánuðinn sem er reiðarslag fyrir klúbbinn. Chilwell á víst að fara til sérfræðings til þess að athuga með alvarleika meiðslanna hjá sér. Annars er meiðslalistinn nokkuð óbreyttur, nema það virðist ætla styttast í Lesley Ugochukwu. Cucurella er byrjaður að æfa á fullu og ætti að ná í hóp. Svo um miðjan mánuðinn má búast við því að Carney Chukwuemeka og Romeo Lavia snúi til baka. Þangað til verður það höfuðverkur fyrir Pochettino að stilla upp varnarlínunni. Meira um það síðar.


Framundan er heimaleikur við Newcastle United. Við höfum mætt þeim nokkrum sinnum á leiktíðinni, fyrst á St. James' þar sem við steinlágum 4-1, en mánuði seinna slógum við þá út í Carabao bikarnum, þar sem Mudryk nýtti sér varnarmistök hjá Trippier sem knúði á framlengingu og vítaspyrnukeppni. Newcastle sitja í 10. sætinu, einu ofar en Chelsea. Þeir eiga einnig við mikil meiðsli að etja. Callum Wilson, Joelinton, Kieran Trippier, Lewis Hall, Matt Tarett og Eddie Pope eru meiddir og auðvitað er Sandro Tonali í leikbanni. Hinsvegar geta Newcastle stillt upp ansi sterku liði - þrátt fyrri meiðslin. Dubravka verður í markinu. Livramento og Dan Burn verða bakverðir. Botman og Schär verða miðverðirnir. Bruno Guimares, Joe Willock og Sean Longstaff á miðjunni. Anthony Gordon og Miggy Almiron á vængjum og Alexander Isak mun leiða línuna. Alls ekki slæmt lið fyrir Eddie Howe til að tefla fram, en reynir kannski á dýptina þegar líður á leikinn. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Pochettino ætli að svara þessu í sinni uppstillingu. Með öll þessi meiðsli er líklegra að hann fari aftur í 4-2-3-1 uppstillinguna og hætti með þriggja manna línuna. Þá er býsna áleitin spurning hvernig hann ætlar að takast á við það að halda aftur af hraða Anthony Gordon í hægri bakvarðarstöðu. Í raun hefur Pochettino fjóra valkosti. Malo Gusto, sem hefur reyndar staðið sig með prýði í fjarveru Reece James, en líkur á að hann verði vinstra megin í fjarveru Chilwell og þeirrar staðreyndar að Marc Cucurella er ekki orðinn leikfær í 90 min. Marc Cucurella gæti þó leyst þessa stöðu líka, en það telst ansi ólíklegt að hann starti hægra megin. Hinir valkostirnir eru Axel Disasi, sem er nokkuð hægur, en sterkur, og svo Trevoh Chalobah sem hefur ekki átt sína sjö daga sæla, hvorki hjá Chelsea né í þessari bakvarðastöðu að undanförnu.


Uppstillingin.


Ég tel það nokkuð ljóst að Petrovic fái áfram að vera í markinu, þrátt fyrir að hafa fengið tvö mörk á sig í síðasta leik. Ég ætla að gerast svo djarfur og spá fyrir því að Marc Cucurella byrji í vinstri bakvarðastöðunni, og Malo Gusto verði áfram í þeirri hægri. Líklega verður einhver hrókering þegar líður á leikinn vegna leikforms Cucurella. Thiago Silva kemur svo inn í vörnina með Axel Disasi. Því færri mínútur sem ég sé Vott Chalobah spila því rólegri verð ég, en þrátt fyrir það - þá þarf Disasi að gjöra svo vel að sýna okkur stuðningmönnum, að hann geti verið frábær leikmaður, eins og gegn Man City, nema leik eftir leik. Það þýðir ekki að vera koma með eina glæsilega frammistöðu og svo þrjár ömurlegar. Miðjan verður líklega Enzo, Caicedo og Gallagher - þar sem Pochettino er býsna íhaldssamur með þessar stöður. Það væri þó gaman að sjá Mudryk fá annað free role / trequartista tækifæri í holunni. Raheem Sterling verður á vinstri og Cole Palmer hægri. Jackson upp á topp - nema hvað.





Hvernig fer svo leikurinn? Við þurfum alvöru frammistöðu. Þessi leikur skiptir máli fyrir Pochettino. Ef hann tapar þessu illa, þá fýkur ansi mikið í aðdáendur liðsins. Við skulum vera bjartsýn og taka þennan leik 2-1. Gordon læðir á okkur marki, en Chelsea kemur til baka með tveimur mörkum frá Jackson.


Áfram Chelsea! KTBFFH!!



コメント


bottom of page