Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 4. apríl kl: 19:15
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Jarred Gillet
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason
Örlítið seinna en venjulega með pistilinn að þessu sinni, en betra seint en aldrei segja menn! Ekki varð Chelsea kápan úr klæðinu í síðasta leik gegn Burnley þegar Chelsea rétt náðu jafntefli gegn Burnley, einu lélegasta liði deildarinnar, einum fleiri meirihlutann af leiknum. Í fyrsta lagi áttu Chelsea aldrei að fá vítaspyrnuna og hvað þá Burnley að missa manninn af velli. Ég er ekki hissa á viðbrögðum Vincent Kompany enda var þessi dómur alveg glórulaus frá A til Ö. Cole Palmer þótti nú ekki mikið tiltökumál að skora úr vítinu og það með Panenka spyrnu, aldeilis sjálfstraustið þar. Segið mér afhverju Raheem Sterling tók víti um daginn? Axel Disasi hafði skorað mark en það var dæmt af í VARsjánni vegna brots. Burnley jöfnuðu leikinn skömmu seinna með laglegu marki en Cole Palmer skoraði svo seint í seinni hálfleik. Burnley jöfnuðu svo aftur í 2-2 litlu seinna þar sem Petrovic, hefði klárlega átt að gera betur. Þetta voru barnaleg mistök hjá honum við að ná ekki að blaka boltanum betur frá. Chelsea voru töluvert aðgangsharðari í leiknum með xG uppá 4,2 - 33 skot þar sem 13 fóru á rammann en allt kom fyrir ekki. Ég bjóst við ...nei... ég krafðist þess að Chelsea myndi vinna 4-0 í síðasta pistli en þetta er niðurstaðan. Resúltat sem setur meiri þrýsting á Pochettino og hans menn. Ömurlegt.
Það er kannski huggun í harmi að mæta Manchester United á þessum tímapunkti. Liðið gerði hálf hallærislegt jafntefli gegn Brentford í síðustu umferð en höfðu þar áður unnið Liverpool og Everton. Það er nefnilega málið með United liðið, þeir spila alltaf vel í stóru leikjunum. Chelsea vann Manchester United í FA Bikarnum árið 2020. Það virðist ekki langt síðan en það eru að koma góð fjögur ár. Síðasti deildarsigur var 2018. Þetta fer að detta í banter era hvað gengið gegn Man Utd er lélegt. Alveg sama hversu mikil ringulreið ríkir á Old Trafford ná þeir alltaf úrslitum gegn Chelsea. Getum við aðdáendur þorað að vera bjartsýnir? Ég held ekki. Fyrir þennan leik eru 9 leikmenn skráðir á sjúkralistanum. Eina breytingin er að Chilwell er sagður vera veikur, en usual suspects verma listann. Christopher Nkunku er sagður vera klár í lok apríl. Það má alveg eins búast við því að hann verði "out for season" þar sem Chelsea leikur þrjá síðustu leikina í maí - kannski fjóra ef FA bikarúrslitaleikur verður á dagskrá. Í Manchester United liðið vantar einungis Bayindir, Martial, Lisandro Martinez, Luke Shaw, Tyrell Malacia og Viktor Lindelöf. Það má búast við því að United stilli upp sterku liði og það er nánast öruggt að Mason Mount stígi fæti inn á Stamford Bridge í fyrsta skipti síðan hann yfirgaf klúbbinn.
Líklegt byrjunarlið Chelsea verður sennilega Petrovic, Gusto, Disasi, Thiago Silva (HANN HLÝTUR AÐ BYRJA NÚNA!!), Cucurella, Caicedo, Enzo, Palmer, Mudryk, Gallagher og Jackson.
Hvernig fer leikurinn? Ef ég er bjartsýnn, þá segi ég 0-0 jafntefli. En mig grunar að þetta verði eitthvað hræðilegt. Ef Poch fær útreið í dag, þá er ég hræddur um að aðdáendur fái nóg á Brúnni.
Comments