top of page
Search

Chelsea - Luton

Keppni: Premier league

Tími, dagsetning: Föstudagur 25. ágúst kl: 19.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Dómari: Robert Jones

Hvar sýndur: Síminn sport og aðrir vel valdir staðir

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson
Þá er komið að þriðja leik tímabilsins og nú eru það nýliðarnir frá Bedfordskíri. Hið fornfræga Luton Town sem heimsækir okkur á Brúna þennan föstudaginn. Það er ekki hægt að segja að síðasti leikur hafi verið nein skemmtun, en eftir ágætan fyrri hálfleik gegn West Ham, virtist sem liðið félli aftur í sama far og þeir voru allt síðasta tímabil. Vorum lengst af með boltann en reyndum lítið að gera það sem skiptir svo miklu máli í þessu sporti, sem er að skora mörk. Seinni hálfleikurinn var alger endurtekning á leikjunum í fyrra. Þeir spiluðu boltanum lafandi á milli sín aftarlega og tók Sanchez talsverðan þátt í uppspilinu eins og markverðir okkar hafa gert mikið af. Þetta leikkerfi sem Poch var að prufa þarna gekk ekki upp og þrátt fyir að Jackson hafi átt góða spretti og Sterling hafi sýnt fínan leik, þá gekk illa að finna glufurnar. Carney okkar kveikti þó ljós og skoraði fínt mark sem þó dugði hreint ekki til. West Ham gerðu einfaldlega það sem gera þurfti og nýttu þau fáu færi sem þeir fengu og sigruðu að lokum 3-1.


Talsverður spenningur var fyrir þennan leik og var Moises Caicedo á bekknum. Hann kom inná eftir að markaskorarinn okkar með þunga nafnið meiddist um miðjan leik. Carney verður frá einhverjar vikur væntanlega, en það er ekki hægt að segja að innkoma Caicedo hafi verið prýdd neinum ljóma. Hann komst einhvernveginn aldrei í takt við leikinn og braut klaufalega af sér innan teigs, og færði Hömrunum vítaspyrnu sem endanlega kláraði okkar menn. Ég held að Poch komi til með að gera einhverjar verulegar breytingar á leikkerfi fyrir leikinn gegn Luton. Hlutirnir voru ekki að gera sig gegn Hömrunum, en hvað hann gerir verður spennandi að sjá. Auðvitað voru einhverjir ljósir punktar og hef ég nefnt, að Sterling var mjög líflegur og ógnaði vel. En það er eins og líkamlegur styrkur hans sé ekki nægur til að standa almennilega í þessum kögglum sem skipa varnarlínur andstæðingana. Einnig vil ég nefna Nicholas Jackson sem átti nokkra góða spretti og kemur bara til með að verða betri. Aðrir áttu ekkert sérstaklega góðan dag og í fyrsta markinu sem við fengum á okkur var Gallagher gjörsamlega úti á þekju. Hann átti að dekka miklu betur, enda sá maður að hann vissi klárlega upp á sig sökina.


Ég átta mig ekki alveg á þessari ákvörðun um að fá þennann markvörð þ.e. Robert Sanchez. Reyndar skil ég enn minna í öllum þessum markvarðargjörningi í kringum þetta Kepa-lán, en manni er ekki ætlað að skilja allt. Það er víst búið að panta læknisskoðun fyrir markvörðinn Djordje Petrovic sem kemur frá New England Revolution í MLS deildinni. Hann þykir nokkuð góður og það verður að binda einhverjar vonir við hann. En leikurinn gegn nýliðum Luton verður að teljast skyldusigur og mikið lifandis skelfing væri það nú gaman að sjá hlutina gerast svona einu sinni á hlýju ágústkvöldi.Chelsea


Það virðist ekki mikið vera að falla með okkur þessa dagana þar sem enn bætist á meiðslalistann. Chukwuemeka meiddist í leiknum gegn West Ham og Mudryk meiddist á æfingu. Hann verður ekki með gegn Luton, svo þetta virðist ætla að verða sagan endalausa. En vonandi ættu þá yngri og óreyndari leikmenn að stíga upp og láta ljós sitt skína. Enn eru nokkrir dagar eftir af leikmannamarkaði og eins og hefur komið fram, er markvörður á leiðinni. Einnig er búið að ganga frá samningi við eitt brasilískt ungstirni, miðjumanninn Deivid Washington. Sá kemur frá Santos og er búinn að krota undir sjö ára samning. Hann verður svo lánaður til Strasbourg. Lítið virðist ganga að losna við Lukaku þar sem sem áhugi á honum hefur af einhverjum ástæðum snarminnkað. Sebastien Ledure, umboðsmaðurinn hans, gengur á milli liða eins og Herbert Guðmundsson með plöturnar sínar, og reynir hvað hann getur að koma drengnum út. Meðal annars til Roma, þar sem þeir eru í leit að framherja vegna meiðsla Tammy Abraham. Þeir hafa sýnt einhvern áhuga á að fá hann, en ekkert er fast með það og ólíklegt að þeir eigi fyrir kaupum, en lán er ekki útilokað. Þetta endar vafalaust með því að hann fer á einhverja brunaútsölu á lokadegi. En meiðslalistinn fyrir leikinn gegn Luton lítur þá þannig út að Broja, Chaloba, Chukwuemeka, Fofana, Reece James, Mudryk og Nkunku verða að minnsta kosti fjarri góðu gamni en maður kemur í manns stað. Við verðum að vona að fall sé fararheill, frekar en að allt er þegar þrennt er.


Luton


Luton Town er fornfrægur klúbbur og þeir hafa gengið í gegnum hæðir og lægðir í gegn um árin. Þeir áunnu sér rétt til að leika á meðal þeirra bestu eftir gott tímabil í Championship deildinni á síðasta tímabili. Þeir sigruðu Coventry í lokaumspili og var leikurinn mjög dramatískur, þar sem þeirra besti maður Tom Lockyer var fluttur á sjúkrahús eftir 11 mínútna leik með hjartsláttartruflanir. Hann fylgdist með sínum mönnum komast í deild þeirra bestu á sjúkrabeðinu. Hann er nú kominn aftur tvíefldur til leiks. Svo má geta þess að Ross Barkley sem lék með Chelsea um hríð, er nýgenginn til liðs við Luton og verður fróðlegt að sjá hvort hann finni sig þar. Luton er eins og er, hálf óskrifað blað. Þeir hafa spilað einn leik í úrvalsdeildinni þetta tímabilið gegn Brighton, þar sem þeir fengu fremur háðuglega útreið og töpuðu 4-1. Maður ætti kannski að vera orðvar og gera ekki lítið úr því þar sem okkar úrslit hafa ekki verið tilefni til hátíðarhalda. En hvað sem öðru líður, þá ætti þetta samkvæmt öllu að vera skyldusigur og ekki orð um það meir.


Liðsuppstilling og spá
Þá er komið að því erfiðasta en samt skemmtilegasta. Það er þegar maður heldur að maður viti betur en stjórinn og telur sig vera með lausnirnar. Það hefur stundum klikkað, en alltaf gaman að velta þessu fyrir sér og auðvitað mest til gamans gert. Nú myndi ég vilja sjá Pochettino prufa 4-2-3-1 og taka svo stöðuna í hálfleik. Ég geri ráð fyrir að Sanchez komi til með að vera í rammanum og fyrir framan hann væri upplagt að sjá þá Malo Gusto, Levi Colwill, Thiago Silva og Ben Chilwell. Tvisturinn á miðjunni yrði þá auðvitað Enzo og Caicedo sem mun klárlega fá sénsinn þrátt fyrir óskemmtilega byrjun. Tríóið þar fyrir framan verður væntanlega Gallagher, Sterling og Madueke - og fremstur lúrir Jackson. Ég ætla að gefa Gallagher annan séns þar sem hann hefur oft klúðrað hlutum en komið sterkur inn á eftir þannig að hann fær annan séns á að sanna sig. Það er ekkert víst að þetta klikki en svo getur jú alltaf verið að Poch hafi allt aðrar hugmyndir um hlutina en ég. Ég er ekkert viss um að þetta verði neitt auðvelt og “litlu” liðin hafa oft strítt okkur verulega, en þó ætla ég enn og aftur að vera bjartsýnn og spá okkur sigri. Hann verður held ég ekkert mjög stór. Eigum við bara ekki að segja 2-1 og Jackson setur eitt og Sterling eitt. Svo skora ég á ykkur Chelseafólk að mæta þangað sem leikirnir eru sýndir og taka þátt í þessu af lífi og sál.


Áfram Chelsea!!


Comentarios


bottom of page