top of page
Search

Chelsea-Lille (Eden Hazard derby)

Keppni: Champions league

Dag- og tímasetning: Þriðjudagur 22 Febrúar kl 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur?: Stöð 2 sport 2

Upphitun eftir Guðmund Jóhannsson



Heimsmeistararnir okkar eru mættir aftur til starfa og núna er það sterkasta deild heims! Meistaradeild Evrópu.


Frakklands meistararnir í Lille koma í heimsókn í fyrri leik 16 liða úrslita. Það má segja að okkar menn voru ansi heppnir þegar við drógumst ekki einu sinni, heldur TVISVAR á móti Lille þegar dregið var í 16 liða úrslit. Gátum mætt Bayern og Real en heppnin var með okkur í liði þann daginn.


Leikur liðsins um helgina var ekki fyrir augað, en eftir langt ferðalag með lélega loftræstingu, tímamismun og lítinn svefn, unnum við 0-1 sigur á Crystal Palace á Selhurst Park. Þetta er leikur sem þurfti einfaldlega að vinnast og ekkert meira en það.


Það er einungis EINN sóknarmaður með lífsmark í liði okkar manna þessar mundir og það er ´´The Wizard of London´´, Hakim Ziyech. Maðurinn býr allt til þessa dagana og skoraði sigurmarkið á 89 mínútu. Aldrei hætta.


Núna er komið að því að menn fari að stíga upp í framlínunni og vill undirritaður ekki sjá tölu eins og 7, þegar verið er að tala um snertingar alls á bolta á 90 mínútum, en Romelu Lukaku tókst það um helgina.

Leikur liðsins hefur dalað þvílíkt eftir að Ben Chilwell og Reece James meiddust en sá síðarnefndi er væntanlegur í næstu viku samkvæmt öruggum heimildum. Einnig eru þeir Mason Mount, Azpilicueta og Hudson Odoi líklegir að koma aftur inn í hópinn.


En nóg um það. Lille er næsta bráð og höfum við sýnt það að við erum frábærir þegar kemur að útsláttarkeppnum undir stjórn super Tommy Tuchel, en hann hefur komið okkur í úrslitaleik í öllum keppnum sem við höfum tekið þátt í síðan hann tók við liðinu. Fyrirfram á pappír eigum við alltaf að fara í gegnum þetta einvígi en Meistaradeildin er engri lík og má ekki vanmeta neinn andstæðing í þessari keppni.


Lille er sem stendur í 11 sæti í bónda deildinni í Frakklandi og liðið með einungis 2 sigra í síðustu 7.


Byrjunarliðið

Núna hlýtur þetta að detta hjá mér. Alltaf vel nálægt þessu en vantar alltaf 1-2 uppá. Spurningin er bara hvort við förum í 4-1-4-1 eða 3-4-3.

Ég ætla að tippa á 3-4-3 og segja að Hakim Ziyech verði í hægri væng bakverði og Pulisic, Werner og Havertz verði frammi. Finnst eitthvað líklegt við það að Tuchel muni henda Lukaku á bekkinn miðað við líkamstjáninguna í viðtölum eftir leik á Selhurst Park.


Persónulega finnst mér við spila betur án Lukaku sem lið, en skil vel að menn vilji trekkja 95 milljón punda skrímsli í gang. Þurfum bara að fara að sjá eitthvað meira frá manninum.


Vörnin verður eins og að sjálfsögðu verður heims-, afríku- og evrópumeistarinn í markinu.



Lille

Eins og ég kom fram á fyrr í pistlinum þá eru Lille í miðjumoði í Frakklandi og stemningin ekki góð þar á bæ. Þetta lið spilar jafnframt 4-4-2 en ekki láta ykkur bregða ef þeir verða átta í vörn á Brúnni í kvöld. Útivallarmarka reglan er ekki lengur og höfum við séð lið eins og Real Mardrid gjörsamlega pakka í vörn og reyna að halda í núllið, Lille er með menn eins og Jose Fonte í vörninni sem er goðsögn hjá Southampton. Botman sem var orðaður mikið við Newcastle í Janúar og Yilmaz sem gerði garðinn frægan með Galatasary.


Lille gerðu sér lítið fyrir og unnu frönsku Ligue 1 á síðasta tímabili, sem verður að teljast eitt heljarinnar afrek þar sem PSG er LANG sterkasta liðið í þessari deild. Aðeins tveimur dögum eftir að þetta mikla afrek sagði þjálfarinn þeirra, Christophe Galtier, mjög óvænt starfi sínu lausu. Hann tók síðar við liði Nice. Við liðinu tók Jocelyn Gourvennec sem hefur engan veginn náð að fylgja eftir frábærum árangri Galtier.


Eins og oft vill verða þegar "minni" lið ná góðum árangri þá missa þau frá sér sterka leikmenn og Lille var í þessu tilfelli engin undantekning. Boubakary Soumaré, Mike Maignan, Jonathan Ikone og Luiz Araújo voru allir seldir á þokkalegar upphæðir og þeir leikmenn sem hafa komið í staðinn hafa ekki staðið undir væntingum. Það segir sitt að Lille seldi leikmenn fyrir 75 milljónir evra en keyptu aðeins fyrir 20 milljónir evra eftir að hafa orðið meistarar. Þeir eru blankir eins og mörg önnur lið í hinni frönsku Ligue 1.


Annars munu Lille stilla liði sínu þannig upp að

Mark: Leo

Vörn: Gudmundsson, Botman, Fonte, Celik

Miðja: Bamba, Xeka, Andre, Weah

Framlína: David og Yilmaz


Spá

Síðast þegar ég kom með spá í Meistaradeildinni, spáði ég 4-0 sigri gegn Juventus og jújú, leikar enduðu þannig...


Leikurinn í kvöld verður einstefna og munu Lille reyna að beita skyndisóknum eins og þeir geta.


Þetta fer 3-0 fyrir okkar menn og Thiago Silva, Havertz og Ziyech skora mörk okkar manna.


ÁFRAM GAKK og verjum þessa dollu!

KTBFFH

Guðmundur Jóhannsson


bottom of page