top of page
Search

Chelsea - Leicester

Keppni:  FA bikarinn

Tími, dagsetning:     Sunnudagur 17. mars kl: 12:45

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Andy Madley

Hvar sýndur:  Stöð2 Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason




Það hefur verið rólegt að frétta af málefnum Chelsea undanfarna daga. Sigurinn gegn Newcastle í deildinni á mánudaginn var nánast tryggði rólega fréttaviku. Leikurinn var fjörugur en langt frá því að vera öruggur. Eins og flestir áhugamenn vita, endaði leikurinn 3-2 þar sem við fengum að sjá nokkur ansi glæsileg mörk, sérstaklega hjá Newcastle og svo eitt prýðismark frá Mikhaylo Mudryk. Sá úkraínski kom af bekknum fyrir Raheem Sterling og skoraði stuttu seinna með því að prjóna sig í gegnum Newcastle vörnina og leika á Dubravka markvörð. Þetta mark minnti mann óneitanlega mikið á Ricky Kaká þegar hann var upp á sitt besta með AC Milan í kringum 2007. Ef til vill má hugsa sér, að Mudryk sé hreinlega ekki vængmaður eins og hann hefur verið notaður af mestu undir Potter, Lampard og Poch - heldur meiri "trequartista" leikmaður, líkt og Kaká var? Að minnsta kosti hefur Mudryk fengið tvo leiki í þessu hlutverki og skilað mörkum í báðum. Í leiknum gegn Newcastle var Conor Gallagher hliðrað út á vinstri kantinn þegar Mudryk mætti. Það væri gaman að sjá meira af þessu - þar sem þetta lofar góðu upp á framhaldið. Nicholas Jackson skoraði einnig glæsilegt hælspyrnumark. Merkið það hjá ykkur, að núna hefur hann skorað meira en Kai Havertz náði nokkurn tímann á einu tímabili með Chelsea, og Jackson er einu marki frá því að jafna markatölu Didier Drogba þegar hann var nýkominn til liðsins frá Marseille. Tilefni til þess að vera bjartsýnn. Það sem var heldur leiðinlegt að sjá í Newcastle leiknum var frammistaða varnarmannanna. Pochettino kom manni sannarlega á óvart að stilla upp Cucurella, Chalobah, Disasi og Gusto saman í vörn. Þeir hafa aldrei spilað saman sem lína og þessi eilífa rótering á varnarlínunni stendur liðinu fyrir þrifum. Thiago Silva var á varamannabekknum allan tímann. Mögulega var sá argentínski að stilla upp gegn skyndisóknamöguleikum Newcastle, en bæði Alexander Isak og Anthony Gordon eru öskufljótir. Það sást samt greinilega að það vantaði einhverskonar rútíneringu og röð mistaka varð til þess að Newcastle skoruðu í tvígang. Chalobah og Cucurella gerðu mistök í aðdraganda markanna með því að vaða útúr stöðum og tapa einvígum. Fyrir utan þessa hnökra í vörninni var þetta prýðilegur leikur. Tölfræðin í markskotum var t.d. átta skot sem hittu á rammann af 12. Það gerist ekki oft að hlutföllinn séu með þessum hætti, en þetta litla smáatriði er eitthvað sem maður vill sjá oftar.


Framundan er leikur við Leicester City undir stjórn hins ítalska Enzo Maresca. Liðið situr á toppnum í ensku Championship deildinni. Maresca hóf þjálfaraferilinn hjá unglingaliðum Manchester City og ber leikstíllinn þess merki að vera undir áhrifum frá Pep Guardiola. Raunar er hann áhættusæknari á borð við leikstíl Roberto De Zerbi. Maresca var ráðinn þjálfari Parma árið 2021 en gekk ekki sem skyldi og var rekinn í nóvember. Hann réði sig aftur til Man City 2022 og var þá í þjálfarateymi Pep, þar til að Leicester hringdu og buðu honum starfið. Það er óhætt að segja að honum hafi gengið glimrandi vel með refunum. Þeir hafa skorað 74 mörk en fengið á sig 33. Af þessum 74 mörkum hafa 50 komið úr opnum leik, 10 úr föstum leikatriðum, eitt úr aukaspyrnu og 12 af vítapunktinum, svo eitt sjálfsmark. Þetta gefur ágæta hugmynd um hvernig Leicester leika. Það má því búast við opnum og hröðum leik. Við könnumst flest við leikmenn Leicester, en sá sem hefur skorað mest fyrir liðið er auðvitað Jamie Vardy með 13 mörk. Kiernan Dewsbury-Hall hefur staðið sig hvað best með 10 mörk og 12 stoðsendingar. Annar leikmaður, Abdul Issahaku hefur einnig verið iðinn við stoðsendingarnar með 10 þannig undir beltinu.


Chelsea liðið er í smá klandri þar sem Enzo Fernandez tekur út leikbann eftir að hafa fengið tvö gul spjöld í þessari keppni. Vanalega myndi Cesare Casadei koma inn í liðið, en þar sem hann lék einmitt með Leicester á láni í FA bikarnum, þá er hann ekki löglegur. Þess heldur er sjúkrabekkurinn í Cobham þéttsetinn. Það er alltaf sagt að stutt í sé endurkomu Lesley Ugochukwu og Romeo Lavia, en það verður að teljast ólíklegt að þeir mæti í þennan leik. Ef einhver hefði sagt mér að Lavia yrði meiddur fram yfir páska, þá hefði ég haldið að viðkomandi væri að grínast. Þetta er í raun ótrúlegt. Samkvæmt heimasíðu Chelsea munu Lavia, Levi Colwill, Nkunku og Reece James koma til baka núna í landsleikjahléinu. Einnig styttist í endurkomu Wesley Fofana, þannig að hann gæti náð blálokum tímabilsins. Eina spurningarmerkið er Benoit Badiashile, en hann er sagður vera tæpur. Í ljósi þess verður áhugavert að sjá hvernig Pochettino stillir upp liðinu, en ég myndi tippa á að Petrovic verði í markinu, Cucurella í vinstri bakverði (athugið að Chilwell er þó orðinn heill), Thiago Silva og Disasi í miðvörðum, Malo Gusto í hægri bakverði. Miðjan verður að þessu sinni Moises Caicedo, Conor Gallagher og Mudryk fær startið í holunni - annað væri þvæla! Cole Palmer á hægri kanti, Sterling á vinstri - Jackson að sjálfsögðu upp á topp.





Hvernig fer leikurinn? Ég býst við því að Maresca hvíli leikmenn Leicester af einhverju ráði, líkt og stjórinn hjá Leeds gerði gegn okkur um daginn, þar sem baráttan í Championship deildinni er orðin mjög hörð og spennandi. Ætla að gerast svo frakkur að spá 3-1 sigri. Palmer, Mudryk og Carney Chukwuemeka (af bekknum) með mörkin. Vardy með mark Leicester. Áfram Chelsea og KTBFFH!!

bottom of page