top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea gegn Sunderland

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 22 minutes ago
  • 3 min read

Keppni: Enska Úrvalsdeildin 9. umferð

Tími, dagsetning: Laugardagurinn 24. október  kl. 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir

Dómari: Andy Madley

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson


ree

Næstkomandi laugardag taka okkar menn í Chelsea á móti nýliðum Sunderland og bjóða þá velkomna á okkar ástkæra heimavöll, Stamford Bridge. Síðast þegar þessi lið mættust á Brúnni var það í lokaumferð deildarinnar í maí 2017. Þá unnu Chelsea sannfærandi 5–1 sigur og lyftu Englandsmeistaratitlinum í leikslok, á meðan Sunderland kvöddu úrvalsdeildina og voru fjarverandi næstu átta árin, eða þangað til núna. Sunderland hafa komið á óvart í upphafi tímabils og sitja í 7. sæti eftir átta umferðir með 14 stig. Af þeim hafa 10 stig unnist á heimavelli, en aðeins fjögur á útivelli. Eini útisigur þeirra hingað til kom gegn lánlausu liði Nottingham Forest. Þeir hafa skorað níu mörk og fengið á sig aðeins sex, svo það er nokkuð ljóst að þetta er lið sem kann að verja sig. Undir stjórn Régis Le Bris byggir leikskipulag Sunderland á öflugum varnarleik, agaðri uppstillingu og beittum skyndisóknum. Það má því búast við að gestirnir leggi sig aftarlega á Stamford Bridge og reyni að nýta sér hraðar sóknir þegar tækifæri gefst.


Chelsea koma til leiks eftir glæsilegan 5–1 sigur gegn Ajax í Meistaradeild Evrópu. Þar skoruðu þeir Guiu, Caicedo, Enzo, Estevão og George sitt markið hver, og Chelsea urðu um leið fyrsta lið í sögu Meistaradeildarinnar til að hafa þrjá markaskorara sem teljast sem unglingar í sama leiknum. Estevão er aðeins 18 ára, en þeir Guiu og George 19 ára. Leikurinn var í raun búinn í hálfleik, en þá var staðan orðinn 4–1, og fyrirliði Ajax gerði samherjum sínum engan greiða með því að láta reka sig beint útaf í fyrri hálfleik og um leið fengu þeir fyrsta markið í andlitið. Chelsea fengu aldrei þessu vant að spila einum manni fleiri og nýttu sér liðsmuninn til fulls, en eins og flestir vita þá er það eitthvað sem hefur ekki gerst oft upp á síðkastið. Leikurinn minnti frekar á skemmtun úr Sambandsdeildinni en háspennuviðureign í Meistaradeildinni, enda hefur Ajax-liðið verið langt frá sínu besta að undanförnu. Ég verð síðan að hrósa honum Jamie Gittens fyrir flotta frammistöðu og góðan leik. Hann var valinn maður leiksins og vonandi kveikir það á einhverjum neista í sjálfstrausti hans. Hann má alveg fara að sýna meira svona. Enzo Maresca var í viðtali eftir leik með Eiði Smára Guðjohnsen og Joe Cole. Í viðtalinu lýsti hann mikilli ánægju með Estevão, sérstaklega með hversu þroskaður og auðmjúkur hann væri, en hann ætti eftir margt að læra, en þetta væri allt á réttri leið. Hann er hægri vængmaður eins og staðan er núna en með tíð og tíma mun hann færast innar á völlinn þegar hann aðlagast deildinni betur, líkt og Cole Palmer. Maresca náði að hvíla aðalliðið töluvert mikið í Ajax leiknum fyrir komandi átök gegn Sunderland. Hópurinn verður því býsna vel hvíldur. Einnig ber því að fagna að Liam Delap er byrjaður að æfa. Hvort hann verði klár fyrir næsta landsleikjahlé er of snemmt að segja um, en hann nálgast leikvöllinn hraðar en búist var við.


ree

Í síðasta deildarleik vann Chelsea þægilegan 0–3 útisigur gegn Nottingham Forest, þar sem mörkin skoruðu þeir Josh Acheampong, Pedro Neto og Reece James. Chelsea sitja í 5. sæti deildarinnar með 14 stig, með jafnmörg og Sunderland, og það væri kærkomið að bæta við þriðja deildarsigrinum í röð. Við erum í góðu flugi með fjóra sigra í röð í öllum keppnum, og engin ástæða til annars en að bæta þeim fimmta við.


Ég hef aldrei náð að giska á byrjunarliðið alveg rétt áður þegar ég hef ritað upphitunarpistil, en ég læt samt á það reyna. Sanchez verður í markinu og þeir Reece James og Cucurella taka bakvarðarstöðurnar. Í miðverðinum spái ég Chalobah og hinum unga Josh Acheampong, sem ég vona að fái tækifæri í byrjunarliðinu eftir gott mark gegn Forest. Á miðjunni verða að sjálfsögðu þeir Enzo og Caceido, og João Pedro verður fyrir framan þá, ferskur eftir að hafa tekið út leikbann gegn Ajax. Á köntunum spái ég að Pedro Neto verði hægra megin og Garnacho vinstra megin. Ég væri alveg til í að sjá Estevão byrja, en eitthvað segir mér að hann verði á bekknum og komi svo inn þegar líður á leikinn. Fremstur í sókninni verður síðan Marc Guiu, sem hefur unnið sér það fyllilega inn eftir frábæra leiki gegn Forest og Ajax.


Ég ætla að spá 2–0 sigri fyrir Chelsea, með mörkum frá João Pedro og Marc Guiu og að við klárum annan leik í röð með 11 leikmenn á vellinum.


P.S. Við hvetjum ykkur öll til að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Fyrir hófsamt árgjald fáið þið forgang í miðakaupum á hagstæðum verðum á leiki með Chelsea. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page