top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea gegn Manchester United

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 11 hours ago
  • 4 min read

Keppni: Úrvalsdeildin

Tími, dagsetning: Föstudagurinn 16. maí  kl:19:15

Leikvangur: Stamford Bridge, London

Dómari: Chris Kavanagh

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Bjarna Reynisson



Ég hélt að sigurinn á Liverpool myndi orsaka sigurhrinu út tímabilið, bjartsýnin eftir þann leik var í hámarki. Einn bikar og enda í topp fjórum, sá það í hillingum. Sigurvíman varði þó afskaplega stutt því að það tók Newcastle ekki nema 112 sekúndur að taka forystu á St. James Park á sunnudaginn var. Gjöf á silfurfati frá Romeo Lavia sem hefur þó að mínu mati staðið sig óaðfinnanlega þegar hann hefur verið heill. Sjaldan er ein báran stök því á 36. mínútu ákvað Nico Jackson að ana í glórulaust einvígi við Botman þar sem hann baðaði út öngunum. Þrátt fyrir að rumurinn Botman hafi líklega gert hið mesta úr þessu þá uppskar Jackson réttilega rautt spjald fyrir vikið og ég er viss um að mörg hver vorum við tilbúinn að slökkva á leiknum á þessum tímapunkti. Maresca gerði líklega það eina rétta í stöðunni í hálfleik og skipti Reece James inná í þeirri von um að hann gæti, með reynslu sinni og leiðtogahæfileikum, hjálpað liðinu að stela stigum. Þessi skipting gerði Caicedo kleift að færa sig alfarið inn á miðsvæðið og spilamennska okkar snarskánaði. Hann var viðburðalítill síðari hálfleikur leiksins að utanskyldu skoti Cucurella á markið sem Nick Pope sá við. Örfáum mínútum áður en að Newcastle skoraði annað mark sitt á 90. mínútu komst James í frábæra stöðu og átti frían skalla sem fór forgörðum að stýra á markið. Dapurt að ná ekki að byggja á frábærri frammistöðu gegn Liverpool og sér í lagi þegar tekið er inn í að byrjunarliðið var líklega það sterkasta sem að við getum teflt fram. Okkur í hag kom þó aðstoð úr óvæntri átt í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Bæði Man City og Forest gerðu jafntefli við lið sem hafa þegar tapað sæti sínu í deildinni. Arsenal gerði einnig jafntefli en eins mikið og það væri gaman að sjá þá falla úr öðru sætinu þá myndi það hafa neikvæð áhrif á mögulega Chelsea til að tryggja sér Meistaradeildarsæti.


Staðan í topp fimm baráttunni er áhugaverð því að í síðustu tveimur umferðunum eru tvær innbyrðis viðureignir sem að gætu haft veruleg áhrif á loka stöðuna í deildinni. Núna um helgina eigast við Newcastle og Arsenal. Þar þurfum við að treysta á grannana okkar í norður Lundúnum til að halda Newcastle í 66 stigum. Í lokaumferðinni eigum við svo Nottingham Forest en þeir sitja stigi á eftir okkur í sjöunda sæti sem stendur. Hinn leikur Forest er gegn West Ham. Munu þeir því enda tímabilið enn í sjöunda sæti með 63 stig eftir að gera jafntefli við West Ham og tapa fyrir okkar í lokaumferðinni. Aston Villa mun sitja þar fyrir ofan, í sjötta sæti, með 67 stig. Þeir eiga Spurs og Man Utd í síðustu tveimur og munu vinna annan og gera jafntefli í hinum. Ég spái að fimmta sætið hljóti Newcastle, einnig með 67 stig. Þeir eiga Arsenal og Everton, erfiðir leikir og ég tel að sá fyrri muni tapast og þeir geri svo jafntefli við Everton. Ég spái okkar mönnum fjórða sætinu, við erum að fara að vinna báða leikina sem að við eigum eftir og endum því með 69 stig. Man City endar tímabilið líka með 69 stig og verður ofar en við einungis á marka tölunni. Arsenal finnur smá form í lok tímabils og tekur sex stig sem skilar þeim öðru sæti með 74 stig.


Þrátt fyrir að United sé að eiga daprasta tímabil sitt í sögu úrvalsdeildarinnar þá má aldrei afskrifa þá. Þeir sitja í 16. sæti deildarinnar en hafa verið að gera góða hluti í Evrópudeildinni og gætu því laumað sér inn í Meistaradeildina á næsta tímabili. Herkænska sem að þeir eru farnir að tileinka sér ár eftir ár. Á síðasta tímabili enduðu þeir nefnilega í áttunda sæti og áttu því réttilega ekki að spila neinn fótbolta í Evrópu. En með því að vinna FA Cup tryggðu þeir sér þátttökurétt í Evrópudeildinni, á kostnað Chelsea sem endaði í sjötta sæti. United eru með nokkur meiðsli en Dalot, Yoro, Lisandro Martinez, de Ligt og Zirkzee eru allir meiddir.


Það var súrt að sjá Mason Mount yfirgefa klúbbinn sem hann ólst upp hjá frá átta ára aldri fyrir Manchester United. Stakk smá en svo tók maður það í sátt þegar að hann var alltaf meiddur og í ljósi þess að hann er búinn að gera voða lítið fyrir sinn nýja klúbb. 42 viðkomur í leikjum í öllum keppnum með fjögur mörk og eina stoðsendingu. Af þessum fjórum mörkum hafa þó þrjú þeirra komið í síðustu þremur leikjum þeirra. Oft á tíðum skora gamlir Chelsea leikmenn í endurkomunni á Brúnna en þar sem að United mun ekki skora í þessum leik þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því í þetta skiptið.


Ef við rýnum í herbúðir Chelsea þá eru flestir heilir, Wesley Fofana, Nkunku og Guiu eru meiddir og Jackson auðvitað í banni. Stutt í að félagsskiptaglugginn opni og Chelsea leitar af framherjum. Þeir sem hafa verið orðaðir við klúbbinn eru Liam Delap, Patrik Schick og einnig Emanuel Emegha sem spilar fyrir RC Strasbourg. Svo lúrir Osimhen alltaf í umræðunni líka, þó aðallega þökk sé John Obi Mikel. Aðrir spennandi orðrómar eru Rafael Leao og Joao Pedro. Í bili þurfum við þó að treysta á nútíðar mennina sem eru til taks en hérna er byrjunarliðið sem ég myndi stilla upp í þessum leik.


Sanchez hefur verið þokkalega áreiðanlegur upp á síðkastið og ég tel að hann byrji milli stanganna. Ég vil sjá Reece James í hægri bakverðinum, Chalobah og Colwill í miðju varnarinnar og Cucurella úti vinstra megin. Enzo og Caicedo á miðjunni með Cole Palmer þar fyrir framan. Tyrique George vinstra megin og Pedro Neto á hægri kantinum. Fremstan vil ég svo sjá Shim Mheuka. Við erum í alvöru framherja vandræðum og ég tel að það sé skilvirkara að setja einn ungan og efnilegan upp á topp í staðinn fyrir að reyna að troða einum af vængmönnunum okkar í þá stöðu.


Ég trúi því heilshugar að leikurinn endar 2 - 0 og að hinn ungi Mheuka skorar annað markanna. Cole Palmer verður þá einnig á blaði með mark úr opnum leik.


Áfram Chelsea og KTBFFH!

 
 
 

Commenti


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page