top of page
Search

Chelsea gegn Brighton

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  28. september  kl. 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London

Dómari: Peter Bankes

Hvar sýndur: Síminn Sport 2

Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason



Endurheimt  Stamford Bridge sem vígis.

Næsti leikur Chelsea er heimaleikur gegn Brighton. Brighton & Hove Albion er fyrirmyndarfélag í augum eigenda Chelsea. Félag sem kaupir unga leikmenn á slikk, mannar þá upp og selur á fimbulfé til vitleysinga eins og BlueCo sem virðast glepjast af öllu ungviði sem sýnir minnstu hæfileika í knattspyrnu. Það verður að segja Brighton það til hróss að þeirra ungviðaskátar hafa verið og eru  glöggir að þefa uppi hæfileika, þeirra þjálfarar duglegir að gera mikið úr þeim hæfileikum og eigandi Brighton duglegur að koma leikmönnum í verð. Brighton hefur undanfarin ár verið “gegnumstreymisfélag” af hæfileikaríkum leikmönnum frekar  en “keppnisfélag” að titlum. Það virðist enginn leikmaður (eða þjálfari) hultur ef hagstætt tilboð berst í hann. Nýja Chelsea-samsteypan hefur verið svo hrifin af aðferðum og mannafla Brighton að þeir hafa keypt, ekki bara leikmenn (Cucurella, Caicedo og Sanches) dýrum dómum,  heldur einnig þjálfara (Potter, Salter og fleiri) sem og Paul Winstanley og þá gaura sem voru á útkikki eftir hæfileikríkum fótboltamönnum (og konum vonandi?). En hið “nýja” Chelsea hefur keypt á annan tug leikmanna og starfsmanna Brighton síðustu tvö árin. Og var að bæta einum “skáta” frá Brighton við sig fyrir skömmu.

Brighton hefur farið vel af stað í haust. Ekki tapað leik í deildinni eða tveir sigrar og þrjú jafntefli (jafntefli úti við Arsenal og sigur heima gegn ManUn) og sitja nú í 7. sæti með 9 stig. Má segja að Chelsea og Brighton séu á sömu blaðsíðunni þegar kemur að þjálfurum. Báðir þjálfararnir gerðu sín lið að meisturum í næstefstu deild og munstraðir sem stjórar hjá liðum í efstu deild í kjölfarið. Maresca gerði Leicester að meisturum í ensku Championshipdeildinni meða Fabian Hürzeler gerði hið þýska lið St. Pauli meistara í Bundesliga 2. Vinningshlutfall Hurzeler þessi 2 ár hjá St. Pauli var 65.5% en það sem komið er hjá Brighton er það 58% . Þótt Hürzeler sé aðeins 31 árs gamall þá hefur hann vakið athygli fyrir taktískan fótbolta. Hvort hann hefur náð að berja St. Pauli taktíkina inn í Brightonmenn síðan hann var ráðinn um miðjan júní síðastliðinn veit ég ekki, en liðið gerði bæði Man Utd og gerði Arsenal skráveifu í deildinni fyrir skömmu. 



Brighton er ágætlega mannað teknískum leikmönnum sem geta gert hvaða liði grikk með hraða og leikni. Til dæmis brellinn Pedro, skotfasta Enciso og  Adringa, Minteh og sterkan teigasenter í reynsluboltanum Welbeck. Einnig hinn öskufljóta Mitoma ásamt sparkvissum Baleba og ellismellinum Milner sem sopið hefur marga fjöruna eins og Bjarni Fel orðaði það venjulega.  Ekki má gleyma hinn nýkeypta O'Riley sem kom frá Celtic og við sáum fara hamförum gegn Chelsea á undirbúningtímabilinu í 4-1 niðurlægingu gegn Celtic. Brighton er einnig með þokkalega sterka og aðgangsharða vörn (Veltman, Van Hecke og Dunk) og mjög góðan markmann (Verbruggen). Brighton lenti í basli með Nott. Forest um síðastliðna helgi (heima) og gerði jafntefli við 10 manna Forestliðið. Báðir stjórarnir fengu rautt á lokamínútum þannig að Hürzeler verður upp í stúku í leiknum gegn Chelsea á Brúnni.  


Okkar árangur á heimavelli í deildinni á þessu tímabili gæti verið betri að mínu mati. Aðeins eitt mark og eitt stig í tveimur heimaleikjum þrátt fyrir ógrynni marktækifæra til að gera betur, sérstaklega gegn Crystal Palace. Það sem er þó öllu verra er að Stamford Bridge virðist varla hljóma lengur sem heimvöllur Chelsea ef marka má undirtektir og viðbrögð áhorfenda sem ætla má að séu flestir áhangendur félagsins. Áhangendur á útileiknum gegn Úlfunum sem og Bournemouth og West Ham höfðu hærra en allur skarinn sem fylgdust með “heima-”leikjunum gegn Man City og Crystal Palace. Meira að segja dómararnir sem dæma á Brúnni virðast jafn fjandsamlegir liðinu og óánægðir áhorfendurnir. Þetta er ömurleg þróun sem fylgt hefur Boehly og kó allt frá því að Tuchel var rekinn haustið 2022 og þarf að snúa til betri vegar. Sem kemur auðvitað þegar liðinu fer að ganga betur á heimavelli. Sem er eins konar “catch 22” því til að ganga vel á heimavelli þurfa liðsmenn Chelsea að finna að völlurinn/áhorfendurnir sé með þeim en ekki móti. 


Fyrir þá óánægðu er vert  þó að geta þess að frá því um miðjan febrúar sl.  hefur Chelsea leikið 20 leiki í deildinni og aðeins tapað TVEIMUR leikjum. Fyrir Arsenal í apríl (úti) og fyrir ManCity í ágúst (heima). Það hlýtur að vera nóg ástæða til að fagna liðinu vel á heimavelli, þó ekki væri annað. Það er ekkert hægt að kvarta yfir árangri liðsins á útivelli (í deildinni) á þessu tímabili. Leikirnir úti gegn Bournemouth og West Ham voru að vísu gjörólíkir. Chelsea var heppið að hanga á roðinu og standa uppi sem sigurvegari óverðskuldað gegn Bournemouth og rugludallinum Anthony Taylor dómara þar sem Sanchez markmaður hélt okkur á floti og Sancho og Nkunku sáu um að hrifsa öll stigin. Gegn West Ham sýndi Chelsea frábæra takta og greinilega má merkja fingraför Maresca á liðinu til hins betra þótt aðeins séu rúmir tveir mánuðir síðan hann tók við liðinu. 



Ég er sannfærður um að Brighton kemur ekki á Brúnna til að spila lágvörn þannig að ég geri ráð fyrir að leikur verði opinn og fjörugur og barátta tveggja þjálfara með mjög ákveðnar hugmyndir hvernig á að leika fótbolta. Hürzeler (þjálfari ágústmánaðar) notar miðvörðinn til að yfirmanna eða frekar sækja fram í miðjusvæðið meðan Maresca notar bakvörðinn til að yfirmanna miðsvæðið. Það verður gaman að fylgjast með hvor hugmyndafræðin verður ofan á hjá þessum ungu þjálfurum. Bæði lið hafa nógu leikna leikmenn til að útfæra flesta taktík. Bara spurning hvort liðið er komið lengra í nýrri hugmyndafræði þjálfaranna. Oftast er það þó þá hugarfarið sem spilar inn í hvort sú taktík eða einhver önnur nýtist til sigurs. 


Ég geld  þó ákveðinn varhug við þá aðferðafræði Maresca að útiloka leikmenn frá liðinu án þess að fá tækifæri til að sanna sig og mögulega aðlagast breyttri leikaðferð og jafnvel stöðu. Sumir fá þó endalaus tækifæri (Mudryk) meðan öðrum er hreinlega vísað strax  á dyr (Chillwell, Sterling, Chalobah, Chuckwuemeka, Petrovic og D. Fofana). Hef þó meira grun um að vissar  skipanir hafi komið “af ofan” um suma þessa leikmenn. Maður veltir fyrir sér hvort leikmenn eins og Terry, Cech eða Courtois hefðu hlotið náð hjá Maresca (og fleiri þjálfurum í dag) vegna þess að “fótavinnan” var ekki nógu góð eða þeir voru taldir of gamlir og hægir. Hver man ekki eftir undrabarninu  og Chelseastjóranum Villa Boas fyrir rúmum 10 árum síðan lýsa því yfir að Terry og Lampard væru ekkert sérstaklega inn í myndinni hjá sér (of gamlir og hægir) þegar hann tók við Chelsealiðinu. Villa Boas dugði fram í byrjun mars en Terry og Lampard héldu áfram og lyftu bæði FA bikarinn í maí sem og BIKARNUM  (Meistaradeildin) í sama mánuði. 


Ég tek þó ofan hattinn fyrir hversu heiðarlegur Maresca er gagnvart eigin leikmannahóp, pressunni og okkur áhangendum. Einnig vil ég hrósa Maresca fyrir vera óhræddur að skipta mönnum inn á og fínstilla það sem vanhagar. Mér virðist leikmenn Chelsea einnig vera ánægðir undir hans stjórn þrátt fyrir alla meintu ólguna og ríginn sem “er sögð” ríkja meðal eigenda félagsins og æðstu stjórnarmanna af enskum fjölmiðlum sem gera lítið annað en að kasta hnútum í Chelsea.  Þeir (Boehly og Eghbali) sátu þó  kumpánlegir hlið við hlið og bömbuðu kaffi í West Hamleiknum um daginn. Íslenskir fjölmiðlar eru engir hálfdrættingar erlendu pressunnar í rætni, dylgjum, Gróum og neikvæðri umsögn um Chelsea. 

 

Chelsea á tvo menn í hverja stöðu. Vörnin stendur þó verr að vígi því nokkuð margir okkar bestu varnarmanna (James, Fofana, Gusto og Chillwell) eru stöðugt á hækjunni og eru búnir að vera lengi. Miðjan er ágætlega mönnuð en það er eiginlega lúksusvalkvíði hjá Maresca að stilla upp fremstu fjórum því við erum frábærlega mannaðir þar.  Ég geri ráð fyrir að liðið verði þannig. Leikskipulag 4-2-2-3 : (Sanches, Gusto, Fofana, Colwill), (Cucurella, Enzo), (Caseido, Palmer), (Sancho og Jackson, Madueke). Varamenn: Jörgensen,  Nkunku, Neto, Lavia, Felix, Veiga, Tosin, Badiashile, Acheampong).

 

Í marki er Sanches þótt ég vildi frekar sjá  “alvöru” markmann sem skiptir ALLTAF máli og vinnur leiki fyrir okkur með sinni frammistöðu ekki einhvern sem maður fær hland fyrir hjartað í hvert skipti sem hann er með tuðruna á tánum í teignum. Eða þannig hugsaði ég þangað til fyrir tveimur leikjum. Sanches girti sig alvarlega í brók á móti Bournemouth, varði eins og berserkur og hélt hreinu þrátt fyrir að fá á sig víti. Batnandi mönnum ...... og allt það. Einnig átti hann góðan leik gegn West Ham og hélt hreinu annan leikinn í röð. Og virkaði nokkuð traustur þrátt fyrir smá hnökra. Ég er ekki alveg sannfærður ennþá en Sanches fær að njóta vafans þangað til annað kemur í ljós.

Ég tel að Fofana og Colwill séu okkar besta miðvarðarpar jafnvel þótt Fofana hafi ekki náð fyrri styrk og snerpu og hvorugur mjög öflugur í loftinu. Fofana hefur gert nokkur afdrífarík mistök í miðvarðarstöðunni meðan Colwill eflist með hverjum leiknum. Fofana var settur í bakvörðinn gegn West Ham og kom þar greinilega í ljós að hann er ekki kominn með fyrri snerpu og var í reynd veikasti hlekkurinn í vörninni. Colwill aftur á móti er að verða einn okkar bestu varnarmanna og það sem meira er. Hann hefur leiðtogahæfileika til að stjórna vörninni í kringum sig. Colwill er einnig með betri sendingamönnum liðsins fram á við. Tonsin sýndi góðan leik gegn West Ham er alveg við að reka Fofana úr miðverðinum, sérstaklega þegar við leikum gegn liðum með góða skallamenn.


James er auðvitað sjálfvalinn í hægri bakvörðinn, sé hann heill. En James er því miður ALDREI heill. Gusto er þá næsti kostur, sé hann heill. Hann er því miður einnig meiðsapési og mikið frá. Ef James eða Gusto eru ekki tiltækir vil ég ekki sjá tilraunina með Disasi í bakverðinum, síst á móti Mitoma. Því miður var tilraunin með Fofana í West Ham leiknum næsta misheppnuð þannig Maresca er vandi á höndum hvernig hann leysir hægri bakvarðarvandamálið. Annað hvort að spila Acheamopong og blóðga hann almennilega eða setja Tosin í miðvörðinn og Fofana í bakvörðinn og vona hið besta. Og Cucurella er auðvitað sjálfkjörinn í vinstri bakvörðinn/miðjublendinginn. Cucurella spilar af þvílíkri ákefð að hann hlýtur að smita baráttuandanum út til félaganna. 



Á miðjunni hef ég Enzo og Caceido. Við ræddum oft um Enzo á síðasta tímabili. Hversu illa hann nýttist okkur í leikjum meðan hann leikur á als oddi með argentínska landsliðinu þar sem hann leikur greinilega sem leikstjórnandi aftarlega á miðjunni og þá með líkamlega sterka og fljóta miðjumann/menn með sér. Hann er ekki nógu sterkur eða fljótur sem varnartengiliður og nýtist ver sem  hreinn sóknartengiliður vegna þess hve hægur hann er. En fái hann svigrúm á miðjunni er hann í essinu sínu og gefur fínar sendingar. Og jafnvel mætir í vítateiginn til að stríða enn frekar. Hann er samt enginn Lampard.

Allavega þurfum við að fá meira út úr miðjuspili Chelsea. Miðjan gegn Man City, Bournemouth og fyrri hálfleik gegn Úlfunum (í gagnsóknum) var eins og vængjahurðir á vinsælasta barnum í villta vestrinu. Nema í seinni hálfleik gegn Úlfunum, mestan leikinn gegn Crystal Palace og í West Ham leiknum þar sem Caceido átti einfaldlega frábæran leik. Stöðvaði sóknir, hóf sóknir, vann einvígi uppi og niðri og átti frábæra stoðsendingu að marki. Ég vil samt fá meira út úr Caceido eins og til dæmis skot fyrir utan teig og fleiri stoðsendingar til framlínunnar eins og þá sem hann gaf í öðru markinu gegn West Ham. En Caceido er að ná  þeim fyrri styrk sem hann sýndi með Brighton þannig að gaman verður að fylgjast með honum gegn sínu gömlu félögum. Ef Enzo fer að sýna bestu hliðar sínar  einnig þá er miðjan hjá Chelsea óárennileg. Ég tala nú ekki um ef Lavia hressist.


Ég er samt alveg viss um að Santos mun bætast í okkar leikmannahóp miðjumanna fyrr en seinna en hann er mögulega okkar besti alhliða miðjumaður,  bæði góður í sókn og vörn og getur skorað. Maresca virðist ekki alveg treysta Dewsbury-Hall eða Casadei þótt þeir hafi báðir leikið undir hans stjórn hjá Leicester. Ef Dewsbury-Hall hefur aðeins verið keyptur til að liðsinna leikmönnum Chelsea í Marescakerfinu er hann dýrasta handbók í taktík sem ég veit um. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og hann skili okkur t.d.  helming af mörkunum og stoðsendingum sem hann var skráður fyrir í fyrra. Casadei var notaður sem varnartengiliður á móti Barrow. Hann fór skrikkjótt af stað en óx ásmegin þegar leið á leikinn.


Ég ætla að stilla upp sömu framlínu og byrjaði gegn West Ham. Sancho á vinstri væng, Jackson í framverðinum og Madueke á hægri væng. Og auðvitað Palmer í holunni. Ég heimta að Madueke taki skynsamari ákvarðanir í skotum og fyrirgjöfum en hann gerði í síðasta leik.  Annars á hann á hættu að missa sína stöðu sína í hendur eða frekar fætur Neto. Jackson sýndi flott hlaup og takta í West Ham leiknum. Við vitum hann getur það.  Það sem var frábært voru tvö ekta sentaramörk sem og ein stoðsending. Í 40 leikjum hefur Jackson skorað 18 mörk og gefið 7 stoðsendingar, sem er frábært. Þeir Palmer vinna greinilega vel saman. Eins ættu sendingar Sancho vinstra megin að gera Jackson enn skæðari þar sem honum líður betur vinstra megin. Við vitum að Jackson er duglegur að koma sér í færi þannig að ég vona að hann uppskeri fleiri mörk en á síðasta tímabili. Það er leitt að sjá að andstæðingarnir halda að besta lausnin til að halda Palmer í skefjun sé að halda honum eða sparka hann niður.  Palmer hefur verið okkar besti maður síðan hann kom til okkar. Algjör gullmoli. En nú eru væntanlega fleiri í liðinu sem treysta má á  þegar í harðbakkann slær. Bæði í sókn og markaskorun. Felix ætti t.d. að vera kominn með 3-4 mörk í deildinni að mínu mati. Þau fara að detta inn hjá honum sem og Neto. Síðan er spurningin um Nkunku sem er búinn að skora 9 mörk undir stjórn Maresca. Það er skrýtið að vera slíkur markaskorari og komast ekki í byrjununarliðið. Öðruvísi mér áður brá. 


Ég vona að áhorfendur á Brúnni sýni okkar leikmönnum að Stamford Bridge sé alvöru heimavöllur og hvetji Chelsea til dáða í leiknum gegn Brighton og ekki síður gegn KAA Gent og Nottingham Forest í næstu viku. 

Leikurinn fer 2-0 og Jackson og Nkunku skora mörkin.  


Áfram Chelsea! E.S. Við minnum lesendur á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig geta félagsmenn í klúbbnum nálgast miða á leiki með liðinu á þessu tímabili. Árgjaldið er hóflegt, um 8.000 kr. Fyrir það færð þú forkaupsrétt á miðum á leiki með Chelsea, gegn hófsömu gjaldi. Einnig stendur klúbburinn fyrir hópferð á leik gegn Ipswich síðar á tímabilinu. Allar upplýsingar eru á www.chelsea.is


Comments


bottom of page