Chelsea gegn Benfica
- Jóhann Már Helgason
- 4 days ago
- 5 min read
Keppni: Meistaradeildin 2. umferð
Tími, dagsetning: Þriðjudagurinn 30. september kl:19:00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Daniel Siebert
Hvar sýndur: Sýn Viaplay
Upphitun eftir: Bjarna Reynisson

Það er stormasamt á Brúnni þessa dagana enda eru niðurstöður undanfarna leikja vægast sagt búnar að vera vonbrigði. Þegar við rúllum upp á Old Trafford að mæta United liði sem féll úr bikarkeppni á móti Grimsby Town þá er það óboðlegt að sækja ekki stigin þrjú. Þegar við tökum á móti Brighton, liði sem að við verslum við oftar en ég fer í Krónuna, þá býst ég við sigri. Vonin og væntingarnar sem að maður hafði til liðsins í byrjun tímabilsins dvína samhliða meiðsla vandræðum og ósannfærandi frammistöðum. Er þreytan eftir Heimsmeistaramót félagsliða farin að segja til sín eða eru þetta örðugleikar sem fylgja því að vera að meðaltali með yngsta byrjunarliðið í Úrvalsdeildinni. Það gefst lítill tími til að dvelja á þessum vangaveltum enda er leikjadagskráin þétt. Eins og leikmenn og þjálfarar eru duglegir að segja í viðtölum, fréttamönnum líklega til mikils ama, þá þurfum við núna að einbeita okkur að næsta leik og taka þetta einn leik í einu. Ellefu á móti ellefu höfum við tapað aðeins fimm leikjum síðan við lutum lægra haldi fyrir Arsenal, 1 - 0 á Emirates í mars. Í fjórum af þeim fimm leikjum höfum við fengið að líta rauða spjaldið og sá fimmti var gegn Bayern Munich í fyrsta leik okkar í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Leikur sem hefði hæglega getað endað 1 - 1 ef ekki fyrir gjafmildi og ógæfu okkar eigin leikmanna.
Það var einnig stormasamt síðast þegar Chelsea mætti Benfica en minnugir menn muna eflaust eftir tveggja tíma seinkuninni sem kom til vegna veðurs þegar við slógum þá úr Heimsmeistaramóti félagsliða með 4 -1 sigri í átta liða úrslitunum. Benfica spilar sinn deildar fótbolta í Liga Portugal en þeir enduðu nýliðið tímabil með 80 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Sporting. Síðan að þeir mættu okkur léku þeir 11 leiki undir stjóra sínum Bruno Lage þar af voru átta sigurleikir, tvö jafntefli og eitt tap. Sú frammistaða var þó ekki nóg til þess að félagið ákvað að láta hann taka poka sinn og ráða inn José Mourinho í hans stað þann 18. september. Þeirra markahæsti maður á tímabilinu er Grikkinn Vangelis Pavlidis en hann er með fimm mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu sjö leikjum tímabilsins. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að Móri fái hlýjar móttökur á Brúnni enda skilað klúbbnum þremur Úrvalsdeilda titlum, þremur deildarbikörum, einum FA bikar og einum Samfélagsskyldi. Hann fékk til Chelsea frábæra leikmenn á borð við Didier Drogba, Cesc Fabregas og Diego Costa svo að fáeinir séu nefndir. Allt stefndi í að hann yrði við stjórnvölin hjá Chelsea til ársins 2019 en eftir afleita byrjun á 15/16 tímabilinu þar sem liðið var einungis með 15 stig eftir fyrstu 16 umferðirnar þá var hann látinn fara. En ef að það er eitt sem að Mourinho hatar ekki, þá er það að vera rekinn úr starfi, enda hefur hann þénað yfir 100 milljónir punda á því einu að missa starfið. Geri aðrir betur! Miðað við þolinmæði Benfica í garð Bruno Lage eftir aðeins eitt tap þá þarf Móri að passa sig því að hann hefur nú þegar stýrt liðinu í þremur leikjum og gert einn sigur, eitt jafntefli og eitt tap.
Eitt er kýr skýrt eftir að hafa endað manni færri í síðustu tveimur deildarleikjum að Maresca fór í pönnuköku eftir atvikið í báðum leikjum. Að skilja Joao Pedro eftir einan upp á topp án stuðnings frá öðrum sóknarmönnum virkaði ekki gegn United og það kom mér því ekki mikið á óvart að það virkaði heldur ekki gegn Brighton. Ég hef ennþá trú á Maresca enda hefur hann staðist væntingar hingað til er varðar að vinna titla og tryggja Meistaradeildar fótbolta. Hópurinn er þunnur vegna meiðsla. Þeir leikmenn sem eru heilir þurfa hreinlega að stíga upp og sanna ágæti sitt og Maresca ætti kannski að tíunda við leikmennina að halda sér inn á vellinum.
Undir BlueCo þá virkar módelið þannig að stjórinn hefur ekkert um leikmannamálin að segja þegar kemur að markaðnum og það er einungis ráðfært sig við stjórann um hvaða prófíl af leikmanni honum vantar en ekki nöfn. Stjórinn þarf svo að vinna með þá leikmenn sem að íþróttastjórarnir Paul Winstanley og Laurence Stewart ákveða að skulu vera í hópnum. Báðir tveir skrifuðu þeir undir nýjan sex ára samning eftir það sem að ég tel að hafi ekki verið frábært sumargluggi. Maresca vildi fá annað miðvörð inn og núna, 10 leiki inn í tímabilið, þá erum við í alvöru vandræðum vegna meiðsla í þeirri stöðu. Markvarðar staðan hefur lengi verið vandamál og þó að Sanchez átti virkilega flottar frammistöður undir lok síðasta tímabils þá er það ekkert leyndarmál að maðurinn er mistakagjarn. Þegar við rýnum þá í breytingarnar sem að Maresca gerði í kjölfar rauðu spjaldana tveggja þá er manni spurn hvort að það sé vantraust til ákveðinna leikmanna sem að sitja á bekknum hjá honum. Afhverju fengum við til dæmis ekki að sjá Garnacho koma inn af bekknum til að veita okkur ferskar lappir fram á við. Af hverju er maðurinn að taka undrabarnið okkar, Estevao, af velli þegar að hann er augljóslega með einstaklings gæðin til þess að búa eitthvað til úr engu. Mér fannst það ógáfulegt á síðasta tímabili að láta þessa ungu leikmenn fara í viðtölin sín og segja að Chelsea væru ekki í titil baráttunni. Skilaboðin til þeirra eiga að vera “að sjálfsögðu erum við í titil baráttunni, við þurfum bara að vinna næsta leik”. Það ýtir undir sama aumingja viðhorfið að pakka í vörn þegar við lendum manni færri. Stjórinn verður að hafa trúnna á því að 10 Chelsea menn eru samt betri en andstæðingurinn. Margir af bestu stjórum Chelsea í gegnum tíðina eiga það sameiginlegt að hafa verið örlítið hrokafullir og ég tel að það sé mikilvægt að fótboltastjórar hafi vott af þeim persónueiginleikum.
Ég sakna þess smá að tala um A-liðið og B-liðið eins og maður gerði í upphitunar pistlum fyrir leiki utan Úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en þegar leikið er í Meistaradeild Evrópu þá er ekki svigrúm fyrir að stilla upp neinu öðru en sterkasta liðinu þínu, enda vilja bestu leikmennirnir ólmir spila sem mest í deild þeirra bestu. Meiðslalistinn er langur og mikilvægir menn verma sætin. Cole Palmer, Levi Colwill og Liam Delap myndu vera í byrjunarliðinu hjá okkur væru þeir heilir. Sama má segja um Wesley Fofana sem að er að jafna sig á vægum heilahristing eftir að hafa fengið einn á kjammann frá ósannfærandi Filip Jörgensen í leiknum gegn Lincoln City um miðja síðustu viku. Tosin Adarabioyo eða Tosin frændi er þá einnig meiddur ásamt Dario Essugo en báðir tveir myndu nýtast vel af bekknum. Ég myndi stilla liðinu upp með Sanchez í markinu, Caicedo í hægri bakverðinum og Cucurella í vinstri. Santos og Enzo á miðsvæðinu, Estevao í tíunni. Á vængjunum myndi ég splæsa í Pedro veislu, með Pedro Neto hægra megin, Joao Pedro vinstra megin og upp á topp langar mér að sjá Marc Guiu. Uppstillingin á miðvörðunum er líklega stærsti hausverkurinn fyrir Maresca en hann hefur úr þessum mönnum að moða; Hato, Badiashile, Acheampong og þrátt fyrir að hafa fengið rautt spjald um helgina þá gæti Chalobah spilað en hann þarf að taka út bann í leiknum um helgina gegn Liverpool. Ég myndi persónulega halda miðvarðaparinu óbreyttu frá leiknum gegn Brighton með Chalobah og Hato og treysta svo á Fofana og Hato/Badiashile á móti Liverpool.
Benfica hefur aldrei unnið Chelsea áður og ég tel að það verði engin breyting á þeirri tölfræði í þessum leik. Jafnvel þó að bæði lið séu að eltast við sín fyrstu stig í Meistaradeildinni þá spái ég Chelsea 2 - 1 sigri á Brúnni.
Takk fyrir lesturinn og áfram Chelsea!!
Comments