Chelsea gegn Aston Villa
- Jóhann Már Helgason

- 13 minutes ago
- 4 min read
Keppni: Úrvalsdeildin, 18. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 27. desember kl:17:30
Leikvangur: Stamford Bridge
Dómari: Stuart Attwell
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Kæru vinir,
Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið öll haft það notalegt og gott yfir hátíðina. Á þriðja degi jóla fáum við heldur betur öfluga gesti í heimsókn á Stamford Bridge þegar hið gríðarsterka lið Aston Villa mætir á svæðið undir sterkri stjórn Unai Emery. Fyrir leikinn erum við í fjórða sæti deildarinnar, en það er mikill pakki af liðum fyrir aftan okkur og hvert einasta stig skiptir gríðarlega miklu máli. Liverpool eru til að mynda jafnir okkur að stigum í fimmta sæti og eiga heimaleik við mjög slakt Wolves lið á undan okkar leik. Aston Villa situr í þriðja sæti og er sjö stigum á undan okkur, þannig að við megum alls ekki tapa þessum leik og leyfa þeim að fara tíu stigum frá okkur. Það má því búast við hörkuleik sem vonandi verður hin mesta skemmtun.
Aston Villa kemur inn í leikinn sem eitt heitasta lið deildarinnar. Þeir unnu Manchester United á heimavelli í síðustu umferð og var það tíundi sigurleikur þeirra í röð í öllum keppnum og jafnframt sjöundi sigurleikurinn í röð í deildinni. Villa hefur tekið 15 stig úr leikjum þar sem liðið hefur lent undir, sem er það mesta af öllum liðum í slíkri stöðu. Það er ljóst að þetta er ekki bara heppni, heldur mikill agi og áræðni í spilamennsku liðsins. Þeir missa ekki hausinn þótt á móti blási og gefast ekki auðveldlega upp. Morgan Rogers er í hörkuformi hjá þeim og hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum að hafa mjög góðar gætur á honum.
Frá því Aston Villa kom aftur í úrvalsdeildina árið 2019 höfum við spilað 12 leiki gegn þeim í deildinni. Chelsea hefur unnið sex þeirra, Aston Villa fjóra og tvisvar sinnum hafa liðin skilið jöfn. Í núverandi leikmannahópi Aston Villa eru þrír leikmenn sem hafa spilað fyrir Chelsea: Ross Barkley, Jadon Sancho og Ian Maatsen, en engum þeirra tókst að slá almennilega í gegn hjá okkur. Í fyrra var Axel Disasi á láni hjá þeim seinni hluta tímabils, en hann hefur einmitt verið orðaður við brottför frá Chelsea núna í janúar. Hæsti orðrómurinn er að hann muni halda til Ítalíu, en AC Milan og Roma eru sögð sýna honum mestan áhuga.

Í síðustu umferð náðum við í sterkt stig gegn Newcastle á útivelli eftir alveg skelfilegan fyrri hálfleik. Maresca á skilið mikið hrós fyrir hálfleiksræðuna sína, því allt annað Chelsea-lið mætti til leiks í seinni hálfleik. Það var mjög sterkt að vinna sig aftur inn í leikinn og jafntefli var að lokum sanngjörn niðurstaða. Ég er nokkuð viss um að við hefðum tapað þessum leik á síðasta tímabili og þetta sýnir góðan karakter að koma til baka á þessum erfiða útivelli. Reece James skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu og João Pedro bætti einnig við góðu marki, sem vonandi gerir eitthvað fyrir sjálfstraustið. Sóknarmenn þrífast jú á mörkum, eins og við öll vitum. Fyrir leikinn gegn Aston Villa ættum við að geta teflt fram okkar sterkasta liði. Maresca hefur staðfest að bæði Estêvão og Liam Delap séu aftur orðnir leikfærir eftir meiðslin sem hafa hrjáð þá síðustu vikur. Það verður þó að segjast að stuðningsmenn Chelsea eru vafalaust spenntari fyrir endurkomu Estêvão en Delaps, þó sá síðarnefndi sé tilbúinn að troða sokk upp í munn á einhverjum, því hann lofaði mér nefnilega að koma inn á í þessum leik og skora eitt mark og ég er mjög spenntur að sjá hann standa við það. Maresca sagði í viðtali í vikunni að Cole Palmer ætti að vera klár í að spila 90 mínútur, sem eru að sjálfsögðu frábærar fréttir. Það eru í raun aðeins Dário Essugo, Romeo Lavia og Levi Colwill sem eru á meiðslalistanum, auk þess sem Mudryk er enn í skammakróknum. Allir aðrir eiga að vera klárir.
Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir þennan leik. Chelsea hefur verið að spila vel á heimavelli að undanförnu og aðeins fengið á sig eitt mark á Stamford Bridge í síðustu fjórum leikjum. Það mark kom í 1–1 jafntefli gegn Arsenal, þar sem við lékum manni færri frá 38. mínútu. Hinir leikirnir voru gegn Wolves, Barcelona og Everton, sem allir unnust örugglega þar sem við héldum hreinu.
Þegar ég fór að skoða úrslit úr heimaleikjum okkar nánar tók ég eftir því að Maresca hefur aðeins tapað fimm heimaleikjum sem stjóri Chelsea á því eina og hálfa ári sem hann hefur verið með liðið. Vissulega hafa tveir af þeim komið á þessu tímabili, en mig langar að trúa því að Stamford Bridge verði aftur völlur sem aðkomulið hræðist að heimsækja. Þess vegna trúi ég því að við vinnum þennan leik og sýnum öðrum liðum að Stamford Bridge sé hættulegur staður fyrir þá sem ekki klæðast bláu.
Það er auðvitað alltaf erfitt að spá fyrir um hvernig Maresca stillir upp byrjunarliðinu, en ég er nokkuð viss um að hann velji sitt allra sterkasta lið í þennan leik. Stærsta spurningin er hvort hann spili Reece James á miðjunni eða í hægri bakverðinum. Ég ætla að giska á að hann setji hann í bakvörðinn til að berjast við Morgan Rogers, en þá kæmi Enzo aftur inn í byrjunarliðið á kostnað Malo Gusto. Byrjunarliðsspáin mín er eftirfarandi: Sánchez í markinu. Reece James í hægri bakverði með það hlutverk að passa Morgan Rogers og Cucurella verður vinstra megin. Miðvaraparið skipa Fofana og Chalobah. Á miðjunni verða Enzo og Caicedo með Cole Palmer fyrir framan sig. Á köntunum verða Neto og Garnacho, og João Pedro byrjar fremstur.
Ég spái okkur 3–1 sigri í bráðskemmtilegum leik. Enzo, Chalobah og Liam Delap skora mörkin í sterkum heimasigri.
Áfram Chelsea og klárum þetta ár með stæl!





Comments