top of page
Search

Chelsea - Dortmund

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Þriðjudaginn 7. Mars 2023 kl 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay, CBS og auðvitað ÖLVER!!!

Upphitun eftir: Snorri Clinton

Chelsea

Jæja kæru bláliðar, það er aldeilis uppi á okkur typpið þessa dagana, enda ekki á hverjum degi sem við skorum mark hvað þá vinna leik. Þetta tókst okkur loksins að hrista út úr erminni á móti Leeds á laugardaginn var. Potter ákvað að hjóla í 3 manna línu setta saman af Koulibaly, Fofana og Badiashile. Það verður að segjast að það er allt annað að sjá liðið í því kerfi því við lágum eins og graðir hundar á gestunum fyrstu 20+ mínúturnar. Á köflum minnti spilamennskan á það sem við sýndum í fyrri leiknum á móti Dortmund. Joao Felix tók meira segja upp á því að smella blöðrunni í tréverkið. Það var gaman að sjá okkur með yfirhöndina í leiknum og sér í ljósi, að Ben nokkur Chilwell, er að nálgast fantaform. Það munar alveg helling að fá hann til að taka virkan þátt í sókninni. Það var svo auðvitað varnarmaður sem sá um að skora fyrir okkur markið, það er Chelsea-ið sem ég þekki. Á þessum tímapunkti hefði ég þegið mark frá starfsmanni þvottahússins í götunni. Fyrir utan þetta mark var ekki mikið sem gekk á í seinni hálfleik. Leeds náðu aldrei að skapa sér neitt hættulegt færi og er ég nokkuð viss að Kepa hafi ekki einu sinni þurft að fara í sturtu eftir leikinn, hann sleppur líklega við að þrífa búninginn á milli leikja.


Viti menn, dómarinn flautar af og langþráður sigurleikur orðinn að raunveruleika, Potter náði að framlengja starfsferilinn um allavega einn leik í viðbót. Breska pressan er búin að gera sér mikinn mat úr því síðustu vikur að sætið sé orðið ekki bara heitt heldur alelda. Helstu spámenn (þ.á.m. Matt Law) töluðu um að hann Leeds leikurinn og Dortmund heima yrðu hans síðustu leikir til að snúa gengi liðsins við. Jæja Áfram GAKK!Nú er það helvítis meistaradeildin, keppni sem við höfum unnið í tvígang. Við erum undir í einvíginu 0-1 og því deginum ljósara að við þurfum að finna netið a.m.k. tvisvar ef við viljum sigra og sleppa við enn aðra vítaspyrnukeppnina. Það virkaði einu sinni helvíti vel að henda Kepa inná en svo komu tvær vító í röð á móti pylsunum í Liverpool, þar sem brauðstangahendurnar hleyptu öllu inn. En við leggjust á bæn eða hvern djöfulinn það er sem þið gerið og vonum að vító verði ekki rauninn heldur BLÁ-KALDUR SIGUR!


Potter sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og fór yfir ástandið á liðinu. Silva eins og flestir vita er frá næstu vikurnar og enn er eitthvað í Mendy. Potter staðfesti þó að Pulisic verði í hópnum á morgun en ekki Kanté þó svo að það fari að styttast verulega í hann. James er eitthvað tæpur þó og ekki víst hvort hann verði með eða ekki. Hvort sem hann er klár eða ekki þá á ég ekkert endilega von á því að hann byrji. Ég væri til að sjá byrjunarliðið svipað eins og á móti Leeds. Þó svo að ég óttist að einhverjir úr þeim leik verða hvíldir. En svona vil ég sjá það. Kepa í markinu með þriggja manna línu fyrir framan sig. Þar verða KK, Fofana og Chalobah. Sitt hvoru megin við línuna fáum við Chilly og RLC. Á miðsvæðinu verða þeir Kovacic og Enzo í öllu sínu veldi. Kai verður áfram upp á topp með Mudryk og Joao Felix.
Borussia Dortmund:

Því miður eru þeir á einhverju helvítis rönni þessir blessuðu Þjóðverjar. Stærðfræði var nú aldrei mín sterkasta hlið í skóla en ég kann a.m.k. að telja upp á 12 og það er fjöldi leikja sem þeir hafa unnið í röð í öllum keppnum. Að fá lið í svona formi í heimsókna þegar við erum að reyna snúa blaðinu við er jafn hressandi og njálgur með ofsakláða, ekkert eðlilega pirrandi. Þeir eru búnir að skora sjö mörk í þessum þremur leikjum sem þeir hafa spilað síðan þeir mættu okkur og aðeins fengið á sig eitt. Það ætti þó að gleðja okkur að markaskorarinn þeirra frá því í fyrri leiknum hann Adeyemi verður fjarri góðu gamni í þessum leik. Þeir eru samt sem áður í kjörstöðu til að klára okkur, sjóðheitir á meðan við vitum varla hvernig mark lítur út. Ef þeir skora á okkur þá er líklegast að þeir læsi bara öllu batteríinu og svæfi leikinn.


Spá:

Jæja hvernig fer svo þessi blessaði leikur?? Markastíflan hjá okkar mönnum hlýtur að fara rofna endanlega. Við þurfum TVÖ mörk!!!!! Það er svo auðvelt að detta í eitthvað stemmnings blackout eftir að hafa loksins skorað mark og unnið leik og þarf af leiðandi spá okkur sannfærandi sigri. Fjandinn hafi það, ég ætla að grýta mér ofan í þá gryfju. Við rotum þessar þýsku lufsur 3-1. Mörkin koma frá Mudryk, Enzo og KK.


Svo má ekki gleyma því að við ætlum að fjölmenna á Ölver og grýta í góða stemningu!! Hvetjum ALLA Chelsea menn til að girða sig í brók, upp með sokkana og drulla sér á barinn til að taka þátt í veislunni.

Comments


bottom of page