top of page
Search

Chelsea-Burnley

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:     Laugardagur 30. mars kl: 15:00

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Darren England

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason



Þá er síðasti leikhluti tímabilsins að hefjast eftir langt og leiðinlegt landsleikjahlé, þar sem Mikhaylo Mudryk tókst að valda okkur vonbrigðum, nema með þeim hætti, að hann skaut Ísland útúr undankeppni evrópumótsins sem fer fram í sumar í Þýskalandi. Síðasti leikur fyrir landsleikjhlé var í FA bikarnum gegn Leicester city. Fjörugur markaleikur sem fór 4-2 fyrir Chelsea. Leikurinn hefði getað farið á hvorn veginn sem er ...fram að andartakinu þegar leikmaður Leicester fékk rauða spjaldið. Refirnir áttu ekki breik eftir það, en fram að því voru frammistöður leikmanna eins og Raheem Sterling harðlega gagnrýndar af áhorfendum á Stamford Bridge. Það var baulað all hressilega á Sterling fyrir hans hræðilegu frammistöðu. Tvö atvik standa sérstaklega uppúr. Hræðilega vítaspyrnan sem Cole Palmer hefði betur átt að taka, enda hefur Sterling klúðrað vítaspyrnum reglulega með Chelsea og Manchester City, og svo þessi aukaspyrna þar sem Sterling hitti svo boltann illa, að boltinn hefur sennilega tekið flugið framhjá Big Ben og lent einhverstaðar hinu megin við Thamesá. Mörkin voru þó sérstaklega glæsileg í leiknum. Marc Cucurella og Nico Jackson sáu um það fyrsta, sem var nota bene, fyrsta mark Cucurella fyrir Chelsea. Cole Palmer skoraði svo með laglegu skoti og átti stoðsendinguna á Carney Chukwuemeka sem skoraði þriðja markið. Það fjórða var frá Noni Maudeke sem var snyrtileg snudda í fjærhornið með vinstri. Axel Disasi skoraði sjálfsmark sem var hreint út sagt ótrúlegt. Lélegur leikur hjá Disasi enn einu sinni, og Robert Sánchez sýndi það aftur afhverju hann á ekkert erindi í byrjunarliðið. Áhorfendur létu vel í sér heyra og m.a. söngvar gegn Pochettino að hann vissi ekkert hvað hann væri að gera. Sigur er þó sigur og undanúrslitaleikur á Wembley við Manchester City.





Flestir leikmenn sem fóru í landsleikina koma heilir til baka, nema Carney Chukwuemeka - sem stóð sig ágætlega fyrir U21 lið Englendinga. Hann er tæpur fyrir leikinn í dag. Það sem stóð uppúr í fréttum s.l. viku er að Romeo Lavia lenti í bakslagi með vöðvameiðsli aftan í læri. Það er búið að útiloka frekari þátttöku hjá honum á tímabilinu. Heilar 45 mínútur sem við fengum með honum gegn Crystal Palace fyrir einhverjar 58 milljónir punda. Kaupin á honum voru hugsuð til að covera leiki eftir landsleikjahlé þegar Enzo og Moises Caicedo voru að mæta seint frá Suður Ameríku. Þessi tíðindi eru reiðarslag fyrir klúbbinn og vekja upp ansi margar spurningar um hvað þjálfara- og læknateymin eru að gera í Cobham. Allt tímabilið hafa 7-10 leikmenn verið á sjúkrabekknum. Fréttamenn eru farnir að spurja Pochettino út í þessi mál á blaðamannafundum, en sá argentínski yppir öxlum og veit ekkert hvað veldur. Í tilfelli Romeo Lavia, þá var þetta leikmaðurinn sem átti flestar mínútur af ungum leikmönnum á síðasta tímabili með Southampton.





Það blasir við að leikmennirnir þola ekki æfingaálagið og það virðist engu skipta hversu lengi menn fá að vera í aðlögunarferli til að ná leikformi. Meiðsli Christopher Nkunku er dæmi um það og eiginlega Reece James líka, en við gefum afslátt af því, þar sem hann fór í aðgerð til að vinna bug á sínum meiðslum. Pochettino taldi það ólíklegt á blaðamannafundi fyrir þennan leik að fyrirliðinn myndi spila meira á þessari leiktíð. Sennilega meðvituð ákvörðun þar sem Malo Gusto er að standa sig vel í fjarveru hans, og enginn ávinningur að flýta Reece James neitt frekar en þörf krefur. Aðrir leikmenn sem eru meiddir eru Levi Colwill (tá), Lesley Ugochukwu (aftan í læri) og Wesley Fofana (hné/krossband).


Framundan er leikur við Burnley á Stamford Bridge. Burnley er fallið og hefur engu að spila. Í þessu samhengi á þetta að vera formsatriði með sigur. Í raun bara stórsigur. Í síðustu tveimur leikjum skoruðu Chelsea fjögur mörk í báðum leikjum á Burnley. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Pochettino stillir núna upp. Fær Thiago Silva að spila eða ætlar hann að halda áfram með þesssa brokkgengu vörn þar sem Vottur Chalobah og Disasi eru miðverðir? Ef Disasi fær að byrja leikinn, þá er hann aldeilis með traustið frá Poch. Ég spái því að Petrovic verður kominn í markið. Cucurella áfram vinstri bakvörður, þrátt fyrir að Chilwell sé orðinn heill. Malo Gusto klárlega hægri bakvörður. Ég ætla að tippa á að Thiago Silva og Disasi taki þennan leik saman. Enzo og Moises á miðjunni með Mudryk í tíunni. Mig grunar að Pochettino setji Conor Gallagher á vinstri kantinn, eins og í siðustu leikjum þegar þeir voru tveir inná. Raheem Sterling fær bekkjarsetu að þessu sinni og Mudrykinn mætir með óbilandi sjálfstraust eftir leikinn gegn Íslandi. Palmer að venju á hægri kanti og Jackson upp á topp.





Hvernig fer leikurinn? Við segjum 4-0. Mudryk, Palmer, Jackson og Enzo með mörkin. Ekkert múður. Skyldustórsigur. Áfram Chelsea og KTBFFH!!!



Comments


bottom of page