top of page
Search

Chelsea - Brighton & Hove Albion

Keppni: EFL Carabao cup.


Tími, dagsetning: Miðvikudagur 27. september kl: 18:45


Leikvangur: Stamford Bridge


Hvar sýndur : Viaplay Ísland


Dómari: Thomas Bramall


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Jæja þá er það 3. umferð í bikarnum sem framundan er hjá okkar mönnum og gestir okkar þennann miðvikudaginn verða suðurstrandarpiltarnir í Brighton & Hove Albion en leikurinn fer fram á okkar heimavelli Stamford Bridge.


Það verður að segjast eins og er að stemmningin er ekkert að gera út af við okkur stuðningsmenn og við höfum ekkert verið að hlaupa út á náttsloppnum yfir árangri liðsins sem af er tímabili.

6 leikir eru búnir og þar erum við með 3 töp, 2 jafntefli og aðeins einn sigur sem kom á móti nýliðum Luton.

Þetta er með hreinum ólíkindum og skrítið til þess að hugsa að maður beið eftir að síðasta tímabili lyki og bjartara yrði framundan en í þessum 6 leikjum sem búnir eru hefur nákvæmlega ekkert breyst og finnst mér eins og maður sé að horfa á leiki frá síðasta tímabili í endursýningu.


Ég viðurkenni fúslega að meiðslavandræði eru að hrjá liðið og spennandi leikmenn sem komu í vor hafa ekki náð að koma sér í stand vandræðalaust og einhvernveginn læðist að manni sá grunur að að eitthvað sé bogið við sjúkraþjálfarateymið þar sem menn eru endalaust að detta í hnémeiðsli og rífa vöðva.

Poch virðist gjörsamlega ráðalaus og virðist eitthvað ragur við að gera breytingar og eina sem maður tekur eftir er að hann er að spila mönnum úr stöðum og virðist ekki sjá að þetta gengur ekki upp en lætur samt vaða.


Ef við tökum eitthvað sérstaklega út úr síðasta leik okkar manna gegn Aston Villa þá tek ég það ekki af þeim að þeir byrjuðu leikinn býsna vel og voru ógnandi og Sterling reyndi hvað hann gat en ég hef sagt áður og segi enn að Raheem Sterling hefur ekki líkamlega burði fyrir þessa deild og sérstaklega ef hann þarf að hafa fyrir hlutunum.


Jackson sem er óumdeilanlega góður í fótbolta þarf aðeins að fara að taka til í hausnum og hætta þessu eilífðarvæli í dómurunum og stramma sig aðeins af og það sama á við um Mudryk sem hefur sannarlega hraðann og tæknina en fer gjarnan fram úr sjálfum sér.

Malo Gusto náði sér í beint rautt fyrir að fara fullharkalega í tæklingu og verður í fríi í næsta leik.





Það berast fréttir af því að Poch sé kominn á hnén og biðji stjórnina um meiri tíma til að hrista menn saman en eitt er á hreinu að hann þarf að vera verulega sannfærandi til að verða bænheyrður þar sem þolinmæði hefur ekki verið sterkur faktor hjá okkar ástsæla klúbbi en þó held ég eða öllu heldur spái því að hann fái einhverja leiki til að snúa þessu við.


Það er ekkert annað í stöðunni en að vona það besta og trúa því staðfastlega að hlutirnir fari að gerast núna þegar menn eru að tínast inn úr meiðslum og það var virkilega ánægjulegt að sjá Armando Broja koma inná á móti Villa og hann virðist ákveðinn í að láta til sín taka.

Fleiri leikmenn eru í startholunum og eru Badiashile og Madueke að sögn rétt handan við hornið og það styttist einnig í Reece James.


En nóg af barlóm og kíkjum á möguleika okkar gegn Brighton.

Roberto De Zerbi hefur gert alveg magnaða hluti með Brighton liðið og sitja þeir núna í 3 sæti deildarinnar með 15 stig og eru aðeins 3 stigum á eftir toppliðinu og hafa átt gott start sem af er og eru gríðarlega vel spilandi og sterkir.

En það er nú þannig að Carabao bikarinn er allt önnur keppni og allt getur gerst en algerlega er ljóst að við þurfum að eiga toppleik til að ná viðunandi úrslitum og allt þarf að ganga upp.

Það virðist fara svolítið eftir þjálfurum hvað þeir leggja mikla áherslu á árangur í bikarleikjum og ég er viss um að De Zerbi ætlar ekki að gefa neitt eftir.

Við skulum bara vona að við eigum okkar besta leik og náum góðum úrslitum því mikið óskaplega þurfum við á því að halda þó ekki væri nema fyrir sjálfstraustið.



Chelsea:


Hvar á að byrja?

Staðan er greinilega slæm eins og er og maður sér það óhjákvæmilega á leik liðsins. Markaþurrðin er ennþá til staðar og það ætlar að taka lengri tíma en maður hélt að finna lausnir á vandamálinu en bjartsýnin eykst jú við að sjá Broja koma til baka og nú krossar maður fingur og vonar að Nkunku komi tvíelfdur til baka í nóvember.

Caicedo hefur ekki verið að finna fjölina sína og maður setur traust sitt á að hann fari að hrökkva í gang og mikið væri nú gaman ef Enzo okkar færi nú að læra enskuna betur svo hann skilji almennilega hvað hann á nákvæmlega að gera og ætti samlandi hans á hliðarlínunni að sjá til þess að hann mæti vel í enskutímana.

Ég held að það gæti gefið liðinu gott búst að ná góðum úrslitum gegn Brighton því leikjaplanið framundan er æði skuggalegt og eins gott fyrir menn að fara að hysja upp um sig. Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og hlutirnir hljóta að fara að detta með okkur.





Brighton:


Eins og áður segir eru Mávarnir frá suðurströndinni ekki auðveldir andstæðingar og þetta verður hark og ég býst við hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir. Þetta er skemmtilegt lið og þeir eru með besta stjórann í deildinni að mínu mati. Liðið hefur á að skipa hörku mannskap og þar má meðal annars nefna Mitoma, Estupinan, Tariq Lamptey, Danny Welbeck, James Milner og Ansu Fati sem er kominn til liðsins á láni frá Barcelona.

Þrátt fyrir að við höfum fengið nokkra ágæta menn frá Brighton þá held ég að það sé ekkert sérstaklega mikil ást á milli þessara liða þannig að þetta gæti orðið átakaleikur og algerlega klárt að þarna verða skoruð mörk .


Liðsuppstilling og spá :





Þá eru það vangavelturnar !

Ég hef ekki trú á að Poch geri miklar breytingar á leikskipulagi og haldi sig við 4-2-3-1.

Sanchez verður í markinu og kom hann verulega á óvart gegn Villa og átti frábæran leik.

Þar fyrir framan verða Disasi, Silva, Colwill og Chilwell og á miðjunni verða þeir Gallagher, Caicedo og Enzo.

Framarlega munu þeir Sterling og Mudryk liggja og Palmer mun verða framarlega og fara þar á kostum.

Einnig held ég að Broja fái síðasta hálftímann og skori eitt langþráð mark og ég ætla að spá okkur sigri en hann verður tæpur en við tökum þetta 2-1 og það verða þeir Broja og Sterling sem skora sitt hvort glæsimarkið.

Að lokum vil ég hvetja ykkur kæru stuðningsmenn til að koma saman og horfa hvar sem þið eruð í heiminum því nú ríður á að senda góða strauma.



Áfram Chelsea !!!!!

KTBFFH!







Comments


bottom of page