top of page
Search

Chelsea - Brighton

Keppni: Premier League

Tími, dagsetning: Laugardagur 3. desember kl: 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Dómari: Craig Pawson

Hvar sýndur: Síminn Sport 2 og helstu sportbarir landsins

Upphitun eftir: Hafstein ÁrnasonEftir frekar klaufalegt og svekkjandi tap gegn Newcastle í síðustu umferð er komið að heimaleik gegn Brighton. Leikurinn gegn Newcastle var ekkert nema eitt stórt fíaskó. Eins og við mátti búast, voru leikmennirnir frá Suður Ameríku ekkert líkir sjálfum sér eftir löng ferðalög og stutta hvíld milli leikja. Sama átti við um önnur lið samanber MacAllister og Darwin Nunez hjá Liverpool. Pochettino ákvað að hrófla frekar við varnarlínunni með því að setja Badiashile inn í liðið á kostnað Axel Disasi. Hvers vegna? Enginn veit almennilega. Varnarlínan var þá Cucu, Badiashile, Thiago Silva og Reece James. Lína sem hefur ekki spilað á þessu tímabili saman. Liðið náði ekki heldur að jafna Newcastle í ákefð á vellinum. Pochettino kvartaði sáran eftir það, og lét leikmannahópinn heyra það. Það tók einnig á að sjá reynslumestu leikmenn liðsins, Thiago Silva og Reece James, gera amatöra mistök, sem leiddu til marka og óþarfrar spjaldasöfnunar. Fullt kredit til leikmanna Newcastle fyrir frækilega frammistöðu. Við höfum ekki séð St. James' Park svona erfiðan síðan Andy Cole var senterinn.Reece James sótti sér rautt spjald í leiknum og Marc Cucurella nældi sér í fimmta gula spjaldið sitt, þannig að þeir taka út leikbann gegn Brighton. Stærsta spurningin fyrir leikinn er hvort Christopher Nkunku og Romeo Lavia verða klárir til að verða í hóp. Þeir eru sagðir vera mjög nálægt því, eins með Carney Chukwuemeka. Chilwell og Malo Gusto eru enn meiddir sem þýðir að það er enginn bakvörður er til taks. Varnarlínan verður því líklega fjórir miðverðir. Levi Colwill mun líklega leysa vinstri bakvarðarstöðuna og Axel Disasi þá hægri. Badiashile og Thiago Silva fá annað tækifæri til að sanna sig sem miðvarðarpar. Við reiknum einnig fastlega með því að Moises Caceido og Enzo verða á miðjunni ásamt Conor Gallagher. Raheem Sterling og Cole Palmer virðast vera búnir að negla stöðurnar sínar á köntunum og Nico Jackson í strikernum.


Það sem við viljum sjá, er að leikmenn eins og Mykhailo Mudryk og Noni Madueke fari að gera eitthvað almennilegt tilkall í byrjunarliðið með öflugum frammistöðum af bekknum. Madueke þarf í raun að sýna að hann eigi eitthvað erindi í ensku úrvalsdeildina yfir höfuð. Þeir sem hafa horn í síðu Nico Jackson þurfa að muna að hann hefur skorað 6 mörk í deildinni. Didier Drogba skoraði 10 mörk í deild á sínu fyrsta tímabili. Það er ansi líklegt að Jackson nái þeirri tölu. Enda nóg eftir af tímabilinu og endurkoma Nkunku mun eflaust hjálpa.Það sem vinnur með Chelsea fyrir leikinn gegn Brighton er tvennt. Það eru margar fjarvistir hjá þeim, bæði meiðsli og leikbönn, en liðið spilaði gegn AEK í Aþenu í vikunni og tryggðu sér áfram sæti í Evrópudeildinni með þunnskipaðan hóp. Það ætti að gefa eitthvað forskot, en við skulum ekki afskrifa Roberto De Zerbi og hans lærisveina. Þeir sem eru meiddir eru Webster, Ansu Fati, Danny Welbeck, Julio Enciso, Pervis Estupinán og Tariq Lamptey. Þeir eru allir í langtímameiðslum, en Solly March er tæpur. Fyrirliðinn Lewis Dunk og Mahmoud Dahoud eru í leikbanni. Líklegt byrjunarlið hjá Brighton er Verbruggen í markinu, Veltman í hægri bakverði, Igor Julio og Jan Paul van Hecke í miðvörðum og gamla kempan James Milner í vinstri bakverði. Okkar Billy litli Gilmour verður á miðjunni með Pascal Gross. Joao Pedro í holunni, Mitoma á vinstri og Adingra á hægri kant. Evan Ferguson á toppnum. Níu af þessum ellefu leikmönnum byrjuðu leikinn gegn AEK í Grikklandi á fimmtudaginn var. Nú þarf alvöru frammistöðu frá Chelsea til að mæta Brighton liðinu af hörku.


Chelsea unnu Brighton síðast í deildarbikarnum með marki frá Nico Jackson, en þá var De Zerbi að rótera liðinu. Við reiknum með því að þessi leikur verið ívið erfiðari viðureignar, þrátt fyrir aðstæður. Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að segja 3-2 fyrir Chelsea? Mitoma gegn Disasi verður áhugaverð áskorun ef Disasi verður í hægri bakverði. Kannski kemur Pochettinno okkur á óvart þar. Hverjir skora fyrir Chelsea? Cole Palmer fær víti og setur einn, en ég ætla að gerast svo djarfur og segja að Armando Broja og Christopher Nkunku komi af bekknum og skori líka. Tökum þetta á óskhyggjunni!


Við sendum einnig hugheilar kveðjur til meðlima Chelsea klúbbsins sem verða viðstaddir leikinn og þá sérstaklega til Eyvarar Halldórsdóttur. Góða skemmtun kæru félagar!


P.s. núna eru ALLRA síðustu forvöð að skrá sig í Chelsea klúbbinn til að komast á leiki þetta tímabilið. Þeir sem eiga eftir að skrá sig í klúbbinn skulu fara á www.chelsea.is og fylgja leiðbeiningum.


KTBFFH!Comments


bottom of page