Keppni: Premier League
Tími, dagsetning: Laugardagur 27. október kl: 11.30
Leikvangur: Stamford Bridge
Dómari: Simon Hooper
Hvar sýndur: Síminn sport og valdir staðir víða um land
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Kæru Chelsea aðdáendur nær og fjær. Framundan er Lundúnarslagur af ódýari týpunni, gegn Brentford á heimavelli. Það kemur í beinu framhaldi af dýrari týpunni, sem var Lundúnaslagurinn við Arsenal um síðastliðna helgi. Óhætt er að segja að fæstir bjuggust við því að Chelsea myndu fá eitthvað útúr þeim leik, en annað kom á daginn. Liðið komst í 2-0 forystu og gjörsamlega átti leikinn, að minnsta kosti í fyrri hálfleik. Þar mætti segja að Pochettino hafi skákað Arteta taktíkst séð, og það býsna vel. Hinsvegar gerðist Robert Sanchez sekur um slæm mistök sem hleypti Arsenal aftur inn í leikinn, eiginlega óverðskuldað. Leikar enduðu 2-2 sem var ansi svekkjandi miðað við þróun leiksins. Chelsea miðjumennirnir virðast vera finna sína fjöl og í hinu taktíska uppleggi náði Pochettino gjörsamlega að slökkva á Martin Ödegaard í Arsenal. Það gekk ekkert upp hjá þeim Norður-Lundúnamönnum. En þrátt fyrir það fengum við ódýrt mark á okkur frá Declan Rice eftir að Sanchez mætti með silfurfatið, og Cucurella sá ekki við Trossard í jöfnunarmarkinu. Eftir situr frekar svekkjandi jafntefli, sem bætist ofan á Liverpool leikinn frá því fyrst á tímabilinu. Við áttum að taka 6 stig útúr þessum leikjum gegn þessum liðum. Ákveðin sárabót var þó fólgin í því að Mykhailo Mudryk skoraði gegn Arsenal. Eftir situr sú hugsun að Pochettino virðist vera koma liðinu á rétt ról. Við erum að sjá framfarir, sérstaklega eftir það að liðið hætti að pressa andstæðingana alveg niður í teig. Hann hefur ábyggilega hlustað á Nonna Coach með að draga sig örlítið meira til baka og nýta skyndiáhlaup. Það virðist bera árangur.
Lítið er að frétta utan vallar, nema hvað þau stórgóðu tíðindi bárust að Christopher Nkunku er byrjaður að æfa aftur með liðinu og það virðist styttast í það að hann komi aftur á völlinn. Við getum a.m.k. þorað að vona að það verði á þessu ári, kannski í nóvember. Hinsvegar kom bakslag í meiðslin hjá Carney Chukwuemeka og Romeo Lavia. Lavia virðist ætla vera mjög lengi frá, sem er kannski alltílagi miðað við úrval leikmanna sem er í boði um þessar mundir.
Lánsmenn liðsins sem eru hjá öðrum liðum gengur misvel. Andrey Santos virðist ekki fá neitt tækifæri hjá Nottingham Forest og hefur verið gefið leyfi til að taka þátt í landsliðsverkefni hjá Brasilíu í U23 liði sem tekur þátt í einhverju pan-amerísku móti landsliða þessa dagana. Það þýðir að hann verði frá næstu 2-3 leiki hjá Forest. Cesare Casadei virðist ganga ágætlega hjá Leicester sem sitja á toppi Championship deildarinnar og spila þennan glimrandi fótbolta undir Enzo Maresca, fyrrverandi lærisveini Pep Guardiola. Hann fær að spila ansi reglulega og framtíðin virðist björt. David Datro Fofana virðist vera búinn að koma sér í eitthvað klandur hjá Union Berlin. Hann neitaði að taka í hönd þjálfara við lok leiksins gegn Napoli og uppskar einhverskonar agabann fyrir vikið. Það virðist vera eitthvað ótstyrkt ástand í Berlínarborg þar sem Bonucci var fleygt útúr byrjunarliðinu líka. Vonumst að þetta reddist fljótt.
Framundan er leikur við Brentford á heimavelli. Það sem er okkur til happs er að meiðslalistinn hjá Brentford er ansi langur. Dasilva, Lewis-Potter, Schade, Damsgaard, Henry og Baptiste eru meiddir og Ivan Toney er ennþá í leikbanni. Það munar mjög miklu fyrir Brentford að hafa misst Toney útúr liðinu því liðið er mjög duglegt að skapa sér færi, en eftir að Toney datt út, þá hefur þeim gengið brösuelga að skora í hlutfalli við það sem liðið skapar. Damsgaard er einnig stórt skarð í liðinu hvað spilið þeirra varðar. Eftir stendur Thomas Frank með lið sem er ólíkindatól. Þeir eru helvíti öflugir í föstum leikatriðum og Mbuemo er þeirra hættulegasti leikmaður. Veikleikar Brentford felast í því þegar liðið fer upp í föst leikatriði, þá virka þeir opnir til baka. T.d. þegar miðverðir fara upp í hornspyrnum og í öðrum föstum leikatriðum. Þá eru tækifærin til þess að refsa þeim ansi duglega. Það er samt líklegt að leikurinn verði dáldið lokaður og lítið um færi.
Ég býst fastlega við því að Pochettino leiti aftur í öruggt skjól hvað leikaðferðina varðar. Sanchez verður áfram í markinu, en Colwill fer í vinstri bakvörðinn, Thiago Silva og Disasi í miðvörðum og Malo Gusto í hægri bakverði, þrátt fyrir að Reece James sé orðinn klár. Miðjan verður óbreytt með Caicedo, Enzo og Conor. Framlínan verður breytt, að því leytinu að Mudryk dettur út fyrir Nicholas Jackson, og Sterling fer á vinstri á meðan Cole Palmer heldur sætinu sínu eftir nokkuð góða leiki upp á síðkastið. Þessi leikur gæti unnist á föstum leikatriðum og undirritaður telur það líklega forsendu fyrir því að byrja með Disasi og Jackson, en skilja eftir Mudryk og Cucurella, þrátt fyrir prýðilegar frammistöður. Við þurfum hæð í þennan leik. Þetta verður brösulegur leikur, rétt eins og allir Lundúnarslagir eru fyrir Chelsea. Sama hvort það sé Brentford, QPR, Millwall, West Ham eða litli Tottenham klúbburinn.
Hvernig fer leikurinn? Ég segi að þetta fari 1-0 fyrir Chelsea og enginn annar en faðir vor, Thiago Silva skori eftir skalla úr hornspyrnu. Tími til kominn að fá þannig mark!
KTBFFH!! Munið svo kæru krakkar að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Fáið ódýrari miða á leik og fleiri fríðindi. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments