top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea - Bournemouth

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 13 minutes ago
  • 6 min read

Keppni: Úrvalsdeildin, 19. umferð

Tími, dagsetning: Þriðjudagur 30. desember  kl. 19:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Dómari: Samuel Barrott

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason


ree

Það er óhætt að segja að desember hefur verið dálítið grimmur við Chelsea undanfarin ár. Leikurinn á laugardag gegn Aston Villa fer í sögubækurnar sem algjör vonbrigði. Byrjunarlið Maresca var sterkt á pappír fyrir utan að Badiashile var í vörninni á kostnað Wesley Fofana sem lék gegn Newcastle í leiknum áður. Það hafa engar skýringar borist á því - en ef við ættum að giska, þá er þetta væntanlega álagsstýring, enda stutt á milli leikja þessa dagana. Chelsea stóð sig mjög vel framan af leiknum. Liðið átti fyrri hálfleik með punkt og prik. Liðið hélt boltanum 70% af leiknum og hélt Aston Villa liðinu á eigin vítateig lungan af leiknum. xG hjá þeim var 0.0 í fyrri hálfleik. Yfirburðirnir voru algerir, en við náðum ekki að nýta okkur stöðurnar. Markið hjá Chelsea var í raun slysamark þar sem hornspyrna Reece James flaug yfir óáreitt og lenti aftan á kálfanum hjá Joao Pedro sem skoppaði nánast óvart í netið. Yfirburðirnir héldu áfram inn í seinni hálfleikinn, þar sem Chelsea var að baka Aston Villa, en Unai Emery brást við með þrefaldri skiptingu þegar klukkutími var liðinn af leiknum. Við þetta breyttist dýnamíkin og Aston Villa fjölgaði um einn mann á miðjunni. Þetta riðlaði öllu skipulagi og Enzo Maresca var skákað rækilega af þeim spænska. Í slíkri óreiðu þurfa miðjumennirnir að vinna yfirvinnu. Við höfum séð Moises Caciedo og Enzo töluvert betri en þeir sýndu þarna í seinni hálfleik. Þetta varð til þess að Benoit Badiashile ákvað að reyna langa sendingu útúr vörninni beint upp á Joao Pedro. Það mistókst og Ollie Watkins jafnaði leikinn. Við þetta litla móment hvarf sjálfstraustið úr liðinu og sérstaklega Badiashile. Viðbrögð Maresca voru skrítnar, "like for like" skiptingar. Að vísu þurfti að skipta Cucurella útaf vegna meiðsla - eitthvað sem undirritaður hefur búist við að myndi gerast, þar sem sá spænski fær varla hvíld eftir 5000 spilmínútur á síðasta tímabili. Garnacho fór útaf fyrir Gittens og Joao Pedro fyrir Delap. Þolinmæðin fyrir Liam Delap er alveg að syngja sitt síðasta í ljósi þess að hann safnar fleiri gulum spjöldum en mörkum. Cole Palmer fór útaf fyrir Estevao skömmu síðar, þeim fyrrnefnda til mikillar armæðu. Við höfum kannski í mesta lagi fengið að sjá Palmer og Estevao spila saman í svona klukkutíma á öllu tímabilinu. Sú staðreynd er mjög frústrerandi. Aston Villa komust svo yfir með skallamarki úr hornspyrnu og aftur var Ollie Watkins á ferðinni. Ekki veit ég hvað Cueva er að gera þessa dagana með föstu leikatriðin en varnarleikurinn í þessu leikatriði var ekki til útflutnings. Chelsea náðu svo ekkert að setja sitt mark á leikinn, og þessi svarthvíta frammistaða - frábærir í fyrri hálfleik, ömurlegir í seinni, setur ljótan blett á Enzo Maresca. Unai Emery hafði lesið hann eins og opna bók unnið þennan taktíska bardaga mjög sannfærandi.


Það er óhætt að segja að það hafi slegið aðeins á ásýnd Maresca að undanförnu. Hann hefur verið frábær á tímabilinu gegn betri liðum, að Bayern undanskildum, en hann hefur engin svör við djúpblokkinni. Hann er líka í átökum við stjórnina, fyrst fyrir tímabilið vildi hann fá nýjan miðvörð en stjórnin neitaði að verða við þeirri beiðni. Hann hefur núna verið að senda skringileg skilaboð út á við, t.d. talandi um verstu 48 klukkustundir sinnar viðveru hjá Chelsea fyrir leik um daginn, án þess að neinar skýringar fylgdu í kjölfarið. Hann útskýrir frammistöður útfrá reynsluleysi, en þó er reyndasti leikmaður liðsins, Tosin - er sennilega einn mest óáreiðanlegasti liðsmaðurinn. Við þurfum líka að horfa á alla þessa leikmenn sem hafa komið í gegnum tengslin við akademíu Manchester City. Joe Shields hefur borið ábyrgð á því að mestu leyti. Hann er ástæðan fyrir því af hverju við höfum Cole Palmer, Romeo Lavia, Tosin Adarabayo, Liam Delap og Jadon Sancho til skamms. Þeir eru allir City akademíuleikmenn og Shields var starfsmaður þeirra akademíu. Það er leiðinlegt hvað Lavia hefur verið meiddur en Liam Delap verður að sýna hvers vegna hann var keyptur til Chelsea. Delap hefur fengið tækifæri í níu leikjum á tímabilinu, þar af sex í byrjunarliðinu. 12 skot, ekkert mark, og xG uppá 0.82 - þetta eru ömurlegar tölur. Á einhverjum tímapunkti þarf að taka stöðuna á honum. Joao Pedro er ekki hreinræktaður striker en Delap á að vera það. Þessar aðstæður láta Chelsea líta út fyrir að það sé enginn framherji í liðinu. Að sama skapi fáum við töluvert meiri vinnusemi frá Marc Guiu þegar hann fær sénsinn, en einhvern veginn er ekki nein tiltrú að við séum með alvöru bomber í liðinu. Brotthvarf Nico Jackson lítur því helvíti kjánalega út núna. Það sama má segja um vörnina enda var stjórnin í því að reyna koma Trevoh Chalobah út með öllum tilteknum ráðum síðustu glugga. Staðan er þó þannig í dag að hann er okkar langbesti miðvörður og sá áreiðanlegasti. Badiashile, Disasi og Tosin eru enn á launaskrá og það verður að segja það hreint út. Þeir eru ekki í neinu sem mætti kalla heimsklassa. Þeir eru í besta falli miðlungsleikmenn sem eiga ekkert erindi. Við munum eftir Acheampong í leiknum gegn Liverpool, en hann hefur varla fengið tækifæri í miðverðinum til móts við Fofana. Hvað veldur því er erfitt að segja, en það lítur út fyrir að við erum með þrjá leikmenn í sömu stöðu. Þeir eru miðverðir og allir byrði á launaskrá. Núna kemur það kannski til að bíta stjórnina í rassinn með þessa langtímasamninga. Tosin, Badiashile og Disasi verða að fara, helst sem fyrst.


Nýtt ár er handan við hornið og þá opnar janúar markaðurinn. Það er nákvæmlega ekkert tal um nýja leikmenn til liðsins, enda ekkert pláss í liðinu nema einhverjir fari. Það er helst talað um Disasi sé förum, og vonandi fer Raheem Sterling annað, en það er ekkert sem blasir við eins og staðan er núna. Við fengum líka slæmar fréttir frá Ítalíu, þar sem liðið hefur verið orðað við Mike Maignan í tæpt ár. Nú bárust þær fréttir að AC Milan hefur lagt samningstilboð á borðið. Það er óhætt að segja að ítalska liðið fer "all in" í samningum. Mike Maignan eru boðin árslaun upp á 7 milljónir evra (nettó). Hann bað um 7.5 milljónir. Þetta mun gera hann að launahæsta leikmanni liðsins ásamt Rafa Leao. Þetta er líka 3+1 samningur, sem verður að teljast vel í lagt fyrir markmann kominn yfir þrítugsaldurinn. Mun Chelsea bjóða annað eins? Það verður að teljast nokkuð ólíklegt, sérstaklega í ljósi þess hvernig Mike Penders stendur sig hjá Strasbourg. Það verður að teljast ólíklegt að Chelsea bjóði annað eins fyrir Maignan, þannig að þessi gjörningur hjá Chelsea við Milan í júní lítur enn kjánalegri út fyrir vikið. Það er þó ákveðin von að Robert Sanchez hefur bætt sig töluvert á milli stanganna. Stjórn Chelsea þarf að selja okkur þá hugmynd að það sé mikil vinna unnin á bakvið tjöldin sem færir liðinu leikmenn sem bæta liðið. Winstanley kom frá Brighton og sótti haug af Brighton leikmönnum, síðast Buonanotte. Stewart kom frá Monaco og sótti Disasi og Badiashile þaðan. Shields kom með alla unglingana frá City. Við þurfum að fá einhverja leikmenn sem eru afurðir af rannsóknarvinnu og gagnagreininga, en ekki tengslanets fyrrverandi vinnustaða stjórnarmanna. Ef það verður ekki viðsnúningur á gengi liðsins í náinni framtíð fara stuðningsmenn að kurrast. Maresca virðist ekki treysta sumum leikmönnum sem verður þess valdandi að sumir þeirra eru rúnir sjálfstrausti. Með Cucurella meiddan erum við í vandræðum með vinstri bakvarðarstöðuna. Framundan er leikur við Bournemouth þar sem við mætum Iraola og félögum. Síðasti leikur fór markalaust jafntefli fyrr í mánuðinum. Það er eiginlega allt sem segir manni að þetta verði erfitt fyrir liðið. Raunar verður janúar jafn strembinn og desember, þar sem leikirnir eru níu talsins, þar á meðal FA Cup leikur gegn Charlton og undanúrslitinn í Deildarbikarnum gegn Arsenal, þar sem leikið er heima og að heiman. Meistaradeildin klárast svo með leikjum við Napoli og Pafos. Maresca á alla mína samúð við að koma þessu öllu fyrir en með leikmenn sem þurfa álagsstýringu eins og Cucurella, Lavia, Reece James og Wesley Fofana. Við ættum að búast við fleiri álagsmeiðlsum ef eitthvað er.


ree

Bournemouth hafa ekki unnið leik síðan í október, en þeir ná gjarnan jafnteflum, eins og gegn okkur og Manchester United nýverið. Semenyo hefur verið orðaður frá félaginu en mér þykir vera allar líkur á því að hann spili með að þessu sinni. Evanilson verður líka okkur erfiður eins og í fyrri leiknum. Hvernig stillir Maresca upp að þessu sinni? Hann hlýtur að vera hugsa um City leikinn næstu helgi, þannig að við segjum að Sanchez verði í markinu. Jorrel Hato verður í vinstri bakverði, Malo Gusto í hægri. Chalobah og Fofana í miðvörðum, þó það væri áhugavert að sjá Acheampong fá traustið. Treystir hann Badiashile og Tosin, þetta væri klárlega leikur til að rótera fyrir þá, en ég sé það ekki gerast. Andrey Santos og Caicedo verða á miðjunni. Cole Palmer fær sína stöðu, en Enzo Fernandez verður hvíldur. Jamie Gittens væri vinstri kantinn og Liam Delap fær annað tækifæri upp á topp. Hvort hann byrji Estevao eða Pedro Neto á hægri á eftir að koma í ljós, en það væri óskandi ef hann myndi loksins gefa Cole Palmer og Estevao tækifæri í byrjunarliðinu. Það gerðist síðast gegn Manchester United þar sem Estevao var kippt strax útaf vegna rauða spjaldsins á Robert Sanches. Það verður að koma sigur hér í þessum leik. Jafntefli væri gríðarleg vonbrigði og tap á heimavelli væri reiðarslag. Við búumst við lokuðum og leiðinlegum leik, en vonandi dugir það til að fá þrjá punkta heim í hús og smá pepp fyrir leikinn gegn Manchester City næstu helgi. Segjum 1-0 iðnaðarsigur og Delap komist upp fyrir einn í xG með því að skora.


Áfram Chelsea

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page