top of page
Search

Chelsea - Bournemouth

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 19. maí kl: 15:00

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Anthony Taylor

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason



Það er óhætt að segja að leikurinn gegn Brighton var nokkuð léttur, satt best að segja. Pochettino virðist hafa fundið einhvern vísi að sínu sterkasta byrjunarliði. Chelsea var með þennan leik í teskeið lungan af leiktímanum. Cole Palmer skoraði skallamark sem minnti mann á Jurgen Klinsmann eða Oliver Bierhoff. Eiginlega galið mark. Í seinni hálfleik kom Christopher Nkunku inná og átti margar efnilegar sóknir. Hann náði svo að skora mark, með alveg æðislegu slútti. Það er svo margt sem heillar við Nkunku. Hann er hreint út sagt frábær leikmaður á litlu svæði. Hreyfingarnar og innsæið fyrir spili er framúrskarandi. Það er grátlegt hvað við höfum fengið að sjá lítið af honum í vetur, eftir efnilegt undirbúningstímabil.


Dómarinn var þó lélegasti maðurinn á vellinum og létt Cobham kadettinn Tariq Lamptey sleppa við rautt spjald, þegar hann body-checkaði Mudryk með þeim afleiðingum að hann fékk heilahristing. Þetta var skoðað í VAR en af einhverjum undarlegum ástæðum var ekkert dæmt. Eins og þetta hafi verið eitthvað slys. Ég hef sjálfur verið á VAR vagninum, en þegar óvitar eru að taka ákvarðanirnar, þrátt fyrir ítrekaðar endursýningar, þá endum við alltaf á sama punktinum. Það nánast skiptir ekki máli að vera með VAR á Englandi. Er þetta dómarasamsæri gegn Chelsea? Munum eftir hártoguninni á Marc Cucurella gegn Tottenham á síðustu leiktíð. Bolti-í-hönd á Grealish í FA bikarundanúrslitaleiknum um daginn. Þetta er hætt að vera fyndið. Reece James fékk þó réttilega að líta rauða spjaldið fyrir ákaflega heimskulegt hefnibrot gegn leikmanni Brighton. Hann byrjar því næstu leiktíð í þriggja leika banni, þar sem hann tekur út leikbann í lokaleiknum. Hann fékk tvö rauð spjöld í deildinni í 10 leikjum. Geri aðrir betur. Við þetta kviknaði smá líf í Brighton liðinu sem varð til þess að þeir laumuðu einu marki frá Danny Welbeck. Leikmaður sem virðist bara skora gegn Chelsea, alveg hreint magnað. Leikar enduðu 2-1 og við komnir í 6. sætið í deildinni. Fimmta sætið er í skotlínunni, þar sem við erum þremur stigum á eftir Tottenham. Ef Spurs gera "Spursy" hluti, þá gætum við alveg eins átt von á því að komast upp fyrir þá. Ef við höldum 6. sætinu, þá erum við tryggðri í Sambandsdeild Evrópu, en sennilega endum við í Evrópudeildinni þar sem FA bikarsætið mun líklega fara til Manchester City, þar sem þeir eru töluvert líklegri en Manchester United í þeirri keppni. Sama hvort af verður, þá verður það að teljast viðunandi árangur að fara úr þrotinu á síðasta tímabili í evrópusæti. Það hafa margir verið á PochettinoOUT vagninum í vetur, en þessi langþráði stöðugleiki sem undirritaður kallaði eftir, hefur reynst aldeilis mikilvægur. Það væri í raun glapræði að skipta um knattspyrnustjóra í þessum aðstæðum. Sá argentínski hlýtur að fá eitt tímabil í viðbót til að þróa liðið.


Það gengur töluvert betur hjá Chelsea dömunum, þar sem þær tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í kvennadeildinni. Emma Hayes færi því að kveðja klúbbinn með titli, en stelpurnar voru grátlega nálægt því að komast í úrslitaleik meistaradeildinnar, en lutu í lægra haldi gegn ríkjandi evrópumeisturum Barcelona. Emma Hayes kveður Chelsea klúbbinn sem "Chelsea legend". Hún er horfin á vit nýrra ævintýra með bandaríska kvennalandsliðinu. Við óskum henni að sjálfsögðu velfarnaðar í nýju starfi en látum þessa geggjuðu mynd fylgja leiknum í dag gegn Manchester United, sem vannst 6-0. Talandi um að klára leiktíðina með stæl!



Todd Boehly og félagar hafa verið uppteknir við að ganga frá fyrstu kaupum sumarins. Chelsea eru að fara kaupa hinn 17 ára gamla Estevao Willian frá Palmeiras fyrir hvorki meira né minna en 29 milljónir punda. Heildar upphæðin gæti náð 55 milljónum punda ef allar klásúlur eru virkjaðar. Það er meira en Neymar fór frá Santos til Barcelona (51m). Athugið líka að hann Estevao má ekki spila með Chelsea fyrr en hann verður 18 ára, sem er í apríl á næsta ári. Chelsea borga uppsett verð og fæla þannig samkeppnina frá Barcelona og Arsenal samkvæmt fréttamiðlum. Aðrar ánægjulegar fréttir í vikunni fengust að Cole Palmer hafi verið valinn besti ungi leikmaður tímabilsins. Það þarf ekkert að koma á óvart, hann hefur verið framúrskarandi.




Við erum að fara kveðja Thiago Silva. Leikurinn gegn Bournemouth verður lokaleikur þessa höfðingja. Hann var í ítarlegu viðtali við SkySports (sjá að ofan) þar sem hann lýsti veru sinni í Chelsea. Það kemur glöggt í ljós að þetta er fagmaður fram í fingurgóma. Þarna sjáum við hvers vegna hann getur spilað tæplega fertugur á hæsta stigi í ensku úrvalsdeildinni og verið enginn aukvisi þar. Hann talar líka af mikilli reynslu og visku. Það er ljóst að við eigum eftir að sakna Thiago Silva, og hann á eftir að sakna Chelsea. Hann verður klökkur þegar hann talar um samband sitt við stuðningsmenn félagsins og segir ungu leikmennina taka því sem sjálfsögðum hlut, jafnvel þegar liðið spilar illa. Liðin eru grýtt í heimalandinu hans, ef þau bjóða upp á þá spilamennsku sem hefur sést til Chelsea á þessu tímabili. Hlutirnir þurfa að taka breytingum á næsta tímabili. En því miður, þá mun hann mun eitt eða tvö tímabil með Fluminense í heimalandinu, en ég þykist fullviss um að hann komi til baka í Chelsea með einum eða öðrum hætti í nálægri framtíð. Leikurinn gegn Bournemouth verður því væntanlega heiðurs- og kveðjuleikur "Faðir vors", Thiago Silva.


Bournemouth mæta til leiks með Cobham leikmanninn Dominic Solanke. Sá hefur komið á óvart að undanförnu, sem og allt Bournemouth liðið undir stjórn Andoni Iraola. Sá baskneski hefur aldeilis þrykkt þessu þrotaða liði upp töfluna. Flestir spáðu liðinu falli fyrir tímabilið, en þeir sitja sáttir í 11. sætinu með 48 stig líkt og Brighton. Chelsea hefur einhverju að keppa, en Bournmouth eru vonandi komnir frí, - hugurinn ber þig hálfa leið eins og segir í auglýsingu Icelandair. Fyrri leikurinn endaði í markalausu jafntefli á suðurströndinni og Chelsea hefur verið á góðu skriði að undanförnu. Mikhaylo Mudryk bættist við á meiðslalistann þar sem hann má ekki spila útaf heilahristingnum sem hann hlaut eftir árásina frá Lamptey. Reece James í leikbanni eins og áður sagði. Wesley Fofana er sagður ennþá óleikfær, þannig að hann nær engum leik á þessu tímabili. Líklegt byrjunarlið hjá Chelsea verður því Petrovic í markinu, Cucurella í vinstri bakverði, Malo Gusto í hægri. Thiago Silva og Trevoh Chalobah verða miðverðir. Caicedo, Gallagher og Palmer eru á miðjunni, Raheem Sterling á vinstri kanti, Nonni Madueke á hægri og Jackson á toppnum. Það væri gaman að sjá Nkunku fá startið, en einhvernveginn finnst manni að menn þori því varla, jafnvel í síðasta leiknum. Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að segja öruggur 2-0 sigur. Cole Palmer og Nkunku með mörkin!


Nú þegar tímabilinu er að ljúka er rétt að staldra við og líta um öxl. Við hjá CFC spurðum nokkra Chelsea spekúlanta - m.a. meðlimi í stjórn Chelsea klúbbsins á Íslandi, Blákastinu, CFC og í Chelsea samfélaginu á facebook. Hvernig er tilfinningin fyrir þessu tímabili og hvernig væntingarnar eru til framtíðar. Þetta er dálítið uppgjör við tímabilið sem nú er að líða undir lok. Viðmælendur voru Jóhann Már Helgason, Snorri Clinton, Þór Jensen og Stefán Marteinn úr Blákastinu. Starkaður Örn Arnarsson úr stjórn Chelsea klúbbsins. Björgvin Óskar Bjarnason og Eyvör Halldórsdóttir, virkustu meðlimir Chelsea samfélagsins á facebook og Þráinn Brjánsson, Markús Pálmason og Hafsteinn Árnason pistlahöfundar CFC.


Tímabilið hjá Chelsea - 2023 til 2024:


Hvernig metur þú tímabilið hjá Chelsea miðað við þínar eigin væntingar fyrir tímabilið?

Stefán Marteinn:

Ég vildi sjá meistaradeild. Ef Liverpool hefði ekki drullað á móti Atalanta þá væri það enn séns með fimmta sætið en það er bara eins og það er. Lítur út fyrir að það verði allavega Evrópa næsta tímabil svo ég tek því. Allt í lagi, ekki gott en vonandi er búið að byggja góðan grunn til að taka þetta enn lengra á komandi tímabilum.


Jóhann Már Helgason:

Tímabilið hefur því miður einkennst af miklum óstöðugleika, í raun hefur eini stöðugleikinn verið óstöðugleikinn inni á vellinum. Þetta kristallast í því að liðið sýndi oft frábærar frammistöður gegn Man City, Arsenal og Liverpool  en tapaði stigum gegn Burnley (heima), Sheff Utd (úti) og Nott Forest (heima). Ég stillti væntingum í hóf fyrir tímabilið og hefði talið það framúrskarandi árangur að ná Meistaradeildarsæti m.v. allar breytingarnar, aldur hópsins og að nýr þjálfari tók við sl. sumar. Þessi sterki lokasprettur sem liðið er að eiga gerir það að verkum að tilfinningin er ekki eins súr og hún hefði verið fyrir 1-2 mánuðum. En heilt yfir olli liðið mér vonbrigðum og þá sérstaklega hversu óstjórnlega slakir við verðum þegar við eigum „off“ dag. Einkenni góðra liða er vinna líka leikina sem þú ert ekki upp á þitt besta – við erum býsna langt frá því


Björgvin Óskar Bjarnason:

Miðað við undirbúningstímabilið og leikmannakaupin þá gerði ég mér von um að Chelsea mundi berjast um sæti 5-8 sætið. En meiðsl leikreyndra lykilmanna sem og annarra sem keyptir voru setti strax svip á leiki og árangur liðsins. “Dýru” miðjumennirnir okkar voru ekki að virka og reynsluboltinn sem við keyptum í Sterling var oft hálf vindlaus. Frá jólum hefur liðið farið ört vaxandi þótt stöðuleikann hafi vantað. Sérstaklega á móti “minni máttar” liðum sem nýttu sér einfalda varnartaktík (lágvörn) og beittu skyndisóknum gegn Chelsea með góðum árangri. Vörn Chelsea er búin að vera skelfileg lungann úr vetrinum. Mest vegna meiðsla leikmanna þannig að varnarlínan var næstum aldrei sú sama og síðan endalaust fikt Poch með að leika mönnum “út úr stöðu”.  


Þráinn Brjánsson:

Mínar væntingar til liðsins á tímabilinu voru í byrjun miklar, en róðurinn fór að þyngjast með hverjum leik sem spilaður var og Poch virtist ekki ætla að finna taktinn. Eftir sem á leið fór um mann ónotatilfinning sem maður fann óþægilega oft fyrir á tímabilinu 2022 til 2023 og hún hefur eiginlega fylgt manni alveg fram í apríl en þá fór örlítið að rofa til og endaspretturinn virðist ætla að verða ánægjulegur og hyllir undir evrópusæti og það var ekki eitthvað sem var í spilunum fyrr í vor


Starkaður Örn Arnarson:

Bjóst við betri frammistöðu, hef haft trú á Poch og framanaf leit þetta mjög illa út. Ótrúlegur endasprettur er að bjarga andlitinu þrátt fyrir að vera undir væntingum. Chelsea á alltaf að vera í meistaradeildarsæti, svo einfalt er það.


Þór Jensen:

Heilt yfir lélegt, en góður endir bjargar því. Gott að sjá shape-ið á liðinu undir lokin, en Poch hefði mátt finna það fyrr. 


Snorri Clinton:

Sko, ég er svolítið eins og laukur með þetta svar, það eru þónokkur lög. Fyrir tímabilið var ég tilbúinn að sætta mig við það að ná ekki meistaradeildinni. Mér fannst það fjarstæður draumur að ná topp 4 en spáði okkur einhversstaðar á milli 5-7 sæti. Svo yfir tímabilið er maður búinn að fara fram og tilbaka með það að finnast við ömurlegir frá því að vera geggjaðir. En maður þarf að spyrja að leikslokum og það er sannarlega komið að þeim. Ef við höldum okkur í 6. sæti þá verð ég að teljast nokkuð sáttur með lífið þó svo að ferðalagið hafi verið eins og versti malavegur.Ég tala nú ekki um ef við náum að stela 5. sætinu.


Eyvör Halldórsdóttir:

Ég átti kanski ekki von á góðu en ekki eins slæmu og það var sérstaklega fyrripart tímabilsins. En þeir eru aldeilis búnir að taka sig á, það var eins og nýtt lið mætti eftir Aston Villa leikinn þar sem var jafntefli. Fyrir mér var jafntefli sama og tap því þetta var búið að vera svo ömulegt tímabil. En núna hafa þeir heldur betur gefið allt í botn og eru farnir að ná takti og spila sem heild og þekkja á hvorn annan. Ég spái að það sé að koma flott tímabil hjá strákunum og vona að það verði bara ekki of miklar breytingar.


Hafsteinn Árnason:

Eftir smjög sprækt undirbúingstímabil fór maður alveg yfirgíraður inn í tímabilið. Viðurkenni þó að hnökrar með meiðsli Wesley Fofana og Christopher Nkunku voru vonbrigði, en maður hafði samt trú á einhverju jákvæðu. Haustmánuðirnir voru eins og köld vatnsgusa. Ég stóð samt keikur á bakvið Poch, megnið af tímabilinu en eftir tapið gegn Arsenal þá steig ég af Poch vagninum. Sem betur fer hófst þessi föníska upprisa eftir þann leik og það lítur út fyrir að stöðugleikinn sem ég þráði svo innilega heitt, verði a.m.k. fram á næsta tímabil. Pochettino rétt bjargar andlitinu með þessum öfluga endaspretti. Markús Pálmason:

Að sjálfsögðu voru menn með miklar væntingar fyrir komandi tímabili eftir kaup sumarsins. Nýr þjálfari og fullt af spennandi ungum leikmönnum. En eftir því sem leið á tímabilið rann það uppi fyrir manni að þetta yrði ekki “gönguferð í garðinum” og þetta væri alvöru project sem myndi taka tíma. Að enda tímabilið á góðum bikar ævintýrum og evrópusæti er alls ekki hræðileg niðurstaða þegar uppi er staðið.


Hvaða einkunn gefur þú Mauricio Pochettino fyrir frammistöðu tímabilsins? 


Stefán Marteinn:

Úr því sem komið er solid 7-8. Fyrir áramót og að febrúar var maður á því að þetta væri ekki málið og þyrfti að losa en frá mars og upp þá hefur þessu vaxið ásmegin. Ef hann nær 5. sætinu (sem er möguleiki) þá er það þjálffræðilegt afrek.


Jóhann Már Helgason:

Poch stendur núna í einkunni 6,0. Hann hefur reynt að halda í sín gildi, pressa hátt o.s.frv. og honum tókst að lagfæra sóknarleik Chelsea sem var búinn að vera mjög dapur undanfarin tvö tímabil. En varnarleikurinn hefur ekki verið upp á marga fiska enda hefur Chelsea aldrei fengið á sig jafn mörg mörk í ensku Úrvalsdeildinni. Hann fær ríkulegan afslátt hjá mér út af öllum þessum meiðslum og þessum lokaspretti sem er meginástæðan fyrir því að ég vil halda honum á næsta tímabili. 


Björgvin Óskar Bjarnason:

Mér fannst Pochettino verulega aðgerðalítill fram eftir vetri. Auðvitað hrjáði mikil meiðsli liðið, en maður sá enga sýnilega taktík í gangi. Innáskiptingar voru ekki að virka og hálfleiksræður virkuðu oftar eins og svefnmeðal en hvatning. Chelsea sýndi stundum frábæran fyrri hálfleik en virtust utan við sig í þeim seinni. Auðvitar vantar reynslu og leiðtoga í þetta unga lið. Það er stjórans verk að bæta því við sem á vantar. En það er eins og Poch væri sama (mín tilfinning), það er eins og hann væri þarna af skyldurækni og já-maður BlueCo. Og flestir töldu hann á útleið sem stjóri Chelsea. Þangað til eftir rassskellinguna gegn Arsenal eða frekar eftir fyrri hálfleik í næsta leik gegn Aston Villa. Frá og með því er okkar leikmenn komu út út búningsklefanum í hálfleik á Villa Park hefur Poch verið eins og andsetinn. Chelsea fór að leika taktíst, hann skipti inn á af skynsemi og djöflaðist á hliðarlínunni til að láta í ljósi að honum væri ekki sama. Hann meira að segja fór að “rífa kjaft” á sinn kurteis máta og reis greinilega upp á móti sínum yfirboðurum. Allavega hefur Chelsea ekki tapað leik síðan Arsenalklúðrið og Pochettino er búinn að tutla liðinu upp í dauðafæri við Evrópubolta fyrir síðasta leik vetrarins. Ég segi bara. Vel gert “nýji andsetni” Pochettino. 


Þráinn Brjánsson:

Ég á svolítið erfitt með að gefa Poch einkunn fyrir þetta tímabil, þar sem framan af tímabili var ég alls ekki sannfærður um að hann væri rétti maðurinn en hann hefur vaxið í starfi og virðist nokkuð öruggur. Hann er ólíkindatól og að mörgu leyti mistækur en hann fær 6 af 10 hjá mér.


Starkaður Örn Arnarson:

Hefur batnað talsvert frá jólum en samt brothætt og of oft hef ég upplifað þjálfarann ráðalausan. Hann fær max 6,5.


Þór Jensen:

6,5


Snorri Clinton:

Ég veit ekki hversu oft ég hef hoppað af og á #PochOut vagninn á tímabilinu en þáð er nokkuð oft. Ég lét það nú samt út úr mér í Blákastinu í febrúar að við verðum að líta á þetta í stærra samhengi heldur bara staðan á töflunni. Poch tók við glænýju liði í sumar og hafði hluti af þessu liði aðeins spilað saman frá því í janúar en stór hluti kom líka inn í sumar. Það eitt og sér er hausverkur. Poch þurfti líka að glíma við alls konar meiðslavesen (54 mismunandi meiðsli og leikmenn misst af yfir 300 leikjum) ofan í nýtt og reynslulítið lið. Þannig ef við tökum þetta allt með í jöfnuna þá verður að segjast að hann er búinn að gera mjög flotta hluti, þó svo að manni hafi fundist hafa vantað taktík hjá honum mest megnið af tímabilinu. Þá ber helst að nefna þegar hann hefur kosið að spila mönnum úr stöðu víða um völl og svo glórulausar skiptingar. En heilt yfir verð ég að gefa honum Poch heiðarlega 7 í einkunn.


Eyvör Halldórsdóttir:

Ég var nú alveg dottin af vagninum hans Poch í restina áður en þeir tóku sig á, en það hefur breyst hjá mér og er ég farin að hafa trú á honum og að hann hafi áhuga á liðinu og það eigi ekki að reka hann. Finnst eins og strákunum líki vel við hann og hann sýni þeim hlýju sem margir af þeim þurfa verulega á að halda þar sem þeir eru flestir svo ungir. En þeir þurfa líka aga sem hann verður að koma á.


Hafsteinn Árnason:

Alltílæ ekki gott. Þetta er frasi sem heyrist gjarnan, en þetta finnst mér eiga svaklalega við um Pochettino. Hann var alltof lengi að finna útúr besta liðið sitt á tímabilinu og átti oft dapurlegt "in game management". Verkefni fyrir næsta tímabil er að laga vörnina og koma þeim málum í fastar skorður. Að mínu mati fær sá argentínski 6,5 í einkunn. Leiðinleg einkunn en betra en það leit út fyrir að yrði.


Markús Pálmason:

Ef skalinn er 0-10, að þá gæfi ég manninum skemmtilega 6.7/10 til að vera nákvæmur.


Hvaða leikmaður stóð sig best? 


Stefán Marteinn:

Cold Palmer. Þarf lítið að bæta við þetta held ég.


Jóhann Már Helgason:

Bara eitt svar... Cole Palmer


Björgvin Óskar Bjarnason:

Cole Palmer, ekki spurning. Ég hafði fylgst með Cole hjá ManCity og enska unglingalandsliðinu og fannst hann mjög “efnilegur”. En hann hefur gjörsamlega sprungið út hjá okkur. Og virðist hafa mikinn karakter af svo ungum leikmanni. Á bara eftir að verða betri og mikilvægari fyrir liðið ég tala nú ekki um ef Nkunku helst heill. Það sem maður sá til þeirra saman í Brightonleiknum lofar mjög góðu. Þeir hafa báðir góðan “boltaheila” og silkimjúka tækni til að koma boðunum í framkvæmd.  


Þráinn Brjánsson:

Að mínu mati hefur Gallagher staðið sig best og kann það að hljóma einkennilega þar sem Palmer hefur jú farið á kostum en Gallagher hefur verið ofboðslega jafn og hefur unnið gríðarlega vel fyrir liðið og er meiðslalítill þannig að hann fær klárlega mitt atkvæði þar.

Starkaður Örn Arnarson:

Cole Palmer, við værum lost án hans.


Þór Jensen:

Cole Palmer


Snorri Clinton:

COLE PALMER, þarf ekkert að útskýra það neitt frekar.


Eyvör Halldórsdóttir:

Það er nú engin spurning hann COLE PALMER okkar! Hann er búinn að draga vagninn hjá okkur í vetur þessi hæfileikaríki drengur sem er ekkert nema hlédrægnin á miða við suma sem eru að skora mörk fyrir sín lið, og get ég nú nefnt einn sem var samherji hans í City, hefur litla tækni eða getu á miða við hann til að taka við bolta og rekja hann að marki, blessaður Haaland þarf að fá hann beint í fangið eða fæturna við markið.


Hafsteinn Árnason:

Cole Palmer á þetta skuldlaust og allt skilið. Hinsvegar verður að veita athygli að Trevoh Chalobah á lokasprettinum. Fær klárlega heiðvirða áminningu.


Markús Pálmason:

Cole “Cold” Palmer, ekki spurning.


Hvaða leikmaður hefur komið þér mest á óvart?


Stefán Marteinn:

Ég átti ekki von á því að Djorde Petrovic myndi enda sem aðalmarkvörður og standa sig þokkalega sem slíkur. Smá hnökrar hér og þar en heilt yfir mjög ánægjulegt tímabil frá Serbanum. 


Jóhann Már Helgason:

Sorry hvað þetta er boring svar, en Cole Palmer. Ég hélt að við værum að kaupa varaskeifu en þetta er bara einn allra besti leikmaður í Prem og þar með heims. Gusto líka komið mér á óvart Björgvin Óskar Bjarnason:

Malo Gusto kom eins og stormsveipur inn í liðið og síðan Cucurella í hybridstöðunni í síðustu leikjum. Mér hefur alltaf fundist Chalobah traustur varnarmaður, sérstaklega í miðverðinum. Eftir að hann kom úr meiðslum í vetur hefur hann vaxið með hverjum leiknum og er nú einn besti og traustasti varnarmaðurinn okkar. Jackson hefur oft valdið mér vonbrigðum í vetur en hann er samt einn af þeim sem hefur komið mér á óvart hversu ótrúlega duglegur hann er að koma sér í færi (og skaffa öðrum færi) þótt hann sé í eðli sínu ekki senter. Hann er algerlega óslípaður og því frábær viðbót í sóknarflóru Chelsea. Með réttri handleiðslu og leiðbeiningum er augljóst að hann getur ekki orðið annað en betri. Það má þó ekki “ofslípa” hann heldur verður halda honum mátulega hráum. 


Þráinn Brjánsson:

Í mínum huga þarf ekki að velta mikið fyrir sér hver hefur komið mest á óvart en Cole Palmer hefur hreinlega bjargað tímabilinu með frábærri spilamennsku og skorar mörk í öllum regnbogans litum. Er næst markahæsti leikmaður deildarinnar og bætir sig með hverjum leik. Hann er búinn að vera yfirburðamaður og á bara eftir að verða betri.


Starkaður Örn Arnason:

Cole Palmer, enginn sá þetta fyrir. Gallagher strong second.


Þór Jensen:

Malo Gusto, Caicedo og Jackson eftir áramót


Snorri Clinton:

Hér er líka auðvelt að segja Palmer þar sem ekkert okkar held ég hafi búist við þessum hæfileikum. Ég ætla samt að nefna annan til að gefa fleiri leikmönnum shout-ið. Hér fær Malo Gusto mitt atkvæði. Hann er búinn að vera fáranlega stöðugur í allan vetur og verið geggjaður.


Eyvör Halldórsdóttir:

Það eru meira en tveir sem hafa komið mér á óvart. Td. Gusto hvað hann er orðinn öflugur og er sennilega að verða nálægt James okkar þegar hann kemst aftur á völlinn, þetta varð bara smá innibyrgð reiði hjá James sem braust út, loksins þegar hann er að komast til baka, systir hans varð fyrir þessu sama þau hafa mikið keppnisskap sem verður ekki tekið af þeim, en það á ekki að nefna það að fara að reka hann þetta á eftir að verða einn okkar sterkasti leikmaður næstu árin.


Hafsteinn Árnason:

Cole Palmer á sterkt tilkall, en ég verð að nefna Trevoh Chalobah í þessu samhengi. Stöðugt orðaður við ítölsk lið, sérstaklega Inter, allt síðasta sumar. En þar sem hann var meiddur, sem mig persónulega, grunaði að væri eitthvað bull, að hann komst ekki neitt. Það átti svo sannarlega að skófla honum í burtu. Hann kemur svo inn í liðið, byrjar brösulega, en verður síðan fljótt besti varnarmaðurinn í liðinu. Hann á hvað sterkasta þáttinn í að laga gengið á liðinu núna á seinni hluta tímabilsins.


Markús Pálmason:

Cucurella er mjög gott shout finnst mér. Stóð sig frábærlega margoft og sinnti skyldum sínum meðan Chilwell var meiddur og meira en það. Annar sem á skilið hrós finnst mér vera Chalobah. Hefur verið virkilega sterkur eftir að hann kom tilbaka.


Hvaða leikmaður hefur valdið mestu vonbrigðum? 


Stefán Marteinn:

Verð því miður að gefa Ben Chilwell þetta. Ég er að miða út frá spiluðum mínútum og þá hefur Ben Chilwell ollið mér mestum vonbrigðum þegar hann er á vellinum.


Jóhann Már Helgason:

Mudryk hefur valdið mér mestum vonbrigðum, ég efast um að hann sé á þessu leveli sem þarf til. Enzo og Chilwell þurfa að líka girða sig í brók. Badiashile hefði leitt þennan lista ef hann hefði ekki átt frábæran endasprett. 


Björgvin Óskar Bjarnason:

Aumingja Mudryk. Mér finnst hann svo umkomulaus og týndur í sínum leik. Virðist hafa mjög lítið hjarta þegar á bjátar. Ég veit því miður ekki hvort það er ólæknandi. Það örlar þó stundum á neista. Einnig Sterling sem ég veit að á að geta og gera meira.


Þráinn Brjánsson:

Mestu vonbrigðin? Af mörgu að taka og það hafa verið vonbrigði að sjá ekki Lavia, Nkunku og fleiri nema í einhverri mýflugumynd í vetur en af þeim leikmönnum sem hafa spilað reglulega hefur Moises Caiceido valdið mér hvað mestum vonbrigðum. Var allan veturinn að komast í gang og gerðist sekur um mörg og afdrifarík mistök og átti ég í sannleika sagt von á miklu meira frá honum en honum til hróss þá hefur hann tekið framförum og verður maður að vona að hann finni fjölina sína.


Starkaður Örn Arnarson:

Þessi er erfið, margir sem ég vildi fá meira frá en flestir hafa skilað meiru undir það síðasta. Þá getur verið ósanngjarnt að henda einhverjum tilteknum undir lestina þegar liðið er með ekkert sjálfstraust, þá líta bara allir illa út. Auðvelt að benda á framlínuna, Jackson, Mudryk, Sterling, er samt mest sár út í Reece James þessa dagana, maðurinn með armbandið, missir hausinn eftir 19 mínútna leik, eftir að hafa verið meiddur í 5 mánuði. Eins og ég held upp á hann, þá er hann mér efst í huga, ásamt Raheem Sterling.


Þór Jensen:

Mudryk


Snorri Clinton:

Sá franski, Benoit Badiashile. Sá var spennandi í fyrra og varð ég strax mjög hrifinn af honum. Svo bara hefur hann verið hræðilegur frá því að hann kom til baka frá meiðslum. Mikið að mistökum sem hafa kostað okkur mörk og sýndi takta sem eru best geymdir í Lengjudeildinni. Aftur á móti hefur hann verið að stíga virkilega vel upp síðustu vikur og spilamennskan verið til fyrirmyndar, ég verð að gefa honum það. Enzo á líka tilkall í þennan titil.


Eyvör Halldórsdóttir:

Enzo og Mudryk því miður, en þeir eiga eftir að koma til annar búinn að spila meiddur og verkjaður í vetur og hinn ekki eins kröftugur og kom ekki tilbúinn í þessa deild, en hann er farinn að sýna helling núna.


Hafsteinn Árnason:

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Enzo Fernandez. Hann virðist ekki passa neinstaðar í fótboltafílósófíu Pochettino, eins og hann var öflugur undir stjórn Potter og Lampard, í skítaaðstæðum. Mér finnst hann hreinlega farið aftur á við á þessu tímabili. Við þurfum meira kæri Enzo. Sýndu okkur að þú sért 100m punda virði.

Markús Pálmason:

Mudryk er væntanlega það sem margir myndu segja, Jackson og Enzo einnig, mögulega Badiashile eða Disasi. En fyrir mér var það Sterling. Hefur verið alveg hörmulegur undanfarið og ekki skilað inn nógu miklu á tímabilinu, sérstaklega frá leikmanni af hans kalíberi.


Þú getur keypt þrjá leikmenn í sumar, hvaða leikmenn viltu sjá í treyju Chelsea á næsta tímabili? 


Stefán Marteinn:

  1. Viktor Gyökeres - Var ekki spenntur þegar ég heyrði nafnið hans fyrst en hann virðist vera “complete forward” sem ég er til í að skoða nánar… Stats don’t lie

  2. Emiliano Martinez - Vill fá einhvern motherfucker í liðið, einhvern sem þú hatar að spila á móti en elskar að hafa í þínu liði

  3. Aymeric Laporte - Einhver sem hefur done it all áður og rétt að skríða í þrítugt. Væri fínt replacement fyrir Thiago Silva og hans “know how”.


Jóhann Már Helgason:

Okkur vantar alvöru markvörð og framherja. Gregor Kobel, markvörður Dortmund ef efstur á óskalistanum. Svo myndi ég annað hvort vilja Osimhen en Toney í framlínuna. Svo vil ég bara taka Omari Hutchinson inn í hópinn.  


Björgvin Óskar Bjarnason:

Klassasenter (þeir eru ekki á hverju strái) Einhver sem kann alla hnútana og getur einnig miðlað Jackson kunnáttu sinni. Klassamarkmann (þeir eru ekki á hverju strái). Og annað hvort klassamiðvörð (selja Disasi eða Badiashili) eða góðan vinstri bakvörð (þó við eigum Maatsen sem ég held að verði seldur, en veit þó ekki af hverju).  


Þráinn Brjánsson: Minn óskalisti varðandi leikmenn er svosem ekki niður njörvaður en væri sannarlega til í að sjá Victor Osimhen klæðast bláu treyjunni. Alphonso Davies hjá Bayer Munchen væri álitlegur kostur að mínu mati  og svo væri fínt ef við gætum lokkað Florian Wirtz frá Bayer Leverkusen ætla að vona að þessir slái til.


Starkaður Örn Arnarson:

Victor Osimhen, sterkan proven striker sem tekur pressuna af Jackson og hjálpar honum að verða strikerinn sem ég hef trú á að hann getur orðið. Það þarf klárlega að styrkja vörnina, einn miðvörð takk.


Þór Jensen:

Victor Osimhen, Antonio Silva og Mike Maignan.


Snorri Clinton:

Markmann - Draumurinn væri Maignan eða taka Emi martinez í 1-2 ár og leyfa Petro að þroska sinn leik sem backup, mjög efnilegur en ekki viss um að hann sé tilbúinn að vera full on keeper nr 1.

Vinstri bakvörð: Alphonso Davies

Framherji - Ég myndi vilja sjá Viktor Gyökeres í bláu treyjunni. Flestir eru að kalla eftir Osimhen en sá sænski er helmingi ódýrari og ég held að hann sé ekkert síðri.


Eyvör Halldórsdóttir:

Það vantar öflugan striker, kannski að efla miðjuna eða út í vængina. Svo er vörnin sem þarf að gera pottþétta, þegar hún er komin þá er mikið af. Eins og við segjum þá þarf hryggurinn í liðinu að vera öflugur og öruggur, þar liggur hvort við vinnum eða töpum.

Ég sé Michael Olise sem sterkan sóknarsinnaðan miðjumann / annar framherji, frekar en Victor Oshimen sem kostar helling


Besti varnarmaður ef ég get giskað á hann Eder Militao eða David Alaba en er ekki góð í þessu.


Besti miðjumaður: Rodri eða sá sem var mikill uppáhalds en er því miður farinn að dala og við seldum hann áður en hann fékk að spreyta sig Kevin De Bruyne, er ekki klár í þessu.


Hafsteinn Árnason:

Forgangsmálið er Victor Osimhen. Hann er Chelsea aðdáandi og með Chelsea hjarta. Að fá hann verður rosaleg búbót. Hinar stöðurnar sem þarf að styrkja er vinstri bakvörður og markmannstaða. Ben Chilwell virðist vera gerður úr postulíni þar sem hann er svo viðkvæmur. Staðan hjá AC Milan er þannig að erfitt er að semja við Theo Hernandez og Mike Maignan. Þetta eru stjörnuleikmenn liðsins og þeir ættu að vera falir fyrir rétt verð eða einhverja skiptimyntaleikmenn. Theo Hernandez myndi gefa liðinu mikið sóknarlega, en ef Cucurella ætlar að verða þessi hybrid miðjunmaður og bakvörður, þá kannski er ekki þörf fyrir öðrum? Mike Maignan er klárlega besti markvörðurinn á lausu í heiminum í dag. Petrovic er æðislegur en til þess að vinna titla þarftu heimsklassa markvörð. Samningur Maignan hjá AC Milan endar eftir næsta tímabil. Núna er séns.


Markús Pálmason:

Osihmen, Tabsoba og Tammy aftur heim! (já ég sakna hans innilega)


Hvaða leikmenn myndir þú selja?


Stefán Marteinn:

  1. Benoit Badiashile - Getur verið decent þegar hann er on it, en ömurlegur þess á milli. Cut our losses bara og losa.

  2. Raheem Sterling - … 

  3. Robert Sanchez - Skemmtileg pæling sem gekk ekki upp. 


Jóhann Már Helgason: Fyrir utan þessa augljósu lánskappa (Lukaku, Kepa, o.s.frv.) þá þarf að offa Sanchez, Sterling og Disasi. Lána Mudryk.


Björgvin Óskar Bjarnason:

Malang Sarr. Lukaku, Kepa, Broja, Fofana, Zyiech, Sanchez, Anjorin, Hall. Eins finnst mér rökréttara að selja meiðslapésana James, Chillwell og jafnvel Sterling frekar en Chalobah, Gallagher, Gilcchrist, Colwill og Cucurella sem allir hafa staðið sína pligt í vetur. Væri til í að gefa Wesley Fofana sjéns en ef hann meiðist enn og aftur þá má mín vegna selja hann. Við eru eigilega ekkert farnir að sjá hvað Ugochukwu, Lavia og Chuckwuemeka geta þannig að ég vil sjá þá leika alvöruleiki. Chelsea á mjög marga unga og efnilega leikmenn sem verður gaman að fylgjast með t.d. Madueke (nú þegar sannað sig), Santos, Casadei, Hutchinson, Paez, Washington, Gabriel, Richard, Achepong, Taurianinen, Boniface, Castledine, Stutter, George, McNeilly og fleiri (og eru að eltast við Messinho-ungstirninu um þessar mundir). Framtíðin er björt hjá Chelsea ef skynsamleg leikmannastefna er verður við lýði.  


Þráinn Brjánsson:

Minn sölulisti gæti orðið langur en ég myndi selja allnokkra og má þar nefna Badashile, Lukaku, Broja, Sterling og Chalobah, Disasi og jafnvel fleiri en læt þetta nægja.


Starkaður Örn Arnarson: Sterling, Badiashile, Sanchez og plís, plís, plís Lukaku!

Ef Manjú vill greiða top dollar fyrir Cucurella þá væri mögulega gott að selja hann ef við erum ekki búin að missa Maatsen.

Þór Jensen:

Mudryk, Sterling, Disasi, Robert Sanchez, Broja o.fl.


Snorri Clinton:

Kepa, Ian Maatsen, Broja, Lukaku, Sanchez, Chilwell, Sarr, Sterling.


Eyvör Halldórsdóttir:

Það er slatti sem er ekki að spila eða í láni sem ég myndi byrja á að selja, Lukaku, Axel Disasi, Benoit Badiashile o.fl.

 

Hafsteinn Árnason:

Það sem liggur fyrir er að Ziyech er farinn að eilífu. Lukaku á vafalaust eftir að gera það líka. Fyrir mér persónulega eiga Axel Disasi og Benoit Badiashile lítið erindi í Chelsea hópinn. Aðalspurningin er með Trevoh Chalobah og Conor Gallagher hvort þeir verði seldir fyrir bókhaldsbrellur, en í eðli sínu væru það svo röng skilaboð. Þeir tveir hafa spilað sig inn í liðið, sennilega vitandi af því að þeir eru beinlínis á the "chopping block". En Gög og Gokke frá Monakó eiga finna sér annan klúbb, undir eins.


Markús Pálmason:

Sterling, Malang Sarr og Broja

Comments


bottom of page