top of page
Search

Chelsea - Blackburn

Keppni: Carabao Cup / EFL - 4. umferð

Dag- og tímasetning: Miðvikudaginn 1. nóvember 2023 - kl 19:45

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay

Dómari: Tim Robinson

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason





Chelsea

Ég veit ekki hversu oft ég hef byrjað pistil á þessum nótum síðustu tvö árin. Alveg skelfilegt að geta ekki komið inn af krafti með bullandi jákvæðni og hrós eftir góða spilamennsku. Eins mikið og maður vill reyna vera bjartsýnn og hvetja okkar menn áfram, þá virðast þeir ætla að gera það erfiðara og erfiðara með hverri frammistöðunni á fætur annarri. 0-2 tap í síðasta leik, á heimavelli, gegn BRENTFORD. 11. sæti eftir 10 umferðir er eitthvað sem maður á aldrei að sætta sig við þegar maður spilar fyrir lið eins og Chelsea Football Club. Ýmis nöfn í liðinu áttu hörmungardag gegn Brentford en sumir voru sprækir. Eitt sem er hins vegar mikið áhyggjuefni er að við höfum aðeins unnið einn af síðustu 14 heimaleikjum. Aldrei hélt ég að maður myndi henda því í andrúmsloftið.


Hins vegar er þetta ekki deildarleikur, heldur leikur í Deildarbikarnum, eða EFL. Sigur gegn Wimbledon í annari umferð og svo fínasti sigur gegn Brighton 1-0 í þriðju umferð. Arnór Sigurðsson og félagar í Blackburn kíkja í heimsókn annað kvöld og leika gegn okkur svo í fjórðu umferðinni. Við höfum nú yfirleitt verið ansi sterkir í bikarkeppnum og unnum deildarbikarkeppnina síðast árið 2015 í góðum úrslitaleik gegn Spurs, sælla minninga.





Eitt sem mig langar aðeins að fara út í fyrir þennan leik og það er uppstillingin á liðinu. Nú hefur tímabilið verið mikil vonbrigði hingað til og langflestir leikir verið mjög niðurdrepandi sóknarlega. Leikur í bikarnum, gegn liði eins og Blackburn, ætti að kalla fram smá breytingar og jafnvel spila ungu strákunum aðeins sem við höfum verið að fá til okkar síðastliðin 2 árin. Menn eins og Petrovic, Maatsen, Lesley Ugochukwu, Noni Madueke og Deivid Washington mættu nú alveg spila í þessum leik og þá jafnvel byrja inn á mín vegna. Madueke var sprækur gegn Brentford, óheppinn að skora ekki þegar boltinn fór í slánna. Sjálfur hef ég verið spenntur fyrir Maatsen síðan hann brilleraði á undirbúningstímabilinu en lítið sést af honum síðan. Hann mætti fá a.m.k. klukkutíma annað kvöld ef ég fengi að ráða.


Meiðslalistinn er eins langur og venjan er. Enzo og Mudryk eru enn tæpir, en það styttist í Chukwuemeka, Broja og Bettinelli, en Pochettino hefur útilokað þátttöku Nkunku, þrátt fyrir að hann sé byrjaður að æfa með liðinu. Eitthvað lengra er í Chilwell, Lavia og Vott Chalobah. Við eigum ekki von á þeim fyrr en í desember og Wesley Fofana undir lok tímabils.


Svona spái ég, eða svona vil ég, að byrjunarliðið okkar verði:





Blackburn Rovers

Arnór Sigurðsson og félagar kíkja í heimsókn á Brúnna annað kvöld og vonum eftir hörkuleik. Blackburn eru búnir að vera í smá basli á þessu tímabili. Þeir sitja í 12. sæti í Championship, með 19 stig eftir fyrstu 14 umferðirnar. Þeirra helsti veikleiki er að þeir virðast leka inn mörkum. Aðeins fjögur lið í deildinni hafa fengið á sig fleiri mörk en þeir. Þeir eru að koma til baka eftir 1-0 tap á heimavelli gegn Swansea, en þeir hafa hins vegar unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum í deildinni. Gaman að segja frá því að einn leikmaður Blackburn Rovers er fyrrum leikmaður Þróttar Reykjavíkur, hann Callum Brittain, en undirritaður spilaði þar nokkra leiki með honum í 2. flokki Þróttar. Enginn annar en Jon Dahl Tomasson er þjálfari Blackburn, danska goðsögnin, sem spilaði meðal annars með Newcastle, Feyenoord og AC Milan á ferlinum.


Ég ætla gera ráð fyrir að byrjunarlið þeirra gæti litið einhvern veginn svona út:


GK - Wahlstedt

RB - Hill

CB - Carter

CB - Hyam

LB - Pickering

CDM - Trondstad

RAM - Rankin-Costello

LAM - Szmodics

LW - Arnór Sigurðsson

ST - Dolan

RW - Callum Brittain


Spá:

Auðveldur sigur fyrir okkar menn og alvöru endurkoma þar sem við byrjum sigurgöngu, ekkert annað rugl í boði. 5-0 sigur og ENGA ÞVÆLU. Madueke með eitt, Jackson með 2, Malo Gusto kemst á blað og svo kemur Mudryk inná með læti og setur eina væna slummu!


KTBFFH!!!


Svo minnum við lesendur á að skrá sig í Chelsea klúbbinn. Núna er nóvember-mánuður genginn í garð. Mikilvægt er að skrá sig í klúbbinn fyrir 4. desember til til að njóta forgangsréttar þegar kemur að því að kaupa miða á leiki með Chelsea í gegnum Chelsea klúbbinn. Nánari upplýsingar eru á https://chelsea.is/argjold/



Comments


bottom of page