top of page
Search

Chelsea - Aston Villa FA Cup

Keppni:   FA Cup

Tími, dagsetning:   Föstudagur 26.janúar kl: 19.45

Leikvangur:   Stamford Bridge

Dómari:   Robert Jones

Hvar sýndur:   Stöð 2 sport 3

Upphitun eftir:   Þráinn Brjánsson





Eftir frábæra frammistöðu gegn Middlesbrough á þriðjudagskvöldið verða næstu gestir okkar á Brúnni Aston Villa. Um er að ræða 4. umferð í FA bikarnum. Það er óhætt að segja að ykkar einlægur hefði alveg þegið að vera einum degi lengur í London og var þar að kanna aðstæður á mánudaginn, en átti sannarlega ekki von á að boðið yrði upp á viðlíka veislu og raunin varð kvöldið eftir. Fyrri leikur liðanna var ekki mikið fyrir augað og leiddu Boro með einu marki þegar þeir mættu á Brún. Okkar menn sýndu glæsilega spilamennsku og fóru hreinlega á kostum! Þeir skoruðu sex mörk í öllum regnbogans litum og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, en létu tvö nægja í þeim seinni og sýndu Boro smá kurteisi að leyfa þeim að koma með eitt mark rétt í lokin.


Cole Palmer sýndi það að hann er ein bestu kaup Chelsea í ansi langan tíma. Hann var allt í öllu og átti sinn langbesta leik fyrir liðið og toppaði frábæra spilamennsku með tveimur mörkum í leiknum. Boro byrjuðu á því að skora sjálfsmark þar sem Howson var svo óheppinn að verða fyrir skoti frá Broja sem breytti um stefnu og í markið. Enzo okkar kom sér svo á blað með fínu marki og litlu seinna skoraði Disasi og hlutirnir fóru að líta vel út fyrir okkur. Þá var komið að þætti Cole Palmer sem setti eitt mark rétt fyrir hálfleik og bætti svo öðru við á 77. mínútu áður en Madueke rak endahnútinn á flugeldasýninguna með marki á 81 mínútu. Það var svo Rogers sem átti síðasta orðið þegar hann kom einu marki inn fyrir Boro rétt fyrir leikslok og Chelsea sigraði 6 - 1 samanlagt. Það væri sannarlega óskandi að þessi góða frammistaða verði til þess að keyra upp gott sjálfstraust og hungur. Það var mjög gaman að sjá Chilwell koma frískan inn, og heilt yfir stóðu allir leikmenn sig frábærlega, þó sérstaklega megi ræða Cole Palmer sem var réttilega valinn maður leiksins.


Við verðum að taka það í dæmið að Aston Villa er stærra og erfiðara verkefni en Middlesbrough. Þó er maður klárlega bjartsýnari eftir að hafa séð til liðsins á þriðjudaginn. Það er óhætt að segja að Villa sé eitt af spútnikliðum deildarinnar. en þessa stundina eru þeir í 4. sæti með 43 stig og aðeins fimm stigum á eftir toppliði Liverpool. Spánverjinn Unai Emery hefur gert frábæra hluti með Aston Villa og ekki vantar reynsluna á þeim bænum. Hann hefur áður þjálfað meðal annars Arsenal, PSG, Sevilla og Villareal. Villa skartar fínum leikmannahóp og þeirra bestu menn eru á meðal annara heimsmeistarinn Emi Martinez sem stendur á milli stanganna ásamt Matty Cash, Ollie Watkins, Lucas Digne og fleiri góða leikmenn má nefna. Þetta verður erfiður leikur en hef fulla trú á að okkar menn standi allavega hressilega í Villa liðinu og það er nú einu sinni þannig að bikarleikir spilast oft allt öðruvísi en deildarleikir þannig að allt getur gerst og það höfum við séð undanfarið með okkar bláklæddu. Eitthvað er um meiðsli hjá Villa og Lucas Digne, Tyrone Mings og Bertrand Traore er á listanum og koma væntanlega ekki við sögu. Talandi um meiðslalista þá styttist sá listi  óðum hjá okkur og það kom frá hjá Poch að Nkunku og Malo Gusto eru farnir að æfa en verða ekki tilbúnir fyrir leikinn, en aðrir eru að koma til og held ég að við ættum að eiga nokkuð öflugan mannskap og á bekknum til að takast á við þetta verkefni.





Chelsea

Nú eru hlutirnir vonandi að fara að ganga örlítið betur hjá okkar mönnum. Menn eru að koma inn hver af öðrum úr meiðslum og meiðslalistinn styttist með hverjum deginum. Eins og áður kemur fram eru Nkunku og Gusto farnir að æfa með liðinu en verða ekki með gegn Aston Villa. Það er ekki vitað hversu lengi Lavia verður frá, en hann er víst og vonandi væntanlegur innan fárra daga. Chilwell er kominn á skrið og virkar ferskur og til í slaginn og vonandi fær hann einhvern frið fyrir meiðslum sem eftir lifir móts. Nú er rétt vika eftir af félagaskiptaglugganum og eru spekúlantar að fara á límingunum og hver fréttin af annari dettur nú inn á miðlana. Þær eru jafn skrautlegar og þær eru margar. Sagan endalausa um Osimhen hinn nígeríska er enn á floti og herma nýjustu fréttir að hann sé loksins búinn að taka ákvörðun um hvert hann vill fara í sumar. Ýmsir telja að Chelsea sé áfangastaðurinn, en þetta breytist dag frá degi og vonandi detta okkar menn í stjórnarherberginu ekki í einhver örvæntingarkaup, en fréttir af áhuga Chelsea á sóknarmanni Aston Villa Kólumbíumanninum Jhon Durán berast núna. Mér finnst þær vangaveltur lykta af örvæntingu. Einnig hefur nafn Karim Benzema borið á góma og er þá verið að tala um lánssamning. Ég hef ekki trú á að glugginn lokist með einhverjum stórtíðindum og æði vafasamt er að taka mikið mark á slíkum fréttum.


Einnig kom fram að Toddmaster sé að íhuga það að selja fyrirliðann okkar hann Reece James, til að rétta örlitið bókhaldið af, en þar sem Reece er uppalinn hjá klúbbnum telst sala á honum hreinn hagnaður og vitað er að Real Madrid hefur talsverðan áhuga á honum. Ég veit ekki hvort þetta sé rétti tíminn til að velta fyrir sér sölu á honum þar sem hann hefur verið mikið meiddur og hlýtur það að draga úr áhuga annara liða. Heyrst hefur að Callum Wilson frá Newcastle sé falur fyrir 18 til 20 milljón punda, en hvort hann sé rétti maðurinn fyrir okkur er svo allt önnur saga. Ég vil helst fara að sjá þá menn sem klúbburinn er búinn að kaupa dýrum dómum fara að sýna sitt rétta andlit. Enzo virðist aðeins vera að slípast til og það lofar góðu, en Caicedo er fjarri því að vera búinn að finna fjölina og maður hefur óþægilegar efasemdir um hann því miður. Mudryk er einnig langt frá sínu besta og þarf að fara að átta sig á því hvað hann á að gera og hvar hann á að vera, en hann virkar óttalega ráðalaus og ringlaður. Hvað Nkunku og Lavia varðar þá hafa þeir ekki spilað það mikið að maður geti almennilega áttað sig á þeim. En það er samt bjart yfir þessu þessa dagana og nú ríður á að ljúka seinni partinum og bikarleikjunum með reisn.


Aston Villa

Unai Emery og lærisveinar hans eru klárlega með spútniklið deildarinnar og eru búnir að vera stórkostlegir sem af er móts. Liðið hefur unnið 13 leiki en gert fjögur jafntefli og tapað aðeins fjórum leikjum. Þeirra helsti markaskorari er Ollie Watkins með 9 mörk og þeir Douglas Luiz og Leon Bailey fylgja fast á eftir með sex mörk hvor. Í umræðunni um Jhon Durán sem Chelsea mun samkvæmt fréttum hafa áhuga á  hefur ekki byrjað einn einasta leik fyrir Villa. Þetta er lið sem er einfaldlega á blússandi siglingu og og verða klárlega hrikalega erfiðir, en fjarri því að vera ósigrandi og á góðum degi er allt hægt.





Liðsuppstilling og spá

Kannski er Poch búinn að finna leiðina og fer vonandi að ná því besta út úr leikmönnum sem við höfum. Ég held að það verði ekki stórvægilegar breytingar á leikkerfinu og best að vinda sér í byrjunarliðsspádóm. Petrovic mun standa í rammanum og fyrir framan verða þeir Disasi, Silva, Colwill og Chilwell. Caicedo og Enzo koma til með að ráða yfir miðjunni. Þar fyrir framan ætla ég að spá þeim Sterling, Madueke og okkar besta Cole Palmer og ætli Broja fái ekki að vera fremstur meðal jafninga. Ég held að þessi leikur verði hin besta skemmtun og úrslitin gætu komið skemmtilega á óvart. Ég held að við stöndum uppi sem sigurvegarar og vinnum leikinn 3-2. Palmer með að sjálfsögðu tvö mörk, og Nonni litli Madueke setur eitt stórglæsilegt.


Að þessu sögðu þá langar okkur að geta til þess að enn er hægt að endurnýja aðild að Chelsea klúbbnum og einnig er tekið við nýskráningum næstu vikurnar. Þau sem endurnýja/skrá sig á næstu dögum og vikum opna þar með möguleika á fyrirgreiðslu af hálfu klúbbsins varðandi miðakaup á leiki með Chelsea það sem eftir er yfirstandandi keppnistímabili. Skráningarferlið má finna á www.chelsea.is og undir "Skráning" flipanum.


Góða skemmtun og áfram Chelsea!!!

Comments


bottom of page