top of page
Search

Chelsea - Aston Villa

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dags- og tímasetning: Sunnudagurinn 24. September 2023 kl 13:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Dómari: Jarred Gillet Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma
Nú er komið að því. Þetta er pistill sem manni langar að byrja á látum og í miklu reiðiskasti en að sjálfsögðu reynir maður að hafa þetta eins civilíserað og maður getur. Ég veit eiginlega ekki hvað maður getur sagt um gengi okkar manna upp á síðkastið. Mig langar að byrja á því að fara aðeins yfir leikinn gegn Bournemouth. Einhvern veginn fannst manni eins og þessi Bournemouth leikur væri ekki aðeins sigur fyrirfram, heldur í gangi leiksins líka. Aukaspyrnan frá Raz var það sem hefði átt að brjóta ísinn og við hefðum auðveldlega geta ýtt á bensíngjöfina og sett 2-3 í viðbót í netið. Hins vegar var þetta bara eins og ein erfið fæðing, eins og kannski flestir leikir á tímabilinu. Pochettino virðist ætla halda áfram að koma með taktík sem enginn skilur, spila mönnum úr stöðum og vera með allt niðrum sig þegar það kemur að skiptinum. Stóra spurningin er, hvenær fáum við sömu uppstillingu og taktík og við spiluðum á undirbúningstímabilinu? Fór í raun og veru allt út um gluggann þegar Nkunku meiddist? Er liðið okkar það slappt, erum við það reynslulaust lið að þegar ein stjarna meiðist að þá er ekkert hægt að gera?


Meiðslalistinn okkar hefur sjaldan verið lengri, hvað þá verri. Einhvers staðar sá ég að heildarvirði meiðslalistans sé um 60+ milljarðar. Það er í raun alveg galið. Armando Broja, Badiashile, Nkunku, Fofana, Chukwuemeka, Caicedo, Reece James, Bettinelli, Cucurella, Chalobah allir frá í seinasta leik og ekki gerði það neitt gott fyrir okkur.
Það sem bætir gráu ofan á svart er að það virðist ekkert ganga upp hjá mínum manni Nico Jackson þessa dagana. Hann er einu gulu spjaldi frá leikbanni, sem gæti samt sem áður verið “a blessing in disguise”. Leyfa honum að fara í bann og núllstilla sig gjörsamlega. Bara þetta hræðilega skot á móti Bournemouth er búið að uppskera ekkert eðlilega mikið af gríni á samfélagsmiðlum. Maður sem ætti að vera búinn að skora amk 4 mörk og fá á sig 1 gult spjald er búinn að fá á sig 4 gul spjöld og skora 1 mark. Það er bara skelfilegt.


Maður veltir því fyrir sér hvort það sé í raun ekki nógu mikil reynsla í þessu liði. Thiago Silva er eins og herstjóri, eins og hann hefur alltaf verið, en það er spurning með restina. Sterling er nú ekki þekktur sem hinn mikli leiðtogi þó svo að hann sé stútfullur af reynslu. Að missa fyrirliðann okkar í meiðsli svona snemma gerði heldur ekkert fyrir okkur hvað það varðar. Reece James er leikmaður sem gæti vel búið yfir 20 árum í atvinnumennsku þrátt fyrir aldur. Það er margt sem hefur farið úrskeiðis en það er einn mjög jákvæður vinkill yfir þessu. Við virðumst skapa endalaust af færum. Er það rétt skilið hjá mér að aðeins eitt lið er með hærra svokallað xG á tímabilinu, og það er City? Við höfum einnig fengið á okkur færri mörk en öll lið deildarinnar nema efstu 4 liðin. Hins vegar höfum við skorað jafn mikið eða minna en öll lið deildarinnar fyrir ofan okkur nema Fulham.


Nóg um það. Næsti leikur og næsta verkefni. Ég hef alltaf reynt að setja upp jákvæða grímu þegar það kemur að liðinu okkar og aldrei er ég það svartsýnn að spá okkur tapi. Ég geri bara alvöru kröfu á byrjunarliðið og að Pochettino rífi upp um sig brækurnar og fari að spila 4-2-3-1.

Mín spá fyrir byrjunarliði:

GK - Sanchez

RB - Gusto

CB - Disasi

CB - Silva

LB - Colwill

CDM - Caicedo

CDM - Lesley

CAM - Enzo

RW/RAM - Sterling

LW/LAM - Mudryk

ST - Jackson


Persónulega myndi ég setja Colwill í LCB og Chilwell í LB og taka Disasi út. Ég myndi vilja spila Madueka í þessum leik líka og svo vil ég Broja í hóp og að hann komi inná. Cole Palmer má líka fá startið mín vegna en svona miðað við síðustu leiki finnst mér ólíklegt að hann taki Sterling út.


Aston Villa:

Það hefur gengið upp og ofan hjá lærisveinum Unai Emery. Allir muna eftir Newcastle leiknum þeirra þar sem liðið var tekið í bakaríið. Hinsvegar hefur gengið bærilega. Þeir eru í fimmta sæti með yfir skoruð mörk per leik (2.2) en þeir töpuðu mjög óvænt í Sambandsdeildinni gegn Legia Warsaw, 3-2 í Póllandi. Emery hefur verið að rótera uppstillingum í síðustu leikjum. Gegn Legia var 4-2-3-1, en gegn Crystal Palace í síðustu umferð deildarinnar stillti hann í 4-4-2. Gegn Liverpool sem tapaðist 3-0 stillti hann í 3-4-3 sem bendir til þess að stillir upp eftir andstæðingum. Aston Villa er klárlega á uppleið ef við horfum á heildarmyndina, og núna hefur Nicolo Zaniolo, ein helsta vonarstjarna Ítalíu, sem reyndar sleit tvisvar krossband á sl. misserum, verið að fá fleiri mínútur. Hann m.a. lagði upp í leiknum gegn Legia. Þeir leikmenn sem hafa staðið sig hvað best fyrir Villa eru Moussa Diaby, Ollie Watkins og Douglas Luiz.


Þetta þarf ekki að þýða að Aston Villa sé einhver grýla fyrir Chelsea. Ef Emery ætlar að spila með háa varnarlínu, gefur það Chelsea klárlega tækifæri. Ef hann ákveður að spila djúpt, þá gæti þetta orðið talsvert ströggl hjá okkar mönnum. Hvernig fer leikurinn? Ef ég ætti að veðja, þá myndi ég segja 1-0 fyrir Chelsea. Mudryk loksins með mark!


KTBFFH!


Að lokum hvetjum við alla aðdáendur Chelsea á Íslandi til að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Chelsea.is - Það er eftir miklu að sækjast, en þá sérstaklega forkaupsrétti á miðum á leiki með Chelsea á hagstæðu verði! Stefnt er að fara í hópferð í desember á Chelsea - Brighton. Athugið það sérstaklega!


Comments


bottom of page