top of page
Search

Chelse vs Sevilla - Meistaradeildin byrjar að rúlla

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 21. október kl. 19:00

Leikvangur: Stamford Bridge:

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 5 og BT Sport 3

Upphitun eftir: Þór Jensen


Á þriðjudagskvöldið tekur Chelsea á móti Evrópudeildarmeisturum Sevilla í fyrsta leik okkar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þetta árið. Sevilla vann sér inn sæti í Meistaradeildinni þetta árið með því að vinna Evrópudeildina, eins og svo oft áður í þeirra sögu. Það er alveg ljóst að Sevilla er sterkasti andstæðingur Chelsea í riðlinum og því mikilvægt að ná góðum úrslitum og byrja riðlakeppnina af krafti. Með sigri getum við andað léttar þar sem við eigum að gera ráð fyrir sigrum gegn Rennes og Krasnodar, þó svo að ekkert sé gefið í þessum bolta.

Chelsea

Það var augljóst að nokkrir leikmenn Chelsea voru þreyttir í leiknum gegn Southampton eftir landsleikjahléið, enda margir þeirra spilað 3 leiki á örfáum dögum með landsliði sínu og sumir þurftu að standa í töluverðum ferðalögum. Ég spái þónokkrum breytingum á byrjunarliðinu frá Southampton leiknum. Leikmenn eins og Tammy Abraham, Giroud, Callum, Ziyech, Kovacic, Silva og Reece James spiluðu allir lítið eða ekkert gegn Southampton og ættu að vera með ferskar lappir gegn Sevilla. Nú er gott að hafa mikla breidd og það verður fróðlegt að sjá hvernig Lampard nýtir hana.

Á blaðamannafundinum fyrir leikinn staðfesti Lampard að Mendy yrði frá í amk. viku í viðbót svo að spænska rækjan (Kepa) verður á milli stanganna enn einn leikinn, því miður. Eftir afleidda frammistöðu Christiansen og Zouma í síðasta leik hlýtur Lampard að leyfa þeim að hvíla í næsta leik. Spurningin er hvaða hafsent verður við hlið Thiago Silva í hjarta varnarinnar, Rüdiger eða Tomori. Ég ætla að giska út í bláinn á Rüdiger, bara á tilfinningunni. Werner og Havertz spiluðu alla 3 leiki Þýskalands í mánuðinum og gegn Southampton um helgina, ég spái því að þeir fái hvíld og byrji á bekknum. Mount hlýtur líka að þurfa að fara að fá smá hvíld, enda spilið gríðarlega mikið með Chelsea og enska landsliðinu undanfarið.

Það er nánast ómögulega að spá fyrir um rétt byrjunarlið hjá Chelsea þessa dagana, en svona spái ég liðsuppstillingunni:


Sevilla

Sevilla hafa byrjað spænsku deildina svipað og Chelsea hafa byrjað þá ensku, unnið tvo, gert eitt jafntefli (gegn Barca) og töpuðu síðasta leik gegn Granada á útivelli. Sevilla fékk mikinn liðsstyrk með Ivan Rakitic og mun hann líklega spila stórt hlutverk gegn Chelsea. Annars eru þeirra hættulegustu menn að mínu mati hollenski framherjinn Luuk de Jong og kantmaðurinn Suso. Sevilla hafa reyndar ekki byrjað deildina neitt frábærlega, ekkert frekar en Chelsea, en þeir gera væntanlega kröfu að komast upp úr þessum riðli sem er í raun með gæði á við Evrópudeildarriðil.

Spá

Ef að einhver þarf að sanna sig í þessum leik er það að mínu mati Frank Lampard. Hann þarf að sýna okkur stuðningsmönnum hvað hann getur sem stjóri og hann hreinlega verður að ná úrslitum í þessum leik. Fyrir mér hefur þetta tímabil byrjað afleitlega miðað við fremur auðvelt prógram, og Lampard þarf að rífa liðið upp úr þessum óstöðugleika og sýna okkur af hverju Chelsea eyddi 215 milljónum punda í sumar. Sigur í leiknum fleytir okkur langleiðina upp úr þessum riðli, eins ótrúlega og það hljómar, svo mikilvægt er að gefa allt í þennan leik.

Ég spái okkar mönnum 2-1 sigri gegn Sevilla með mörkum frá Pulisic og Hakim Ziyech.

KTBFFH

- Þór Jensen

Comments


bottom of page