top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Cardiff í Carabao

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 15 minutes ago
  • 5 min read

Keppni:   Deildarbikarip 8 liða úrslit

Tími, dagsetning:     þriðjudagur 16. desember kl: 20.00

Leikvangur:     Cardiff City Stadium

Dómari:     Tony Harrington

Hvar sýndur:     Viaplay Iceland

Upphitun eftir:     Þráinn Brjánsson


ree

Í miðri jólaösinni er nú komið að 8 liða úrslitum Deildarbikarsins og leiðin liggur til Wales og á Cardiff Stadium þar sem við mætum efsta liði fyrstu deildar (e. League 1) enska boltans Cardiff City. Þetta gamalgróna félag situr nú í efsta sæti fyrstu deildar og er komið alla leið í fjórðungsúrslit og til alls líklegir og hver veit nema sé nýtt Grimsby ævintýri í uppsiglingu. En fyrst þurfa þeir jú að ná góðum úrslitum gegn Chelsea og það getur orðið vettlingur. Okkar  menn komust aftur á sigurbraut um liðna helgi þar sem við mættum David Moyes nokkrum sem í eina tíð lék með ÍBV og lærisveinum hans í Everton, en Moyes hefur í seinni tíð náð nokkrum árangri í þjálfun og hefur verið að gera fína hluti með drengina frá bítlaborginni. Leikurinn gegn Everton var alls ekki sá sísti sem við áhangendur höfum séð. Menn mættu ákveðnir til leiks gegn frískum Everton drengjum sem ætluðu sér alla leið og voru talsvert öflugri í byrjun og áttu varnarmenn Chelsea í nokkrum vandræðum. Þeir náðu þó að brjóta flestar atlögur þeirra á bak aftur og það riðlaðist spilið hjá okkar mönnum og menn áttu í erfiðleikum með að finna taktinn almennilega. Okkar menn voru þó fljótir að finna taktinn og á 21. mínútu átti Malo Gusto frábæra sendingu á Cole nokkurn Palmer sem afgreiddi boltann ískaldur í netið og kom okkar mönnum í 1 - 0. Skömmu áður en menn gengu til leikhlés dró svo aftur til tíðinda þegar Pedro Neto geystist upp kantinn og fann Malo Gusto sem kom boltanum í netið með harðfylgi og staðan 2 - 0 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var frekar yfirvegaður hjá okkar mönnum, en Garnacho hefði auðveldlega getað komið okkur í enn betri stöðu þar sem hann átti í það minnsta tvö afbragðs færi en skotskórnir voru greinilega ekki rétt reimaðir á, en hann átti annars fínan leik og á bara eftir að vaxa. Fleiri voru í fínu formi þennan laugardag og Malo Gusto, Cucurella og Cole Palmer voru flottir og holningin á liðinu fín. Bestu fréttirnar finnast mér þær að Palmer sé að koma til og hafi náð að skora og það mark úr efstu hillu, en hann reyndar ekki kominn í fullt leikform en stefnir í það. En það eru Walesverjarnir sem eru næstir og það er ekkert víst að þetta verði neitt auðvelt þar sem bikarleikir hafa þá tilhneigingu til að þróast allt öðruvísi en aðrir leikir og Cardiff menn efalaust öruggir með sig í efsta sætinu og komnir þó alla þessa leið í bikarnum. Ég held að Maresca verði að nálgast þennan leik af skynsemi og leggja allt vanmat til hliðar.


ree

Eins og ég minntist á hér að ofan þá finnst mér holningin á Chelsea liðinu vera með betra móti þrátt fyrir mikið leikjaálag, en talandi um það þá á það nú við um allflest liðin í deildinni. Caicedo fær kærkomna hvíld í verðlaun fyrir rauða spjaldið og ætti að verða nokkuð hress yfir hátíðar og Maresca ætti kannski að leyfa yngri og ferskari mönnum að spreyta sig gegn Cardiff. Það dugir ekki að henda í eitthvað B-lið því það hefur aldrei reynst okkur vel. En Maresca er óútreiknanlegur og ákvarðanir hans varðandi liðið hafa stundum verið einkennilega hugsaðar vægast sagt. Ég veit ekki hvort að það sé vankunnátta hans í enskri tungu sem verður til þess að stundum er maðurinn afar torskilinn. Á blaðamannafundi eftir Everton leikinn sagði hann að síðustu 48 tímarnir fyrir leikinn hefðu verið þeir erfiðustu á hans ferli hjá klúbbnum, hann kvartaði yfir litlum stuðningi og þegar hann var spurður hvort hann meinti stuðningsmenn þá tjáði hann blaðamönnum að það væri alls ekki. Hann væri afskaplega ánægður með þá en vildi ekkert segja við hverja hann ætti og hefur ekki enn viljað opinbera við hverja hann átti við. Ég held að það sé klárt að hann er að kasta einhverju í stjórnarmenn klúbbsins og hvort hann hefur talað af sér og sjái eftir einhverju veit maður ekki, en ég held bara að staða hans sé ekkert allt of góð, en hann er greinilega ekki sáttur með Todd og félaga. Það hefur aldrei reynst þjálfurum hjá Chelsea vel enda atvinnuöryggi knattspyrnuþjálfara afar lítið. En nú þegar árið er að enda þá opnast leikmannaglugginn og menn jú farnir að spá og spekúlera og nú heyrist að Todd og co séu klárir með 50 milljón punda tilboð í Ibrahim Konate og hyggist reyna að steypa upp í skarðið sem myndaðist með meiðslum Lewi Colwill en sannleiksgildið í þessum fréttum er óljóst eins og í svo mörgum fréttum á þessum tíma og lítið að marka orðróma. Ég held að liðsuppstilling Maresca verði spennandi og fróðleg og vona ég sannarlega að hann hitti naglann á höfuðið.


Cardiff City léku síðast í Premier League tímabilið 2018 til 2019 og þar áður tímabilið 2013 til 2014 og þá var Akureyringurinn Aron Einar Gunnarsson leikmaður liðsins, en hann lék með Cardiff frá 2011 til 2019 þannig að þarna er talsverð Íslands-tenging. Einnig hafa þeir Heiðar Helguson og Rúnar Alex Rúnarsson leikið um hríð með Cardiff City.  Liðið var það fyrsta til að spila í enska deildarkerfinu en ekki því welska og er eina liðið utan Englands sem hefur unnið FA bikarinn en það gerðu þeir árið 1927. Liðinu hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel undanfarin misseri og féll úr Championship deildinni síðastliðið vor en með þjálfarann Brian Barry - Murphy við stjórnvölinn freistar liðið nú þess að rétta úr kútnum og eru á toppnum í fyrstu deild og komnir á stóra sviðið í bikarnum. Þess má geta að Aron Ramsey er uppalinn hjá Cardiff og hefur starfað hjá klúbbnum meðal annars við þjálfun. Cardiff City hefur allt frá árinu 2019 staðið í deilum við FC Nantes, en klúbburinn hafði keypt knattspyrnumanninn Emiliano Sala frá Nantes en hann fórst í flugslysi á leið til Cardiff og hefur þetta mál reynst félaginu erfitt og langdregið skaðabótamál hangið yfir klúbbnum.



Liðsuppstilling og spá:


Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað Maresca dregur upp úr pokanum að þessu sinni, en tel þó allar líkur á að helstu lykilmennn verði hvíldir fyrir deildarleikina. Maresca hefur gefið það út að Palmer verði í fríi og hann fái aðeins meiri tíma til að jafna sig. Mér finnst mjög líklegt að Sanchez verði á milli stanganna og þar fyrir framan verði þeir Gusto, Cucurella, Chalobah og jafnvel Tosin því það þarf klárlega að keyra upp sjálfstraust hjá drengnum. Mér finnst líklegt að Reece James og Santos verði þar fyrir framan og þríeykið verði þeir Neto, Garnacho og Estevao og svo væri gaman að sjá Guiu fremstan. Þetta verður engin gönguferð held ég og menn verða að koma tilbúnir til leiks og ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn og spá þessu 0-3 og Estevao setur tvö og Neto eitt. Góða Skemmtun !!



Áfram Chelsea !!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page