top of page
Search

Burnley vs Chelsea

Burnley vs. Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 26. Október 2019 kl 16:30

Leikvangur: Turf Moor

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport, NBC og SKY Sport

Upphitun eftir: Snorra Clinton

Chelsea

Það er ekki hægt að segja annað en Chelsea sé búið að vera á gríðarlegri siglingu síðustu vikur. Super Frank er búinn að stýra liðinu til sigurs sex leiki í röð (í öllum keppnum) með markatöluna 17-3 sem er hreint út frábær árangur og ber fagna. Í upphafi tímabils var vörnin okkar helsti höfuðverkur og til samanburðar fékk liðið á sig 13 mörk í fyrstu sex leikjunum (í öllum keppnum) á tímabilinu. Svo virðist sem Lampard sé búinn að finna töfralímið sem bindur vörnina saman og kallast það fullu nafni Oluwafikayomi Oluwadamilola Tomori og er hann búinn að vera hreint út sagt frábær í vörninni.


Í miðri viku sóttum við Ajax heim til Amsterdam og áttu okkar menn fyrir höndum sér einn erfiðasta leikinn í riðlakeppninni. Líkt og Chelsea er Ajax gríðarlega ungt lið en meðalaldur þar á bæ er 23,3 ára. Er liðið búið að vera í miklum ham bæði í Evrópu sem og í Hollensku Eredivisie deildinni. Þó svo að liðið sé búið að missa tvo af sínum bestu leikmönnum í sumarglugganum, þá de Light og de Jong, hefur það haft minni áhrif á liði eins og margir bjuggust við. Ajax hefur ekki tapað leik síðan þeir duttu út úr Meistaradeildinni á síðasta tímabili á móti Tottenham.


Það er því óhætt að segja að Chelsea aðdáendur sem og stuðningsmenn Ajax bjuggust við hörkuleik, sem svo sannarlega varð raunin. Ajax byrjaði leikinn af miklum krafti og pressaði gríðarlega fyrstu mínúturnar og var það tilfinning undirritaðs að þeir myndu ná tökum á leiknum og skora snemma. Allt kom fyrir ekki og hægt og bítandi náðu okkar menn undirtökum á leiknum. Ajax náði í raun aldrei að láta Kepa svitna á milli stanganna fyrir utan markið frá Promes, sem betur fer kom þar VARsjáinn okkur til bjargar. Þegar líða tók á leikinn var lítið að frétta af sóknarleik Ajax þökk sé frábærum leik hjá Tomori sem ásamt Zouma settu allt í lás og það með glæsibrag. Svipað var þó upp á teningnum hjá þeim bláklæddu þar sem Willian gekk illa að fóta sig í leiknum og Tammy fékk lítið til að moða úr. Um miðjan seinni hálfleik kom afhjúpaði Lampard ásinn í erminni og setti Pulisic og Batsman inná. Við það var blásið nýtt líf í sóknarleikinn og koma Bats sér í dauðafæri sem hann náði að klúðra á ævintýralegan hátt. Þessi skipting hjá Lampard bar svo vöxt undir lokin þegar Batsman kom boltanum í netið eftir frábæran undirbúning hjá Pulisic. Leiknum lauk 0-1 og án efa besti leikur sem liðið hefur spilar undir stjórn Lampard þegar litið er til mikilvægi leiksins og mótherjana.


Næst á dagskrá hjá okkar mönnum er heimsókn til Burnley á Turf Moor í síðdegisleik á laugardaginn kemur. Burnley er eitt af þessum liðum sem er gríðarlega erfitt fyrri öll lið að heimsækja. Okkar mönnum virðast samt líða ágætlega við sig þar en Chelsea hefur ekki tapað deildarleik á Turf Moor síðan 1983. Þó svo að tölfræðin sé með okkar mönnum ber að hafa í huga að Burnley er sýnd veiði en ekki gefinn og þarf liðið að vera algjörlega á tánum ætli það sér 3 stig úr þessum leik.


Ég tel ekki líklegt að Lampard geri of margar breytingar fyrir þennan leik. Enn eru lykilmenn menn á borð við Rudiger, Kante, Christiansen og RLC á meiðslalistanum. Góðu fréttirnar eru þó að Emerson virðist vera koma til en hann var einmitt á bekknum gegn Ajax. Það verður þó að segjast að ef Alonso heldur áfram að tanda sig eins vel og hann hefur gert upp á síðkastið þá lítur allt út fyrir að Emerson vermi bekkinn eitthvað lengur. Liðið sem ég myndi helst vilja sjá á laugardaginn kemur er óbreytt frá Ajax leiknum nema að Pulisic byrjar inná á kostnað Willian. Þó kæmi mér ekki á óvart ef Batsman fengi kallið og byrji þennan leik, því hann er svo sannarlega búinn að vera banka á dyrnar og minna á sig.


Burnley

Eins og staðan er núna situr Burnley í 8. sæti með 12 stig, jafnmörg stig og nágrannar okkar í Tottenham. Lærisveinum Sean Dyche hafa aðeins náð að sigra 3 leiki í deildinni enn sem komið er. Burnley liðið einkennist af mikilli þrjósku og þarf mikið til að brjóta þá á bak aftur. Liðið er að ganga í gegnum smávægileg vandræði með meiðsli en leikmenn á borð við Jóa Berg, Ashley Barnes, Jack Cork hafa verið að glíma við meiðsli. Svo auðvitað Daniel okkar Drinkwater sem er að jafna sig eftir kvennafar, sögur segja þó að hann sé byrjaður að æfa aftur og verður klár í slaginn á næstu vikum. Þó svo að okkar mönnum líði ágætlega á Turf Moor má ekki gleyma því að Burnley hefur alla burði til þess að gera okkur lífið leitt, þeir hafa sannarlega sýnt það eftir að þeir komust aftur upp í úrvalsdeildina 2014. Alls hafa liðin mæst átt sinnum á þeim tíma og við aðeins unnið fjóra af þeim leikjum, Burnley einn og hafa liðin gert þrjú jafntefli. Þó svo að Chelsea séu í flottum gír þessa dagana þarf að stíga varlega til jarðar því Burnley hefur sýnt fram á getu til að stela af okkur stigum og er leikurinn á Stamford Bridge á síðustu leiktíð frábær vitnisburður um það.


Spá

Takist Lampard að spila liðinu líkt og við gerðum á móti Ajax – Newcastle – Southampton þá er enginn vafi um við förum með sigur af hólmi. Ég ætla að gerast svo frakkur að hlaða í 0-3 spá. Þeir sem skila boltanum í netmöskvana í leiknum verða Zouma eftir hornspyrnu, Pulisic eftir fallegt einstaklings framtak og svo Batsman kemur inná og heldur uppteknum hætti í samstarfi við Pulisic.

bottom of page