top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Burnley gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 17 minutes ago
  • 5 min read

Keppni: Premier  League

Tími, dagsetning:  Laugardagur 22. nóvember kl: 12.30

Leikvangur: Turf Moor

Dómari:  Peter Bankes

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson


ree

Þá er leiðinlegu landsleikjahléi loksins lokið og 12. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar að detta í gang. Þennan laugardaginn förum við í heimsókn á Turf Moor og heimsækjum Burnley. Þeir eru í erfiðri stöðu í deildinni eða í 17. sæti með 10 stig en okkar ástsælu eru í því þriðja með 20 stig og aðeins sex stigum frá toppliði Arsenal. Síðasti leikur okkar manna var gegn Wolves og þar skiptust á skin og skúrir sannarlega. Fyrri hálfleikurinn var markalaus og einkenndist af endalausum sendingum sem engu skiluðu og á tímabili virtust Wolves líklegri til afreka. Það virðist vera að getuleysi andstæðinganna smiti okkar menn æði oft og það kemur upp eitthvað ráðleysi og óöryggi. En í seinni hálfleik fór að draga til jákvæðra tíðinda og menn sköpuðu sér færi og það sem meira er, að þeir nýttu þau! Malo Gusto skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu á 51. mínútu og Joao Pedro bætti við öðru á þeirri 65. og nafni hans Neto gulltryggði okkar sigur með marki á þeirri 73. Fyrsta og þriðja markið komu eftir stoðsendingu frá Alejandro Garnacho og var hann valinn maður leiksins mjög verðskuldað. Hann vex með hverjum leik og vona ég að menn séu farnir að taka hann í sæmilega sátt, þrátt fyrir óhóflega símanotkun og virðingarleysi að margra mati í byrjun. Þrjú stig eftir leikinn gegn Wolves voru í raun skyldusigur og það hefði verið skelfilegt að dragast aftur úr, en það hefur svolítið loðað við okkar menn að glutra niður gullnum tækifærum til þess að koma okkur ofar í töflunni með því að tapa stigum sem “áttu” að vera nokkuð tryggð. Núna ríður á að tapa ekki einbeitingu og moka inn stigum en leikjaplanið framundan er frekar þýft. Við eigum t.d. Arsenal. Newcastle, Everton og Leeds eftir fram að jólum og Barcelona í Meistaradeildinni næstkomandi þriðjudag.


Ungstirnið Estevao fór með himinskautum með Brasilíska landsliðinu í landsleikjahléinu og þvílíkur leikmaður sem þessi drengur er að verða! Með fleiri mínútum sem hann fær á vellinum, þá á hann bara eftir að verða betri. Á Turf Moor munum við hitta fyrir Scott Parker þjálfara Burnley sem lék með Chelsea 2004 - 2005 og stóð sig með ágætum, en hins vegar hefur þjálfaraferill hans ekki verið samfelld sigurganga. Hann kom þó Burnley upp í efstu deild og virðist sem þjálfarakunnátta hans sé kannski ekki alveg fallin til að vera á stóra sviðinu, en tökum það ekki af honum að þar er hann, og verður til vors í það minnsta. Eitt áhugavert gerðist í síðasta leik fyrir landsleikjagluggan, en þá mætti Axel Disasi beint úr frystikistunni og spilaði leik sem fyrirliði með U21 liðinu okkar, sem er oftar en ekki nefnd "þróunarliðið" (e. development squad). Liðið slátraði Reading 4-1 og í kjölfarið hóf Disasi æfingar með aðalliðinu. Á hann afturkvæmt? Það verður að koma í ljós, en í það minnsta, er verið að koma kallinum í leikform áður janúarglugginn opnist. Það sem hefur vakið lukku hjá Maresca er hvernig sá franski hefur komið fram af fagmennsku, þrátt fyrir þetta bakslag í hans ferli. Það verður að virða.


Disasi á æfingu með Delap
Disasi á æfingu með Delap

Chelsea 

Það virðist vera allsæmileg holning á liðinu þessa dagana. Þó meiðslalistinn sé í lengra lagi og góðar fréttir eru að Pedro Neto er farinn að æfa aftur eftir meiðsli og það styttist í að Badiashile mæti til leiks. Cole Palmer er ekki farinn að sjá til lands ennþá og Romeo Lavia er mættur aftur á listann. Ég er reyndar farinn að hafa miklar efasemdir um þennan mann og mér finnst að þetta sé að verða fullreynt með hann. Menn ættu að fara að líta í kringum sig eftir varanlegri afleysingu, eins leiðinlegt það er að segja það. Hann virðist vera allt of brothættur fyrir þennan bolta sem spilaður er á Englandi. Mér finnst mórallinn og andlegi hlutinn mun skárri en oft hefur verið og Maoríinn er greinilega að koma sínu til skila varðandi hugarfarið. Þeir sem sjá um líkamlegu hliðina virðast því miður vera aðeins á eftir og þeim gengur illa að koma mönnum í stand. Þegar leikmenn koma aftur inn eftir meiðsli er allt of algengt að þeir þola ekki nema brot úr leik til að hrapa í sama farið aftur. Munum að Lavia náði held ég 16 mínútum en þá var það búið. Þegar janúar nálgast þá fara sögur á kreik og vangaveltur verða um komandi félagaskiptaglugga. Helstu væntingar eru að Mike Maignan markvörður AC Milan sé væntanlegur og verður það að teljast líklegt. Einnig berast fréttir af því að okkar menn séu búnir að tryggja sér þjónustu Ekvadorans Deinner Ordonez sem þykir einn efnilegasti varnarmaður sem sést hefur lengi. Hann leikur með Independiente del Valle í heimalandi sínu og er fæddur árið 2009. Hann gengur til liðs við okkur í janúar 2028 samkvæmt nýjustu fréttum. Þrátt fyrir ungan aldur er hann 188 cm á hæð og nautsterkur. Við höfum góða reynslu af því að leita til Ekvador, en Caiceido er okkar besti maður núna og Kendry Paez kemur einnig þaðan, en hann er í góðu yfirlæti í uppeldisstöðinni í Strasbourg og gerir góða hluti þar. Aðrar fréttir eiga efalaust eftir að skjóta upp kollinum og mun það klárlega koma í ljós á næstu vikum en látum það bíða svo við getum röflað um það á Aðventunni. Það væri nú gott að drengirnir færu nú að komast í smá jólaskap og lyfta náungakærleiknum aðeins svo við losnum við þessi rauðu spjöld sem þeir hafa verið duglegir að sanka að sér undanfarið því við höfum ekki efni á að missa menn í bann í kjölfarið á einhverjum kjánaskap.


Burnley

Burnley liðið eða The Clarets komust í Úrvalsdeildina vorið 2025 undir stjórn Scott Parker en hann tók við liðinu af Vincent Kompany þegar hann brá sér yfir til Þýskalands og tók við Bayern Munchen. Liðið lenti í öðru sæti Championship deildarinnar á síðasta tímabili og leikur því á stóra sviðinu í ár. Ekki hefur hnakkurinn verið þröngur á hestinum þetta árið, enda hrossið frekar horað sem af er. Nú eru Parker og lærisveinar hans í 17. sæti með 10 stig eftir 11 umferðir og er ljóst að það verður á brattann að sækja fyrir þá í vetur. Liðið hefur á að skipa fínustu leikmönnum og má þar nefna helsta Kyle Walker fyrrum varnarjaxl Manchester City, fyrirliðan Josh Cullen og þar má líka nefna fyrrum Chelsea leikmenn eins og Lesley Ugochukwu, Bashir Humphreys og Armando Broja sem verður þó fjarri góðu gamni þar sem hann meiddist í landsleikjahléinu. En ekki er nóg að hafa mannskapinn ef hann smellur ekki saman?


Liðsuppstilling og spá

Samkvæmt öllu á þetta að vera klár þrjú stig í pokann! við höfum ekki tapað fyrir Burnley í 11 síðustu viðureignum og unnið átta sinnum og gert þrjú jafntefli. En það þýðir samt ekkert að vanmeta þá. Það þarf að spila skynsamlega og skapa mörg færi því varnarleikur og markvarslan hjá Burnley er þeirra sterkasta hlið. Enzo Maresca er ólíkindatól! Það er ekki hægt að neita því og við höfum aldrei verið sammála um hvernig stilla skal upp liðinu fyrir leik, en verð þó að geta þess að hann hefur aldrei reyndar spurt mig ráða og ég á ekki von á að þar verði breyting á. Ég tel þó að Sanchez verði á milli stanganna og þar fyrir framan verði Cucurella, Tosin, Fofana og Gusto. Á miðjunni verða þeir Caicedo og Fernandez og fyrir framan þá verða Garnacho og Estevao og Joao Pedro í holunni og Delap verður fremstur. Ég á von á að þetta geti orðið þæfingur framan af en svo smellur allt saman og við vinnum þetta 1 - 4 og tryggjum okkur þriðja sætið áfram. 



Góða skemmtun og áfram Chelsea !!!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page