top of page
Search

Burnley - Chelsea


Keppni: Premier League


Tími, dagsetning: Laugardagur 7. október kl: 14:00


Leikvangur: Turf Moor


Dómari: Stuart Attwell


Hvar sýndur: Síminn Sport og valdir sportbarir


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Þá er komið að 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og nú liggur leiðin á Turf Moor þar sem við hittum fyrir Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í Burnley FC.

Nú virðist sem eitthvað sé að birta til hjá okkar mönnum en tveir sigurleikir í röð hljóta að blása mönnum von í brjóst um bjartari framtíð, en við fengum Fulham í heimsókn á mánudaginn og þar unnum við sætan sigur. Þar reyndust 18. og 19. mínúta leiksins okkur drjúgar en jesúbarnið okkar hann Mudryk skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og mínútu seinna náði Broja að skora sitt fyrsta mark eftir langt meiðslatímabil. Sérlega ánægjulegt að sjá þá opna reikninginn sinn og vonum við að nú hlaðist inn á hann!


Það voru sannarlega fleiri sem áttu góðan leik gegn Fulham og Cucurella sem hefur nú ekki fengið sérlega góða umsögn átti líklega sinn besta leik í bláa búningnum og Gallagher var mjög solid og vinnusamur og raunar áttu flestir leikmenn liðsins hreint ágætan leik.

Þó skyggði verulega á gleðina að Ben Chilwell meiddist enn og aftur og verður frá í nokkrar vikur.

Ég held að það sé eitthvað verulega brogað við lækna og sjúkraþjálfarateymi liðsins þar sem menn virðast hrynja niður í meiðsli hver um annan þverann og ég skil ekki hvað Toddmaster hefur verið að hugsa þegar hann tók með sér rútu af alls kyns fræðingum frá Ameríku sem virðast greinilega ekki vera með þessa hluti á hreinu og virðast ekki hafa neina þekkingu á þjálfun knattspyrnumanna

og maður minn hvað þetta hefur komið okkur illa sem af er tímabils !!


Er ekki kominn tími til að ráða Evu okkar aftur ?


Poch hefur reyndar gefið það út að nú séu menn að tínast inn úr meiðslum og Reece James er að verða klár en tekur út leikbann og verður því ekki tiltækur fyrr en eftir landsleikjahlé eða þann 21 október þegar við fáum Arsenal í heimsókn. Það sem kom líka skemmtilega á óvart í leiknum gegn Fulham var að það virtist sem meira sjálfstraust og trú væri í leikmönnum og þessi mörk virkuðu sem vítamínsprauta á liðið og var auðséð að þessi tvö mörk sem komu nánast á sömu mínútunni voru langþráð og holningin á liðinu var allt önnur.

Ég er sannfærður að liðið mætir hungrað til leiks og það verður gott búst að fá Nico jackson aftur á grasið vel úthvíldan eftir leikbannið.


Það er hins vegar alveg ljóst að liðið verður ekki fullskipað fyrr en í fyrsta lagi á aðventunni þar sem Nkunku verður ekki klár fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta nóvembermánaðar og margt getur gerst þangað til í meiðslamálum en það væri óskandi að hann héldist heill því það hafa verið óþægilega mikil meiðslavandræði á honum og hef ég svolitlar áhyggjur af því að það gæti fylgt honum en skal glaður éta þetta allt ofaní mig ef annað kemur á daginn.





Nú heyrist að horfur séu á því að Andrey Santos verði kallaður inn úr láni frá Nottingham Forest í janúar en hann hefur ekkert komið við sögu hjá Forest sem af er og þarf nauðsynlega spilatíma og einnig hafa heyrst raddir þess efnis að reynt verði að fá Ivan Toney frá Brentford og einnig er mikill áhugi hjá klúbbnum að fá nígerísku markamaskínuna Victor Osimhen frá Napoli og ef af verður þá yrði framlínan hjá okkar mönnum ekki árennileg.


Chelsea:


Það er margt jákvætt í kortunum hjá okkar mönnum og engin ástæða til annars en að vera bjartsýn. Fyrst og fremst eru þeir farnir að skora mörk og það skiptir jú ansi miklu máli ef hagstæð úrslit eiga að nást.

Það virðist sem Poch sé að ná að spila mönnum rétt og sú ákvörðun til dæmis að færa Cucurella til er greinilega að ganga upp og verður fróðlegt að sjá hvort hann sé búinn að tryggja sig inn í byrjunarliðið með góðri frammistöðu undanfarið. Caicedo virðist vera að finna fjölina eftir ögn brösuga byrjun og Mudryk og Broja komnir á bragðið og aðrir leikmenn farnir að skila mun betri frammistöðu.

Við fáum Nico inn í sóknina og erum farnir að sjá til lands með leikmenn í meiðslum þannig að ég vona að við séum komnir á beinu brautina og ef sjúkraþjálfarateymið kíkir aðeins í bækurnar og skerpir á kunnáttunni þá er ekkert víst að þetta klikki.


Burnley:


Lærisveinar Vincent Kompany hjá Burnley eru nýliðar í deild hinna bestu og eftir 7 leiki eru þeir með 4 stig en þeir gerðu jafntefli við Nottingham Forest og sigruðu svo Luton sem fylgdu þeim upp í vor.

Það er alveg ljóst að þeir eiga erfiðan vetur framundan en maður skildi aldrei segja aldrei enda er Kompany kraftaverkamaður og yfirleitt bestur þegar á reynir. Þetta á að vera skyldusigur en hversu oft hafa “litlu” liðin staðið hressilega í okkur.

Það eru ekki miklar líkur til að við fáum að sjá íslending slást við okkur þar sem Jóhann Berg Guðmundsson á við vöðvameiðsli að stríða og er tæpur fyrir leikinn en Burnley hefur á að skipa fínum leikmönnum sem vantar kannski helst reynslu til að spila á stóra sviðinu.


Liðsuppstilling og spá:





Jæja þá er að rýna í liðsuppstillingu og mjöðmin segir mér að Poch fari í 4-3-3 kerfið.

Sanchez verður í markinu og svífur stanga á milli og þar fyrir framan verða þeir Disasi, Cucurella, Silva og Levi Colwill.

Miðjan verður grimm og þeir Enzo, Caicedo og Gallagher koma til með að stjórna henni og framlínan verður að þessu sinni skipuð þeim Mudryk, Jackson og Palmer sem er búinn að stimpla sig vel inn.


Það er bjartsýni ríkjandi og trúi ég að við náum góðum sigri eða 0-3 og þetta verði góður laugardagur.


Hvet ég allt Chelsea fólk til að ganga í klúbbinn og að sjálfsögðu hvet ég allt Chelsea fólk til að hittast yfir leiknum og eiga glaðann dag.



Áfram Chelsea !!!

KTBFFH!!!














Comentarios


bottom of page