top of page
Search

Brighton - Chelsea

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:    Miðvikudagur 15. maí kl: 18:45

Leikvangur:   American Express Stadium, Brighton

Dómari: Michael Salisbury

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason



Það er óhætt að segja að Chelsea séu ágætri siglingu. Liðið vann Nottingham Forest á utivelli um liðna helgi. Chelsea komst yfir með laglegu marki frá Mikhailo Mudryk eftir geggjaða sendingu frá Cole Palmer. Forest skoruðu stuttu seinna eftir fast leikatriði, sem er endurtekið stef í okkar varnarleik. Svo hlaut það að gerast, að Callum Hudson-Odoi skyldi skora gegn okkur. Mjög snyrtilegt snuddumark á fjær eftir að hafa komist nokkuð létt inn í teiginn. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út í hálfleik og maður var farinn að óttast það versta. En allt kom fyrir ekki, og Pochettino skipti Raheem Sterling og Reece James inná. Þeir voru svo aðalmennirnir í mörkunum. Sterling skoraði mjög líkt mark og Hudson-Odoi. Leikarnir orðnir þá jafnir. Reece James fékk langa sendingu á hægri kantinn og hann sendi laglega fyrirgjöf sem Nico Jackson mætti með glæsilegum skalla. Mjög ánægjulegt að sjá Reece James á vellinum aftur og enn ánægjulegra að sjá Nico Jackson skora sitt 14. mark í deildinni. Við þreytumst ekki að minnast á það, að einungis sjö ár eru síðan Jackson fór að nota takkaskó. 3-2 sigur var niðurstaðan og í raun má þakka Pochettino sigurinn fyrir að hafa loksins breytt rétt í leiknum, en verum þó alveg heiðarleg með það, að Chelsea eiga ekki að vera í slíkri stöðu. Það er þó nokkuð ljóst að uppgangur Chelsea hefur við töluvert betri á seinni hluta tímabilsins en þeim fyrri. Ef miðað væri við síðustu 18 leiki, þá værum við rétt á eftir City, Arsenal og Liverpool. Þessi árangur mun án efa festa Pochettino í sessi, a.m.k. um eitt tímabil.


Það er komin strax hreyfing á leikmannamarkaðinn. Galatasaray virkjuðu klásúlu í lánsamningi Hakim Ziyech og kaupa hann fyrir samtals 6,5m evra. Romelu Lukaku hefur átt slakt tímabil með Roma, sér í lagi, eftir að Mourinho var sagt upp. Hann hefur ekki fundið netmöskvan oft undir stjórn Daniele De Rossi. Það verður að teljast ólíklegt að Roma virki kaupákvæðin. Fjölmiðlar hafa þó getið til þess að Lukaku verði notaður sem skiptimynt í samningaviðræðum við Napoli til þess að klófesta Victor Osimhen. Það á eftir að koma betur í ljós. Ef ekkert verður af því er voða lítið að frétta, nema Sádarnir mæti með sand af seðlum fyrir þann belgíska. Einnig var skrafað um það að Andrey Santos myndi fá annað tímabil hjá Strasbourg. Franska liðið okkar er komið uppúr fallhættu og sá brasilíski hefur fest sig í sessi hjá liðinu með góðar einkunnir eftir sína leiki. Svo kom frétt í morgun þess efnis, að Real Madrid þurfa að millifæra aðrar 5 milljónir punda á reikning Chelsea. Hvers vegna? Jú, þrátt fyrir að Eden Hazard sé hættur, þá samningsákvæðið hans ennþá virkt um að úrslitaleikur í meistaradeildinni þýði að Chelsea fái ágætis sneið af kökunni þar. Marina Granovskaia er því sannarlega viðskiptamaður ársins í þessu samhengi.


Framundan er síðasti útileikur tímabilsins við Brighton & Hove Albion. Þrátt fyrir að tímabilið hjá Brighton hafi verið töluvert verra en í fyrra, þá er verið að orða stjóra liðsins, Roberto De Zerbi við allskonar stórlið, t.d. AC Milan, Juventus, Manchester United og Bayern Munchen. De Zerbi hefur gert það besta úr stöðunni, en Brighton hefur verið án margra lykilmanna meirihlutann af tímabilinu. Í dag eru 10 leikmenn hjá þeim á sjúkralistanum og það hefur verið stefið síðasta misserið. Það reyndist kanski of stór biti að fara í evrópukeppnina í þessu meiðslaástandi með ekki stærri prófíl af leikmönnum en liðið gerði jafntefli við Newcastle á St. James' um síðustu helgi og þar áður unnu þeir Aston Villa á heimavelli eftir mjög erfiðan apríl. Brighton hafa engu að keppa þannig séð, en þetta er þó ekki síðasti heimaleikurinn þeirra. Þeir eiga Manchester United eftir síðasta leiknum sem við vonum sannarlega að Brighton klári.


Aðeins sex leikmenn Chelsea eru á sjúkralistanum, Chilwell, Chukwuemeka, Enzo, Sanchez, Lavia og Fofana. Hvort Thiago Silva spili þennan leik er eiginlega spurningarmerkið, þar sem Malo Gusto og Reece James eru oðrnir heilir og Trevoh Chalobah hefur verið hvað skástur heilt yfir í vörninni. Síðasti leikur tímabilsins verður líka síðasti leikur Thiago fyrir Chelsea, og það er verið að undirbúa mikla kveðjuhátíð. En líklegasta byrjunarliðið að mati CFC er þetta: Petrovic í markinu að venju. Gusto í hægri bakverði, Cucurella í vinstri. Badiashile og Chalobah miðverðir. Caicedo, Palmer og Gallagher á miðjunni. Raheem Sterling vinstra megin og Madueke hægra megin. Nico Jackson að sjálfsögðu á toppnum. Sá ætlar að bæta mörkum við sig.




Hvernig fer leikurinn? Segjum bara 0-3. Jackson með þrennu? Eru ekki allir í stemmningu fyrir því?


Áfram Chelsea!


KTBFFH!!!


Comments


bottom of page