Gangur leiksins
Chelsea vann frekar ósannfærandi sigur á Brighton í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikar enduðu 1-3. Jorginho kom okkar mönnum yfir úr vítaspyrnu á 23. mínútu eftir að Timo Werner var felldur í vítateig heimamanna. Brighton menn jöfnuðu metin á 54. Mínútu, var þar Leandro Trossard að verki. Aðeins 83 sekúndum síðar skoraði Reece James alger draumamark, þrumufleygur upp í skeitin og okkar menn aftur komnir í forystu. Það var svo Kurt Zouma sem lokaði þessum leik með marki á 66. mínútu eftir hornspyrnu Reece James.
Umræðupunktar
Lampard byrjaði með leikkerfið 4-2-3-1 þar sem Mount og Havertz voru á vængjunum en hvorugur þeirra er náttúrulegur vængmaður.
Ruben Loftus-Cheek fékk tækifærið í byrjunarliðinu sem fremsti maður á miðjunni og átti vægast sagt slakan dag, tapaði boltanum oft og ætti að gleyma þessum leik sem allra fyrst.
Öll miðjan okkar lék illa í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Kante og Jorginho voru alls ekki að ná að halda vel í boltann og voru einnig ósamstíga í pressunni.
Leikur liðsins batnaði mikið við innkomu Ross Barkley.
Reece James var frábær sóknarlega en átti í smá basli með Solly March varnarlega.
Timo Werner var virkilega duglegur, leiddi línuna vel og fiskaði vítið.
Havertz mun eiga betri daga – er ekki sannfærður um að hægri vængurinn henti honum.
Lampard tók Christensen og Zouma fram yfir Rudiger – er „Agent Rudi“ orðinn fjórði kostur í miðvörðinn?
Tareq Lamptey var frábær í liði Brighton – Marcos Alonso verður fegin að þurfa ekki að mæta honum í hverri viku.
Kepa gerði „Kepa“ mistök. Ver ekki skot sem flestir Pepsi deildar markmenn hefðu varið.
Einkunnir (0-10)
Byrjunarlið
Kepa – 4
Reece James – 7
Christensen – 7
Marcos Alonso – 5
Zouma – 7,5 (Maður Leiksins)
Kanté – 6
Jorginho – 6
Loftus-Cheek – 4
Havertz – 5,5
Mount – 5,5
Werner – 7
Varamenn
Barkley – 7
Hudson-Odoi - 6
Azpilcueta – spilaði of stutt til að fá einkunn
Niðurstaða
Það er styrkleikmerki í því að vinna leiki sem þú spilar illa í. Vonum að Lampard finni réttu blönduna af byrjunarliði fyrir næsta leik, fyrir mér vantaði liðinu hraða á vængina og söknuðum við leikmanns eins og Pulisic sem hleypur fyrir aftan öftustu varnarlínuna og teygir á vörninni. Mount og Havertz gáfu alltof mikið til baka eða leituðu inn á miðsvæðið og því var ekkert sérstaklega góður taktur í okkur sóknarlega.
Engu að síður er frábært að byrja mótið með sigri, þrjú stig í hús og áfram gakk!
KTBFFH
- Jóhann Már Helgason
コメント