Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 15. desember 2024 kl. 15:30
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Peter Bankes
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason
Chelsea – Brentford.
Þegar hvolpurinn Bjartur kom inn á heimilið fyrir fjórum árum síðan þá hitti hann fyrir ættlerann sem er á sömu nótum og hann sjálfur. Forvitinn, kvikur, geðgóður, þrjóskur, óþolinmóður með athyglisbrest og kurteisan njálg eða eins og húsbóndinn á heimilinu (Enzo). Tókust þegar með okkur góðar virktir en þar sem þetta er stjórnsamur dvergpincher þá tók smá tíma að fá niðurstöðu í hvor okkar væri foringinn í hópnum. Á endanum taldi ég mig þann sem valdið hefur og stjórnar en þar sem pincherar eru mannþekkjarar þá spila þeir oft með fólk eða frekar stýra því “sína leið” eins og góðum narsisistum sæmir. En Bjartur vék varla frá mér ef ég lagðist niður eða settist fyrstu tvö árin. Ég tala nú ekki um þegar ég horfði á fótbolta. Eða þar til fyrir tveimur árum síðan þegar Tuchel var rekinn frá Chelsea og Potter og allir hinir paufarnir tóku við.
Þá fóru skrýtnir hlutir að gerast hjá okkar ágæta félagi og greinilega mér einnig. Ég kenndi gamla LG sjónvarpinu mínu um hrakfarir Chelsea og keypti mér því snjallan samsöng (Samsung). Það er auðvitað raddstýrt (voice activated) þannig að ég fór að gefa okkar leikmönnum og þjálfara góð ráð þegar á bjátaði, sem var oft. Einhvern veginn fór þetta úr böndunum og ég var oftar en ekki farinn að ragna og kasta hnútum í samsönginn. Og stundum með slíku offorsi að aumingja Bjartur lagði á flótta og leitaði titrandi með skottið niður í pilsfald húsmóðurinnar á heimilinu eða faldi sig í búrinu sínu. Þessa framkomu gagnvart dýrinu (gæti varðað við dýraverndunarlög) væri hægt að afsaka ef þetta væru fá og afmörkuð atvik en því miður batnaði árangur Chelsea ekkert í tvö heil leiktímabil, þótt ég æpti mig hásan í átt að skjánum þegar leikir liðsins voru sýndir. Þannig að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að raddstýringin í samsöngnum er mögulega ekki virk eða þá að hún er ofmetin. Bjartur hafði meira segja varann á sér eftir leiki jafnvel þótt húsbóndinn tæki hann með sér í langa göngutúra til að kæla og róa sig niður. En lét sig hafa það.
Nú er öldin önnur. Koma Maresca og áhrif hans á ungan leikmannahóp Chelsea er með ólíkindum á stuttum tíma. Þrátt fyrir margs konar unggæðingshátt í varnarleik Chelsea sem alveg verðskulda samræður með tveimur hrútshornum við samsönginn, þá er svo mikið meira jákvætt en neikvætt að gerast í kringum Maresca að ég hef alveg látið af öskuapariðjunni. Til að byrja með hafði eiginkonan áhyggjur um að mér væri farið að förlast eða lagstur í steinþegjandi fótboltakör. En virðist núna ágætlega ánægð með breytinguna. Bjartur aftur á móti forðast enn nærveru við mig þegar hann sér einhverjar bláar verur hreyfast á samsöngnum og lætur sig hverfa snimmhendis. Hann heldur eflaust að það verði einhver hundur í mér.
Ég hefði eflaust rúmlega brjálast við samsönginn ef leikurinn gegn Spurs sl. sunnudag hefði átt sér stað í fyrra en ekki í núinu. Maresca blæs á fullyrðingar sparkspekinga og pressunnar um að Chelsea eigi möguleika að vinna Deildina. Þó ég ætli ekki að gera Maresca upp skoðanir þá held ég að hann viti manna best að töluvert vanti upp á gæði og öryggi í öftustu vörn. Meira að segja Colwill tapar ítrekað einbeitingunni og við fáum mark í kjölfarið. Þessi efnilegi drengur verður að fullorðnast og það fljótlega því aðrir miðverðir eru hálfgerðir fimbulfambar eða þá meiddir. Ég ætla ekki enn og aftur að ergja mig yfir að skrifa um Sanchez og Badiashile, en þeir tveir ættu að spila með stóra heilsuaðvörun á bakinu. “Áhorf hættulegt hjarta- og kransæðasjúklingum vegna mögulegs háþrýstings”. Ekki veit ég hversu lengi þeir tveir fá séns hjá Maresca. Það er augljóst hvernig andstæðingar Chelsea pressa á upphafsspyrnur út frá marki því Sanchez er hörmulegur spyrnumaður. Aðeins 53% sendinga hans heppnuðust í Spursleiknum meðan til dæmis sendingar frá Colwill heppnuðust 98% í sama leik. Badiashile var hreinlega skelfilegur sem “hægri” miðvörður en aðeins skárri þegar hann skipti við Colwill og fór til vinstri. En hann er því miður bara ávísun á varnarslys á 10 mínútna fresti. En GÓÐUR á milli eins og einhver sagði!!!!
En auðvitað verður Chelsea ekki Englandsmeistari eða bikarmeistari ef við fáum jafn heimsk mörk á okkur og í leiknum gegn Spurs. Fyrstu tvö mörkin vegna þess hve Cucurella var illa skæddur og skaflaður sem ber vott um ákveðinn dómgreindarbrest, að taka ekki skeifnasprettinn til að treysta grundirnar fyrir leikinn og síðan á lokamínútunum þegar nákvæmlega enginn leikmaður Chelsea nennti að verjast Madison við endalínuna þó 4-5 þeirra hafi verið í seilingarfjarlægð. Þó svo að Chelsea sé eitt árangursríkasta knattspyrnufélagið í Evrópu um þessar mundir í markaskorun þá er staðreyndin sú að Chelsea búið að gera fjögur 1-1 jafntefli í Deildinni (þrjú á heimavelli) og hefur því skorað aðeins eitt mark hverjum leik og fengið þá eitt á sig. Chelsea mun ekki keppa um Englandsmeistaratitilinn fyrr en þessir ungu varnardrengir fara að leika agaðri vörn og hætta að leka ódýrum mörkum eins og gegn Spurs. Og markmaðurinn traustari. Auðvitað á að leyfa Jörgensen að spreyta sig í stóru leikjunum. Hann getur varla verið verri en Sanches. Einnig þarf að fjárfesta í góðri Silva-eftirlíkingu til að koma ró og stöðugleika í öftustu varnarlínu. Hvorki Badiashile eða Disasi eru framtíðarmenn hjá Chelsea að mínu mati.
Við tökum á móti Brentford á Brúnni sem er það lið sem skorað hefur næstmest í Deildinni (ásamt Spurs) á eftir Chelsea. En 84% af mörkunum skora þeir á eigin heimavelli (26-5) meðan þeir hafa fengið á sig jöfn mörk á útivöllum eins og heima (14-14). Chelsea er aftur á móti duglegra að skora á útivöllum en á Brúnni en eflaust má skýra það að lið sem þangað koma liggi aftarlega og verjist. En Chelsea er ekki nógu marksæknir/heppnir heima fyrir eins þeir voru í fyrra (23-24). Sem var þó ekkert til að hrópa hátt húrra fyrir. En þá skoruðum við 44 mörk á Brúnni í 19 leikjum en erum komnir í aðeins 12 mörk í sjö heimaleikjum í ár. Síðustu tvö ár hefur Chelsea aldrei unnið Brentford eða þolað þrjú töp og gert tvö jafntefli. Markatalan 3 mörk gegn tíu Brentford í vil. Ég heimta að það breytist á sunnudaginn.
02 Apr 2022 | L | 1-4 | Premier League | |
19 Oct 2022 | D | 0-0 | Premier League | |
26 Apr 2023 | L | 0-2 | Premier League | |
28 Oct 2023 | L | 0-2 | Premier League | |
02 Mar 2024 | D | 2-2 | Premier League |
Ivan Toney var aðal markaskorari Brentford þar til spilafíknin setti dæld í hans feril hjá félaginu og kostaði hann bann og á endanum sölu út í eyðimörkina. Hans ferill fór ekki á flug eftir að hann kom úr banninu þannig að lunkinn stjóri Brentford, Thomas Frank, varð að virkja aðra leikmenn í markaskorun. Frank hefur tekist það glimmrandi vel því framherjinn Wissa og kantmaðurinn Mbeumo hafa myndað eitrað framherjapar sem geta hrellt hvaða lið sem er (sjá yfirlit). Saman hafa þeir skorað 18 mörk Brentford í Deildinni eða 60% þeirra. Ef okkur tekst að stöðva þessa tvo kviku og fljótu leikmenn þá ættu möguleikar á sigri okkar manna að aukast verulega. Svo fremi sem heimamarkaharðlífið hrjái ekki okkar menn.
Wissa er einstaklega laginn að finna sér svæði milli varnarmanna samanber hjólhestaspyrnumarki gegn okkur síðast meðan Mbeumo virkar eins og Ferrariskriðdreki. Fljótur köggull sem óhræddur er að taka menn á og drjúgur að nýta sér færin. Á eigin heimavelli, þar sem þeir eru hvað atkvæðamestir í sókninni og markaskorun, fara þeir yfirleitt hamförum gegn vörnum annarra liða og bera enga virðingu fyrir hvar það lið er á stigtöflunni. Á útivelli virðast þeir ekki eins andsettir en enginn skyldi vanmeta þessa tvo, síst af öllu lið með jafn brothætta og mistæka öftustu vörn og Chelsea.
Chelsea fór á skautaæfingu alla leið til Kazahkstan á fimmtudag til að leika við Astana í Samabandsdeildinni. Maresca tók enga áhættu með helstu aðalliðsmennina að ferðast þennan langa veg (rúmlega átta tíma flug auk millilendingar) og leika við skilyrði (frosinn völl og fimbulfrost) sem bjóða upp á meiðsl og tognanir. Í staðinn fór hann með nokkra eldri og reyndari leikmenn og síðan unglinga úr akademíunni. Alls komu sjö ungir leikmenn út “fótboltaskólanum” við sögu í leiknum gegn Astana og á heildina litið stóðu þeir sig flestir mjög vel. Gaman að sjá Acheampong aftur í liðinu. Rak-Zakyi vakti athygli mína fyrir þroskaðan leik meðan Tyrique George sýndi sýnar bestu brellur en mætti laga skotin hjá sér. Marc Guiu stóð sig mjög vel sem og Renato Veiga. Það sýnir sig hvað Chelsea á mikið af strákum 20 ára og yngri sem eru nú þegar góðir og verða mögulega frábærir. Við bætast Santos, Wiley, Anselmino, Estevao og Paez eiga eftir að koma til liðs við félagið en þeir eru allir á láni sem stendur. Framtíðin er björt hjá Chelsea ef eigendurnir breyta því ekki í Brightonmódelið.
Samkvæmt meiðslaskrá þá eru aðeins James, Fofana og Kellyman forfallaðir sem stendur. Sem og Neto sem situr af sér fimm spjalda bann. Þannig að liðshópurinn er ágætlega mannaður og vel undirbúinn undir þennan leik. Og það sem mikilvægast er að okkar sterkasta lið er óþreytt og hungrað. Sancho og Palmer eru að finna sig að nýju og það sem mikilvægast er fyrir liðið, er að Maresca hefur náð að virkja hæfileika nafna síns Enzo svo vel að hann hefur okkar jafnbesti leikmaður í undanförnum leikjum. En Caceido hefur einnig verið mjög góður.
Þar sem Disasi, Tonsin, Veiga og Jörgensen fóru þessa löngu leið í austurveg (sem og Neto) þá ætla ég að liðið á Brúnni verði þannig:
Í marki: Sanchez. Í vörn: Gusto, Colwill, Badiashile og Cucurella. Miðja: Fernandez og Caceido. Sókn: Sancho, Palmer, Madueke og Jackson fremstur. Varamenn: Jörgensen, Tosin, Veiga, Disasi, Casadei, Felix, Nkunku og Mudryk og mögulega Lavia ef hann er heill.
Leikurinn endar 2-1. Nútíma Eiður og Hasselbaink tvíeykið (Jackson og Palmer) skora.
Áfram Chelsea!
Comments