Brentford gegn Chelsea
- Jóhann Már Helgason
- 14 minutes ago
- 5 min read
Keppni: Enska Úrvalsdeildin - 4. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 13. september kl: 19.00
Leikvangur: Gtech Community Stadium
Dómari: Stuart Attwell
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson

Eftir landsleikjahlé er nú komið að fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Nú skal haldið til Miðsaxlands. Býflugurnar í Brentford eru næstir í röðinni og þar með lýkur Lundúnaslags grand-slamminu. Eins og staðan er í dag þá erum við bláliðar í öðru sæti deildarinnar með sjö stig. Engin ástæða er til að ætla að það breytist eftir helgina, enda okkar menn með vindinn í bakið og til alls líklegir. Andstæðingar okkar um helgina eru með þrjú stig eftir sigur á Aston Villa og eru það einu stigin sem komin eru í pokann hjá þeim. Aðeins þrjár umferðir eru liðnar og má nefna að Manchester City eru einnig með þrjú stig og hlutirnir fljótir að breytast.
Féttir bárust af því að Chelsea hefði fengið alls 74 ákærur um brot á reglum enska knattspyrnusambandsins sem flestar lúta að umboðsmönnum, notkun milliliða og fjárfestingu þriðja aðila í leikmönnum frá tíma Roman Abramovich. Þessum glaðningi fylgdi frestur til 19. september til að bregðast við ákærunum, en voru fljótir til og svöruðu þessu samdægurs og lýstu yfir mikilli ánægju með að þessi mál væru að ná lendingu. Það var vísað til þess að forsvarsmenn félagsins hefðu sjálfir bent á mögulega vankanta á þessum samningum og myndu að sjálfsögðu vinna með sambandinu við að leysa málin. Það er alveg ljóst að Todd og félagar eru vongóðir um að þessi mál leysist fljótt og vel. Hvað sem þeim málum líður þá er málið að spá aðeins í leikinn á laugardaginn og láta þá hjá BlueCo sjá um enska knattspyrnusambandið.

Chelsea lék síðast við Fulham þann 30. ágúst og sá leikur endaði með sigri okkar manna 2-0 og hinn sjóðheiti Joao Pedro skoraði flott mark rétt fyrir hálfleik og Enzo bætti svo við á 56. mínútu úr vítaspyrnu. Margt gott er hægt að tína úr þeim leik og það jákvætt, en einnig urðum við fyrir talsverðu áfalli þegar Liam Delap meiddist aftan í læri í leiknum. Hann er ekki væntanlegur til æfinga fyrr en í nóvember. Enzo Maresca brást við þessu með því að bæta sóknarlínuna og kalla Marc Guiu til baka úr láni. Það er vel þar sem hann hefur sýnt ágæta takta þegar hann hefur fengið mínútur. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig Alejandro Garnacho eigi eftir að pluma sig, en þessi nýjasti leikmaður okkar hefur strax fengið mikla gagnrýni fyrir að hanga í símanum í stúkunni yfir Fulham leiknum. Það er nú svolítið djúpt seilst eftir skítnum og ég bíð nú frekar eftir því hvernig hann kemur til með að standa sig, þegar á völlinn er komið, enda reikna ég með og vona, að hann skilji allavega símann eftir. Einhverjar raddir segja að hann muni ekki hafa góð áhrif á klefann, en Chelsea menn ættu þó að vera ýmsu vanir, eftir að hafa haft Jadon Sancho þar sem hann hefur víst aldrei verið auðveldur í samskiptum, og ekki sýnt af sér faglega hegðun. Mér líst vel á holninguna á liðinu sem af er og þrátt fyrir að nokkuð sé um meiðsli, þá erum við vel mannaðir á flestum sviðum og vona að við dettum ekki niður á eitthvað meðalmennskuplan. Við viljum sjá ákveðni og ákefð sem ég held að gæti fylgt mönnum eins og Estevao og Garnacho, en einnig Cole Palmer ef hann dettur almennilega í gang og þá gætu stundirnar við skjáinn orðið svo miklu skemmtilegri.

Chelsea
Ef við rennum lauslega yfir liðið og stöðuna á því þá hefur staðan oft verið verri en einnig oft verið betri. Við erum lausir við Nicholas Jackson (í bili!), Nkunku og miklu fleiri, en engin ástæða til að fara yfir það aftur, en eftir þrjá leiki eru þó talsverð meiðsli á mönnum, en eins og flestir vita er Colwill úr leik út tímabilið, Delap kemur hugsanlega inn í nóvember og Essugo verður líklega frá á sama tíma, en maður kemur í manns stað. Við höfum eitthvað af mönnum til afleysinga, en Cole Palmer mun vera tæpur fyrir leikinn á laugardaginn og sömuleiðis Romeo Lavia. Þetta er ennþá hálfgerð þrautaganga fyrir hann, enda búinn að vera mikið á sjúkralistanum því miður. Badiashile kemur víst um miðjan september og við verðum að vona að hann styrki vörnina sem er frekar brothætt að mínu mati. Við verðum að vona að Maresca sjóði saman einhvern góðann kokteil úr mannskapnum og nái því allra besta út úr þeim. Það yrði jú gott að hafa sem flesta heila þegar við mætum Manchester United 20. september. Það verður fyrsta alvöru prófraunin þetta tímabilið.
Brentford
Býflugurnar í Brentford FC eru að mörgu athyglivert lið, en þeir voru til að mynda í þriðju deild árið 2014, en rifu sig upp og eru nú í deild þeirra bestu. Það hefur stundum verið sagt um Brentford, að þeir séu eins og litla ljóta kakan á kaffihlaðborðinu sem enginn tekur eftir, fyrr en einhver smakkar og hún stelur sviðsljósinu og allir vilja uppskriftina. Thomas Frank hinn dyggi stuðningsmaður 66'N jakkanna, þjálfaði Brentford á síðasta tímabili og gerði býsna góða hluti. Frá þeim hafa komið fínustu leikmenn og má þar nefna Ivan Toney og Bryan Mbeumo. Við Íslendingar höfum jú góða tengingu við Brentford, en markvörðurinn Hákon Valdimarsson leikur með liðinu og einnig mun einn af vinaklúbbum félagsins vera UMF Selfoss. Þannig að þarna er talsverð Íslands-tenging. Hvað leikstíl Brentford varðar þá verð ég að vera hreinskilinn og segja að mér hefur alltaf þótt þeir spila frekar leiðinlegan fótbolta, en leiðinlegur fótbolti er oft áhrifaríkur og út á það gengur þetta víst. Að skora fleiri mörk en andstæðingurinn og oft með öllum tiltækum ráðum. Brentford hefur tapað tveim leikjum og unnið einn, þannig að þar er örlítill mótvindur sem við verðum að notfæra okkur og keyra á þá með öllum okkar vopnum. Býflugurnar í Brentford hafa alveg átt sín augnablik og hafa verið mjög hættulegir í föstum leikatriðum og skyndisóknum, en þeirra skæðasta vopn undanfarin ár, Bryan Mbeumo er horfinn á braut til Manchesterborgar og spurning hvað Keith Andrews þjálfari þeirra hefur í pokahorninu.
Uppstilling og spá:
Þetta verður athygliverður leikur og skemmtilegt að sjá hvað Maresca kokkar upp fyrir okkur, en ég held að það verði ekki miklar breytingar á leikkerfinu og hann hendir að venju í 4-2-3-1. Hann hefur gefið það út að hann ætli að leggja sitt traust á Sanchez í markinu og verður maður þá bara ekki að taka því. Vörnin verður Reece James, Tosin. Chalobah og Cucurella. Ég reikna með Caicedo og Enzo þar fyrir framan og í þriggja manna línuna þar fyrir framan ætla ég að setja þá Gittens, Estevao og Pedro Neto og fremsti maður verður að þessu sinni Joao Pedro. Garnacho mun fá mínútur og Malo Gusto mun líka koma inná. Ég á ekki von á að þetta verði “gönguferð í garðinum”, en spái okkur engu að síður sigri og mér finnst líklegt að þetta endi 1-3 og það verða þeir Joao Pedro og Estevao okkar markaskorarar. Þetta er mitt framlag til liðsuppstillingar en á þó síður von á að Maresca fari yfir þetta fyrir leik.
Góða skemmtun og áfram Chelsea!!! E.s. Við minnum Chelsea menn um allt land að skrá sig í Chelsea klúbbinn. Þannig nær maður miðum á völlinn á hagstæðum verðum. Einnig eru á prjónunum ferðir á vegum klúbbsins, og sú fyrsta verður farin á heimaleikinn í Meistaradeildinni gegn Benfica síðar í þessum mánuði. Skráið ykkur í klúbbinn á www.chelsea.is - þið munuð ekki sjá eftir því. Blákastið hefur líka hafið göngu sína á ný og lofa fleiri nýjum þáttum á næstunni. Hlustið á Blákastið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Comments