top of page
Search

Brentford - Chelsea

Keppni:  Premier League

Tími, dagsetning:     Laugardagur 2. mars kl: 15.00

Leikvangur: Gtech Community Stadium, Brentford, Middlesex

Dómari: Jared Gillett

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson
Jæja!! Þá er þessari bikarrunu lokið í bili og deildarleikur framundan gegn býflugunum í Brentford. Ég ætla mér að hafa sem fæst orð yfir leikinn gegn Liverpool í úrslitum Carabao bikarnum sem við töpuðum óverðskuldað og höfum sannarlega fengið að heyra það frá Púllurum og aukinheldur sérlegum sparkspekingum bresku sjónvarpsstöðvanna, sem flestallir eru hliðhollir “krökkunum” hans Klopp, sem sigruðu að sögn leikinn. En eitthvað er reikningskunnáttu þeirra ábótavant þar sem lið Chelsea reyndist yngra eftir einfaldann útreikning. Hins vegar væri skynsamlegra að horfa aðeins í leikinn gegn Leeds í 16 liða úrslitum FA bikarsins sem er að mínu mati aðeins girnilegri baukur, en sú dolla sem kennd er við Tælenskan orkudrykk, en nóg um það.


Poch stillti upp skrítnu byrjunarliði og Sanchez kom aftur í markið eftir meiðsli og smá bekkjarsetu. Einhvernveginn er maður búinn að fá svolítið álit á serbneska blóminu Djordje Petrovic eftir fína frammistöðu í fjarveru þess spænska. Þess má geta að þessar hrókeringar í markinu hafa leitt til þess að Lucas Bergström framlengdi við Chelsea og fékk að fara á láni til Brommopokjarna í Svíþjóð og Real Madrid virðast hafa gefið það út að þeir ætli ekki að klófesta Kepa, sem missti sætið sitt í byrjunarliði Real. En aftur að leiknum - Alfie Gilchrist var settur í varnarlínuna og Mudryk fékk byrjunarliðssæti og fékk frjálsa rullu í holunni. Það er ekki hægt að segja að þetta hafi byrjað vel fyrir okkar menn, en Joseph kom Leeds yfir á 8. mínútu eftir hörmuleg varnarmistök, en okkar menn stigu upp og Nico Jackson jafnaði á þeirri 15. og Mudryk kom á óvart og skoraði glæsilegt mark á 37. mínútu og þá hélt maður að þetta væri komið. Við fórum inn í hálfleik með eins marks forystu. En eins og svo oft áður þá dró aðeins fyrir sólu og Joseph jafnaði fyrir Leeds á 59. mínútu og allt var í járnum. Á 60. mínútu skipti Pochettino Gallagher inná fyrir Madueke og það var vinnuhesturinn sem varð bjargvætturinn okkar, þegar hann skoraði frábært mark eftir stoðsendingu frá Enzo.


Það var ýmislegt sem kom á óvart í þessum leik og það sem mér þótti flott að sjá var að Mudryk var óvenju frískur í holunni og held ég að þar sé hans staður. Það voru einnig batamerki á Caiceido og Enzo var ákveðinn og virkaði fínn. Neikvæðu punktarnir að mínu mati voru Vottur Chalobah sem virkaði alveg úti á túni og vona ég að hann fari lóðbeint á bekkinn aftur. Raheem Sterling er greinilega kulnaður og virkar bæði áhugalaus og latur, ofaná litla líkamlega getu til að standa í þessari deild. Fleiri neikvæðir punktar? Já, mín spá virðist rætast að við höfum keypt gríðarlegan meiðslapésa í Nkunku. Þeir eru teljandi á fingrum annarar handar leikirnir sem hann hefur spilað og enn á ný er hann meiddur, og í þetta skiptið verður hann frá í allavega mánuð. Ekki er staðan betri varðandi Lavia en kannski er þetta eins og með jarðaberin, það eru alltaf nokkur mygluð í pakkanum. En verum samt jákvæðir og sigurinn gegn Leeds er staðreynd og við munum mæta Leicester í næstu umferð. En þá skulum við aðeins horfa til laugardagsins og velta fyrir okkur hvað Thomas Frank er með uppi í erminni, en við Íslendingar eigum þar fulltrúa í Hákoni Valdimarssyni markverði. Brentford er þessa stundina í 16. sæti deildarinnar með 25 stig eða 5 stigum frá fallsæti. Þeir eru jú, búnir að fá Ivan Toney aftur úr leikbanni þar sem hann fór heldur geyst í veðmálum. En hann hefur tekið til við að skora, enda mikil markamaskína og verður eflaust eftirsóttur í sumar. Þetta er lið sem þarf að treysta á að allir séu heilir og hefur ekki mikla breidd, en Toney gæti skipt sköpum. Ef mórallinn og dagsformið er okkur, í hag ættum við að ná inn þrem punktum á laugardaginn.


Chelsea 

Við þurfum góðann leik og mótíverað lið til að ná fram hagstæðum úrslitum. Við vitum að Nkunku verður ekki með og ég held persónulega að hann sé bara úr leik þetta tímabilið - því miður! Það hafa verið einhverjar vangaveltur um sölu á Conor Gallagher, en ég held að það sé glórulaus hugsun. Þeir ættu að negla niður góðann samning við hann hið snarasta. Það eru allnokkrir sem mega fara aðrir en hann, en það væri góð byrjun að reyna að fá einhverja aura fyrir Broja, Sterling, Chalobah, Maatsen, og reyndar fleiri en ég hef það á tilfinningunni að stjórnin taki ekki nógu mikið mark á mér. Það er hægt að spyrja sig ótal spurninga t.d. hvernig hefði þetta farið ef þessi eða hinn hefði verið heill, en Poch verður áfram og er nokkuð viss um að hann fær sénsinn á að hrista þetta saman í sumar og mikið lifandis ósköpog skelfing verður nú gaman ef við fáum hreina níu og algera markamaskínu til liðs við okkur í sumarglugganum. Það verða talsverðar breytingar í sumar og margar umdeilanlegar en ég held að við séum ekki að sjá nýjan stjóra alveg á næstunni, enda held ég að stuðningsmenn séu búnir að fá upp í kok af eilífum stjóraskiptum undanfarin misseri. Þrátt fyrir að ekki hafi gengið sem skyldi þá ætla ég ekki að hoppa á #PochOut vagninn alveg strax. Tímabilið er þannig lagað séð búið og það verða öngvar flugeldasýningar en við horfum fram á veginn með kassann úti.


Brentford 

Þetta er einfaldlega skyldusigur en oft hafa “litlu” liðin staðið í okkur, en ég hef samt ekki þá trú að Toney geti einn og sjálfur gert útslagið. Maður hugsar stundum um Brentford sem eitthvað minna en miðlungslið sem treystir á eina stórstjörnu, en hann kann klárlega að skora mörk. Það er ekkert mikið sem maður getur sagt um þetta lið en þetta ætti að hafast á góðum degi. Thomas Frank verður samt öruggulega íbygginn á svip á hliðarlínunni í 66°N úlpunni.


Liðsuppstilling og spá:

Þetta verður athyglivert! Mun Poch rótera þessu enn meira eða hefur hann dottið ofan á lausnina? Mér finnst líklegt að hann velji 4-2-3-1 og Sanchez fái aftur sénsinn í markinu, þannig að ég mæli með brjóstsviðatöflum fyrir leik. Fyrir framan hann verða þeir Chilwell, Disasi, Gusto og Colwill. Ætla að skjóta á Enzo og Gallagher á miðjunni. Þar fyrir framan þeir Palmer, Mudryk og Sterling og Jackson fremstur. Gæti trúað að þetta yrði bras og smá synningur í barðinu en held að við höfum þetta og náum 0 - 2 sigri. Ætla að búa til mynd af stútúngskellunni með flaggið í leiknum gegn Leeds þar sem stóð “Don´t worry about a thing”Góða skemmtun kæru félagar!

Comentários


bottom of page