top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Barcelona

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 5 hours ago
  • 16 min read

Keppni: Meistaradeildin 5. umferð

Tími, dagsetning:  Þriðjudagur 25. nóvember kl: 20.00

Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir

Dómari:  Slavko Vinčić (Slóvenía)

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason


ree

Það lá grár dumbungur í nóvember yfir Burnley, litlu verkmannaþorpi vestan við Manchester. Chelsea mættu í heimsókn á Turf Moor til að lumbra á heimamönnum. Yfirleitt hafa þessir leikir verið í gegnum tíðina eins og Pep Guardiola lýsti: eins og að fara til tannlæknis. Það langar engum að fara þangað sérstaklega, en það varð að drífa í því. Fyrstu leikir eftir landsleikjaglugga hafa verið okkur erfiðir undanfarin ár. Liðsmenn hafa yfirleitt komið þreyttir, og sérstaklega þeir sem spila á suðurhveli jarðar. Því var ekki að sælda í þetta skiptið, nema hjá Moises Caicedo. Argentínumennirnir okkar léku ekkert og Brasilía tók heimaleiki í Bretlandi. Caicedo spilaði með Ekvador vináttuleiki við Nýja Sjáland í Bandaríkjunum og Kanada í Toronto. Það var af þeirri ástæðu sem Caicedo var settur á bekkinn. Þetta hefur verið reynt áður, en yfirleitt lendum við í vandræðum sem kallar á frekari innáskiptingar af hæfileikaríkustu og reyndustu leikmönnum okkar. Garnacho og Estevao sátu einnig á bekknum, en minni spámenn eins Jamie Gittens, Liam Delap og Andrey Santos fengu traustið. Leikurinn var ákaflega bragðdaufur til að byrja með og ónotatilfinning var farin að hreiðra um sig eftir hálftíma af leik. Það var ekki fyrr en á 34. mínútu að Chelsea tókst að skora eftir að Cucurella lagði boltann á Jamie Gittens sem sendi fyrirgjöf á fjærstöngina sem Pedro Neto laumaði sér og skallaði boltann í fjærhornið. Leikar stóðu 1-0 í hálfleik og Maresca brá á það ráð að skipta Reece James útaf í hálfleik, líklega til að spara hann fyrir átök vikunnar. Við fengum að sjá Benoit Badiashile í staðinn. Liðið fékk engin dauðafæri og Estevao söngvar ómuðu úr stúkunni. Sá brasilíski hættir ekki heilla, enda skilaði hann einu marki fyrir Brasilíu í landsleikjaglugganum. Líkt og með Chelsea, þá virðist hann vera heilla brasilísku þjóðina og leikmenn eins og Vinicius Jr. eru að falla í skuggann. Liam Delap fór af velli eftir rúman klukkutíma fyrir Malo Gusto og við það færðist Enzo ofar upp völlinn. Þetta var ansi óeftirminnilegur leikur hjá Liam Delap. Hann er ennþá langt frá sínu besta vegna meiðslanna og raunar er lítið annað um það að segja. Allt tekur sinn tíma. Marc Guiu var skipt svo inná þegar stundarfjórðungur var eftir fyrir Joao Pedro og þá fór að færast eitthvað líf í sóknarleikinn. Sá spænski vex hratt í áliti hjá undirrituðum og það var fyrir harðfylgi hans, er hann pakkaði saman Axel Tuanzebe í baráttu um boltann. Hann komst einn í gegn en náði að leggja boltann út í teig á Enzo Fernández sem bombaði tuðrunni í netið af stuttu færi. Á þessu augnabliki var Estevao að gera sig klárann til að koma inná, en við markið var hætt við þær ráðstafanir. Burnley undir stjórn Scott Parker ógnuðu nánast ekki neitt. Þetta er öðruvísi lið en þau sem Sean Dyche og Vincent Kompany hafa formað á Turf Moor, en heilt yfir, eiga þeir ekkert erindi í Úrvalsdeildina. Burnley situr í fallsæti og það virðist verða þeirra örlög á þessu tímabili. Leikar enduðu 2-0 og það sem stendur uppúr eru frammistöður hjá Andrey Santos og Enzo á miðjunni. Það er líka mikið gleðiefni liðið vinnur svona leiðinlega leiki sem skyldusigra og það beint eftir landsleikjahlé. Það eru svona litlir hlutir sem skipta máli þegar talið verður uppúr stigapokanum í vor. 2-0 sigur, aldrei í hættu. Engin ógn og lykilleikmenn eins og Reece James, Moises Caicedo, Wesley Fofana, Estevao og þori ég að segja Alejandro Garnacho fengu kærkomið frí, fyrir leikinn mikilvæga á þriðjudaginn þegar Barcelona koma í heimsókn.


Einhverjir segja, við eigum nágrannarígi og Lundúnaslagirnir eru margir erfiðir. En skoðum staðreyndirnar. Við bundum hnút á Arsenal ríginn með því að taka af þeim yfirburðina á Wenger tímanum. Við tókum af þeim Ashley Cole, rústuðum Arsene Wenger 6-0 í hans þúsundasta leik og Mourinho kallaði hann sérfræðing í mistökum. Til að nudda salti í sárin seldum við þeim reglulega leikmenn sem voru komnir af sínu léttasta skeiði, svona eins og að fara út með ruslið. Tottenham er krúttlegur klúbbur, en þeir hafa eiginlega aldrei unnið okkur á Stamford Bridge. Við bundum enda á vonir þeirra við að taka englandsmeistaratitilinn í "Battle of the bridge" leiknum með ógleymanlegu marki frá Eden Hazard, og fagnaðarlæti leikmanna Leicester í stofunni heima hjá Jamie Vardy eru greypt í okkar minni. Það mark var fyrir heiðursmanninn Claudio Ranieri. Hann býr enn í hjörtum stuðningsmanna Chelsea. Þar fyrir utan höfum við unnið bæði Arsenal og Tottenham í bikarkeppnum og Didier Drogba þótti ekki leiðinlegt að skora í úrslitaleikjum. Fulham, QPR, Brentford, West Ham, Crystal Palace... ekkert af þessu eru nágrannarígir sem rista djúpt. Liverpool og Manchester United hafa verið okkur erfið viðureignar, en það var aðallega með Benítez tímann hjá Liverpool og Manchester United eru ekkert án Sir Alex Ferguson - þannig séð. Eitt lið er þó andstæðingur sem við berum óttablendna virðingu fyrir. Svarinn óvinur sem hefur meitt okkur meira en við kærum okkur um. Þessir bölvuðu Katalónar í Barcelona.


ree

Lionel Messi sagði það árið 2006 í viðtali, rétt fyrir fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þá var 18 ára gamli Messi nýkominn inn í stærra hlutverk hjá Barça og lýsti hversu djúp óvild væri á milli liðanna. Hann sagði: „Það eru leikmenn hér sem hata Chelsea meira en Real Madrid. Ég hef aldrei hugsað mér að heyra sjálfan mig segja það. Ég hef heldur aldrei séð eitthvað verra en keppnina milli Boca og River Plate eða Brasilíu og Argentínu – en þetta er það.“ Messi bætti við: „Við myndum frekar spila gegn Arsenal, Manchester United eða öðrum, en vera á vellinum með Chelsea.“ Þetta endurspeglaði hversu Chelsea, undir stjórn José Mourinho, hafði umbreytt keppninni í eitthvað meira en bara fótbolta – það var persónulegt og líkara alþjóðlegri ættjarðarbaráttu.


Þetta var í kjölfar dramatískra leikja árinu áður (2004/2005 tímabilið), þar sem Chelsea hafði slökkt á Barcelona í dramatískri endurkomu á Stamford Bridge (2-1 á Camp Nou fyrir Barca, 4–2 á Stamford Bridge fyrir Chelsea, 5–4 samanlagt) í 16 liða úrslitum Meistaradeildar. Leikirnir voru fullir af harðvítugum tæklingum og umdeildum atvikum – t.d. fékk Drogba tvö gul í leiknum á Spáni, annað fyrir tæklingu á Rafa Marquez í fyrri hálfleik og það seinna fyrir að reyna ná boltanum með löppinni áður en Victor Valdés greip hann sem orsakaði samstuð sem Valdés dramatíseraði heldur mikið. Sænski dómarinn (og Chelsea stuðningsmaðurinn!) Anders Frisk dróg það rauða uppúr vasanum. Barcelona vann þann leik 2–1, en andrúmsloftið var þykkt eins og reykur eftir sprengju. Í hálfleik hafði Frank Riijkaard stjóri Barcelona farið til dómaranna og átt við þá einhver valin orð. Þessu tók Mourinho óstinnt upp og gerði mikið fjölmiðlafár. Það orsakaði líflátshótanir og fleira óskemmtilegt í garð Anders Frisk, sem nokkrum vikum síðar, hætti sem dómari. Frisk var einn virtasti dómarinn í bransanum á þeim tíma, og dæmdi meðal annars úrslitaleikinn á EM 2000. Það þurfti besta dómara knattspyrnusögunnar Pierluigi Collina til að dæma seinni leikinn til að hafa hemil á andrúmsloftinu. Þessi leikur á Stamford Bridge verður lengi í minnum hafður fyrir ótrúlegan fyrri hálfleik þar sem Ronaldinho, sem var þá besti leikmaður heims, skoraði eitthvað það ótrúlegasta mark sem undirritaður hefur séð, en það var gert úr kyrrstöðu. Þá voru leikar jafnir 4-4 og Barcelona með vinninginn á útivallamarkareglu, en John Terry náði skallamarki til að koma okkur áfram. En teningunum var kastað og þessi rígur á milli liðanna var kominn til að vera.


ree

Árinu seinna (2006) mættust liðin aftur í 16 liða úrslitum, en í þetta skiptið var Lionel Messi kominn í liðið. Fyrri leikurinn var á Stamford Bridge og á þessum tíma vissum við lítið um Messi sem lék á hægri kantinum gegn Asier Del Horno sem var í vinstri bakverði hjá Chelsea. Sá argentínski var 18 ára á þessum tíma og straujaði framhjá Del Horno ítrekað. Sá spænski komst upp með eitt atvik án þess að fá verðskuldað gult, en á 37. mínútu komst Messi upp að hornfána og á undan Arjen Robben, en Del Horno fylgdi á eftir með broti sem verður seint talið rautt spjald, en norskur dómari í leiknum, Terje Hauge, ákvað samt að vísa Del Horno útaf. Skemmtilegt myndband af frammistöðu Messi í leiknum, og hversu mikið baulað var á hann fyrir að fiska Del Horno út af velli er áhugavert. Leikar enduðu 1-2 á Stamford Bridge. Leikurinn á Camp Nou fór 1-1 en Mourinho beindi spjótum sínum að Lionel Messi: "Hvernig segir maður 'svindl' á katalónsku? Getur Messi fengið bann fyrir leikþátt? Barcelona er menningarborg með mörg frábær leikhús, og þessi strákur hefur lært vel. Hann hefur lært leiklistina." Hérna er samt áhugavert að bera saman 18 ára Lionel Messi við 18 ára Estevao. Greinarhöfundur er á þeirri skoðun að það er margt líkt með þessum leikmönnum. Á þessum tímapunkti ferils þeirra beggja er margt líkt, að undanskyldum leikaraskap - að sjálfsögðu. Barcelona unnu svo Meistaradeildina þetta árið þar sem liðið vann Arsenal í úrslitaleiknum.


ree

Tímabilið 2006-07 drógust Chelsea og Barcelona saman í riðil í Meistaradeildinni. Þetta var í síðasta skipti sem José Mourinho stýrði þeim bláu í einvígi milli liðanna. Óhætt er að segja að Chelsea voru með sterkt lið á pappírnum hafandi fengið Ashley Cole, Michael Ballack og Andryi Shevchenko til liðsins. Eiður Smári Guðjohnsen hafði þá farið frá Chelsea til Barcelona. Fyrri leikurinn fór fram 18. október 2006 á Stamford Bridge þar sem Ashley Cole slökkti á Lionel Messi og á myndskeiðum af dæma fór Messi að drifta meira úr stöðunni sinni hægra megin yfir á vinstri kant og miðjan völl. Þarna stóð Hilario í markinu vegna meiðsla Petr Cech og Carlo Cudicini. Varamarkvörður Chelsea á þessum tíma var Yves Makumbu Ma-Kalambay (allur ferill hans taldi 66 leiki, flesta með Hibernian í Skotlandi) - sem var ákveðin krísa. Hægri bakvörðurinn var Hollendingurinn Khalid Bouhlarouz í treyju númer 9. Leikurinn á Stamford Bridge endaði 1-0 sigur fyrir Chelsea þar sem Drogba skoraði sigurmarkið. Í seinni leiknum 31. október á Camp Nou verður helst minnst fyrir það að Frank Lampard skoraði hreint út sagt ótrúlegt mark af endalínunni sem jafnaði stöðuna 1-1 áður en Eiður Smári kom Börsungum aftur yfir 2-1. Drogba hinsvegar skoraði jöfnunarmarkið í viðbótartíma og hreint ótrúlegum og hörðum leik, þar sem dómarinn var sífellt að flauta á brot á bæði lið. Rafael Márquez var reyndar óþolandi í þessum leik með sína leikrænu tilburði. Chelsea vann riðilinn en bæði liðin duttu út fyrir einu leiðinlegasta Liverpoolliði Rafa Benítez. Barcelona duttu út úr keppni í 16. liða úrslitum á útivallarmarki, en Chelsea í undanúrslitum í vítaspyrnukeppni. Liverpool töpuðu síðan úrslitaleiknum 2007 í Aþenu gegn AC Milan.


ree

Tímabilið 2007 til 2008 mættust Chelsea og Barcelona ekki í keppninni. Tímabilið var þó skrautlegt þar sem José var rekinn og Avram Grant tók við keflinu. Hinsvegar tókst Chelsea þetta árið að komast alla leið úrslitaleikinn gegn 2008 en þá gegn Manchester United sem slógu út Barcelona í undanúrslitum 1-0 samanlagt. Það hefði verið svakalegur úrslitaleikur í Moskvu hefði Barcelona, þá undir stjórn Pep Guardiola komist í þann leik. En á næsta tímabili (2008 til 2009) mættust liðin í undanúrslitum. Roman Abramovich lagðist í metnaðarfulla ráðningu á Luiz Felipe Scolari sem endaði með ósköpum um mitt tímabil. Annar bráðabirgðaþjálfari tók við en það var Hollendingurinn Guus Hiddink. Fyrri leikurinn endaði 0-0 en var langt frá því að vera leiðinlegur leikur. Bæði lið fengu urmul tækifæra en Petr Cech átti stórleik í markinu. Það var hálf ljóðrænt að Rafael Márquez, sem hafði ekkert gert, nema leika listir sínar flest öll einvígin öll árin á undan, sleit krossband í hné við nánast ekkert átak. Það var líkt og æðri máttarvöld hefðu ákveðið að jafna aðeins til í karmabókhaldinu. Carles Puyol fékk gult í leiknum og var í banni fyrir leikinn á Brúnni. Það átti eftir að verða sögulegur leikur, fyrir rangar sakir. Pep setti því Yaya Touré og Gerard Piqué í miðvarðarstöðurnar, sem var eiginlega "changing of the guards". Leikurinn byrjaði líflega þar sem Michael Essien skoraði hreint út sagt stórkostlegt mark í anda Tony Yeboah. Volleyskot utan við teig - sláin inn. Chelsea lágu á Barcelona og uppskáru rautt spjald á Eric Abidal þegar hann braut á Nicholas Anelka þegar hann var sloppinn í gegn. En dómarinn í leiknum, Norðmaðurinn Tom Henning Ovrebro réði ekkert við leikinn þar sem Chelsea fengu ekkert meira dæmt sér í hag. Drogba átti að fá víti þegar brotið var á honum innan teigs. Anelka átti að fá víti þegar hann reyndi að senda fyrirgjöf sem Piqué varði með útréttri hönd. Norðmaðurinn gerði ekkert í því. Barcelona jöfnuðu leikinn með marki frá Andrés Iniesta í uppbótartíma. Eitt atvik átti þó eftir að setja sinn svip á leikinn þegar Michael Ballack þrumaði boltanum í upphandlegginn á Samuel Eto'o innan vítateigs Barcelona beint fyrir framan nefið á Tom Henning Ovrebro. Sá norski ákvað að dæma ekki neitt á það. Ballack elti hann um völlinn baðandi út höndum og gargandi á hann fyrir þetta glæpsamlega gáleysi.


ree

ree

Didier Drogba hreinlega trylltist við leikslok. Bölvaði og ragnaði Tom Henning Ovrebro og lét ósæmileg orð falla beint framan í myndavélina. Hann uppskar leikbann frá UEFA síðar, en greinarhöfundur sannfærðist þarna um misbresti dómarastéttarinnar. Ovrebro sagði síðar í viðtali að þetta var leikurinn sem kálaði ferlinum hans sem dómara. Upp úr þessu spruttu upp samsæriskenningar um að UEFA vildi fá Barcelona í úrslitaleikinn, sérstaklega útfrá þeirri staðreynd að þeim var gefið að sök að samtökin vildu ekki fá enskan úrslitaleik Meistaradeildar annað árið í röð. Liðið frá Katalóníu hefur verið gjarnan uppnefnt UEFAlona eftir skandalinn á Brúnni, og ekki hefur það hjálpað til að á þessum tíma voru Barcelona með varaforseta dómarasamtaka La Liga á launaskrá! Það mál er enn þann dag í dag til rannsóknar. Þetta gerist líka á þeim tíma þegar Michel Platini er formaður UEFA, en hann þurfti að segja af sér vegna seinna vegna annarra spillingarmála. Samhliða þessu var FIFA undir stjórn Sepp Blatter einnig á bólakafi í spillingarmálum. Það er því ekki óeðlilegt að nefna spillingu og UEFA í þessu samhengi. Við búum við VAR í dag, en það vegna svona leikja sem réttlætir tilvist varsjárinnar. Þessi leikur var sannarlega sá viðburður sem ristir hvað dýpst í hatrinu okkar gegn Barcelona. Katalónarnir fóru í úrslit gegn Manchester United sem höfðu þá unnið Arsenal í undanúrslitum. Barcelona hinsvegar völtuðu yfir lærisveina Sir Alex Ferguson og tóku titilinn.


ree

Næstu tvö tímabil urðum við ekkert varir við Barcelona, en á þessum tíma var liðið orðið skuggalega gott og Lionel Messi var að komast á hátindinn á sínum ferli. José Mourinho var þó ekkert hættur, þrátt fyrir að vera í öðrum klúbbi, enda var orðið á götunni að hann hafi verið einstaklega fúll út í Barcelona fyrir að hafa ekki ráðið sig til starfa þegar Frank Riijkaard lét af störfum og Pep tók við. Þess í stað fékk hann verkefnið hjá Inter í Mílanó og skilaði þeim Meistaradeildinni einmitt með því að slá út Barcelona í mjög eftirminnilegu einvígi þar sem hann fagnaði sigri með því að hlaupa inn á völlinn, ögrandi öllum í Katalóníu. Þetta strauk starfsmönnum á Camp Nou það mikið að þeir kveiktu á vökvunarkerfi vallarins á meðan Mourinho og liðsmenn hans voru enn að fagna.


Tímabilið 2011 til 2012 var Lionel Messi upp á sitt allra besta. Þetta tímabil lék hann 60 leiki fyrir Barcelona, skoraði 73 mörk og gaf 32 stoðsendingar. Sennilega met sem verður líklega aldrei slegið. Hann skoraði raunar 91 mark yfir almanaksárið 2012 og sló met Gerd Müller sem var 85 mörk árið 1972. Barcelona á þessum tíma var sennilega eitt besta lið sögunnar. En leiðin þeirra að meistaradeildartitli vorið 2012 lá í gegnum Chelsea, og okkar menn áttu harm að hefna. Tímabilið hjá Chelsea hófst klárlega á röngum fæti þar sem Andre Villas-Boas fékk leiðtoga liðsins upp á móti sér og þeir spiluðu honum útúr starfinu með lélegum frammistöðum. Roman fékk nóg og rak hann rétt fyrir seinni leikinn gegn Napoli í 16 liða úrslitum, en Chelsea tapaði fyrri leiknum 3-0 í Napoli. Roberto di Matteo tók við liðinu og Chelsea vann seinni leikinn 4-1. Chelsea henti Benfica út í 8 liða úrslitunum og mættu Barcelona í undanúrslitum. Fyrri leikurinn fór fram á Stamford Bridge, og var hin mesta skemmtun. Mörg færi á báða bóga en það var Didier Drogba sem skoraði enn og aftur í stórleikjum. Leikar enduðu 1-0. Seinni leikurinn á Camp Nou varð svo einn eftirminnilegasti leikur í sögu Chelsea. Útlitið varð nokkuð svart þegar Gary Cahill meiddist á 12. mínútu og enginn miðvörður til skipta, en bakvörðurinn José Bosingwa leysti hann af störfum. Gerard Piqué rotaðist í samstuði við Victor Valdés og Drogba snemma leiks og fór af velli skömmu síðar. Barcelona lágu á Chelsea liðinu sem þótti ekkert eðlilegra en að leika góða ítalska catenaccio vörn að hætti Di Matteo. Barcelona komust í 1-0 með marki frá Sergio Busquets. John Terry ákvað svo á sparka aftan í Alexis Sánchez með þeim afleiðingum að hann fékk beint rautt spjald. Báðir miðverðinir úr leik og Ivanovic og Bosingwa komnir í miðvarðarstöður og Ramíres í hægri bakvörðinn. Andrés Iniesta skorar 2-0 og útlitið hefði ekki getað verið verra. Ramíres nældi sér síðar í gult spjald sem útilokaði hann frá úrslitaleiknum líkt og Terry, en á lokamínútu fyrri hálfleiks komst hann í gegn í skyndisókn og skoraði eitthvað það eftirminnilegasta mark Chelsea í Meistaradeildinni með vippu yfir Valdés af vítateigshorninu. Samanlagt var staðan 2-2 og Chelsea áfram á útivallarmarki. Seinni hálfleikur hófst og Börsungar lágu á Chelsea rútunni. Strax í upphafi seinni hálfleiks fengu þeir eina vítaspyrnu og á punktinn fór Lionel litli Messi. En æðri máttarvöld voru með okkur í liði þegar sá argentínski þrumaði boltanum í þverslánna. Pressan á Chelsea liðinu var látlaus og leikmenn hentu sér fyrir hvern bolta í og tæklingar á leikmönnum. Raul Meirles sótti gult og leikbann í úrslitaleik. Fernando Torres kom inn á fyrir Drogba sem var alveg gasaður eftir að hafa leikið sem vængmaður og bakvörður lungan af leiknum. Það uppskar erindi sem erfiði þegar Barcelona settu allt liðið nema Valdés fram. Chelsea unnu boltann í vörn og bombuðu honum fram að miðju á frían Fernando Torres sem rauk upp völlinn, í einn á einn einvígi gegn Valdés og lék sér að því að komast framhjá honum og renna boltanum í autt netið. Sannarlega 50 milljón punda mark eftir allt kjaftæðið sem Torres hafði þurft að þola fram að þessu. Staðan 2-2 (2-3 samanlagt) og Börsungar alveg sigraðir og orkulausir. Þarna upplifði Barcelona sinn lægsta punkt og myndirnar úr klefanum tala sínu máli. Pep Guardiola gafst uppá Katalóníu og tók sér árs leyfi frá störfum. Sannarlega besta einvígi sem Chelsea hefur háð í Meistaradeildinni. Dramatíkin hélt svo áfram í úrslitaleiknum 2012 gegn Bayern á þeirra heimavelli í München þar sem Chelsea voru án Terry, Ramires og Raul Meireles. Í þeim leik þreytti Ryan Bertrand sína frumraun og Chelsea vann sinn fyrsta sigur í Meistaradeildinni. Raunar mætti segja að liðið vann deildina með því að vinna Barcelona, sem var án efa langbesta liðið í heiminum á þessum tíma. Það tók Barcelona mörg ár að jafna sig af þessu áfalli.


ree

ree

Liðin mættust síðan ekkert næstu árin. Það var ekki fyrr en undir stjórn Antonio Conte að Chelsea fékk að spreyta sig gegn Barcelona. Þarna erum við komin til ársins 2018 í 16 liða úrslitin. Fyrri leikurinn fór fram á Stamford Bridge en leikar enduðu þar 1-1 með mörkum frá Willian og Lionel Messi. Vel að merkja var þetta í fyrsta sinn sem Messi skoraði gegn Chelsea og hans eina á Stamford Bridge. Frank Lampard, Petr Cech, Didier Drogba og John Terry voru farnir. Í staðinn voru komnir Thibaut Courtois, N'Golo Kante, Eden Hazard og reyndar Cesc Fabregas og Pedro Rodriguez frá Barcelona. Katalónarnir voru búnir að fá Ter Stegen, Luis Suarez og Ivan Rakitic með Iniesta og Messi. Puyol, Xavi og Valdés farnir. Seinni leikurinn á Camp Nou fór 3-0 þar sem Messi skoraði tvö og Ousmane Dembele eitt mark. Chelsea var í ákveðinni upplausn á þessum tíma. Sambandið hjá Conte við Diego Costa fuðraði upp fyrir tímabilið og Álvaro Morata var lítill bógur til að bera sóknarleikinn. Einvígið ekki sérstaklega eftirminnilegt. Ekki jafn mikill hiti á milli leikmanna, en útfrá sjónarhóli Barcelona skipti það þá miklu máli að jafna fyrir áfallið sex árum áður. Antonio Conte var svo síðar rekinn einhverjum 6-7 mánuðum seinna.

Síðan þá höfum við ekki mætt Barcelona. Covid tíminn kom og fór og Chelsea vann meistaradeildina 2021. Lionel Messi fór frá Barcelona eftir að hafa sett klúbbinn nánast á hausinn ásamt glórulausri kaupstefnu stjórnarinnar í Katalóníu. Nú er öldin önnur, Roman Abramovic farinn, en Joan Laporta kom til baka. Chelsea fór í gegnum endurnýjun lífdaga með BlueCo á meðan Barcelona ströggla fjárhagslega, en verða þó brátt komnir með uppfærðan Camp Nou, sem reyndar heitir því hræðilega nafni Spotify völlurinn. Það eru ný nöfn, en rígurinn er áratuga gamall. Stuðningsmennirnir gleyma ekki síðustu 20 árum svo glatt. Þetta er slagurinn sem slær tóninn fyrir það sem koma skal.


Lamine Yamal er stjarnan í Barcelona og Hansi Flick er stjórinn með sinn sturlaða sóknarleik, en brothættu vörn á miðlínunni. Við höfum séð svona atriði áður með litlu nágrönnum okkar í Tottenham. Chelseavörnin hefur fengið háðsglósur síðustu misseri en lærisveinn Pep Guardiola, Enzo Maresca hefur bætt varnarleikinn talsvert og árangurinn er með því besta sem hann hefur fram að færa, að minnsta kosti í Úrvalsdeildinni. Stærsta sögulínan fyrir slaginn á þriðjudagskvöldið verður án efa samanburður á Estevao og Lamine Yamal. Barcelona unnu Atlethic Bilbao mjög sannfærandi 4-0 um liðna helgi, en það vakti eftirtekt þegar hann var spurður um leikinn í gegn Chelsea, í viðtali eftir Bilbao leikinn, þá sagði hann að mikilvægi leikurinn hafi verið gegn böskunum frá Bilbao og hann gerði lítið úr leiknum við Chelsea. Þetta yfirlæti í honum hefur verið að stíga honum til höfuðs að undanförnu. Ólíkt honum þá er Estevao töluvert hógværari í framkomu. Þetta sem Lamine sagði mun því einungis blása súrefni á eldglæður milli stuðningsmanna og vonandi leikmanna Chelsea. Vonandi tendrar það bálför Barcelona. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig Marc Cucurella muni taka á Yamal, sem er að mati greinarhöfundar, jafn hrokafullur og Vinicius Jr, og hefur jafn lítið til að bakka það upp.


ree

Öllu stærri ástæða er til að óttast fyrirliða Barcelona, gömlu kempuna Robert Lewandowski. Eins fáum við að sjá athyglisverða taktíska baráttu milli Hansi Flick og Enzo Maresca. Sá ítalski var klókur að spara mínúturnar fyrir mikilvæga leikmenn eins og Wesley Fofana, Moises Caicedo, Reece James og Estevao. Bæði liðin eru með sjö stig í Meistaradeildinni og sigur í þessum leik mun án efa tryggja að liðin komist að minnsta kosti í útsláttarkeppnina. Barcelona kunna illa við Stamford Bridge, enda hafa þeir ekki unnið leik þar síðan 2006. Að sama skapi hefur Chelsea ekki unnið stakan leik á Camp Nou, en höfum tekið nokkur blóðug einvígi.


Ef við horfum á þetta Barcelona lið, þá eru þeir ekki með neina alvöru vörn. Pau Cubarsí, Araujo, Koundé, Eric García, Alejandro Balde og pólska kielbasa pylsan Wojchiech Szczesny eru ekki af heimsmælikvarða, þó sumir þeirra séu efnilegir. Miðjan hjá Chelsea á að vera betri en það sem Katalónarnir geta boðið uppá þar sem Gavi og Pedri eru meiddir. Leikstíll Barcelona hentar Chelsea ákaflega vel og greinarhöfundur getur ekki ímyndað sér að sá þýski muni leggjast niður á teig með tíu menn. Barcelona eru þó með góða sóknarmenn sem geta valdið okkur tjóni. Caicedo og Cucurella eiga að geta barið á þeim. Það sem gefur manni helst tilefni til efasemda er dómari sem er ekki starfi sínu vaxinn, sér í lagi ef Slóveninn Slavko Vinčić er pari við þessa frá Noregi í ljósi sögunnar. Meiðslalistinn hjá Chelsea telur Lavia, Colwill, Cole Palmer og Dario Essugo, en þrátt fyrir það er Chelsea með meiri breidd í hópnum en Barcelona.


Hvernig stillir Maresca upp byrjunarliðinu? Við ætlum að tippa á að Robert Sánchez verður í markinu. Marc Cucurella verður vinstri bakvörður, Reece James verður hægri bakvörður. Chalobah og Fofana verða miðverðir. Miðjan verður Enzo og Caicedo að venju. Joao Pedro verður í holunni. Garnacho fær vinstri kantinn og ef guð er réttlátur, þá fær Estevao lyklana að hægri kantinum til að hægelda Alejandro Balde (sem er reyndar tæpur). Þrátt fyrir Liam Delap eigi á brattann að sækja er hann helvíti öflugur í skyndisóknum. Það væri þó gaman að sjá Marc Guiu mæta með rýntinginn, en við tippum frekar á Delap. Önnur uppstilling væri Joao Pedro á topp, Estevao í holunni og Pedro Neto á kantinum, en þar sem Neto spilaði 90 mín gegn Burnley er það ólíklegri sviðsmynd. Þetta verður opinn og skemmtilegur leikur. Það má búast við 3-1 úrslitum. Estevao og Garnacho skora mörk í fyrri hálfleik. Lewandowski minnkar muninn en Marc Guiu kemur með náðarhöggið í uppbótartíma.


Þar sem um algjöran stórleik er að ræða eru meðlimir Chelsea klúbbsins um allt landa að undirbúa viðburði. Það má búast við því að í Reykjavík ætla menn að mæta á Ölver og taka yfir staðinn. Á Akureyri fjölmenna norðlenskir Chelseamenn á Verksmiðjuna á Glerártorgi, þar sem 20% afsláttur af matseðli og gleðistundarverð á lite bjór verða á boðstólnum. Á Miðbarnum á Selfossi sameinast suðurlandsundirlendið. Við hvetjum ykkur öll til að mæta í treyjum á staðinn. Ef lesendur þessarar síðu geta bent okkur á fleiri staði til dæmis á Ísafirði, Egilsstöðum, Akranesi, Borgarnesi, Reyðarfirði, Raufarhöfn, Keflavík eða hvar sem er, endilega hafið samband við okkur í Chelsea á Íslandi hópnum á facebook.


Áfram Chelsea og góða skemmtun!

 
 
 
  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page