top of page
Search

Að duga eða drepast fyrir Graham Potter?

Keppni: Premier League


Tími, dagsetning: Laugardagur 3. mars kl: 15.00


Leikvangur: Stamford Bridge


Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport og ÖLVER


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Þá heldur þrautagangan áfram og nú er komið að "þeim hvítu" að heiðra okkur með nærveru sinni. Javi Garcia og hans lærisveinar í Leeds eru næstir á dagskrá og verður leikið á Brúnni á laugardag um kaffileytið eða stundvíslega kl. 15:00.

Fyrri leik okkar manna gegn Leeds var engin skemmtun og tapaðist 3 - 0 og ég held að leikmenn Chelsea vilji helst ekki endurtaka þann harmleik.


Það er óhætt að segja að það gusti verulega um klúbbinn okkar þessa dagana og "Potter Out" vagninn er troðfullur orðinn og stuðningsmenn fara hamförum froðufellandi af heift út í karlangann. Mér finnst þessi umræða um Potter orðinn reyndar verulega þreytt og mér finnst ótrúlegt að sumir stuðningsmenn eru farnir að vona að liðið tapi næstu tveimur leikjum svo Potter verði rekinn en einhverjar sögusagnir virðast vera á kreiki um að Potter fái tvo leiki til að snúa þessu við.


Við skulum þó hafa það á hreinu að ég er ekki að gera lítið úr slæmu gengi og það er margt afskaplega skrítið varðandi stjórnun og leikskipulag en það sem ég er að velta fyrir mér er það hvort það yrði klúbbnum til góða að reka stjórann núna og þurfa að stokka upp dæminu frá núlli.


Er virkilega lausnin að henda honum út og hræra enn meira í mannskapnum ?


Það getur vel verið og Potter hefur sjálfur sagt að hann viti vel að hann fái ekki endalaust traust. Það er þó klárt að það eru ekki margir stjórar sem hafa þurft að kljást við önnur eins meiðslavandræði og hann á þessu tímabili og að fá þennann helling af nýjum leikmönnum og þurfa að koma þeim í flæði er sennilega rúmlega vettlingur. Auðvitað eru stuðningsmenn pirraðir og sjá ekkert nema dauða og djöful en ef einhverntímann er ástæða til að vera stuðningsmaður þá er það núna.


Nú ríður á að halda sjó út þetta tímabil enda verður uppskeran rýr, það er á hreinu en þá er ekkert annað í stöðunni en að safna vopnum í sumar og vera skynsamir í undirbúningi fyrir næsta tímabil.


Enn einn bættist á meiðslalistann og það besti maður liðsins en Silva meiddist á hné eftir samstuð við Kane í leiknum gegn Tottenham og verður frá í að minnsta kosti 4 vikur. Kante er þó byrjaður að æfa en er ekki leikfær enn en Pulisic gæti komið til baka fyrir leikinn á laugardaginn og Kova er vonandi orðinn góður af flensunni.

Þetta verður erfiður leikur og er krafann einföld! Sigur og ekkert annað en sigur!


Leeds eru fyrir leikinn með 21 stig í 17. sæti og eru einungis einu stigi frá fallsæti en Chelsea situr í því 10 og þó sigur vinnist breytist það ekki en þó hækkar talan á stigatöflunni.


...Mikið ofboðslega langar mig að sjá liðið vinna!! Nenni ekki að horfa upp á einn leiðinlega jafnteflisleikinn enn eða horfa upp á eitt tapið enn. Ef hlutirnir fara ekki að breytast þá þurfa menn að fara að hugsa verulega sinn gang og nú sendum við góða strauma og fulla ferð áfram !!!





Leeds:


Það hefur sannarlega gengið upp og ofan hjá Leeds á þessu tímabili og eins og kemur fram hér að ofan er liðið nú aðeins einu stigi frá fallsæti eða í 17 sæti og með 21 stig. Þeir hafa þó átt spretti inn á milli og fengu okkar menn á daskinn þegar við mættum þeim á Elland Road í ágúst þar sem við steinlágum 3-0 og einnig náðu þeir að sigra Liverpool en þá er það að mestu upptalið. Javi Garcia og félagar hafa ekki riðið feitum hesti úr viðureignum sínum við Chelsea á Brúnni og gefur það vonandi fyrirheit.


Lið Leeds vakti talsverða athygli þegar þeir komu aftur upp í efstu deild eftir nokkur ár í Championship deildinni og spiluðu hraðann og ákafann fótbolta undir stjórn Bielsa sem var síðar rekinn og leituðu Leedsarar þá til Ameríku eftir arftaka og fundu Jesse March sem bjargaði liðinu naumlega frá falli en hann varð ekki langlífur hjá klúbbnum og var látinn fara og við tók núverandi þjálfari sem er Javi Garcia.

Það eimir þó enn eftir af arfleið Bielsa og spilar liðið mjög aggressívan bolta og er mikil hreyfing á mönnum og hafa “murderball” æfingarnar hjá Argentínumanninum haft sitt að segja.


Þeirra bestu menn eru m.a. Brendan Aaronson, Patrick Bamford, Rodrigo Moreno og Pascal Struijk ásamt markverðinum Meslier en þeir Stuijk og Rodrigo verða að öllum líkindum ekki með sökum meiðsla.

En það er eins með Leeds og önnur lið að þeir hafa einhvernveginn ekki náð að halda utanum spilið og skora afskaplega lítið af mörkum, eitthvað sem okkar menn þekkja vel.



Chelsea



Það væri mikið og margt hægt að segja um okkar menn en það sem mér finnst máli skipta er að nú er enn og aftur lag á að rífa sig hressilega í gang og sýna úr hverju menn eru gerðir.


Að vísu er okkar jafnbesti maður fjarri góðu gamni en Thiago Silva er kominn á meiðslalistann eftir samstuð við nefmæltasta framherja enskrar knattspyrnu og verður frá næstu vikurnar Potter greindi einnig frá því á blaðamannafundinum fyrir leikinn að Reece James er sennilega frá og einnig Mason Mount og það er líklega enn verið að reyna að fylla upp í takkaförin í andlitinu á Azpi þannig að nokkrir lykilmenn verða ekki með gegn Leeds.


Þó er ástandið talsvert skárra en það hefur verið um hríð varðandi leikmenn og finnst mér ekki ólíklegt að nýjir og ferskir menn fái sénsinn um helgina þrátt fyrir að ég er næstum jafnviss um að Potter fer ekki að taka neina stóra sénsa.það sem maður biður þó um er að liðið fari að skora mörk og fari að safna stigum og sjálfstraustið fylgir þá á eftir.

Nú eru menn farnir að velta fyrir sér hvaða sóknarmenn eru í sigtinu þegar Teddarinn opnar veskið aftur í sumar og nýjustu fréttir herma að nú sé aftur horft til Dusan Vlahovic framherja Juventus og Victor Osimhen framherja Napoli en þetta eru algerlega ótímabærar vangaveltur og mikið á eftir að gerast áður en markaðurinn opnast.


Það er ekki ólíklegt að góðir og eftirsóttir framherjar sækist ekki sérstaklega eftir því að koma til liðs sem mun ekki leika í Meistaradeild nema svo ólíklega vildi til að okkar menn vinni í ár.

Það má kannski segja að það sé allt undir á laugardaginn. Ef við töpum þessum leik þá er ég hræddur um að tíma Potter hjá klúbbnum sé lokið og það verði leitað á önnur mið með þjálfara en það mun allt koma í ljós og ég treysti á góðan dag og fullt af mörkum.


Byrjunarlið og spá


Þetta verður ekki auðvelt og hafa undangengnir leikir ekki verið uppspretta gleði og ánægju en nú verður einfaldlega að gefa allt sem í boði er í leikinn og snúa þessu við.


Ég spái að Potter breyti ekki mikið út af vananum og Kepa stendur klárlega í markinu og liðsuppstillingin verður 4-2-3-1 og fyrir framan Kepa verða þeir Chilwell, Badashile, Fofana og Chaloba sem kemur inn í fjarveru Azpi og Silva. Þar fyrir framan verða Enzo og ég vona að Kova verði orðinn klár og standi við hlið Enzo. Þá kemur þríeykið frækna eða þeir Sterling, Joao Felix og Úkraínski stormsveipurinn Mudryk og ég held að Havertz verði fremstur að venju en David Fofana og Madueke og Ziyech fá efalaust einhverjar mínútur.


Nú gerir maður einfaldlega kröfur!! Kröfu um sigur og alvöru vilja og hungur. Þetta verður ekki mikill markaleikur spái ég en þó vona ég að við náum því sem skiptir svo miklu máli í þessari íþrótt sem er að skora örlítið fleiri mörk en andstæðingurinn.


Við skulum vona enn og aftur að laugardagurinn verði ánægjulegur og vert er að hvetja alla stuðningsmenn til að mæta á Ölver og horfa á leikinn saman og skapa skemmtilega stemmningu og vonandi gleðjast saman í leikslok.





Áfram Chelsea!!!!









bottom of page