top of page
Search

Auðvelt í Austurríki - eða hvað?

Keppni: Meistaradeildin

Dag- og tímasetning: 25. Okt kl 16:30

Leikvangur: Red Bull Arena í Salzburg

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 3, Ölver og aðrir sportbarir

Upphitun eftir: Hafstein Árnason



Chelsea mæta til leiks í Salzburg í Austurríki. Fyrri leikurinn var fyrsti leikur Graham Potter og enduðu leikar 1-1 á Stamford Bridge. Ég myndi segja að Red Bull félagarnir eru til alls líklegir á heimavelli, og eftir að Reece James meiddist eftir leikinn gegn AC Milan, eru allir leikir Chelsea umluknir einhverskonar óvissu. Það er eins og við séum að upplifa okkur sem Bill Murray í Groundhog Day. Í leik í meistaradeildinni, meiðist, eða meiðast bakverðir. Á endanum munum við kýla einhvern aðila sem spyr okkur um gengi liðsins (er það ekki!?). Það er verulegt áhyggjuefni hvað botninn dettur úr liðinu, sérstaklega þegar Reece James meiðist. Í fyrra var það þannig að sóknarleikurinn hjá Thomas Tuchel gjörsamlega lamaðist þegar Ben Chilwell meiddist gegn Juventus.


Í leiknum um síðustu helgi gegn Manchester United, vorum við algjörlega í köðlunum framan af fyrri hálfleik. Potter hafði stillt upp í 3-4-3 gegn 4-2-3-1 kerfi hjá Erik Ten Haag. Það sem ég sé mjög jákvætt við þessa reynslu, er að Potter var óhræddur við að taka róttæka breytingu mjög snemma. Hann tók Marc Cucurella af velli á 36. mínútu og breytti úr 3-4-3 leikkerfinu og fór í 4-4-2 tígul. Það er leikkerfi sem ég tel að Chelsea hefur ekki leikið síðan José Mourinho þurfti að púsla saman Essien, Ballack, Makelele og Lampard í byrjunarliðinu. Það jákvæða var, að viðspyrnan varð mikið betri og liðið náði andrými á vellinum. Eftir stendur spurningin, hvort við við séum of háðir Reece James? Eftir allt, þá er enginn annar "designated" hægri bakvörður í liðinu, faktískt séð - þar sem Azpilicueta ræður ekkert við þessa stöðu í dag. Sá þriðji, Dujon Sterling, sem eitthvað hefur spilað með liðinu á æfingum, er á láni hjá Stoke, og reyndar stendur sig með prýði. Potter gæti mögulega spilað Chilwell og Cucurella í "inverted" vængbakvörðum, líkt og Pep notar Cancelo hjá City, og Gasperini gerir hjá Atalanta ár eftir ár. Þess í stað hefur RLC verið stundum spilað í hægri vængbakverði með misjöfnum árangri, en hans besta staða er klárlega á miðjunni. Marc Cucurella er svo annað atriði. Spænskir fjölmiðlar segja að hann hafi misst 4-5 kílógrömm frá því hann lagðist í stutta spítalavist við að fjarlægja hálskirtlana sína í byrjun september. Það kann að skýra hvers vegna hann hefur spilað undir væntingum að undanförnu. Ef menn eru að spila fótbolta á meðan þeir neyta sýklalyfja, þarf ekki að spyrja að leikslokum.





Chelsea

Kalidou Koulibaly ferðaðist ekki með liðinu til Austurríkis eftir smá högg sem hann hlaut í leiknum gegn Brentford, og bætist þá við meiðslalistann sem telur Reece James, Wesley Fofana og N'Golo Kante. Það þýðir að helvíti margir varnarmenn eru fjarverandi vegna meiðsla. Í ljósi aðstæðna tel ég það nokkuð öruggt að Potter hörfi í fjögurra manna varnarlínu, en mín ágiskun er eins góð og hver önnur. Stjórinn er ólíkinda tól og það er vonlaust að giska á þetta. Ég ætla að tippa á að Potter stilli í 4-2-3-1. Ég er líka nokkuð klár á því að Kepakötturinn verði í markinu. Sá kann að skutla sér núna! Ekki lengur með Pappírs-Pésa úlnliði þrátt fyrir þetta óheppilega mark hjá Casemiro um helgina. Í hægri bakverði neyðist Cæsar Azpilicueta að taka eina vakt. Miðvernir verða Faðir Vor, Thiago Silva, og Vottur Chalobah. Vinstri bakvörðurinn verður okkar besti Chilly. Ég spái því að verðandi Calvin-Klein nærbuxnafyrirsætan, Mateo Kovacic, spili á miðjunni með Ruben Loftus Cheek. Money Mase verður í holunni líklega og á sitthvorum köntum verða Raheem Sterling og Christian Pulsic. Ef Pulisic fær ekki traustið, þá hlýtur að vera eitthvað að. Aubameyang verður líkast til á toppnum - þrátt fyrir það að Armando Broja, okkar besti Albani með innflytjendamentalítetið eigi algjörlega skilið að fá byrjunarliðssætið. Tel þó Potter vera of íhaldssaman með það. Undirritaður er lítt hrifinn af Aubameyang og telur viðkomandi vera kominn langt yfir síðasta söludag. Sjáum til hvað gerist. Ef Kai Havertz fær byrjunarliðsslott á kostnað einhvers, þá þarf að leggjast í sérstaka rannsókn á því - þar sem hann hefur ekkert gert til að verðskulda slíkt. Eina sem Kai Havertz þarf að gera á næstunni er að drekka nýmjólk með hverri máltíð og komast án þennan Leon Goretzka matarkúr. Þurfum kjöt á beinin, í fúlustu alvöru. En síðan getur vel verið að Potter stilli upp í 4-4-2 tígul, eða 3-4-3, eða 3-5-2 eða 4-3-3. Hvað veit maður? Ekki neitt. Hann er ekki búinn að finna liðið sitt né besta leikkerfi. Það er næsta víst eins og Bjarni Fel sagði alltaf.




RB Salzburg

Satt best að segja veit ég ekki hvað skal segja um RB Salzburg. Reyndar dó Red Bull eigandinn núna í vikunni. Tel það ekki breyta miklu. Salzburg sitja á toppi austurrísku deildarinnar og hafa ekki tapað leik í býsna langan tíma. Gerðu þó jafntefli við Sturm Graz sem eiga mestan séns í þá. Talsvert margir leikmenn eru meiddir hjá þeim, en búast má fastlega við þessu byrjunarliði í 4-3-1-2. Köhn verður í markinu, Wöber í vinstri bakverði, Dedic í hægri bakverði, Solet og Pavlovic eru miðverðir. Seiwald, Gourna-Douath og Kjærgaard á miðjunni, Sucic í holunni og Okafor og Sesko í framherjastöðum. Benjamin Sesko er sá sem þarf að varast sérstaklega. Mjög efnilegur leikmaður þar á ferð sem við vorum eitthvað orðaðir við. Fylgist sérstaklega með honum. Úr þessum leik dugir jafntefli, að því gefnu að AC Milan vinni Dinamo Zagreb í Króatíu. Ef Chelsea vinnur - þá er það bókað pláss í 16. liða úrslitin eftir áramót.


Hvernig fer leikurinn?


Ég spái því að þetta verði jafn leikur og endi í jafntefli. 1-1. Sesko skorar gegn okkur fyrst, en Armando Broja kemur af bekknum og sparkar boltanum í netið og Aubameyang vonandi á bekkinn um ókomna tíð. AC Milan eru svo komnir með meirihlutann af vörninni sinni til baka, þannig að þeir ættu að sækja sigurinn í Zagreb. Ekkert stress!



bottom of page