top of page
Search

Atletico Madrid vs. Chelsea - Upphitun fyrir Meistaradeildarbaráttu

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 23. febrúar 2021 kl. 20:00

Leikvangur: Arena Nationala, Búkarest, Rúmenía

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 2 og Ölver Sportbar

Upphitun eftir Þór Jensen


Eftir arfaslaka frammistöðu gegn Southampton um helgina bíður stærsta prófraun Tuchel sem stjóra Chelsea og stærsti leikur okkar á tímabilinu til þessa - fyrri leikur í 16. liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn toppliði Spánar, Atletico Madrid. Leikurinn fer fram á hlutlausum velli, í Búkarest, Rúmeníu, vegna sóttvarnaraðgerða Spánverja. Þetta er óneitanlega okkur í hag og Madridarmenn hljóta að bölva því í sand og ösku að fá ekki sinn heimaleik. Nú er mikilvægt að láta slag standa og nýta þessa yfirhönd sem við höfum gegn Atl. Madrid.


Eftir gott gengi í undanförnum leikjum sló jafnteflið við Southampton okkur aðeins niður á jörðina og lækkaði örlítið í bjartsýnisröddum Chelsea manna. Sóknarleikurinn var hægur og fyrirsjáanlegur og takturinn tómlegur - en nóg hefur verið ritað og sagt um þann leik og við skulum ekki dvelja of lengi við hann.

Tuchel staðfesti á blaðamannafundi að Thiago Silva væri enn meiddur og verður ekki í hóp gegn Madridarmönnum en Kai Havertz kemur aftur inn í hópinn eftir meiðsli. Meistaradeildarhópurinn er stærri en úrvalsdeildarhópurinn og telur 23 leikmenn og þar kemur breidd Chelsea að góðum notum. Einnig verða 5 skiptingar leyfðar og fróðlegt verður að sjá hversu margar þeirra Tuchel mun nýta sér.

Tuchel talaði einnig um títtnefndan Callum Hudson-Odoi á blaðamannafundinum og greindi frá því að hann hefði ekki talað við leikmanninn maður á mann heldur fyrir framan allan hópinn um atvikið sem átti sér stað gegn Southampton, þegar Callum var skipt inn á og útaf í sama leik. Þetta taldi Tuchel bestu leiðina til að loka þessu máli og halda áfram að byggja upp liðið, vonandi leiðir þetta atvik frekar til þess að menn leggi enn harðar af sér á æfingum og í leikjum frekar en að hafa neikvæð áhrif og valda togstreytu innan hópsins.

Chelsea

Ég spái þónokkrum breytingum á byrjunarliðinu frá Southampton leiknum. Þegar Marcos Alonso er ekki frábær sóknarlega, þá er hann hreinlega lélegur, og það var hann gegn Southampton. Ég spái því að Chilwell verði í vinstri-vængbakvörðsstöðunni á þriðjudaginn. Christensen hlýtur að koma aftur inn í liðið á kostnað Zouma og eitthvað segir mér að Tammy Abraham missi sætið sitt í byrjunarliðinu á kostnað Giroud. Kovacic átti einnig slæman leik gegn Southampton og stór spurning hvort að hann verði í byrjunarliðinu á þriðjudaginn, eða hvort að Jorginho leysi hann af, eða að Tuchel fari jafnvel aftur í Jorgino/Kovacic miðjuna. Kanté átti hins vegar góðan leik gegn Southampton og mig grunar sterklega að hann haldi sínu sæti. Timo Werner verður alltaf á sínum stað vinstra meginn við sóknarmanninn, sama hvernig hann stendur sig, en hægri kanturinn er stærri spurningamerki. Líklega mun Reece James byrja í hægri vængbakverði og þá Mason okkar Mount hægra meginn við níuna.

Til gamans má rifja upp byrjunarlið Chelsea í 1-1 jafntefli gegn Barcelona 2017/18. Við gætum vel séð 6 af 11 byrjunarliðsmönnum í þeim leik í byrjunarliðinu á þriðjudaginn, sem er ótrúlegt miðað við endurnýjunina sem hefur orðið á liðinu síðan þá.



Svona er mín spá fyrir byrjunarlið Chelsea gegn Atletico Madrid:


Atletico Madrid

Atletico menn sitja á toppi spænsku La Liga með þriggja stiga forskot á nágranna sína í Real og leik til góða. Þeir hafa spilað afar vel á þessu tímabili, skorað flest mörkin í La Liga og fengið jafnfæst á sig (ásamt Sevilla). Fyrir tímabilið tóku þeir Suarez frá Barcelona fyrir litlar 5 milljónir Evra, auk þess sem að Barca borga enn hluta af laununum hans. Þetta hljóta að teljast einhver bestu félagsskipti seinni tíma, þar sem Suarez hefur verið í frábæru formi og er í raun leikmaðurinn sem skilur að Atl. Madrid frá hinum toppliðunum á Spáni. 34 ára Úrúgvæinn, sem Tuchel reyndi einmitt að fá til PSG í sumar, hefur skorað 16 mörk í 20 leikjum í deild sem er mark á 97 mínútna fresti. Hann á hins vegar enn eftir að skora í Meistaradeildinni í vetur, sem er jákvætt fyrir okkar menn og megi hann halda því áfram.

Atletico eru eins og alltaf þaulskipulagðir og taktískt sterkir. Diego Simeone stillir vanalega upp í 3-5-2 kerfi með Hermoso, Giménez og Savic í hjarta varnarinnar. Í markinu er svo einn besti markvörður í heimi, Jan Oblak. Miðjan skipar oftast Koke, Lemar og Llorente með Carrasco og Vrsaljko eða Correa á köntunum. Uppi á topp eru svo 120 milljón evra maðurinn Joao Felix og Luis nokkur Suárez. Af og til stilla þeir upp í 4-4-2 kerfi og kemur þá Felipe vanalega inn í vörnina á kostnað eins miðjumanns. Það er hellings breidd í þessu liði og eru þeir með menn í hóp sem geta hæglega komið inn í liðið eins og Saúl, Moussa Dembélé, Kieran Trippier, Kondogbia og Lucas Torreira.

Atletico menn hafa reyndar ekki náð góðum úrslitum í síðustu deildarleikjum með aðeins einn sigur í síðustu fjórum leikjum og 0-2 tap á heimavelli gegn Levante í síðasta leik. Vonandi getum við nýtt þessa lægð hjá þeim til að stríða þeim í leiknum í Rúmeníu.


Spá

Ég spái taktískri skák á þriðjudagskvöld, leikur tveggja stjóra sem leggja upp sína leiki af mikilli skipulagningu og hugsun. Líklega verða þetta 3-4-3 gegn 3-5-2 kerfi, þar sem bæði lið munu reyna hvað þau geta til að halda marki sínu hreinu. Ég spái því að það verði lítið um opin færi í þessum leik og leikurinn mun líklegast ráðast af einhverskonar mistökum í varnarleik eða föstu leikatriði. Ég spái okkar mönnum 0-1 sigri með skallamarki frá Oliver Giroud eftir fyrirgjöf frá Reece James. Við förum þá inn í heimaleikinn með útivallarmark í forskot og komumst áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar síðan 2013/14 þegar við komumst í undanúrslit keppninnar.

KTBFFH

Þór Jensen

bottom of page