Atalanta gegn Chelsea
- Jóhann Már Helgason

- 12 minutes ago
- 4 min read
Keppni: Meistaradeildin, 6. umferð
Tími, dagsetning: Þriðjudagur 9. desember kl: 20.00
Leikvangur: New Balance Arena, Bergamo Ítalía
Dómari: Alejandro Hernandez (Spánn)
Leikur sýndur: Líklega Viaplay
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Næstkomandi þriðjudag ferðumst við til Ítalíu og heimsækjum lið Atalanta á útivelli í Meistaradeild Evrópu. Þetta verður í fyrsta sinn í sögunni þar sem þessi tvö lið mætast og því er ekki til neinn sögulegur samanburður úr leikjum þessara liða. Við komum til leiks eftir heldur dapurt markalaust jafntefli við Bournemouth síðasta laugardag í ensku úrvalsdeildinni. Það er nokkuð ljóst að þessir hefðbundnu laugardagsleikir sem hefjast klukkan þrjú hafa ekki farið vel í okkur á þessu tímabili, en þetta var jafnframt í fyrsta sinn síðan í upphafsleiknum gegn Crystal Palace í ágúst sem okkur tekst ekki að skora. En ef við horfum á jákvæðu punktana að þá náðum við að halda hreinu. Við spiluðum á okkar besta miðvarðapari og Sanchez átti nokkrar góðar vörslur og var réttilega valinn maður leiksins. Þá spilaði Cole Palmer rúman klukkutíma sem eru mjög góðar fréttir og leikformið verður vonandi fljótt að koma hjá honum ef hann nær mínútum í öllum þessum desember leikjum sem framundan eru. Liam Delap meiddist snemma leiks á öxl og verður eitthvað frá. Því miður byrjar ferill hans heldur brösulega hjá Chelsea og maður er farinn að spyrja sig hvort þessi umtalaða bölvun þeirra sem klæðast treyju númer 9 hjá okkur sé í alvörunni til? Ég trúi því samt enn á að Delap eigi eftir að reynast okkur vel í framtíðinni.

En snúum okkur nú aðeins að næstu andstæðingum í Atalanta. Atalanta er staðsett í borginni Bergamo í Lombardy héraði á Ítalíu. Liðið hefur undanfarin ár verið eitt það mest spennandi á Ítalíu og vann meðal annars Evrópudeildina árið 2024 þegar þeir sigruðu sjóðheitt lið Bayer Leverkusen lið Xabi Alonso. Þetta er í fjórða sinn sem þeir taka þátt í Meistaradeild Evrópu og hafa þeir lengst komist í 8 liða úrslit, en það var tímabilið 2019-2020. Atalanta hefur á þessu tímabili leikið tvo heimaleiki í riðlinum í Meistaradeildinni. Þeir hafa unnið annan þeirra og gert jafntefli í hinum, en á sama tíma hefur Chelsea leikið tvo útileiki þar sem við höfum tapað einum og gert eitt jafntefli. Atalanta eiga eflaust eftir að mæta grimmir til leiks. Þeir hafa skorað 11 mörk í síðustu fimm leikjum. Ademola Lookman er þar lykilmaður með hraða og áræðni og það er nokkuð ljóst að við þurfum að passa vel upp á hann. Palladino, nýráðinn stjóri þeirra, hefur stillt liðinu upp í 4-2-3-1 með miklu kantspili, með skapandi leik frá Charles De Ketelaere og Raoul Bellanova og sterkri miðju þar sem De Roon heldur skipulagi og tempói. Varnarlína þeirra hefur hins vegar verið óstöðug og liðið hefur fengið á sig sex mörk í síðustu þremur leikjum. Þeir töpuðu síðasta laugardag í Serie A, 3–1 gegn fallbaráttuliði Hellas Verona, og sitja nú í 12. sæti deildarinnar.
Þetta hefur verið mikið vonbrigðatímabil hjá þeim, enda fór þjálfari þeirra til margra ára, Gian Piero Gasperini, frá liðinu í sumar og tók við liði Roma. Við liðinu tók þá Króatinn Ivan Juric, en það var í sjálfu sér alveg stórfurðuleg ráðning sem ekki margir skildu í. Það kom síðan á daginn þar sem hann entist ekki nema fimm mánuði í starfi áður en Raffaele Palladino tók við liðinu þann 11.nóvember síðastliðinn. Atalanta misstu einnig sinn helsta markaskorara frá síðasta tímabili, Mateo Retegui, í peningana í Saudi Arabíu og hefur þeim ekki tekist að fylla skarð hans. Í leikmannahópi Atalanta má finna einn fyrrverandi leikmann Chelsea, en það er Ítalinn Davide Zappacosta, munið þið ekki örugglega öll eftir honum? Heimavöllur Atalanta heitir New Balance Arena, en hét áður Gewiss Stadium, en völlurinn er nýbúinn að fara í gegnum endurbætur og tekur hann nú um 25 þúsund manns í sæti. Ef við tökum smá útúrdúr og kynnum okkur klúbbinn Atalanta aðeins nánar að þá var liðið stofnað árið 1907 og eiga þeir mikla erkióvini í liði Brescia, en það er bær sem er einnig í Lombardy héraði aðeins 50 kílómetra frá Bergamo. Rígurinn á milli þessara liða er mun heitari en margir gera sér grein fyrir og hvet ég þá sem eru áhugasamir um ríga milli erkióvina í fótboltaheiminum að kíkja á meðfylgjandi myndband og kynna sér þennan Lombardy héraðsríg.
Þá kíkjum við aftur á okkar menn í Chelsea. Í síðustu umferð Meistaradeildarinnar áttu okkar menn stórkostlegt Evrópukvöld á Brúnni þegar við völtuðum yfir Barcelona með sannfærandi 3–0 sigri, leik sem hlýtur að vera í fersku minni okkar allra. Við sitjum í 7. sæti í þessum risastóra Meistaradeildarriðli, eða deild, og sigur gegn Atalanta myndi færa okkur skrefi nær 16 liða úrslitunum. Við höfum ekki unnið leik síðan við sigruðum Barcelona, en síðan þá höfum við spilað þrjá leiki þar sem við höfum gert tvö jafntefli og tapað einum. Nú geri ég kröfu á að við mætum dýrvitlausir til leiks og tökum öll stigin sem verða í boði, og ég vona innilega að Maresca stappi stálinu í okkar menn. Það er ekki í boði að taka aðra svona niðursveiflu eins og gerðist á þessum tíma á síðasta tímabili. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann mun stilla liðinu upp, en ég vona að hann hræri ekki of mikið í því. Að vísu eru leikmenn eins og Enzo og Chalobah farnir að virka pínu þreyttir og það verður að passa að halda öllum þokkalega ferskum nú yfir þetta leikjaálag. Það er að sjálfsögðu erfitt að giska á byrjunarliðið en ég ætla að spá því svona:
Sanchez verður í markinu. Malo Gusto verður hægra megin og hinn orkumikli Cucurella er sjálfkjörinn vinstra megin. Í vörninni verður áðurnefndur Chalobah og ætli Badiashile verði ekki við hlið hans. En ég reikna með að Maresca muni reyna að hvíla Fofana. Á miðjunni verða þeir Caceido (sem ætti að vera frískur) og Andrey Santos. Ég er alveg til í að Cole Palmer byrji þennan leik fyrir framan þá, og þá myndu þeir Estevao og Neto vera á köntunum. Joao Pedro myndi síðan byrja fremstur.
Ég er nú ekki viss um að þetta sé rétt byrjunarlið hjá mér, en ég tek þá Fofana, Reece James og Enzo úr liðinu því hugsanlega er Maresca að reyna að stýra álaginu á meiðslapésunum sínum og Enzo veitir ekki af því að ná aðeins andanum. Að sjálfssögðu spái ég okkar mönnum 0-2 sigri þar sem Brassarnir Joao Pedro og Andrey Santos skora mörkin.





Comments