top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Aston Villa - Chelsea

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:    Laugardagur 27. apríl kl: 19:00

Leikvangur:   Villa Park, Birmingham

Dómari: Craig Pawson

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason



Leikurinn gegn Arsenal á Emirates var algjör niðurlæging. Stærsta tap í nágrannaslag síðan 1986. Það eru 38 ár síðan. Þá voru Reagan og Gorbatchov að reyna útkljá Kalda stríðið í Höfða! Ég ætla ekki að lýsa mörkunum í neinum smátriðum, en það var nógu háðulegt að Kai Havertz, á sínu Skittles matarræði skyldi setja tvö í andlitið á okkur. Við vorum án Cole Palmer. Við vorum án Malo Gusto. Við vorum án Ben Chilwell. Af einhverjum ástæðum þótti Pochettino við hæfi að skipta LÍKA út miðvörðunum tveimur. Thiago Silva og Trevoh Chalobah. Mögulega eitthvað þreyttir eftir City leikinn en andskotinn hafi það. Síðustu leikir með þeim tveimur var það skásta sem sást til Chelsea varnarlega séð. Að Disasi skuli hafa meiðst lítillega setti bara töluverða ró yfir alla vörnina. Benoit Badiashile. Hvað er hægt að segja? Einhver í Chelsea samfélaginu á Íslandi sagði að hann væri hættulegri en túristar í umferð. Þegar hann er í byrjunarliðinu - þá er voðinn vís í fjögurra manna varnarlínu. Hann er ekki alslæmur í þriggja manna varnarlínu sem vinstri miðvörðurinn, en hans leikskilningi er ábótavant. Maður er hreinlega farinn að efast um ágæti Badiashile og Disasi. Þrátt fyrir það fengu þeir sex og sjö ára samninga. Hvernig á að losa sig við þannig leikmenn? Þeir eru byrði á liðinu. Disasi átti ótrúlega flottan leik gegn Manchester City í deildinni en svo bara hefur hann verið hræðilegur. Badiashile getur ekkert og er "bang average". Að mínu mati verður að losa þá út - og sennilega Laurence Stewart, "sporting directorinn" - sem kom einmitt líka frá Monakó. Þessir þrír aðilar eiga skilið að fá reisupassann, og þá sérstaklega Stewart. Í heildina verður þó að líta á liðið. Það hreinlega gafst upp eftir þriðja markið og Pochettino virðist ekki eina nein svör til að trekkja liðið aftur í gang. Það er farið að sjá verulega á traustinu hans gagnvart aðdáendum.



Blaðamaður Matt Law hjá Daily Telegraph, sem virðist hafa nokkuð traust tengsl við stjórnina, reporterar að stjórnendur félagsins horfi til þess að hafa Pochettino áfram, en segir líka að staðan hans sé eftirsótt af öðrum stórum nöfnum í bransanum. Pochettino skrifaði undir tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu. Það er því ekki á dagskrá að fara höggva á hnútinn nema úrslitin á lokasprettinum verði mjög slæm eða andrúmsloftið hjá aðdáendum verði mjög eitrað.


Nú hefur komið í ljós að Enzo Fernandez hefur átt í vandræðum með kviðslit lungan af tímabilinu, a.m.k. fimm mánuði sem óneitanlega hefur áhrif á gæðin. Hann fór í aðgerð í vikunni og verður því frá út tímabilið. Malo Gusto og Ben Chilwell eru líka ennþá meiddir ásamt Fofana og Lavia. Reece James, Robert Sanchez, Christopher Nkunku, Lesley Ugochukwu og Levi Colwill eru byrjaðir að æfa létt en þetta hefur verið þessi endurtekna mantra í gegnum allt tímabilið. Leikmenn eru meiddir. Mest allt álagsmeiðsli. Lesley Ugochukwu lék síðast á aðfangadag sem þýðir að hann hefur verið frá í fjóra mánuði. Levi Colwill hefur verið frá í tæpa tvo mánuði. Nkunku hefur verið frá í tvo mánuði eftir að hafa verið spilað varlega í janúar og febrúar, eftir að hafa verið meiddur í fimm mánuði - samtals sjö. Reece James hefur faktíst séð verið meiddur alla leiktíðina fyrir utan einhverja níu leiki október og nóvember. Ben Chilwell var meiddur í þrjá mánuði og virðist ætla að bæta þeim fjórða við núna í blálokin. Það þarf ekki mikla mannvitsbrekku til að skilja að eitthvað verulega bjátar á. Þetta er klárlega stærsta vandamál sem steðjar að klúbbnum. Í þessum aðstæðum er þjálfaranum eitthvað til vorkunnar, en fólk spyr sig. Er þetta þjálfaranum og aðferðum hans að kenna? Er æfingaálagið of mikið? Þetta er í raun eina karaktereinkennið sem er kennt við Pochettino. Hann lætur leikmenn æfa gríðarlega mikið. Við aðdáendur skynjum og sjáum glöggt, að hann er enginn maestro þegar kemur að taktík. Hvað þá að vera einhver taktíker í leikjum. Hann er það sannarlega ekki. Framundan er leikur við Aston Villa á útivelli, gegn liði sem er stýrt knattspynuþjálfara sem hefur tekist að breyta klúbbnum úr fallbaráttuliði yfir í meistaradeildarlið. Chelsea mæta í þennan leik án allra bakvarða nema Marc Cucurella. Við munum vafalaust sjá Axel Disasi í hægri bakverðinum, eina ferðina enn. Raheem Sterling verður ekki með að þessu sinni þar sem hann meiddist í baki og Carney Chukwuemeka er einnig frá. Samtals 12 leikmenn meiddir. Aston Villa liðið er funheitt þessa dagana og til alls líklegir í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn á Stamford Bridge fór 0-1 fyrir Aston Villa eftir að Malo Gusto fékk rautt spjald fyrir klaufalegt brot. Í FA bikarnum höfðum við betur - sem var nokkuð óvænt, satt best að segja. En leikurinn í kvöld skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Aston Villa þar sem þeir eru í eldlínunni við að tryggja sér sæti í meistaradeildinni. Þar fyrir utan eru þeir mjög erfiðir heim að sækja á Villa Park í Birmingham. Það bendir því allt til þess að vinninglíkurnar séu þeim í hag, frekar en okkur.


Hvernig stillir Pochettino upp núna? Eftir því sem fleiri leikmenn eru meiddir er auðveldara að lesa það. Þrátt fyrir slakar frammistöður að undanförnu er Petrovic sennilega í markinu. Það er ólíklegt að Bettinelli sé að fara skáka honum. Varnarlínan verður Cucurella, Thiago Silva, Chalobah og Disasi. Miðjan verður Caicedo, Gallagher og Cole Palmer sem kemur aftur í liðið eftir veikindi. Mudryk verður á vinstri og Madueke á hægri. Jackson upp á topp. Við erum ekki komin á þann stað ennþá að geta spilað Cesare Casadei, Deivid Washington eða jafnvel Jimi Taurianen. En ef aðstæður væru með öðrum hætti, þá væri sjálfsagt að deila mínútum á þá. Það eru allar líkur á því að Pochettino taki þessa síðustu leiki alvarlega, því hann má ekki við fleiri skellum, líkt og gegn Arsenal.






Hvernig fer leikurinn? Eigum við að þora að vonast eftir jafntefli? 1-1. Watkins með mark Villa en Palmer jafnar úr víti.


Áfram Chelsea... ekki veitir af!

Comments


bottom of page