Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími - dagsetning: Sunnudagur 16. október kl. 13:00
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport
Leikvangur: Villa Park
Upphitun eftir: Finn Marinó Þráinsson
Næstu andstæðingar okkar eru lærisveinar Steven Gerrard á Villa Park.
Gengi Aston Villa hefur ekki verið upp á marga fiska á tímabilinu. Liðið situr í 16. sæti með 9 stig eftir 9 leiki. Liðið hefur ekki skorað meira en 1 mark í deildinni síðan 13. Águst þegar þeir unnu Everton 2-1. Það má samt taka fram að einn af þessum leikjum var 1-1 jafntefli við Manchester City á Villa Park.
Síðasti leikur þeirra var 1-1 jafntefli við nýliða Nottingham Forrest.
Það sem er helst að frétta úr herbúðum Villa er það að Douglas Luiz skrifaði nýlega undir nýjan samning við liðið. Enskir fjölmiðlar töluðu mikið um það að Arsenal ætlaði að reyna aftur við hann í Janúar eftir að hafa reynt að kaupa hann á lokadegi sumargluggans. Meiðslalisti Villa samanstendur af Lucas Digne, Boubacar Kamara og Diego Carlos.
Chelsea
Fjórir sigrar í síðustu fjórum leikjum með markatöluna 10-1. Svona viljum við hafa þetta.
Eftir frækinn sigur gegn ítölsku meisturunum mæta þeir bláklæddu á Villa Park. Það helsta sem ber að frétta úr herbúðum Chelsea eru þessar hræðilegu fréttir af Reece James. Eftir óheppilega lendingu í baráttu um boltan á móti Milan fékk hann högg á hnéð sem heldur honum frá vellinum í 8 vikur. Þetta er náttúrulega hræðilegt fyrir liðið en einnig ömurlegt fyrir manninn sjálfan, þá sérstaklega vegna þess að hann missir af heimsmeistaramótinu í Katar.
Wesley Fofana og Kante eru líka meiddir og hvorugur þeirra mun koma við sögu fyrir HM. Mason Mount var ekki á æfingu fyrir leikinn og gæti þurft að sitja á hliðarlínunni.
Byrjunarlið
Eins og áður hefur fram komið er Graham Potter frekar óútreiknanlegur þegar kemur að byrjunarliðum sem gerir okkur erfitt fyrir hér á CFC.is. Ég ætla að giska á það að hann stilli upp í 3-4-2-1 með þessu fljótandi kerfi sem við höfum séð eftir að hann tók við. Þá á ég við að menn eru ekki endilega fastir í þeim stöðum sem þeir byrja í og liðið getur jafnvel breytt yfir í 4-2-2-2 eða 3-5-2 eftir því hvernig leikurinn spilast.
Ég ætla að setja Kepa í markið með Koulibaly, Silva og Chalobah fyrir framan sig. Á miðjunni vil ég sjá Kovacic og Loftus-Cheek. Það er hins vegar erfiðara að spá fyrir um hverjir sitja vaktina í vængbak stöðunum þar sem að James er meiddur. Mun hann spila Azpilicueta hægra meginn? Einhverjir netspekúlantar hafa velt steinum um að Potter muni jafnvel rótera Sterling, Pulisic eða Loftus-Cheek í hægri vængbak með Azpi eða Chalobah hægra meginn í varnarlínunni. Þetta verður áhugvert að sjá. Ég spá því samt að Azpi byrji leikinn á vængnum með Cucurella vinstra meginn. Ég ætla svo að setja Sterling og Havertz fyrir framan miðjuna með Aubameyang uppi á topp.
Spá
Ég spái því að við vinnum þennan leik sannfærandi. Við höldum uppteknum hætti og skorum allavega tvö mörk. Aston Villa gengur illa að skora og það tekst ekki heldur í þetta skipti. Lokastaða 0-3. Aubameyang heldur áfram að skora fyrir okkur og setur tvö. Armando Broja kemur inn á seint í seinni hálfleik og setur eitt af Albönskum sið.
Comments