top of page
Search

Arsenal-Chelsea

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:    Þriðjudagur 23. apríl kl: 19:00

Leikvangur:   Emirates Stadium, London

Dómari: Simon Hooper

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason



Ekki varð okkur kápan úr klæðinu með bikar þetta árið. Ef til vill voru það órauhæfar væntingar, en andskotinn hafi það. Ef það var staður og stund til að sigra Manchester City, þá var það á laugardaginn. City mættu nokkuð þreyttir til leiks og Erling Haaland var ekki einu sinni með. Pep Guardiola lét í ljós óánægju sína eftir leikinn að hafa spilað þennan leik á laugardegi, en auðvitað er leikurinn gegn Arsenal núna í kvöld, þannig að FA hefur þurft að miðla málum. Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi framan af. Chelsea fengu hreint út sagt, urmul af tækifærum til að skora og þá sérstaklega Nicholas Jackson. Því miður var hann langt frá sínu besta og fór illa með mörg tækifæri. Tækifærin voru það góð að Chelsea var með 1,14 í xG en Man City aðeins með 0,93. Það er ekki oft sem það gerist að City vinni leiki en tapi xG bardaganum. Við erum núna farin að sjá reglulega að Chelsea eru að hitta meira á rammann sem hlutfall af heildarskotum. Stefan Ortega átti góðan leik í markinu og varði mörg tækifærin. Svo kom að því að City skoruðu - frekar ómerkilegt mark frá Bernardo Silva. Það smá gagnrýna var að Pochettino kom með skiptingarnar frekar seint í leiknum og ef til vill hefði hann mátt setja Cucurella í hægri bakvörðinn og Chilwell í vinstri, í staðinn fyrir að setja Disasi í hægri bakvörðinn gegn Jeremy Doku sem var þá nýkominn inná. Chelsea twitter fanbase'ið ákvað að ausa úr skálum reiði sinnar yfir Nicholas Jackson. Sá leikmaður á það varla skilið - enda komu Didier Drogba honum til varnar á twitter. Því miður gekk þetta ekki upp að þessu sinni, áfram gakk. Stefnum á evrópusæti og óskum Manchester City til hamingju með tvennuna í ár.


Í vikunni kom fram að John Terry var innlimaður inn í frægðarhöll ensku úrvalsdeildarinnar. Thiago Silva hefur verið gefið það út, samkvæmt Fabrizio Romano, að hann verði ekki áfram hjá Chelsea eftir þetta tímabil, þrátt fyrir að hafa fengið samningstilboð í janúar. Það verður að segjast að það var helvítis högg að missa Wesley Fofana út heilt tímabil og Levi Colwill svona lengi. Þeir ættu klárlega að verða miðvarðaparið fyrir næsta tímabil. Félagarnir úr Mónakó, Badiashile og Disasi eiga lítið erindi. Chalobah var fljótt betri en þeir þegar hann snéri til baka úr sínum meiðslum. Þeir hafa allir núna tækifæri til að sanna næstu sjö leikina að þeir eigi eitthvað erindi í Chelsea. Það verður því áhugavert að sjá hvernig síðasti leikhlutinn á tímabilinu endar. Við höfum enn sem lið, ákveðið markmið að sækja. Það er ennþá séns á einhverju evrópusæti og það yrði algjör bónus að enda fyrir ofan Manchester United í tölfunni þegar allt verður talið.


Framundan er leikur gegn Arsenal á Emirates. Þessi leikur átti að fara fram yfir löngu síðan en var frestað útaf velgengni í FA bikarnum. Það er líka ákveðin hvatning að eyðileggja partýið fyrir Arsenal og Tottenham. Ef Chelsea tekur stig af Arsenal núna mun það líklega afskrifa þá endanlega úr kapphlaupinu um enska deildartitilinn. Því miður verður Cole Palmer ekki með vegna veikinda og Ben Chilwell er að eiga við álagsmeiðsli í vöðva. Malo Gusto er einnig tæpur fyrir leikinn. Það þýðir að það verði einhver hrókering á varnarlínunni enn og aftur. Ætli Pochettino starti ekki Petrovic, Cucurella, Chalobah, Thiago Silva og Disasi í vörninni. Caicedo, Enzo og Gallagher á miðjunni. Mudryk vinstra megin og Madueke hægramegin. Raheem Sterling gæti þó mögulega byrjað fyrir annan hvorn þeirra en Nicholas Jackson verður uppá topp.




Hvernig fer svo leikurinn? Segjum bara 0-3. Nicholas Jackson verður svo valdefldur að hann hendir í þrennu.


Áfram Chelsea og KTBFFH!!


bottom of page