Keppni: Carabao Cup
Tími, dagsetning: 30. október kl:19:45
Leikvangur: St. James’ Park, London
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Freyr Reynisson

Jæja, bláklæddu bræður mínir og systur. Við mætum til leiks í fjórðu umferð English Football League (EFL) bikarsins þegar við sækjum Newcastle heim. Þetta er annar leikur Chelsea í keppninni og komumst við áfram eftir góðan 5 - 0 sigur gegn Barrow í þriðju umferðinni, sem var jafnframt okkar fyrsti leikur í keppninni á tímabilinu.
Hugmyndafræði Enzo Maresca er að virka fullkomlega er varðar hvernig hann deilir mínútum milli leikmanna liðsins. Þeir leikmenn sem að eru í “B” liðinu og fá flestar sínar mínútur í bikarkeppnunum og Sambandsdeildinni eiga þann möguleika að heilla stjórann og vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni. Eins og Pedro Neto sýndi og sannaði núna nýlegast. Liðsheildin er sterk og leikmennirnir vita að þeir eru ekki stærri en klúbburinn og vinna saman að sameiginlegu markmiði, að vinna leiki.
Þó að allt sé í blóma og við séum að spila flottan fótbolta sem að skilar mörkum þá höfum við ekki haldið hreinu undanfarna sex leiki. Við spilum stóran hluta í hverjum leik þar sem að við stjórnum leiknum en gerum okkur oft lífið leitt með því að gefa boltann frá okkur á klaufalegan hátt. Ef að við skoðum markmennina þá kemur þetta sérstaklega í ljós þegar skoðað er hlutfallið á löngu sendingunum.

Jörgensen er með 93.5% hlutfall af heppnuðum sendingum (í tveimur leikjum) en einungis 20% hlutfall af heppnuðum löngum sendingum (1/5).
Sánchez er með 74.5% hlutfall af heppnuðum sendingum (í níu leikjum) en einungis 30% hlutfall af heppnuðum löngum sendingum (33/110). Ég væri til í að sjá hlutfall þeirra í löngum sendingum nær 40 prósentunum, þá væru þeir nær mönnum eins og Emi Martinez, André Onana og Ederson. Þeir eru þó ekki einu sökudólgarnir en með því að halda betur í boltann eykst stjórnin okkar á leiknum. Sem betur fer erum við með gífurlega öfluga miðjumenn sem að geta unnið seinni bolta. Baráttan í leiknum okkar um helgina gegn Newcastle var heyjuð mikið inn á miðsvæðinu og fannst mér við hafa betur þar. En að vinna seinni bolta eða þriðja bolta getur auðveldlega skilað sér í skyndisóknar tækifærum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sú barátta fer þegar við hróflum í mannskapnum okkar á miðjunni.

Að spila gegn sama liðinu tvo leiki í röð reynir líklega einna helst mest á stjórana, sem þurfa að breyta og aðlaga leikskipulagið til að gera betur en í fyrri leiknum. Ég held að það verkefni verið töluvert einfaldara fyrir Enzo Maresca heldur en Eddie Howe þar sem að mér þykir líklegast að við séum að fara að stilla upp gjörbreyttu liði frá því á sunnudag. Einu “meiðsla vandræði” okkar eru að Ben Chilwell gæti verið frá vegna veikinda en Newcastle verða án nokkra lykil leikmanna eins og Trippier, Callum Wilson, Anthony Gordon og Sven Botman svo dæmi séu nefnd. Með þetta í huga, vitandi að Newcastle eru þunnskipaðir fyrir, þá verður auðveldara fyrir Maresca að leikgreina þá og betrumbæta það sem þarf. Ég myndi tala um hvaða breytingar Newcastle gæti mögulega gert til að ná betri úrslitum heldur en um helgina, en sé ekki ástæðu til þess. “B” liðið okkar er að mínu mati betra en Newcastle og ætti að sigla okkur áfram í fimmtu umferð án mikilla vandræða.
Hérna er byrjunarliðið sem að ég held og/eða vona að við sjáum á miðvikudaginn: Jörgensen verður á milli stanganna og getur með góðri frammistöðu gefið Maresca alvöru hausverk um hvort að hann ætti að vera í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni.Varnarlínan verður óbreytt frá leiknum gegn Panathinaikos með Cucurella í vinstri bakverðinum sem að “invertar”, Renato Veiga og Badiashile í miðverðinum og Disasi í hægri bakverðinum. Persónulega væri ég frekar til í að sjá Josh Acheampong fá mínútur en það lítur út fyrir að við sjáum ekki meira af honum fyrr en hann krotar undir nýjan samning. Á miðsvæðinu Enzo Fernandez og ég er að vona að Chukwuemeka fái traustið frá stjóranum og verði í byrjunarliðinu. Framlínan yrði svo skipuð af Mudryk og Felix sem áttu báðir stórleik gegn Panathinaikos annars vegar og hinsvegar Christopher Nkunku og Jadon Sancho. Þó að veðbankarnir virðast vera óákveðnir og gefa báðum liðum stuðul í kringum 2.6 þá er það mín spá að Chelsea sigri á þæginlegri máta en um helgina en þó með sömu markatölu, 2 - 1.
Áfram Chelsea og KTBFFH!!
Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comentários