top of page
Search

Upphitun: Chelsea vs WatfordÁ sunnudag tekur Chelsea á móti Watford á Stamford Bridge í síðasta heimaleik tímabilsins í ensku Úrvalsdeildinni. Leikurinn hefst kl 13:00 og er ekki í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikurinn er hins vegar sýndur á BeIn Sports og CNBC.

Chelsea

Eins ótrúlega og það kann að hljóma að þá er Chelsea í dauðafæri að enda í 3. sæti ensku Úrvalsdeildarinnar (!!!) þetta tímabilið. Tottenham tók upp á því að tapa enn einum leiknum sem gerir það að verkum að Chelsea er tveimur stigum á eftir Spurs með leik til góða - leikinn gegn Watford. Það hefur verið alveg magnað að fylgjast með þessari "baráttu" um sæti í Meistaradeildinni, liðin skiptast á að tapa stigum og það virkar hreinlega eins og Arsenal, Chelsea, Man Utd og Spurs séu að reyna keppa um fimmta og sjötta sætið.


Leikurinn gegn Frankfurt í miðri viku var ágætur. Spilamennskan fyrstu 30 mínúturnar var slök og lenti liðið undir. En í kjölfarið tóku okkar menn öll völd á vellinum með Loftus-Cheek í miklum ham. Pedro jafnaði með góðu marki og Chelsea hefði á góðum degi klárað þennan leik - en sem fyrr vantar okkur þennan 25 marka framherja sem klárar færin sín í teignum. Sarri var gagnrýndur fyrir að hvíla Hazard í þessum leik, en ég skil alveg þá pælingu að láta Hazard spila síðustu þrjátíu mínúturnar gegn þreyttri vörn og hafa hann ferskan í leiknum gegn Watford.

Ég spái því að liðið haldist mjög svipað og í leiknum gegn Frankfurt nema með þeirri breytingu að Hazard, Alonso og Higuain komi inn í liðið. Rudiger er auðvitað meiddur út tímabilið þannig Christansen og David Luiz munu halda áfram í miðvörðunum. Azpilicueta og Alonso yrðu þá bakverðir. Miðjan verður sú sama og í Þýskalandi og Hazard og Higuain koma væntanlega inn fyrir Willian og Giroud. Ég vona alla vega að Kovacic fái algert frí frá byrjunarliðinu og Barkley líka. Mér fannst Giroud ekkert eiga sérstakan leik gegn Frankfurt og Higuain var virkilega slakur gegn Man Utd - ég væri alveg mikið til í að Tammy Abraham væri að spila með okkur en ekki Aston Villa.

Watford

Liðsmenn Javi Garcia hafa átt virkilega gott tímabil. Það voru margir sem spáðu Watford miklu ströggli í upphafi leiktíðar en þeir hafa í raun verið í baráttu um 6-8 sætið allt tímabilið og eru auk þess komnir í úrslitaleik FA Bikarsins gegn Man City. Þeirra bestu menn hafa verið miðjumaðurinn Doucouré og svo hefur Gerard Deulofeu endanlega sprungið út sem gæða leikmaður á seinni hluta tímabilsins. Að lokum hefur svo Hr. Watford, Troy Deeney, átt fínasta tímabil.

Watford er sem stendur í 10. sætinu en eru í þessum þrönga pakka með Leicester, Everton og Wolves. Þeir eru sem stendur með 50 stig sem er býsna góð stigasöfnun m.v. fjárhag liðsins.

Javi Garcia lætur Watford spila nokkuð flókna útgáfu af 4-4-2 sem sumir segja að sé meira í ætt við leikkerfið 4-2-2-2. Það er ekki mikil breidd í leik Watford og fara þeir mikið í gegnum miðjuna þó vinstri bakvörðurinn Jose Holeblas sé duglegur að æða upp vinstri vænginn. Miðjumennirnir Doucoure og Capoue sitja fyrir framan vörnina og Will Hughes og Roberto Pereyra koma þar fyrir framan sem framliggjandi miðjumenn. Frammi eru svo þeir Deulofeu og Deeney.

Garcia er mjög taktískur þjálfari og aðlagar leikstíl Watford algerlega að styrk andstæðingsins. Við getum því gert ráð fyrir því að hann muni pressa Jorginho og að liðið muni liggja frekar aftarlega og reyna að nýta hraða Deulofeu og styrk Deeney í skyndisóknum.

Spá

Sarri hefur talað um hvatningar vandmál (motivation problems) í vetur. Það á að vera nákvæmlega EKKERT mál að mótívera menn í þennan leik. Þetta er síðasti heimaleikurinn í deildinni á þessu tímabili og mikið undir hjá okkar mönnum á meðan Watford eru frekar smeykir við að meiðast og lenda í leikbanni fyrir bikarúrslitaleikinn.

Þessi leikur verður einfaldlega að vinnast.

Ég spái því góðum 3-1 Chelsea sigri þar sem Loftus, Hazard og Higuain skora mörkin.

KTBFFH


bottom of page