top of page
Search

Baráttan heldur áfram - Burnley heima



Kæru lesendur, gleðilega Páska. Í kvöld tekur Chelsea á móti Burnley í ensku Úrvalsdeildinni. Leikurinn er leikinn á Stamford Bridge og hefst hann stundvíslega kl 19:00.

Chelsea

Fótboltaguðirnir gengu í lið með okkar mönnum í gær, Arsenal, Tottenham og Man Utd töpuðu öll sínum leikjum sem gerir heilan helling fyrir möguleika Chelsea að lenda í efstu fjórum sætunum. Spennan um þessi meistaradeildarsæti er alveg lygileg en eins og sést hér á töflunni.


Ég er nokkuð viss um að ef Chelsea vinnur fjóra síðustu leikina þá lendum við í einu af fjórum efstu sætunum. Það verður hins vegar hægara sagt en gert. Fyrir utan leikinn gegn Burnley í kvöld að þá eigum við eftir að spila gegn Man Utd (ú), Watford (h) og Leicester (ú). Líklega erfiðasta leikjaprógramið af liðunum í kringum okkur.


En það þýðir ekkert að vera í einhverjum svona framtíðarpælingum nema að Chelsea vinni þennan leik í kvöld. Síðasti leikur gegn Slavia Prag var furðulegur fótboltaleikur. Chelsea voru stórkostlegir í fyrri hálfleik en tókst svo að "tapa" seinni hálfleiknum 2-0 og var spilamennskan afar slök. Sarri þarf eitthvað að endurskoða hálfleiksræðurnar sínar því alltof oft fær Chelsea á sig mörk í upphafi seinni hálfleiks.

Sarri gerði þó nokkrar breytingar í Evrópudeildinni og reyndi að nota hópinn eins mikið og hann gat. Hazard meiddist lítilega í leiknum gegn Slavia en ætti að vera klár í þennan leik skv. Sarri. Rudiger er ennþá meiddur og Alonso er einnig lítilega tæpur, annars eru allir heilir.

Azpilicueta, Alonso (ef heill), Christansen og Luiz munu líklega standa vaktina í vörninni fyrir framan Kepa. Ég á von á því að Loftus-Cheek, Kante og Jorginho verði á miðjunni og Hudson-Odoi, Giroud og Hazard byrji frammi. Mögulega gæti Sarri látið Willian eða Higuain byrja á kostnað Giroud og Hudson-Odoi en ég vona ekki.

Burnley

Eftir vonlausa byrjun á tímabilinu, þar sem ekkert annað en fall blasti við, hefur Burnley heldur betur keyrt sig í gang á seinni hluta mótsins. Þeir sitja núna í 15. sæti deildarinnar með 39 stig og eru fullkomlega öruggir um sitt sæti. Burnley koma inn í þennan leik með sjálfstraustið í botni enda búnir að vinna þrjá leiki í röð, gegn Wolves, Bournemouth og Cardiff City.

Fótboltinn sem Sean Dyche lætur Burnley spila er vel þekktur og oft á tíðum árangursríkur. Burnley spila mjög djúpa 4-4-1-1, þar sem allt liðið verst gríðarlega aftarlega á vellinum. Burnley eru fjórða neðsta sæti yfir þau lið sem halda hvað mest í boltann (possession), ástæðan fyrir því er fremur einföld, þeir eru mjög beinskeyttir og reyna að ýta boltanum eins hratt upp völlinn og kostur er. Framar á vellinum eiga svo harðjaxlarnir (og fautarnir) Christ Wood og Ashley Barnes svo að halda í boltann eða reyna koma sér í álitlegar skyndisóknarstöður.

Með Burnley leikur að sjálfsögðu Jói Berg en hann hefur mátt þola mikla bekkjarsetu á undanförnum vikum og er ástæðan hinn ungi Dwight McNeil. Sá kappi er 19 ára og hefur slegið í gegn í vetur. Hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur fjögur í þeim fjórtán leikjum sem hann hefur spilað - hann er hættulegasti leikmaður Burnley sem okkar menn þurfa að hafa góðar gætur á.

Spá

Chelsea er að fara mæta mjög þrjósku liði. Okkar mönnum hefur gengið betur á undanförnum vikum að eiga við slík lið, sérstaklega á Stamford Bridge. Ég ætla að spá því að menn nýti meðbyrinn frá því í gær og klári þennan leik sannfærandi 2-0. Loftus-Cheek og Giroud með mörkin.

KTBFFH


bottom of page