top of page
Search

Chelsea vs Tottenham



Chelsea tekur á móti nágrönnum sínum frá norður London á morgun kl. 20.00 og er leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Hér er um mjög mikilvægan leik að ræða, sigur getur komið okkar aftur í alvöru keppni um þetta blessaða 4. sæti en tap eða jafntefli gerir lítið fyrir okkur í þessari baráttu. Það er því ekkert annað en að bretta upp ermarnar og fylgja eftir góðum leik á sunnudag sem endaði þó ekki vel.

Síðasti leikur

Sarri breytti heldur betur um taktík í aðdraganda úrslitaleiksins og kom flestum á óvart með því að hafa ekki hreinræktaðan framherja í liðinu heldur stilla upp Hazard, Pedro og Willian í fremstu víglínu. Þar að auki vörðust Chelsea aftarlega á vellinum og reyndu ekki alltaf að spila sig úr pressu Man City heldur reyna frekar langar sendingar inn fyrir vörn Man City þar sem fljótir framherjar okkar reyndu að stinga sér inn í svæðið. Fyrstu 30 mínútur leiksins þurftu Chelsea menn að standast töluverða pressu frá Man City en eftir því sem á leið fyrri hálfleikinn fengu okkar menn meira sjálfstraust á boltann og þorðu að fara spila sig í gegnum pressu Man City. Maður hreinlega sá að Jorginho vaxa inn í leikinn og þá varð sóknarleikur okkar þéttari. N'Golo Kanté átti líka algeran stórleik en í þessum leik varðist hann mun aftar en vanalega og fann sig vel í því hlutverki. Segja má að hann hafi spilað við hlið Jorginho en ekki fyrir framan hann.

Í seinni hálfleik tókst Chelsea að standast Man City snúning allstaðar á vellinum. Chelsea fékk, ef eitthvað er, hættulegri færi og var liðið að leika virkilega góðan leik. Pressa Man City dvínaði og okkar menn voru á löngum köflum farnir að stýra leiknum. Ekki skemmdi fyrir að Sarri breytti liðinu á mjög sókndjarfan hátt, setti inn Hudson-Odoi, Loftus-Cheek og Higuain - hann ætlaði sér að vinna leikinn. En því miður tókst okkur ekki að pota inn þessu sigurmarki og því fór leikurinn í vítaspyrnukeppni sem við töpuðum.

Kepa atvikið

Það sem setti svartan blett á þessa annars góðu frammistöðu Chelsea í leiknum var hegðun Kepa Arrizabalaga. Eftir að hafa legið tvisvar sinnum í leiknum vildi Sarri hafa ferskan markmann í búrinu fyrir vítakeppnina og eru margir verri en Willy Caballero í þeim efnum. Kepa neitaði að yfirgefa völlinn og upphófust þá verulega vandræðalegar mínútur fyrir Chelsea Football Club sem endaði með að hætt var við skiptinguna.

Ég vil byrja á að segja að ég hef verið gríðarlega sáttur með Kepa á tímabilinu finnst hann hafa staðið sig virkilega vel það sem af er. Það er hins vegar algerlega óafsakanlegt að sýna af sér viðlíka hegðun og um leið vanvirða klúbbinn, þjálfarann og síðast en ekki síst liðsfélaga sinn Willy Caballero. Sarri og Chelsea hafa reynt að gera lítið úr þessu atviki og er það mjög skiljanlegt - svona mál eiga ekki að vera rekin fyrir augum blaðamanna. Það er samt alveg á hreinu að Sarri er verulega ósáttur við Kepa sem hefur verið sektaður um vikulaun af klúbbnum.

Mér finnst sektin ein og sér ekki nægilega mikil refsing. Ég myndi taka Kepa úr liðinu gegn Spurs og jafnvel næsta leik líka. Sarri þarf að sýna áræðni og taka fast á svona agamálum, bara þannig öðlast hann virðingu leikmanna. Hvað myndu Klopp, Ferguson, Mourinho og Guardiola gera í viðlíka atviki? Það duga engin vettlingatök í svona rugli.

Tottenham Lið Spurs hefur verið á miklu skriði undanfarið þrátt yfir mikil forföll í liðinu, náð að halda dampi bæði í deildinni og meistaradeildinni, en missteig sig síðan í síðasta leik gegn Burnley í fyrsta leik Harry Kane eftir meiðslin. Hann skoraði nú samt sitt mark eins og hann er orðinn vanur en það dugði ekki til og Pochettino missti sig í leikslok og hraunaði yfir Mike Deen dómara (hver vill ekki gera það) og er því sennilega á leið í hliðarlínubann en þó ekki fyrr en eftir leikinn á morgunn. Hjá Spurs eru núna einungis þeir Dele Alli og Eric Dier frá vegna meiðsla, aðrir eru víst komnir til baka. Við megum því búast við sterku liði á morgunn sem ætlar að koma sér aftur á strik en þeir eru einungis 6 sigum á eftir efsta liðinu og það eru ennþá 33 stig eftir í pottinum og þeir eiga eftir að mæta báðum efstu liðunum.

Chelsea

Hjá okkar mönnum eru nánast allir þeir leikmenn sem eitthvað eru að spila heilir. Spurningin er núna bara hvað Sarri gerir.


Hann þarf fyrst að taka ákvörðun um markmannsstöðuna og síðan hvort hann heldur sig við sína íhaldssömu uppstillingu eða gefur ungu strákunum sem frískuðu mikið upp á liðið í síðasta leik sénsinn frá upphafi. Ég ætla að spá liðinu svona þó að það sé nú talsverð óskhyggja í þessari uppstillingu. Það eru kannski ekkert rosalegar líkur á að Sarri taki þetta stökk, en mér finnst samt mikilvægt að Kepa fari á bekkinn og klúbburinn sendi þar með alvöru skilaboð og einnig átti Emerson það góðan leik á sunnudag að það er vart hægt að gagna fram hjá honum. Menn vita síðan allt um Loftus-Cheek og CHO. Ætla að vera bjartsýnn og spá okkur sigri 2-0 og við komum okkur þar með á fullt í baráttuna að nýju.

KTBFFH


bottom of page