Chelsea mætir Manchester United í 16 liða úrslitum FA bikarsins á mánudagskvöld. Leikurinn fer fram á okkar ástkæra Stamford Bridge og hefst hann kl 20:00.
Chelsea
Sigurinn á Malmö á fimmtudagskvöld var kærkominn, jafnvel þótt spilamennskan hefði í besta falli verið þokkaleg. Sarri hvíldi í þeim leik nokkra lykilmenn eins og Kanté, Higuain, Rudiger og Hazard. Andstæðingurinn verður mun sterkari en í síðasta leik því Manchester United er búið að vera heitasta lið Englands frá því að ákveðinn Normaður tók við liðinu af ákveðnum Portúgala.
Það er greinilegt að karkaterinn Jose Mourinho var einu númeri of stór fyrir suma leikmenn í Manchester United. Paul Pogba er eflaust besta dæmið. Tími Móra hjá Man Utd var heilt yfir alger vonbrigði og var liðið á afskaplega vondum stað þegar hann loksins fékk sparkið. Persónulega finnst mér það í góðu lagi að arfleið Mourinho á Englandi sé blá og verði alltaf blá.
Chelsea þarf núna að mæta ógnarsterku liði Man Utd og held ég að þetta lið verði fyrir valinu:
Það er ekki margt sem kemur á óvart. Það er spurning hvort Emerson fái áfram traustið í vinstri bakverði eða hvort Alonso komi aftur inn í liðið. Ég held að Willian verði frammi ásamt Hazard og Higuain.
Eitt af stóru vandamálum Chelsea á þessu tímabili hefur að mínu mati verið staðan vinstra megin á miðjunni, sem Kovacic, Barkley og Loftus-Cheek hafa verið að skipta á milli sín. Þessi staða á að vera sóknarmiðjumaðurinn okkar og þarf viðkomandi að skila bæði mörkum og stoðsendingum. Ég er hálfpartinn búinn að afskrifa Barkley sem framtíðarmann hjá Chelsea, hann er einfaldlega ekki nógu góður. Hvað Kovacic varðar að þá er hann mjög góður í fótbolta en engan veginn rétta týpan til að spila þessa stöðu, hann er mun líkari Jorginho og gæti mögulega leyst af sem "regista". Loftus-Cheek er því miður búinn að vera alltof mikið meiddur, ef hann hefði ekki meiðst í desember og aftur í síðustu viku væri ég nokkuð viss um að hann væri búinn að gera þessa stöðu að sinni. Þegar Loftus spilar sem þriðji maður á miðjunni þá er mun meiri ógn sóknarlega og þannig mun betra jafnvægi á liðinu.
Líklega mun Kovacic byrja gegn Man Utd þar sem hann er agaðari leikmaður en Barkley, jafnvel þó sá síðarnefndi hafi skorað gegn Malmö.
Manchester United
Líkt og stundum áður fær CFC.is gestapistil til að koma með greiningu á sínu liði fyrir stórleiki. Orri Freyr Rúnarsson er eldheitur stuðningsmaður Man Utd og við gefum honum núna orðið:
Ég skrifaði samskonar pistil um miðjan október í fyrra og þá var staðan heldur betur önnur. Chelsea sat í öðru sæti deildarinnar á meðan að Man Utd var í 8.sæti með titlaóða Portúgalann við stjórnvölinn. Fyrir leikinn var því Chelsea mun sigurstranglegra en þrátt fyrir það munaði aðeins sekúndum að Man Utd hefði hirt öll stigin á brúnni.
Á mánudagskvöld hefur taflið snúist við. Viðkunnalegur Norðmaður stýrir nú Man Utd og býður leikmönnum upp á stuðning og frelsi og fá áhorfendur að njóta blússandi sóknarbolta. Á meðan er tískuslysið sem stýrir öllu á Stamford Bridge að lenda í vandræðum og virðist eiga erfitt með að ná því besta úr sýnum leikmönnum, stuðningsmenn Chelsea geta þó huggað sig við að hann er sjaldnast í því að leggja rútunni eða reyna að drepa leiki.
Ole Gunnar var fljótur að finna sitt sterkasta byrjunarlið, eitthvað sem Mourinho gat ekki á sínum þremur tímabilum. Vanalega hefði verið nokkuð auðvelt að spá fyrir um byrjunarlið Man Utd í leiknum en vegna meiðsla eru nokkur spurningarmerki. Ef allir væru heilir myndi okkar maður eflaust byggja leik Man Utd og hröðum og ógnvænlegum skyndisóknum þar sem Paul Pogba fengi það hlutverk að koma með eitraðar stungusendingar á Martia, Lingard og Rashford. Lingard væri einnig í því hlutverki að hlaupa eins og óður maður og trufla uppspil Chelsea.
Nú er hinsvegar ljóst að Martial og Lingard geta ekki tekið þátt í leiknum og þá vandast málið.
Ef ég ætti að spá fyrir um byrjunarliðið þá er nokkuð ljóst að David De Gea verður í markinu. Ashley Young og Luke Shaw munu svo sjá um bakvarðarstöðurnar. Victor Lindelöf er að verða eitt fyrsta nafn á blað hjá Man Utd og eina spurningin er hver verður við hlið hans. Þar er valið helst á milli Phil Jones eða Eric Bailly.
Lindelöf og Bailly spiluðu á móti PSG en voru ekkert alltof traustverkjandi, ég reikna samt með að þeir byrji leikinn saman. Þeir ættu ekki að lenda í miklum vandræðum gegn Gonzalo “Bic Mac” Higuain.
Miðjan segir sig sjálf, Herrera, Matic og auðvitað besti miðjurmaður veraldar, Paul Pogba. Ef ég væri Kante og Jorginho myndi ég byrja að hugsa um afsakanir til að sleppa að spila þennan leik.
Útaf meiðslum Martial mun Alexis Sanchez byrja á vinstri kanti. Rashford verður svo alltaf í byrjunarliðinu og eina spurningin er hvort að hann verði fremstur eða hvort hann dragi sig út á hægri kant. Þá er spurning hvort að Lukaku eða Mata fái tækifæri í byrjunarliðinu. Ég ætla að giska á að Lukaku fái tækifærið á mánudaginn.
Þessi liðsuppstilling gerir það að verkum að Ole Gunnar þarf aðeins að breyta leikkerfinu hjá sér. Þeir Sanchez og Lukaku henta ekki vel í þessar hröðu skyndisóknir þar sem þeir sprengja varnir andstæðinganna með hlaupum. Hvernig OGS tekst á við það vandamál er stórt spurningarmerki.
Spá
Jóhann: Man Utd sýndi það í miðri viku að Ole Gunnar á enn margt eftir ólært sem stjóri hjá toppliði. Rassskelling PSG í Meistaradeildinni var bæði hörð og miskunnarlaus og það án bæði Neymar og Cavani. Flestir af þessum leikjum sem Solskjær hefur unnið hafa líka verið skyldusigrar svo það má ekki sýna þessu liði of mikla viringu. Það er líka fullt af miðlungsleikmönnum í Man Utd eins og Herrera sem jafnan gerir tilkall til þess að vera jafn leiðinlegur á velli eins og Martin Keown og Roy Keane til samans. Einnig er miðverðirnir slakir og ef Hazard, Willian og Higuain verða á sínum degi á sóknin okkar að geta skorað 2-3 mörk á þetta lið. Það er hins vegar spurning hvort að okkar menn mæta til leiks eða fara í felur eins og gegn Man City síðustu helgi. Ætla að vera bjartsýnn og spá 2-0 sigri - Hazard og Higuain með mörkin.
Orri: Ég ætla að spá að Man Utd nýti sér lægð Chelsea og sýni strax að þeir rífi sig upp eftir fyrsta tapið undir stjórn Norðmannsins. Leikurinn endar 0-2 og Lukaku skorar bæði mörkin eftir stoðsendingar frá Sanchez.
KTBFFH