top of page
Search

Uppgjör fyrri hluta tímabilsins og Dýrlingar að koma í heimsókn



CFC.is óskar lesendum sínum gleðilegs nýs árs, þakkar samfylgdina á árinu 2018 og hlakkar samstarfsins á nýju ári.

Chelsea tekur á móti Southampton á morgun, 2. janúar í fyrsta leik liðsins á árinu 2019. Leikurinn fer fram á Stamford Bridge og hefst hann kl 19:45. Mér sýnist sem leikurinn sé ekki sýndur á Sport 2 svo stuðningsmenn Chelsea þurfa að gera aðrar ráðstafanir, leikurinn er t.d. sýndur á Ölveri.

Frammistaða Chelsea

Núna er tímabilið rétt rúmlega hálfnað og þá er gott tækifæri að fara yfir stöðuna á liðinu, hvað hefur gengið vel, hvað hefði mátt fara betur. Einnig verður lagt mat á alla þá leikmenn sem eitthvað hafa spilað.

Eftir 20 leiki í ensku Úrvalsdeildinni er Chelsea í 4. sæti með 43 stig. Það er mjög svipaður stigafjöldi og liðið var með á síðasta tímabili en þá dugði sá stigafjöldi til að fleyta liðinu í 2. sæti deildarinnar. Samkeppnin er einfaldlega orðin harðari, Liverpool hafa verið óstöðvandi og Man City voru það líka þangað til þeir mættu á Stamford Bridge, síðan þá hafa þeir hökktað all hressilega og Liverpool með örugga forystu á toppnum. Tottenham hafa einnig bætt sig og voru fyrir síðustu umferð í 2. sæti en eru núna í því þriðja. Arsenal, sem einnig eru með nýjan stjóra eins og okkar menn, hafa verið að þróa sinn leik og sitja í 5. sæti, fimm stigum á eftir Chelsea.


Höfuðmarkmið Chelsea er að komast aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili. Ef Chelsea heldur áfram svipaðri stigasöfnun á síðari hluta tímabilsins munu ca. 80 stig alltaf duga til þess að ná slíku markmiði.

Vandmál Chelsea er frekar einfalt, liðið er að skora of lítið af mörkum. Það kemur eflaust ekki á óvart því okkar dýrasti og "besti" framherji hefur verið verulega slakur og varaskeifan hans skorar lítið. Chelsea er búið að skora 38 mörk í deildinni sem gerir okkur aðeins að sjöttu bestu sókninni, það er ekki nægilega gott. Sarri hefur verið að bregðast við þessari framherja krísu með því að láta Hazard spila sem okkar fremsta mann en slíkt er líklega ekki framtíðarlausn, Chelsea vantar alvöru framherja!

Einkunnir leikmanna

Hér er mitt mat yfir frammistöður leikmanna Chelsea í vetur. Sitt sýnist auðvitað hverjum en þetta er alla vega mitt mat:



Ég treysti því að lesendur síðunnar verði þessum einkunnum bæði sammála og ósammála - alltaf gaman að skiptast á skoðunum um slíkt!

Leikmannaglugginn

Það hefur verið uppi orðrómur um að Chelsea eigi mögulega yfir höfði sér bann við leikmannakaupum (e. transfer embargo) fyrir að hafa talað ólöglega við nokkra unglinga hér á árum áður. Þau leikmannakaup sem verið er að rannsaka eru kaupin á Bertrand Traore og Gael Kakuta. FIFA hefur verið að taka hart á þessum málum og árið 2017 fengu spænsku liðin Atl. Madrid og Real Madrid svipuð kaupbönn. Real Madrid fékk bann við að kaupa leikmenn í einn leikmannaglugga sem vildi svo til að var janúargluggi. Atl. Madrid fékk bann í tvo glugga sem gerði það að verkum að þeir gátu t.d. ekki skráð Diego Costa inn í hópinn sinn fyrr en í janúar 2018 þrátt fyrir að hafa "keypt" hann í ágúst 2017.

Orðrómurinn fór það hátt núna í nóvember að FIFA sá sig knúna til þess að koma fram með yfirlýsingu að engin niðurstaða væri komin í málefni Chelsea hjá sambandinu (sjá frétt frá Goal.com með því að smella hér). Ef Chelsea fengi viðlíka bann og t.d. Atl Madrid myndi það þýða að Chelsea gæti keypt leikmenn núna í janúar og svo ekki aftur fyrr en sumarið 2020!

Allt þetta leikmannabannsslúður hefur gert það að verkum að Chelsea hefur verið orðað við nokkur stór kaup eins og Pulisic, Fekir og Higuain.


Er Chelsea t.d. sagt hafa sótt það mjög fast að fá Pulisic strax í janúar en ekki næsta sumar eins og Dortdmund vilja. Aðrir leikmenn sem hafa verið orðaðir við Chelsea eru leikmenn eins og Callum Wilson og Marko Arnautovic, kemur lítið á óvart að verið sé að orða okkur við framherja en að mínu viti eru þessir tveir síðast nefndu leikmenn ekki nægilega góðir. Að mínu viti væri réttast að kalla Tammy Abraham til baka úr láni frá Aston Villa og gefa honum bara sénsinn á að sanna sig.

Það er nokkuð ljóst að nokkrir leikmenn munu yfirgefa Chelsea í janúar. Cahill, Moses og Drinkwater munu allir fara frá félaginu enda allir í algeru aukahlutverki eða hreinlega í frystikistunni. Svo eru allar líkur á því að Fabregas sé annað hvort að fara til AC Milan eða Monaco. Fabregas vill spila og vera í stærra hlutverki en hann er í. Sarri vill alls ekki missa hann en hann er samningslaus næsta sumar og ólíklegt að Chelsea muni standa í vegi fyrir honum ef hann finnur sér annað lið.

Að lokum hafa svo FC Bayern verið að míga utan í Callum Hudson-Odoi. Chelsea hefur þegar hafnað tveimur boðum í hann, nú síðast upp á 20 milljónir punda. Chelsea er sagt meta hann á 40 milljónir, vonandi er sú upphæð sett fram til þess að verðleggja hann af markaðnum. Vandamálið með Hudson-Odoi er að samningurinn hans rennur út sumarið 2020 og Chelsea því í erfiðri stöðu gagnvart honum.

Leikurinn gegn Southampton


Barátta Chelsea um Meistaradeildsæti á næsta tímabili er hörð. Ef liðið vill vera öruggt um slíkt sæti þá þarf liðið að vinna lið eins og Southampton á heimavelli og það örugglega. Ég ætla að spá liðinu svona:

Það er smá meiðslakrísa í sóknarlínunni okkar. Pedro og Giroud meiddust gegn Palace og Hudson-Odoi og Loftus-Cheek eru báðir tæpir. Þannig framlínan er nokkurn vegin sjálfvalin með þá Willian, Hazard og Morata frammi.

Líklega kemur Kovacic aftur inn á kostnað Barkley og bæði Jorginho og Kanté halda sínum stöðum.

Það er svo spurning hvort Sarri hræri eitthvað í vörninni, ég kalla eftir því að Emerson fái leik í byrjunarliðinu í stað Alonso, svo er spurning hvor Sarri gefi Christensen leik.

Southampton

Eftir að Southampton tóku þá löngu tímabæru ákvörðun um að reka Mark Hughes og ráða hinn þýska Ralph Hasenhüttl hafa þeir verið á ágætis skriði og unnu m.a. Arsenal og Huddersfield. Þeir hafa hins vegar tapað síðustu leikjum gegn West Ham og Man City. Ég sá leikinn þeirra gegn Man City og það er allt annað sjá þetta lið núna, þeir pressa andstæðinginn og virkilega reyna að sækja á mörgum mönnum þegar færið gefst. Þeir eru hins vegar nokkuð opnir til baka og Chelsea á að geta nýtt sér það á Stamford Bridge.

Spá

Chelsea voru hörmulegir í janúar árið 2018, ég ætla spá því að Sarri byrji þetta ár af fullum krafti og við sjáum góðan leik á morgun, 3-1 sigur þar sem Hazard skorar eitt og leggur upp hin tvö.

KTBFFH


bottom of page