top of page
Search

PAOK mæta á Stamford Bridge



Chelsea mæta gríska liðinu PAOK í 5. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Jafntefli dugar til að gulltryggja sigur í riðlinum. Leikurinn hefst kl 20:00 og er leikinn á Stamford Bridge.

Síðasti leikur

Ég ætla að eyða töluverðu púðri í að fjalla um síðasta leik liðins og umræðuna í kjölfarið. Tapið gegn Spurs var slæmt. Mjög slæmt. Segja má að þarna hafi veikleikar liðsins komið bersýnilega í ljós en einnig má færa gild rök fyrir því að þetta tap hafi verið að nálgast okkur í undanförnum leikjum. Ég kom inn á það í síðasta pistli að lið eru að leggja mikið upp með að loka fyrir sendingarleiðir á Jorginho. Everton tókst að gera það mjög vel og Pochettino hélt uppteknum hætti og lét Sissoko setja mikla pressu á Jorginho í hvert sinn sem hann var að bjóða sig. Spurs settu í raun pressu á alla leikmenn Chelsea nema Rudiger og Kanté því það eru akkurat mennirnir sem þú vilt að Chelsea hafi á boltanum ef þú ert að spila gegn okkar mönnum - Pochettino lagði þennan leik frábærlega upp.


Það er nú samt bara þannig að það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir! Í 9 af hverjum 10 tilfellum vita varnarmenn að Arjen Robben sé að fara leita inn á við á vinstri löbbina sína - samt tekst honum að gera það. Það sama má segja um mörg góð lið og marga góða leikmenn. Þeir eru fyrirsjáanlegir en þeir eru bara svo góðir í því sem þeir gera að það er ekki hægt að stoppa þá eða liðin sem þeir spila með. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um gæði. Ef Chelsea ætla að spila Sarri-Ball þá þurfa þeir að gera það almenninga og líka gegn góðum liðum sem eru með jafngóða eða betri leikmenn innan sinna raða. Allur leikur liðsins gegn Spurs var of hægur, það sama er hægt að segja um Everton leikinn, í þessum leikjum gerðust hlutirnir of hægt.

Umræðan eftir tapið gegn Spurs hefur að mögu leiti snúist um N'Golo Kanté og hvort hann sé að spila sína réttu stöðu. Mér fannst Sarri svara þessu frábærlega á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn PAOK. Þar áréttaði Sarri að leikstíll hans snýst um að spila með svokallaðan "regista" eða djúpan leikstjórnanda sem stýrir tempóinu í liðinu og hreyfir boltann hratt á milli manna. Kanté hefur ekki slíka eiginleika. Auðvitað mun Sarri ekki breyta sínum fótboltalegu gildum út af einum tapleik. Sarri hefur þróað sinn leikstíl í hartnær áratug og hefur trú á sínu kerfi, það væri því galið að kollvarpa öllu kerfinu á fyrstu hindruninni. Jorginho eða Fabregas eiga að vera djúpu miðjumennirnir okkar, liðið í heild sinni þarf bara að finna betri takt. Sarri talaði hins vegar líka um mikilvægi Kanté og að hann væri ennþá að læra sína stöðu, áhugaverðasti punkturinn var að Kanté þarf að læra að spila nær Jorginho og passa sig að vera ekki of framarlega, líkt og gerðist í leiknum gegn Spurs.

Stóru áhyggjurnar mínar í leik Chelsea er sem fyrr framherjastaðan. Giroud kom með gott mark gegn Spurs en fyrir mér verður hann aldrei meira en virkilega góður "impact" spilari sem kemur af bekknum og veldur usla. Morata hefur oftar orðið rangstæður en allt Borunemouth liðið til samans og er efstur í deildinni í þeirri vafasömu tölfræði. Chelsea vantar framherja til að leiða línuna.


Ég er líka farinn að hafa örlitlar áhyggjur af þriðju miðjumannastöðunni. Kovacic er góður í fótbolta en honum virðist fyrirmunað að gera eins og eitt mark eða koma með stoðsendingu - fyrir mér er hann mun nær Kanté hlutverkinu heldur en sókndjöfum miðjumanni. Barkley er að þróast og er það gott en ég vil sjá Loftus-Cheek fá miklu fleiri mínútur, hann gjörólíkur öllum öðrum miðjumönnum Chelsea og hann hefur mörk í sér og liðinu sárvantar mörk.

Til að taka þetta saman; Chelsea réði Sarri til þess að láta hann koma með sín fingraför á liðið. Ég hef notið þess að horfa á Chelsea spila fótbolta frá því að hann kom með örfáum undantekningum. Gleymum ekki að Pep Guardiola var sjálfur í töluverðum vandræðum á sínu fyrsta tímabili í enska boltanum og rétt svo náði þriðja sætinu í deildinni.

Ég vil gefa Sarri tíma til að þróa þetta lið áfram og vonandi búa til eitthvað stórkostlegt.

Andstæðingurinn

Þessi lið mættust auðvitað í fyrstu umferð keppninnar í september í Grikklandi. Chelsea vann þann leik 1-0 með marki frá Willian. Mér fannst lið PAOK ansi tilþrifalítið í þeim leik en skv styrleikröðuninni eiga þeir að vera næst sterkasta liðið í riðlinum.

Staðan í riðlinum er þannig að Chelsea dugar jafntefli til þess að sigra riðilinn en Vidi kemur svo með 6 stig og styrkt stöðu sína vel með því að vinna BATE. PAOK er með þrjús stig og þurfa því að fá eitthvað úr þessum leik ef þeir ætla að halda sér á lífi fyrir lokaumferðina - hver veit, kannski mæta þeir á Brúnna og sækja til sigurs.

Chelsea

Sarri talaði um að hann mynd halda áfram að rótera vel í liðinu fyrir þennan leik þar sem leikjadagskráin í desember er ansi þétt. Ég ætla því að spá þessu liði í leiknum:


Ég vona innilega að Andreas Christensen spili góðan leik og setji þannig pressu á David Luiz sem átti vægast sagt slakan leik gegn Spurs. Hann mun vætanlega byrja leikinn við hlið Cahill og bæði Emerson og Zappacosta koma inn í bakvarðastöðurnar.

Á miðjunni er Loftus-Cheek alltaf að fara fá mínútur og líklegast mun Fabregas koma inn í stöðuna hans Jorginho. Spurningin er hvort Sarri spili Kanté í leiknum eða gefa Barkley eða jafnvel Kovacic þennan leik, ég ætla að giska á Kovacic og að Barkley eigi að spila gegn Fulham um helgina.

Það liggur fyrir að Hazard verður ekki með í leiknum og Sarri sagðist ekki gera ráð fyrir því að Hudson-Odoi myndi byrja leikinn sem mér finnst vonbrigði. Það eru því Pedro og Willian sem byrja þennan leik nema að Sarri taki upp á því að setja Loftus á kantinn og Barkley á miðjuna - ég vona samt ekki. Vonandi byrjar Giroud leikinn og heldur áfram að skora og gulltryggir þannig byrjunarliðssætið sitt gegn Fulham

Spá

Ég vil sjá okkar menn mæta dýrvitlausa inn í þennan leik, þeir skulda stuðningmönnum sínum það eftir þessa hörmung gegn Spurs. Ég trúi því að svo verði raunin, ætla að bóka 3-0 sigur og ekkert kjaftæði :)

Keep the blue flag flying high!


bottom of page