top of page
Search

Tottenham vs. ChelseaChelsea gerir sér stutta ferð á Wembley nk. laugardag þegar okkar menn etja kappi við erkifjendur okkar í Tottenham. Leikurinn hefst kl 17:30.

Almenn umræða um liðið

Byrjum fyrst á hinum frábæru tíðindum af N'Golo Kanté, kappinn er búinn að undirrita nýjan samning sem gildir út leiktíðina 2022/23. Kanté er talinn hækka verulega í launum og verður með þessu einn af launahæstu leikmönnum Úrvalsdeildarinnar og launahæsti leikmaður Chelsea með 300.000 pund á viku.

Núna er fyrsta þriðjungi lokið af ensku Úrvalsdeildinni og er staða liðsins nokkuð góð. Liðið er í 3. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 12 leiki eða 2,3 stig að meðaltali. Fari svo að Chelsea haldi áfram á þessari stigasöfnun myndi liðið næla sér í 87 stig, það myndi líklega ekki duga til sigurs en klárlega skila sæti í Meistaradeild Evrópu, sem er höfuðmarkmið liðsins.


Í þessum 12 leikjum hafa okkar menn skorað 27 mörk og fengið á sig 8 talsins, aðeins Man City hefur skorað meira og aðeins Liverpool og Man City hafa fengið á sig færri mörk. Það verður því að segjast þessi byrjun hjá Sarri í deildinni er alveg stórgóð, það hefðu flestir tekið þessari stöðu fegins hendi ef hún hefði verið boðin í ágúst þegar mótið var að hefjast og mikil óvissa í kringum okkar ágæta lið. Það er líklega verulega gaman að segja frá því að Chelsea er eina taplausa liðið í stærstu 5 deildum Evrópu, en Sarri hefur núna stýrt Chelsea í 18 leikjum án þess að tapa. Frábær byrjun.

Evrópudeildin virðist líka vera að taka sinn toll. En Chelsea hefur núna leikið tvo útileiki í þeirri ágætu keppni, annars vegar í Grikklandi og hins vegar í Hvíta-Rússlandi. Í kjölfar þessara útileikja hafa Chelsea gert jafntefli gegn liðum sem við alla jafna eigum að vinna, gegn West Ham úti og núna gegn Everton í síðustu umferð.

Það vildi svo til að undirritaður var staddur á síðasta leik okkar manna, í jafnteflinu gegn Everton. Það var auðvitað mikil vonbrigði að vinna ekki leikinn en að sama skapi spilaði Chelsea ágætan leik í seinni hálfleik og fékk maður mun dýpri sýn á leik liðsins með því að horfa á leikinn svona "live". Nokkrir hlutir stóðu upp úr; í þessum leik átti Jorginho líklega sinn daprasta dag í Chelsea búningnum og munaði heldur betur um minna. Það er erfitt að sakast við Jorginho sjálfan því andstæðingar okkar leggja gríðarlega upp með að halda honum frá boltanum og þannig trufla allan takt í leik Chelsea.

Marco Silva hjá Everton er virkilega góður taktístlega séð og hann kom með nýja nálgun í að verjast Chelsea í þessum leik. Hann fyrirskipaði Gylfa Sig og Richarlison að verjast við miðlínu og staðsetja sig sitt hvoru megin við Jorginho en um leið setja mjög takmarkaða pressu á bæði David Luiz og Rudiger. Miðverðirnir okkar fengu í rólegheitum að röllta með boltann upp að miðlínu þar sem þeir áttu í mestu erfiðleikum með að losa boltann á einn af miðjumönnunum og enduðu yfirleitt á að reyna 30 metra sendingu yfir á Alonso eða Azpilicueta sem héldu breiddinni og reyndu þannig að teygja á þéttri vörn Everton. Everton stóð sig gríðarlega vel að verjast Chelsea í fyrri hálfleik en í þeim síðari tókst Chelsea að komast betur í gegnum fyrstu pressu Everton og með réttu átti Chelsea að klára leikinn á fyrsta háltímanum í seinni hálfleik en á þeim tíma fengu okkar menn 3-4 mjög góð færi. Fabregas kom inn í leikinn fyrir Jorginho og breytti hann töluverðu því Fabregas er líklega besti langi sendingarmaðurinn í deildinni og nýttum við okkur það reglulega í leiknum.

Aftur var Marco Silva klókur þegar hann tók Gylfa út af og setti Jagielka inn á og voru Everton þá með yfirtölu aftast sem gerði okkar mönnum erfitt fyrir. Sarri gerði að mínu viti mistök með því að setja Barkley inn í leikinn á kostnað Giroud, sérstaklega í ljósi þess að Morata var að eiga afleiddan dag. Það er undarlegt andrúmsloft í kringum Morata á Stamford Bridge - hann á verulega lítið inni hjá stuðningsmönnum liðsins og hann uppskar reglulega mikinn pirring meðal áhorfenda. Ég tel að ef Diego Costa, Lukaku eða Drogba hefðu verið okkar fremsti maður í þessum leik að þá hefðum við líklega klárað hann.

Tottenham

Þau gerast vart meira krefjandi verkefnin en útileikur gegn Tottenham. Spurs eru búnir að eiga undarlegt tímabil og lýsir Pochettino því best að honum líði eins og hann sé staddur í þáttaröðinni af House of Cards, hvað sem það nú þýðir. Það jákvæða hjá Tottenham er að þeim hefur gegnið vel í deildinni og er þessi byrjun þeirra sú besta undir stjórn Pochettino. Spurs eru aðeins einu stigi á eftir okkar mönnum í fjórða sætinu. Spilamennska þeirra hefur hins vegar ekki þótt eins góð og oft áður og hafa þeir verið að vinna mikið af tæpum sigrum. Svo hefur gengi liðsins í Meistaradeildinni verið heldur slakt og eru allar líkur á að þeir spili í Evrópudeildinini eftir áramót.


Málefnin utan vallar eru klárlega að trufla liðið eins og þessi farsi í kringum þeirra nýja heimavöll sem átti að vera tilbúinn fyrir tímabilið en núna herma nýjustu fréttir að hann verði jafnvel ekki klár fyrr en undir lok tímabilsins. Slík óvissa er auðvitað slæm fyrir liðið og leynir pirringur Pochettino sér ekki þegar hann er spurður út í málið. Það vakti líka athygli að Spurs voru eina liðið í fjórum efstu deildum Englands sem gerðu enga breytingu á leikmannahópnum sínum fyrir þetta tímabil. Ofan á þetta hafa síðan bæst við mikil meiðslavandræði en leikmenn eins og Alli og Eriksen hafa ekki byrjað nema 5-6 leiki í deildinni og þeirra besti varnarmaður, Vertonghen, er búinn að vera töluvert frá vegna meiðsla. Þetta hefur gert það að verkum að leikmenn eins og Lucas Moura, Lamela og jafnvel hinn gleymdi Sissoko hafa verið í stærra hlutverki en ella.

Fjölmiðlar ytra gera ráð fyrir byrjunarliðinu hér til hliðar á laugardaginn.

Chelsea

Það er alltaf pínu snúið að geta sér til um byrjunarlið í kjölfar landsleikja, bæði geta komið upp meiðsli og svo eru menn að koma misjafnlega seint úr þessum ferðum. Ég ætla þó að spá fyrir um þetta lið hér:Vörnin ætti að vera nokkur vegin sú sama þar sem engin meiðsli eða erfið ferðalög voru að hrjá varnarmennina okkar. Mateo Kovacic spilaði ekki með Króatíu gegn Englandi vegna meiðsla svo líklega mun Ross Barkley byrja eða jafnvel menn eins og Fabregas og Loftus-Cheek (við eigum nóg að af valkostum!). Ég ætla samt að giska á Barkley. Jorginho og Kanté eru alltaf að fara byrja leikinn. Frammi geri ég ráð fyrir að Morata fái traustið áfram en Giroud, sem skoraði á dögunum úr vítaspyrnu með Frökkum, verði á bekknum. Willian og Hazard verða svo á vængjunum en það er áhugaverð staðreynd að Willian hefur skapað flest færi í ensku Úrvalsdeildinni og Hazard er í fjórða sæti á þessum sama lista.

Spá

Þessi leikur er algerlega "must win" fyrir okkar menn ef við eigum að halda í við Man City og Liverpool. Þetta eru líka leikirnir sem skilja að þegar uppi er staðið, toppslagur milli tveggja góðra liða, þá leiki þurfa okkar menn að vinna ef þeir ætla sér að berjast um enska titilinn í maí. Ég er samt ekkert alltof bjartsýnn, Pochettino er snjall stjóri og er með hörkugott lið í höndunum og líklega einn besta framherja í heimi í Harry Kane.

Ég á ekki endilega von á neinum markaleik þó þessi lið vilji bæði sækja og halda boltanum. Ég gæti trúað því að leikurinn muni spilast svipað og heimaleikurinn gegn Liverpool þar sem leikurinn var í töluverðu jafnvægi lengst af.

Lykilatriðið hjá Chelsea verður að ná upp sínu sóknarflæði snemma leiks. Jorginho verður að komast á boltann í réttum stöðum og Chelsea verða að þora spila boltanum á milli varnar-og miðju línanna hjá Tottenham - þannig spilum við okkar besta fótbolta, þegar við tökum smá áhættu.

Hjartað segir alltaf 3-0 fyrir Chelsea en í þetta skiptið ætla ég að hlusta á heilann og segja 1-1 jafntefli í miklum spennuleik.

KTBFFH


bottom of page