top of page
Search

BATE frá Borisov koma á Stamford Bridge


Eftir taugatrekkjandi leik gegn Man Utd halda okkar menn ótrauðir áfram í Evrópudeildinni. Næsta verkefni þar er heimsókn frá Hvít Rússunum Bate Borisov. Leikurinn er á morgun, fimmtudag og hefst hann kl 19:00.


BATE Borisov

Andstæðingar okkar að þessu sinni eru nokkurs konar ofurlið í Hvít rússnesku deildinni. Þeir hafa sigrað deildarkeppnina heima fyrir undanfarin 12 ár og eru þegar komnir með 9 stiga forystu í ár. Saga liðsins eru nokkuð áhugaverð en BATE var stofnað árið 1973 í borginni Borisov í gömlu Sovétríkjunum og léku þá í hálfgerðri landshlutadeild. BATE var upphaflega í eigu ríkisfyrirtækis en nafn félagsins er einmitt dregið af fyrirtækinu - BATE er nefnilega stytting á Borisov Automobile and Tractor Electronics. Þeim gekk strax vel og unnu þar 3 deildartitla á sínum fyrstu fimm árum. Hins vegar var liðið lagt niður árið 1984 vegna innanhúsátaka og óstöðugleika í gömlu Sovét.


Liðið var hins vegar endurvakið árið 1996, þá var Hvíta Rússland orðið sjáfstætt ríki og umhverfið til að reka knattspyrnufélög orðið ögn bærilegra. Það var Anatoly Kapski, sterk efnaður heimamaður frá Borisov sem sá til þess að liðið var endurvakið og varð um leið þeirra helsti styrktaraðili. Það skemmtilega er að Kapski á auð sinn að rekja til sölu á bílavarahlutum sem passar vel við forsögu liðsins. Með Kapski í forystusætinu fór BATE upp um tvær deildar á tveimur árum. Hann dældi peningum í liðið og þegar BATE voru nýliðar í Hvít rússnesku Úrvalsdeildinni lentu þeir strax í 2. sæti og unnu svo deildina árið eftir eða árið 1999.


Kapski hafði áfram mikinn metnað fyrir BATE og lagði áherslu á að ná góðum árangri í Evrópukeppnunum. Það hafa BATE heldur betur gert og gott betur. BATE hafa fimm sinnum farið alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Fyrst komust þeir þangað tímabilið 2008/09 en þá var einmitt fyrsti andstæingur liðsins í forkeppninni Knattspyrnufélagið Valur. Þeir fengu svakalega erfiðan riðil er þeir dróust með Real Madrid, Juventus og Zenit. BATE stóð sig samt mjög vel og gerðu tvö jafntefli við Juventus og eitt við Zenit. Síðan þá hefur liðið fjórum sinnum komist aftur inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem er gríðarlega vel gert því liðið þarf alltaf að fara í gegnum þrjár viðureignir í forkeppninni. Í ár töpuðu þeir fyrir PSV og fóru því í Evrópudeildina. Þeirra stærsti sigur í Evrópukeppni kom klárlega árið 2012 er þeir lögðu Þýsku meistarana í FC Bayern 3-1 á heimavelli - þetta sama tímabil vann Bayern Meistaradeildina.

BATE Borisov er að mestu leiti skipað leikmönnum frá heimalandinu, af 26 manna leikmannahóp eru sjö útlendingar. Fjórir af þessum sjö útlendingum eru Serbar. Þjálfari liðsins er hinn 37 ára gamli Aleksey Baga en hann tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra og vann þá titilinn heima fyrir og kominn langleiðina með að gera það aftur í ár. Hann þykir mjög sóknarsinnaður enda er BATE að skora yfir tvö mörk að meðaltali í leik í deildinni. Vanalega spila þeir 4-3-3 en líklega munu þeir vera varkárir í nálgun sinni á leiknum gegn okkar mönnum. Þeirra þekktasti leikmaður er klárlega Aleksandr Hleb en flestir ættu að muna eftir honum hjá Arsenal og Barcelona. Hleb var frábær leikmaður á sínum tíma og er líklega þekktasti leikmaður sem Hvíta Rússland hefur alið. Hleb er engu að síður kominn af sínu léttasta skeiði, er jafngamall þjálfaranum eða 37 ára. Þeir hættulegustu menn eru þeir Maksim Skavysh og Mikhail Gordeichuk en þessir hafa verið að skora mörkin fyrir BATE undanfarin misseri. Reyndar virðist markaskorun BATE dreifast mjög vel en Gordeichuk var markakóngur þeirra í fyrra.

BATE er með þrjú stig eftir fyrstu leikina eftir að hafa tapað fyrir PAOK og unnið VIDI í þessum blessaða L riðli okkar í Evrópudeildinni.

CHELSEA

Chelsea hefur verið að gera full mikið af jafnteflum upp á síðkastið og ekki skorað nægilega mikið af mörkum. Þess vegna væri kærkomið ef sóknarmenn liðsins (fyrir utan Hazard) myndu nú reima á sig markaskóna og koma með eitt stykki sannfærandi sigur. Ég vonast til þess að Sarri róteri vel í liðinu en hann hefur þó aldrei gert meira en sjö breytingar og við getum búist við því sama. Það liggur fyrir að Jorginho verður hvíldur, Hazard er á meiðslalistanum með smávægileg meiðsli og Ampadu er einnig frá vegna meiðsla.

Miðað við þessar forsendur ætla ég að spá þessu liði:


Þetta væru 6 breytingar frá síðasta leik. Sarri staðfesti á blaðamannafundi að Christensen myndi spila þennan leik og svo er spurning hvort Callum Hudson-Odoi verði á bekknum. Ég hef Morata í liðinu einfaldlega til þess að hvíla Giroud og hafa hann ferskan í stríðinu við Burnley nk sunnudag. Ég vona innilega að Loftus-Cheek byrji leikinn á kostnað Kanté en einhvernveginn finnst mér ólíklegt að hann hafi svona þrjá sókndjarfa miðumenn í sama liðinu - það kemur í ljós.

Spá

Þó svo að BATE hafi náð eftirtektarverðum árangri í Evrópu á undanförnum árum á Chelsea að sigra þetta lið auðveldlega. Þeir töpuðu 4-1 gegn PAOK og rétt mörðu VIDI. Chelsea hefur bara skorað tvö mörk í þessum fyrstu tveimur leikjum og það þarf að breytast. Willian, Pedro, Moses, Morata og Giroud munu bera ábyrgð á sókninni í þessum leik og þeir þurfa að fara skila alvöru frammistöðum - fínt að þeir byrjuðu á því á morgun.

Spái 2-0 sigri okkar manna. Barkley hættir ekki að skora og Pedro bætir við einu marki.

KTBFFH


bottom of page