top of page
Search

Mourinho kemur í heimsókn


Það er stórleikur á Stamford Bridge á morgun (laugardag). Chelsea tekur á móti Manchester United og hefst leikurinn snemma, eða kl 11:30.


Chelsea

Landsleikjahléin eru bæði löng og leiðinleg. Það allra versta við þessi hlé er hins vegar þegar leikmenn koma meiddir til baka. Sem betur fer virðast okkar menn hafa skilað sér nokkuð heilir heim fyrir utan Ethan Ampadu sem meiddist í leik með Wales. Einnig er spurningamerki með Ross Barkley en hann spilaði báða leikina með Englandi í þessu landsleikjahléi og er sagður tæpur fyrir leikinn gegn Man Utd. Synd og skömm því hann var frábær í leiknum gegn Southampton.

Það lá fyrir að Antonio Rudiger væri tæpur en hann var ekki valinn í þýska landsliðið vegna meiðsla, ég geri samt ráð fyrir honum í liðinu á morgun.

Ég spái liðinu svona:


Þetta er orðið nokkuð fastmótað hjá Sarri og eru aðeins örfá spurningamerki. Ef Rudiger er meiddur þá þarf Sarri að velja á milli Cahill og Christansen - mitt val yrði alltaf sá síðarnefndi. Að lokum er það svo framlínan, Hazard er sjálfvalinn en hinar tvær stöðurnar velja sig ekki sjálfar og er það hið besta mál - samkeppnin er góð.

Morata er búinn að skora í síðustu tveimur leikjum með Chelsea og gæti fengið traustið. Ég ætla hins vegar að gera ráð fyrir Giroud í þennan bardaga þar sem honum finnst fátt skemmtilegra en að slást við stóra og sterka miðverði eins og Man Utd hafa á að skipa. Ég held svo að Pedro byrji á kostnað Willian en það er algerlega 50/50 fyrir mér.

Manchester United

CFC.is fékk útvarpsmanninn Orra Frey Rúnarsson til þess að segja okkur frá því hvernig Man Utd mun nálgast leikinn á morgun.

Tilfinningin er eins og það sé verið að gera mér mikin óleik með því að spá fyrir um hvernig þessi leikur þróast. Í flestum tilvikum væri auðvelt að setja upp byrjunarlið og leikskipulag Mourinho í leikjum sem þessum en sökum stöðu liðsins og meiðsla leikmanna er nánast ómögulegt að giska á rétt byrjunarlið.

Dáðasti knattspyrnustjóri deildarinnar hefur mátt þola ósanngjarnar árásir úr öllum áttum síðustu misseri og slúðurpennar spáðu því að aðeins sigur gegn Newcastle í síðustu umferð gæti bjargað starfi hans (í bili). Sá sérstaki ákvað að leika sér aðeins að eldinum og leikmenn Man Utd byrjuðu leikinn eftir 70 mín. Blessunarlega var andstæðingurinn ekki sá sterkasti og 20 mín nægur tími til að skora þrjú mörk sem dugði til sigurs.

Það er alveg ljóst að það sama verður ekki upp á teningnum þegar að liðið mætir afanum í Modern Family og lærisveinum hans.

Þrátt fyrir að Man Utd verða að sigra leikinn þá er Mourinho ennþá Mourinho og ég á erfitt með að sjá hann bjóða upp á blússandi sóknarleik á sínum gamla heimavelli. Hann sýndi þó gegn Newcastle að hann er tilbúinn að fara í taktískar áhættur sé staða leiksins þannig, skori Chelsea snemma má því alveg eins búast við rótækum breytingum á leikskipulagi dagsins. Okkar maður hefur engu að tapa.

Það er alveg 100% að David De Gea verði í markinu á morgun og vonandi er Luke Shaw orðinn nógu heill til að byrja leikinn.

Miðverðirnir eru meira spurningamerki, þeir virðast vera í einhverskonar innbyrðis keppni um hver þeirra getur kostað liðið flest stig. Phil Jones spilaði síðast þegar að hann misskildi eitthvað vítaspyrnukeppniskonseptið og átti ágætis innanfótarsendingu á markvörð Derby í deildarbikarnum. Það ætti enginn að hafa áhyggjur af því að hann komi við sögu á morgun.

Eric Bailly náði að spila heilar 19 mínútur gegn Newcastle og við getum því útilokað hann frá byrjunarliðssætinu á morgun. Það þýðir að Victor Lindelöf fær annan séns í byrjunarliðinu. Hægri bakvarðarstaðan er einnig spurningarmerki, Diego Dalot fór meiddur útaf með Portúgal í landsleikjahléinu og Valencia sást ekki ferðast með liðinu frá stórborginni Manchester til London. Ég ætla því að spá Ashely Young í byrjunarliðinu á morgun.

Paul Pogba mun byrja leikinn á morgun og vonandi verður Nemanja Matic orðinn heill og getur spilað með honum. Þá held ég að versta martröð Hazard, sjálfur Ander Herrera, snúi aftur og troði Belganum í vasann. Annars verður forvitnilegt að fylgjast með Hazard í þessum leik, nýbúinn að upplýsa að hans draumur sé að spila aftur undir stjórn Móra.

Blessunarlega fyrir leikmenn Chelsea benda fréttir til þess að Marouane “Krullu-Messi” Fellaini sé meiddur og spili ekki.


Málin vandast þegar kemur að sóknarlínunni þar sem margir leikmenn keppa um fáar stöður. Lukaku og Rashford áttu gott landsleikjahlé þar sem báðir skoruðu á meðan að Mata, Sanchez og Martial tryggðu sigurinn gegn Newcastle. Ég spái hinsvegar að Lukaku verði fremstur með Mata og Sanchez sér við hlið. Ég vil þó alls ekki útiloka að þeir Sanchez og Mata detti út og Martial og Rashford koma inn í þeirra stað.

Ég ætla að spá að leikurinn endi 1-2 fyrir Man United. Chelsea kemst yfir en Lukaku og Lindelöf tryggja Man Utd sigurinn með mörkum á 87. og 92. mín.

Spá

Við þekkjum öll Mourinho. Hann er oft hvað hættulegastur þegar hann er særður og þegar fæstir eiga von á því að hann geri eitthvað af viti. Vissulega hefur tímabilið verið vont hjá Man Utd það sem af er vetri en mögulega gefur sigurleikurinn gegn Newcaste liðinu einhverja vítamínsprautu eins og Orri bendir á hér að ofan. Leikmenn eins og Pogba, Alexis, Martial, Rashford og Mata eru allir með hæfileika til að geta klárað leiki upp á sínar eigin spítur og þess vegna verður alltaf erfitt að spila á móti liði eins og Man Utd - liðið er stútfullt af hæfileikum.

Að því sögðu hefur vörnin hans Mourinho á köflum verið eins og skrípaleikur, þar koma styrkleikar okkar manna til sögunnar. Sem fyrr er Eden Hazard lykilmaðurinn og geri ég fastlega ráð fyrir því að Mourinho reyni að taka Belgann úr umferð með því að setja á hann fastan mann í dekkningu allan leikinn. Slíkt er í raun og veru sjaldgæft í nútímafótbolta en Mourinho hefur gert þetta áður. Ef slíkt verður raunin þarf Hazard þarf að vera klókur og hreyfa sig rétt á vellinum til að koma ójafnvægi á brothætta vörn Man Utd.

Chelsea eru vissulega sigrustranglegri í þessum leik en þetta verður engin göngutúr fyrir okkar menn. Spái dramatískum 2-1 sigri þar sem sjarmatröllið Marcos Alonso skorar enn eitt sigurmarkið.

KTBFFH


bottom of page