top of page
Search

Bournemouth mæta á Stamford Bridge


Enska Úrvalsdeildin heldur áfram um helgina og mæta okkar menn Bournemouth. Leikurinn er á Stamford Bridge og hefst kl 14:00. Mér skilst að leikurinn sé ekki sýndur á Stöð 2 sport svo aðdáendur Chelsea þurfa að leita annara leiða til að horfa á leikinn.


Síðasti leikur

Leikurinn gegn Newcastle var strembinn. Rafa Benítez mætti með gríðarlega skipulagt lið til leiks þar sem notast var við leikskipulagið 5-4-1, minnti þessi leikaðferð helst á landslið Íslands þegar Guðjón Þórðarson var þjálfari liðsins. Newcastle vörðust gríðarlega aftarlega á vellinum og fannst ekkert betra en að láta Chelsea vera með boltann fyrir framan vörnina hjá sér – svo framarlega sem við nálguðumst ekki vítateig þeirra svart röndóttu. Í þau skipti sem Chelsea tókst að spila sig í gegnum fyrstu pressu Newcastle voru þeir gríðarlega grimmir í að brjóta á okkar mönnum, var það yfirleitt Eden Hazard sem fékk að finna til tevatnsins.

Það var ekki fyrr á 75. mín að Chelsea tókst að brjóta ísinn. Þá krækti Marcos Alonso í vítaspyrnu sem Hazard skoraði örugglega úr. Þarna hélt ég að Newcastle myndu opna sig og Chelsea myndu ná að klára leikinn örugglega með upphlaupum, ekki svipað og gerðist í Huddersfield leiknum. En þökk sé svakalega lélgum varnarleik og enn þá verri dómgæslu tókst Newcastle að jafna metin. Þar var að verki Joselu eftir að hann stakk sér fram fyrir David Luiz sem virtist vera að sofa svefni hinna réttlátu í öftustu línu – markið var samt ólöglegt þar sem Yedlin braut á Giroud í aðdraganda marksins. Svakalega klaufalegt að fá þetta mark á sig og sumir settu líka spurningamerki við Kepa í markinu – átti hann að gera betur?

Sem betur fer tókst Chelsea að skora sigurmarkið, aftur var Alonso í aðalhlutverki – í þetta skipti átti hann gott skot sem fór af Yedlin og í mark Newcastle, markið er skráð sjálfsmark en heiðurinn er allur Alonso sem er ótrúlega lunkinn að þefa uppi tækifæri við mark andstæðinganna.

Helsti umræðupunkturinn eftir þennan leik er sá að Chelsea mun þurfa að venjast því að spila gegn liðum sem verjast svona svakalega aftarlega. Sarri sagði eftir leikinn að sóknaruppbyggingin hefði verið of hæg og að okkar menn verið með of mikið af „pointless posession“ eins og hann orðaði það. Ég hefði viljað sjá Azpilicueta fara meira upp hægri vænginn og þannig reyna teygja meira á vörn Newcastle sem á köflum þurfti að hafa ansi lítið fyrir því að verjast sóknum okkar. Það er mjög gaman að lesa tölfræði eins og að Jorginho hafi verið með næst flest heppnaðar sendingar í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar en sú tölfræði sem skiptir öllu máli er lokastaðan og í þessum leik gerðu okkar menn rétt svo nóg til þess að vinna leikinn.

Það var samt frábært að vinna loksins á þessum blessaða velli og halda sigurgöngunni áfram!

Andstæðingurinn

Bournemouth mæta inn í þennan leik með fullt sjálfstraust. Þeir eru með fimm stig út fyrstu þremur leikjunum eftir góða sigra gegn Cardiff og West Ham, þeir gerðu svo jafntefli við Everton í síðustu umferð. Bournemouth er það lið í enksu Úrvalsdeildinni sem er hvað minnst, launareikningurinn þeirra er einn sá allra minnsti ásamt Brighton og Burnley og völlurinn þeirra tekur aðeins um 11.500 manns í sæti. Það er því aðdáunarvert að fylgjast með þessum klúbbi vaxa og dafna á meðan önnur stærri lið eru í tómu tjóni eins og Leeds, Sunderland, Stoke og Aston Villa.

Einstaklingurinn sem er hvað mest á bakvið þennan árangur er Eddie Howe. Hann tók fyrst við Bournemouth 2008, aðeins 31 árs gamall. Hann hefur svo stýrt liðinu síðan, ef undan er skilið eitt tímabil þar sem hann fór til Burnley. Árangur Howe er frábær, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að hann lætur liðið spila hörkuflottan fótbolta. Howe var orðaður við stöðuna hjá Arsenal en ekkert varð úr þeim vistaskipum, sem betur fer fyrir Bournemouth.

Bournemouth spila yfirleitt leikkerfið 4-4-1-1 en hafa reglulega skipt yfir í 5-3-2 gegn sterkari andstæðingum. Við skulum því ekki láta okkur bregða ef við sjáum aftur þrjá miðverði hjá Bournemouth með Natan Ake fremstan í flokki og Asmir Begovic í búrinu.

Þeirra helstu lykilmenn eru sem fyrr Callum Wilson sem hefur varið vel af stað í deildinni ásamt þeim, Ake, Josh King, Lewis Cook og Ryan Fraser. Svo eiga þeir líka reynsluboltann Jermain Defoe sem líklega byrjar á bekknum. Sterkasta vopn Bournemouth er engu að síður liðsheildin og gott skipulag Howe.

Chelsea

Ég spái byrjunarliðinu svona:


Ég efast um að Sarri geri einhverjar breytingar. Það væri þá helst að Willian kæmi inn fyrir Pedro eða þá að Christensen fengi að spreyta sig á kostnað Luiz – finnst samt hvoru tveggja ólíklegt. Ég held líka að Kovacic haldi sínu sæti á kostnað Barkley. Sumir eru að kalla eftir því að Giroud komi inn fyrir Morata en ég held að það sé rétt að gefa Morata áfram traustið og eiga sterkan Giroud á bekknum.

Leikjaálagið mun svo aukast verulega eftir landsleikjahléið og þá förum við að sjá meiri breytingar á milli leikja og fleiri leikmenn fá tækifæri.

Bournemouth munu mæta og vera mjög þéttir fyrir, þeir munu þó reyna að spila meiri fótbolta en Newcastle reyndi í síðasta leik enda liðið með mjög spræka leikmenn innanborðs. Þeir eru sýnd veiði, en alls ekki gefin. Ef bæði Josh King og Callum Wilson byrja frammi og Ryan Fraser jafnvel á vængnum munu þeir kláralega hafa nægilega mikið af skotvopnum til þess að geta sært brothætta vörn okkar manna. Hins vegar á byrjunarlið Chelsea að geta spilað lið eins og Bournemouth sundur og saman ef við hittum á okkar dag og Morata reimar á sig markaskóna.

Ég ætla að spá þessu sem vel spiluðum 2-0 sigri þar sem Hazard heldur áfram að blómstra og setur eitt mark og leggur upp hitt. Chelsea færi þá vonandi inn í landsleikjahléið á toppnum – sjáum hvað setur.

KTBFFH


bottom of page