top of page
Search

Heimaleikur gegn Liverpool


Chelsea mætir Liverpool á Stamford Bridge nk. sunnudag. Leikurinn hefst kl 16:30.

Síðasti leikur:

Síðasti leikur

Leikurinn gegn Swansea fer seint í sögubækurnar sem best spilaði fótboltaleikur Chelsea. Eftir frábæra byrjun þar sem Fabregas kom okkar mönnum í 1-0 hélt liðið áfram að glíma við svipuð vandamál og hafa verið að plaga okkur þetta tímabilið. Það eina góða við þennan leik gegn Swansea var að hann vannst. Conte stilltu upp í 3-5-2 kerfi þar sem Bakayoko, Fabregas og Kanté mynduðu miðjumanna tríóið. Þetta virkaði ágætlega varnarlega, sérstaklega framan af en liðið var mjög þungt sóknarlega.

Ég er nokkuð viss um að margir hafi verið jafn vissir og ég um að Swansea, lið í bullandi fallbaráttu, myndu jafna metin þarna í lokin en sem betur fer héldu okkar menn út og þessi leikur vannst – sigur er sigur.

Bestu menn Chelsea voru líklega varnarlínan, Kante og svo hélt Emerson áfram að heilla mann í vinstri vængbakverði. Sá leikmaður virðist geta varist mjög vel og veitt Alonso alvöru samkeppni.

Andstæðingurinn

Poolararnir brosa hringinn þessa dagana, skildi engan undra, liðið er að spila frábæran fótbolta og er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, geri aðrir betur. Þeir mega samt ekki við því að slaka meira á í deildinni þar sem Chelsea er komið anski nálægt þeim í stigafjölda. Í raun er það þannig að ef okkar menn sigra Liverpool og klára hina tvo leikina líka (við eigum einn leik inni á Liverpool) þá munum við jafna þá að stigum. Þannig gætu liðin verið jöfn fyrir lokaumferðina og þá má ekkert klikka hjá Liverpool. Þetta er ansi ólíkleg, en það er altaf séns.

Liverpool eru nokkuð fáliðaðir þar sem nokkur meiðsli eru að hrjá þá, sérstaklega á miðsvæðinu þar sem bæði Can og Chamberlain eru frá. Joel Matip er svo meiddur í vörninni. Þeir munu samt að öllum líkindum stilla upp Mane, Firmino og Salah í framlínunni svo það verður þrautin þyngri að stöðva þá varnarlega.

Mo Salah er búinn að hriða nánast öll þau verðlaun sem í boði eru, er tvöfaldur leikmaður ársins (bæði hjá blaðamönnum og leikmönnum sjálfum) og hann er kominn langleiðina með að setja markamet í deildinni m.v. 38 leikja mót. Ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna að þessi frammistaða hans hefur komið mér gríðarlega á óvart, ég sá ekki þessa markaskorun hans fyrir mér.

Vonandi verða sveinar Klopp með einhverja Meistaradeilar þynnku, það tekur sinn toll að spila svona leiki þar sem spennustigið er hátt, sér í lagi þegar mannskapnum er lítið róterað milli leikja. Það er samt alveg á hreinu að Klopp mun ekkert bregða út af sínum vana, Liverpool munu mæta með sína hápressu og við þurfum að vera tilbúnir að verjast henni. Veikleikar Liverpool liggja í þeirra öftustu línu þar sem þeir leka reglulega mörkum, m.a. fjórum gegn Roma í síðasta leik.

Chelsea

Eins og fyrr segir var leikurinn gegn Swansea slakur. Núna þurfa okkar menn að rífa sig í gang til að halda þessari vonarglætu um sæti í Meistaradeildinni lifandi. Ég er rosalega fram og til baka varðandi liðsuppstillinguna. Emerson vs. Alonso? Hafa tvo „stóra“ í fremstu víglínu? Hvað á þá að gera við Willian? Cahill eða Christensen? Bakayoko eða Fabregas?

Síðast þegar Chelsea spilaði á Anfield stillti Conte upp 3-5-2 með Hazard og Morata frammi. Þá voru Drinkwater, Kanté og Bakayoko saman á miðjunni. Chelsea voru alls ekki lakari aðilinn í þeim leik og voru í raun óheppnir að vinna hann ekki. Það leikkerfi virtist henta ágætlega. Það kæmi því ekki á óvart að Conte myndi reyna svipaða útfærslu á sunnudag. Ég ætla samt að spá að hann haldi „tryggð“ við 3-4-3 sem er sókndjarfara kerfi þar sem við verðum að vinna þennan blessaða leik.

Ég spái liðinu svona:


Það er auðvitað djarft að stilla upp Fabregas í tveggja manna miðju gegn liði sem spilar með 3 miðjumenn sem allir pressa stíft - Fabregas hefur tæpast lappirnar í þannig leik. Hins vegar er hann alger lykilmaður sóknarlega þegar kemur að því að setja upp sóknarleikinn okkar og því verður hann að byrja. Cahill er búinn að vera öruggur í sínum aðgerðum í síðustu leikjum og heldur því sínu sæti á kostnað Christsensen. Alonso kemur inn fyrir Emerson, úthvíldur og til í slaginn.

Hazard og Willian verða að vera í stuði og finna Giroud í labbirnar sem getur haldið boltanum vel uppi á toppi og látið eitthvað gerast. Liverpool liðið er alls ekki frábært í því að verjast og dúndra bæði bakvörum og öllum miðjumönnum fram reglulega í leiknum - þá á eftir að vera fullt af plássi til að vinna með. Chelsea verða hins vegar að passa að hleypa Liverpool ekki af stað í neina leiftursókn og því má boltinn alls ekki tapast á slæmum stöðum aftarlega á vellinum - þannig skora þeir sín mörk.

Ég ætla bara að vera pínu bjartsýnn og spá okkur naumum sigri.

KTBFFH


bottom of page